Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Handmjaltir eru enn mjög útbreiddar og langalgengasta aðferðin við að mjólka í þróunarlöndum heimsins.
Handmjaltir eru enn mjög útbreiddar og langalgengasta aðferðin við að mjólka í þróunarlöndum heimsins.
Mynd / Tadeu Jnr
Á faglegum nótum 29. desember 2023

Spá mjólkurskorti í heiminum innan fárra ára

Höfundur: Snorri Sigurðsson

IFCN (International Farm Comparison Network) samtökin, sem eru alþjóðleg samtök sem vinna m.a. að því að taka saman upplýsingar um ýmislegt sem snýr að mjólkurframleiðslu í heiminum, héldu sína fjórðu heimsráðstefnu um mjólkurframleiðslumál í lok nóvember.

Alls tóku rúmlega 600 gestir, frá 80 löndum, þátt í ráðstefnunni. Ráðstefnan, sem haldin var á netinu, miðaði sérstaklega að þróunarlöndunum og hvernig þau munu hafa áhrif á heimsframleiðslu mjólkur á komandi árum.

Hægur vöxtur heimsframleiðslunnar

Á ráðstefnunni kom fram að árið 2022 jókst heimsframleiðsla mjólkur um 0,8% en það er minnsta aukning mjólkurframleiðslu heimsins í tvo áratugi, en árabilið 2001–2021 nam árleg meðaltalsaukning 2,3%. Þegar leitað er skýringa á minni aukningu mjólkurframleiðslunnar árið 2022 eru helstu skýringar mikil verðbólga í mörgum löndum, sem hefur vissulega haft áhrif á rekstrarumhverfi kúabúa heimsins, en breytingar á veðurfari í heiminum höfðu einnig neikvæð áhrif á framleiðslumöguleika margra kúabúa í heiminum.

Þannig varð aukning mjólkurframleiðslu Indlands, stærsta mjólkurframleiðslulands heims, einungis 2% í fyrra en áratuginn þar á undan var framleiðsluaukningin að meðaltali 5,3%. Þar í landi voru helstu skýringar mikil og alvarleg útbreiðsla á húðþrimlaveiki (Lumpy Skin Disease) í landinu. Húðþrimlaveiki er bráðsmitandi vírussjúkdómur sem gerir kýr mjög veikar og því snardregur úr mjólkurframleiðslu þeirra.

Mikill samdráttur í Nýja-Sjálandi

Í yfirliti IFCN eru öll 27 lönd Evrópusambandsins dregin saman í eitt framleiðslusvæði og þar varð 0,3% framleiðslusamdráttur árið 2022.

Það er í fyrsta skipti sem þar verður samdráttur á mjólkurframleiðslu síðan 2009. Helstu skýringarnar á þessari þróun eru raktar til slæmra veðurfarsskilyrða en einnig mikilla áhrifa af hækkun aðfangakostnaðar kúabúanna. En fleiri framleiðslusvæði voru í vanda árið 2022.

Þannig dróst framleiðslan í Nýja- Sjálandi saman um 3,7% þar sem óhagstætt veðurfar olli minni sprettu og þar sem mjólk þar í landi er svo til eingöngu framleidd með beit þá var einfaldlega ekki nóg fóður til fyrir kýrnar. Samdráttur varð í ýmsum öðrum framleiðslulöndum en þó ekki Bandaríkjunum, þar sem framleiðslan jókst um 1,6%.

Eftirspurnin á pari við aukninguna

Eftirspurn eftir mjólk og mjólkurvörum var á pari við aukninguna árið 2022, þ.e. 0,8% en það er 0,2% minni aukning eftirspurnar en frá árinu áður.
Á ráðstefnunni kom fram að mörg Vesturlönd virðast nú vera að þrengja framleiðsluramma mjólkurframleiðslunnar, m.a. vegna aukins vægis sótspors framleiðslunnar. Vesturlönd hafa verið áhrifamikil á heimsmarkaði mjólkurvara, þ.e. með viðskipti með mjólkurvörur á milli landa, og því hefur það mikil áhrif á heimsviðskiptin ef framleiðsla Vesturlanda eykst ekki í takti við eftirspurnina.

Minni aukning eftirspurnar árið 2022 skýrist fyrst og fremst af því að verð mjólkurvara hækkaði mikið á markaði og því varð erfiðara fyrir þá sem hafa minna á milli handanna að kaupa sér mjólkurvörur.

Stór áhrifavaldur á minni aukningu heimseftirspurnar er þróunin sem varð í Kína árið 2022 en þá dróst neysla mjólkurvara saman um 2,6% og munar um minna.

Þrengt að mjólkurframleiðslu á Vesturlöndum

Á ráðstefnunni kom fram að mörg Vesturlönd virðast nú vera að þrengja framleiðsluramma mjólkurframleiðslunnar, m.a. vegna aukins vægis sótspors framleiðslunnar. Vesturlönd hafa verið áhrifamikil á heimsmarkaði mjólkurvara, þ.e. með viðskipti með mjólkurvörur á milli landa, og því hefur það mikil áhrif á heimsviðskiptin ef framleiðsla Vesturlanda eykst ekki í takti við eftirspurnina.

Þessi staða gefur aftur á móti nýjum löndum ákveðið tækifæri og hér horfir IFCN aðallega til þróunarlandanna og sértaklega Afríku. Í flestum löndum Afríku er mjólkurframleiðslan frekar frumstæð enn sem komið er og land almennt ekki eins mikið notað og þekkist á Vesturlöndum.

Þetta gefur færi á því að efla mjólkurframleiðsluna með nútíma vinnubrögðum og tæknivæðingu.

Eftirspurnin mun aukast umfram framleiðsluna

Samkvæmt spá IFCN er útlit fyrir að innan fárra ára muni verða skortur á mjólk og mjólkurvörum í heiminum þ.e. að eftirspurnin muni verða töluvert meiri en framboðið. IFCN spáir því að mjólkurframleiðslan í þróunarlöndunum muni aukast um 126 milljarða lítra fram til ársins 2030 en eftirspurnin muni aftur á móti aukast um 140 milljarða lítra í þessum sömu löndum.

Þessa miklu aukningu í eftirspurn umfram framleiðslu geti Vesturlönd svarað upp að ákveðnu marki en ekki að öllu leyti. Þannig spáir IFCN því að af þessum 14 milljörðum sem munar á aukinni eftirspurn og aukinni framleiðslu í þróunarlöndunum þá muni núverandi útflutningslönd geta bætt við sig um 8 milljörðum lítra en varla mikið meira en það. Þannig telur IFCN að í raun þá muni vanta 6 milljarða lítra af mjólk, eigi að svala eftirspurninni.

Skýringin á aukinni eftirspurn eftir mjólkurvörum á komandi árum felst fyrst og fremst í aukinni kaupgetu millistéttarinnar í mörgum þróunarlöndum og þeirri staðreynd að mjólkurneysla, þ.e. meðalneysla á hvern íbúa, í mörgum af þessum löndum er mjög lítil núna.

Bjart framundan

Segja má að niðurstöður IFCN bendi til þess að framundan sé útlit fyrir aukna framleiðslu í öllum löndum sem geta bætt við sig.

Neysla mjólkurvara eykst ár frá ári á heimsvísu samhliða stækkandi hópi fólks með betri tekjur. Það er þó dagljóst að vegna tiltölulega nýtilkominna laga og reglugerða, sem skerða eða takmarka mjólkurframleiðslu marga kúabúa á Vesturlöndum, þá þarf að gera átak í því að efla mjólkurframleiðslu þróunarlandanna.

Núverandi form, þar sem oftast er um örbú að ræða með mjólkurframleiðslu sem oft er minni en 10 lítrar á dag, þarf að taka til endurskoðunar og horfa til nútímalegri aðferða við framleiðslu á mjólk.

Það var einnig rætt á ráðstefnunni, þ.e. hvaða leiðir væru ákjósanlegastar til þess að auka mjólkurframleiðslu þróunarlandanna.

Hvaða leið er fær?

Þó það hafi ekki komið bein niðurstaða á ráðstefnunni með það hvaða leið sé rétt eða best að fara til þess að auka mjólkurframleiðsluna þá má benda á að í rauninni eru leiðirnar sem hægt væri að fara margar og líklega er engin ein rétt.

Ótal þróunarlönd eru með afar takmarkaða mjólkurframleiðslu þrátt fyrir að vera mögulega með afar ákjósanlegar aðstæður frá náttúrunnar hendi til að framleiða mikið magn mjólkur.

Skýring getur átt rætur að rekja til margra þátta en oft eru þessi lönd þannig í stakk búin að nokkuð auðvelt er fyrir íbúa þessara landa að lifa af landinu.

Fyrir vikið hefur verið lítill akkur í því að auka framleiðsluna umfram hóflega þörf heima fyrir. Í þessum löndum er landnýtingin oft frekar léleg og þó svo að rækta mætti nánast árið um kring eru landnotendur ekki að nýta landið þannig. Nú er aftur staðan að breytast og þá vantar mögulega bæði þekkingu, tæknibúnað og fjármagn til þess að stíga skrefið í rétta átt.

Bætt nýting landsins gæða fæst fyrst og fremst með aukinni þekkingu og bættri tæknivæðingu, bæði hvað varðar vélbúnað en ekki síður hvað varðar þær tegundir sem kúabændur nota til að sinna búskapnum. Þannig eru margir bændur enn að nota plöntur sem eru á engan hátt nógu afkastamiklar. Nefna má dæmi að margir bændur í hlýjum löndum nota maísafbrigði sem nær þroska á 120 dögum en í dag er samt til afbrigði sem nær sama þroska á 90 dögum. Þarna munar um 25%, ætti að muna um minna en samt eru til bændur sem kaupa hið seinþroska afbrigði líklega af gömlum vana og/eða vanþekkingu.

Þá eru til ótal kúakyn í heiminum í dag sem eru í raun alls ekki heppileg til mjólkurframleiðslu en eru samt notuð í þeim tilgangi. Skýringarnar fyrir áframhaldandi notkun kúakyns, sem er hreint ekki öflugt mjólkurframleiðslukyn, geta verið margs konar en mín reynsla er að oftast er um að ræða skort á ytra umhverfi. Þessir bændur eiga oft lítið annað val.

Mögulega hafa þeir ekki gott aðgengi að landi eða fóðri, enginn að bjóða upp á sæðingarstarfsemi eða dýralækningar á svæðinu þar sem þeir búa, mögulega er engin afurðastöð í nágrenninu og því óvíst með sölu mjólkurinnar og fleira mætti nefna. Sé ytra umhverfið til staðar, þá ýtir það við flestum bændum og auðveldar þeim að gera betur. Þá kemur það svolítið af sjálfu sér að betra sé að vera með afkastamikil framleiðslutæki enda geta landkynin sem eru í notkun víða um heim í dag ekki nærri því komist með framklaufirnar þar sem afurðameiri kýr eru með lágklaufirnar.

En það er ekki nóg að vera með afurðamiklar kýr ef ekki er um leið til staðar tækni til að mjólka þær. Líklega standa handmjaltir undir 80-90% þeirrar mjólkur sem fer á markað í dag í þróunarlöndunum. Á meðan meðalframleiðsla hvers bús eða fjölskyldu er mögulega ekki nema um 10 lítrar á dag þá er þessi aðferð við mjaltir í raun mjög skynsamleg. Þegar mjólkurframleiðslan vex þarf þó að bæta úr og tæknivæða mjaltirnar. Mögulega fyrst með einföldu mjaltafötukerfi, þá rörmjaltakerfi o.s.frv. Þetta er þó á engan hátt sjálfgefin þróun, enda þarf töluverða tæknilega kennslu og þjónustu til þess að innleiða mjaltatækni í löndum þar sem mjaltatæki hafa vart sést áður.

Þetta verkefni sem er fram undan verður töluverð brekka en er vel fær og ætti að geta gefið neytendum um heim allan kost á því að njóta hollrar mjólkur og góðra mjólkurvara.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...