Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Á ég að byrja eða hætta?
Af vettvangi Bændasamtakana 4. maí 2023

Á ég að byrja eða hætta?

Höfundur: Halla Eiríksdóttir, stjórnarmaður BÍ, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi.

Óneitanlega fylgja því fjölbreyttar tilfinningar að byrja í nýju starfi. Langoftast er það viss tilhlökkun að takast á við ný verkefni og nýjar áskoranir sem fylgir starfanum en rannsóknir hafa þó sýnt fram á að með nýju starfi geti jafnframt fylgt streita og einnig hjá þeim sem eru að ljúka starfsferli sínum eða hætta í starfi.

Halla Eiríksdóttir

Fyrir því eru margar ástæður. Að hefja rekstur er eitt og sér stórt viðfangsefni sem snýr ekki einungis að fjármálum heldur einnig þekkingu á því lagaumhverfi sem unnið er eftir. Við það bætist þörf á þekkingu í meðferð búfjár, jarðræktun, fóðuröflun og meðhöndlun á tækjum og búnaði. Þeir sem hefja rekstur eru jafnframt að hefja störf sem framtíðarstjórnendur og þurfa sem slíkir að mæta síbreytilegum áskorunum og að vera vel á sig komnir líkamlega og andlega. Til að kóróna háan streitustuðul þá er heimilið yfirleitt staðsett á vinnustaðnum þannig að viðkomandi er nær alltaf í vinnunni.

Kúltúr á vinnustað

Líkt og á öðrum vinnustöðum er vinnustaðamenning og stjórnunarstílar í landbúnaði mjög mismunandi sem mótast yfirleitt af reynslu og menntun. Vinnumenning okkar er samsett af hegðun, gildum, viðhorfum og samskiptum sem viðkomandi hefur ýmist lært af öðrum eða tekið upp frá sinni menntun í greininni. Þetta þekkja flestir sem vinna verkhæfð störf sem geta lýst sér í viðhorfum eins og „við gerum svona hér“, þó svo að forsendan sé ekki þekkt. Á sama vinnustað eru oft ólíkar kynslóðir, með ólík viðhorf og afstöðu til vinnu sem brýnt er fyrir samstarfsfólk og stjórnendur að gera sér grein fyrir og einnig þeim annmörkum sem geta fylgt þessum breytileika.

Hér á landi eru um 9.000 störf tengd landbúnaði. Þetta er vinnuafl sem er samsett að meginhluta af karlmönnum á miðjum aldri, þar sem starfanum fylgir oft líkamlegt erfiði sem krefst viðveru nær alla daga ársins. Ef þetta er yfirfært á stöðuna í dag spannar samsetning bænda kynslóðir sem hafa eins og sagt er mismunandi stjórnunarstíl. Elsti hópurinn, 60–80 ára, var alinn upp af kynslóð sem þekkti ekki annað en að lífið væri vinna og aðhylltist mikla formfestu. Þessi kynslóð dregur dám af þeim lærdómi og er mjög vinnusamt og þekkt fyrir að ganga mjög nærri sér í vinnu. Þetta er kynslóð sem er jafnvel ekki viljugt til að sleppa tökunum til þeirra sem yngri eru. Aldurshópurinn 30–60 ára er fjölmennastur en ólíkur þeim eldri, sýnir meira sjálfstæði, fylgir ekki ráðum forfeðra og vilja gera hlutina á sinn hátt. Og það sem munar mestu að þau eru ekki jafn reiðubúin að fórna jafn miklu fyrir vinnuna sem er talsvert ólíkt eldri kynslóðum. Að lokum er það yngsta fólkið. Þeim er eðlislægt að vinna í hópi og breytingar eru hluti af eðlilegu lífi. Þetta er kynslóð sem býr yfir fjölbreyttari menntun og meiri tæknifærni og mun væntanlega leiða atvinnuveginn í framtíðinni.

Enginn er fæddur í starfið

Þaulreyndur og farsæll kúabóndi hafði það á orði að honum þætti best að ráða til sín fólk sem sýndi vinnusemi, frumkvæði og væri fyrst og fremst skemmtilegt. Þeir aðilar væru mun móttækilegri fyrir leiðbeiningum og kæmu með jákvætt viðhorf til starfans sem er afar mikilvægt því enginn er fæddur í nokkurt starf. Að þessu sögðu er ljóst að stjórnunarstílar geta verið mjög ólíkir og sem dæmi um það er hvernig fólki er sagt til þegar það hefur störf.

Það er mikill munur á því að kenna fólki með því að henda þeim í djúpu laugina og troða marvaðann og láta fólk sjálft um að bjarga sér eða vera með bæði munnlegar og skriflegar leiðbeiningar um hvernig á að vinna verkin. En þetta er í hnotskurn dæmi um viðhorf fólks til vinnu og afstöðu þeirra sem stjórna. Stjórnun getur reynst mörgum erfitt verkefni og að skipuleggja eigin vinnu, og á sama tíma verið frábær samstarfsfélagi. Að stýra og stjórna fyrirtæki er ekki meðfæddur hæfileiki heldur þarf hver og einn að læra það til að ná sem farsælustum rekstri. Það ætti að vera eðlilegur hlutur að þeir sem hætta eða hefja búskap leiti ráðgjafar varðandi svo fjölþætt og oft flókin verkefni sem þessum ákvörðunum fylgir.

Að vera sáttur við sitt hlutskipti og vera stjórnandi í eigin lífi er hluti af góðu geðheilbrigði og farsælu lífi.

www.baendaged.bondi.is

Skylt efni: bændageð

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...