Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Í heiminum eru til ótal kúakyn en mörg þeirra eru lágnytja.
Í heiminum eru til ótal kúakyn en mörg þeirra eru lágnytja.
Á faglegum nótum 10. nóvember 2020

Snarminnkandi sótspor með aukinni nyt

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Það kannast líklega flestir við umræðuna um að mjólkurframleiðsla heimsins eigi sína hlutdeild í sótspori heimsbyggðarinnar þ.e. heildaráhrifum gróðurhúsalofttegunda en talið er að mjólkurframleiðsla, vinnsla og sala heimsins standi í dag undir um 4% af sótspori heimsbyggðarinnar. 

Sé þetta hlutfall skoðað í grunninn kemur það auðvitað ekki á óvart, enda hefur búgreinin í heild sinni tekjutengd áhrif á um 1 milljarð af íbúum heimsins sem hafa lífsviðurværi sitt af annaðhvort mjólkurframleiðslu, vinnslu eða sölu en þetta gera um 13% af íbúum heimsins.

Í dag er talið að um 6 milljarðar manna, eða rúmlega 80% af íbúum heimsins, neyti mjólkurafurða reglulega og þrátt fyrir að ákveðin teikn séu á lofti varðandi breytta neysluhegðun, hluta íbúa hinna efnameiri landa heimsbyggðarinnar, þá er sú þróun ekki talin hafa teljandi áhrif á framvinduspár mjólkuriðnaðarins á heimsvísu næstu áratugina. Spár gera ráð fyrir töluvert mikilli framleiðsluaukningu fram til ársins 2050 og skýringin felst m.a. í því að íbúum heimsins fjölgar mjög ört um þessar mundir og hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt á það áherslu að mjólkurafurðir gegni einu af mikilvægustu lykilhlutverkunum til þess að bæta heilsufar og næringarástand jarðarbúanna á næstu áratugum og sér í lagi í Afríku og Asíu. 

Sérstaða mjólkurframleiðslunnar

Það sem er sérstakt við mjólkurframleiðsluna í heiminum er að hún er að aukast hratt í flestum þróunarlöndunum um þessar mundir, en stendur meira í stað í hinum vestrænu löndum eða eykst lítillega með auknum mannfjölda. Skýringin á þessari þróun er að hagur íbúa, í vaxandi fjölda landa heimsins, fer sem betur fer vænkandi og með auknum kaupmætti aukast möguleikar fjöldans á að neyta hollra matvæla og eftirspurn eftir þeim vex því í takti við aukna velmegun. Þetta hefur á sama tíma haft jákvæð áhrif í strjálbýlum héruðum víða um heim, þar sem fátækt hefur lengi verið viðvarandi. Aukin eftirspurn eftir mjólkurvörum hefur nefnilega margsýnt að það er ein skilvirkasta leiðin til að draga úr fátækt í dreifbýli og miklu hraðvirkari leið en fæst með annarri landbúnaðarframleiðslu. Þá vill svo til, oft vegna aldagamalla hefða, að mjólkurframleiðslan í mörgum löndum er fyrst og fremst kvennabúgrein og því hefur aukin eftirspurn eftir mjólkurvörum verið afar jákvæðar fréttir fyrir konur í mörgum þróunarlöndum og skapað þeim sterkari stöðu í samfélagi sem oft er ansi karllægt. Talið er að um fjórðungur allra kúabúa heimsins í dag séu í eigu, rekstri og á ábyrgð kvenna eða rétt um 35 milljónir kúabúa! Þá koma konur auðvitað að rekstri margra annarra kúabúa og alþekkt er, sérstaklega á vesturlöndum, að t.d. hjón standi að búskapnum. Það er því skiljanlega ekki mikill áhugi á að draga úr framleiðslunni af framangreindum ástæðum nema síður sé og því þarf að leita leiða til að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslunnar eins og mögulegt er og þó svo að sótspor mjólkuriðnaðarins í heild sinni dragist nú saman ár frá ári, á hverja framleidda einingu, þá er enn nokkuð í land með að ná 100% sjálfbærni.

Jórturdýr nýta tormelta fæðu

Einn aðal kostur jórturdýra er þau geta melt og nýtt tormelta fæðu, fæðu sem ekki nýtist með beinum hætti til manneldis eins og t.d. á við um gras. Þetta gerist með flóknu ferli í vömb jórturdýranna og við þá meltingu, sem að mestu gerist með gerjun, losna því miður neikvæðar lofttegundir sem örverur í vömb jórturdýranna losa frá sér við gerjunina og þessar lofttegundir hafa áhrif á sótspor framleiðslunnar vegna eðli þeirra. Aðal áherslan undanfarið hefur því verið lögð á að draga úr áhrifum af jórtruninni á umhverfið og hafa orðið gríðarlega miklar framfarir á þessu sviði á stuttum tíma með tilkomu ýmissa bætiefna og almennrar aukinnar þekkingar.

Stefnan sett á 100% sjálfbærni 2050

Flest stóru alþjóðlegu fyrirtækin í mjólkuriðnaði hafa þegar verið með umhverfismál á dagskrá sinni í mörg ár og hefur flestum þeirra tekist að draga verulega úr sótspori mjólkurframleiðslunnar. Betur má ef duga skal og nú hafa flest þessara fyrirtækja, m.a. Evrópsku félögin Arla Foods og FrieslandCampina, gefið út að þau hafi markað þá stefnu að búgreinin í heild sinni, þ.e. bæði mjólkurframleiðslan sjálf, vinnslan, dreifingin og sölustarfsemin verði að fullu sjálfbær árið 2050 þ.e. allur ferillinn frá haga í maga verði án sótspors! Þetta eru metnaðarfull markmið þessara stóru fyrirtækja en til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf bæði að draga úr losun mjólkurkúa á óhagstæðum lofttegundum, færa alla orkunotkun frá haga í maga yfir í endurnýjanlega orku, gera umbúðir 100% endurnýtanlegar, draga úr plastnotkun eins og mögulegt er, nota græna upprunavottun á öll aðföng og fleira mætti nefna. Þá þurfa mótvægisaðgerðir að liggja fyrir en þegar hjá því verður ekki komist að sótspor myndist, má t.d. binda kolefni með skógrækt til þess að jafna út sótsporið. Jafnvel þó svo að þessum stórfyrirtækjum takist ætlunarverk sitt, og raunar bendir ekkert til annars en að sjálfbærnimarkmiðin náist meira að segja fyrir árið 2050, þá þarf meira til enda þó svo öll mjólkurvinnsla 20 stærstu fyrirtækjanna í heiminum væri lögð saman og gerð að fullu sjálfbær í dag svarar það magn ekki nema til um 25% af mjólkurframleiðslu heimsins. Það þarf því fleiri til en stóru alþjóðlegu fyrirtækin sem eru í mjólkuriðnaði, það þarf samstöðu meðal smærri afurðastöðva og afurðafélaga, samtaka bænda og annarra sem geta haft áhrif á stöðu mála.

Ólík staða á milli landa

Staðan er æði ólík á milli landa og á meðan sótspor t.d. íslenskrar mjólkurframleiðslu er afar lágt á hvert framleitt kíló mjólkur, þá er það afar hátt í mörgun þróunarlöndum og þegar saman fer ört vaxandi mjólkurframleiðsla í þessum löndum og hátt sótspor á hvern framleiddan líter mjólkur, þá er það vissulega ákveðið áhyggjuefni. Á þetta er bent í skýrslu frá FAO (Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna) og GDP (samstarfsvettvangur mjólkuriðnaðarins) og þar er ráðlagt að beina spjótunum að framleiðsluháttum í þróunarlöndum eigi að takast almennilega að draga verulega eða jafnvel jafna út heildarsótspor mjólkurframleiðslu heimsins á næstu áratugum.

Nytin hefur mikil áhrif á sótsporið

Í skýrslunni kemur m.a. fram að ein megin ástæða þess að mikill munur er á sótspori hvers mjólkurlítra á milli landa skýrist aðallega af afurðasemi kúnna. Þannig verði alltaf til á degi hverjum ákveðið fast magn af lofttegundum frá kúnum óháð því hvort þær framleiði mikla mjólk eða litla. Þessi fasti „útgjaldaliður“ lækkar eðlilega á hverja framleiðslueiningu eftir því sem þeim fjölgar og því lækkar sótspor hvers lítra  mjólkur í takti við aukna afurðasemi kúnna. Mestu munar um nyt sem er lægri en 4.500 kg/kú/ári og sér í lagi ef afurðasemin er slakari en 2.500 kg/kú/ári. Þannig eru á bak við hvert kíló mjólkur frá kú sem mjólkar 4,5 tonn á ári minna en 2 kg af CO2 ígildum en ef kýrin mjólkar ekki nema 2,5 tonn bætist við heilt kíló í viðbót af CO2 ígildum! Ef nytin er ekki nema um 1000 kg/kú/ári þá er CO2 ígildið tvöfalt á við kúna sem framleiðir 5 tonn á ári. Þó svo þessar lágu tölur um nyt kúa séu sem betur fer óþekktar á Íslandi í dag, þá er tilfellið að þorri kúa heimsins fellur undir þessa skilgreiningu og raunar er það svo að meðal afurðasemi kúa í heiminum í dag er ekki nema 2.0002.500 kg/kú/ári. Fyrir vikið er sótspor mjólkurframleiðslunnar, eins og hún er stunduð í dag, í raun miklu hærra en það þyrfti að vera, þ.e. sótsporið myndi lækka hraustlega ef allir bændur heimsins væru með nytháar kýr, eins og flestir bændur hafa á Vesturlöndum, og þar með væri hægt að snarfækka kúm í heiminum. Vegna þessa er nú í dag lögð gríðarlega mikil áhersla á að auka afurðasemi nytlægstu kúnna í heiminum en þær er harla oft að finna í þróunarlöndunum.

Ending skiptir máli

Í síðasta mánuði kom út önnur skýrsla um þetta efni en þessi skýrsla var gefin út af Global Research Alliance, sem eru samstarfsvettvangur fyrir málefni gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. Í þessari skýrslu, sem er í raun óbeint framhald skýrslu FAO og GDP sem áður hefur verið minnst á, er samhengi heilsufars og endingu mjólkurkúa á sótspor framleiðslunnar. Þar er sérstaklega lögð áhersla á að með fyrirbyggjandi aðgerðum, þ.e. með því að koma í veg fyrir að kýr veikist í stað þess að lækna veikar kýr, megi draga úr sótspori framleiðslunnar! Þetta kann að virka hálf undarlegt samhengi en skýringin á þessu felst í því að með bættu heilsufari gripa almennt eykst heildarframleiðsla og ending þeirra í hjörðum bændanna. Kýrnar verða því hagkvæmari vegna meiri framleiðslu og samhliða minni þörf fyrir að ala upp nýja gripi, með tilheyrandi kostnaði og umhverfisálagi, við að endurnýja kýrnar snemma á lífsleiðinni.

Júgurbólgan stækkar sótsporið

Ennfremur hafa sumir sjúkdómar afar neikvæð áhrif á sótspor kúnna og þá sérstaklega júgurbólga og slök frjósemi. Þannig segja greinarhöfundar að júgurbólgutilfelli stækki sótspor kúnna um 6% í vægum tilvikum og upp í allt að 12% þegar um svæsin tilfelli er að ræða! Skýringin felst aðallega í tveimur þáttum þ.e. því magni af mjólk sem þarf að hella niður þar sem hún er óhæf til manneldis og í kjölfar veikindanna hve mikil áhrif þau hafa haft á heildarframleiðslu kýrinnar á viðkomandi mjaltaskeiði og mögulega á endingu gripsins í hjörðinni.

Slök frjósemi skaðleg

Annað atriði sem vert er að nefna hér varðandi heilsufar kúnna er slök frjósemi. Í skýrslunni kemur fram að þar sem kúm seinkar vegna vandamála við að festa fang stækki sótspor kúnna um 716% að jafnaði í vestrænum löndum eftir alvarleika tilvikanna. Í þróunarlöndum gætu þessi áhrif verið miklu meiri þar sem hvert bú hefur oft einungis 12 kýr og ef önnur þeirra seinkar sér þá þarf að gefa henni viðhaldsfóður lengi án teljandi mjólkurframleiðslu, með tilheyrandi áhrifum á heildarsótspor hverrar kýr á ári.

Samantekið má segja að heilt yfir þá skiptir góð bústjórn mestu máli varðandi heildarsótspor framleiðslunnar enda vegur kúabúið sjálft þungt í heildarmynd sótsporsins frá haga í maga. Hraustar og afurðamiklar kýr sem endast vel og lengi eru þær kýr sem hafa lægsta sótsporið og það er eitthvað sem allir bændur, um allan heim, ættu að stefna að. Þegar mjólkin fer svo með mjólkurbílnum frá búinu taka aðrir ferlar við sem bóndinn ræður síður yfir en þessir ferlar eru þó ekki minna mikilvægir og lúta að bæði framleiðsluháttum, hönnun og nýtingu umbúða, dreifingu mjólkurvaranna, kælingu eða kælingarþörf þeirra auk fleiri þátta. Allur ferillinn skiptir máli og þarf að ná tökum á honum ef takast á að ná 100% sjálfbærni við mjólkurframleiðslu og vinnslu í heiminum á næstu áratugum.

Helstu heimildir

Án höfundar, 2019. Climate change and the global dairy sector. Skýrsla FAO og GDP, 36 blaðsíður.

Statham, J. ofl., 2020. Dairy cattle health and greenhouse gas emission pilot study: Chile, Kenya and the UK. Skýrsla Global Research Alliance, 17 blaðsíður.

www.fao.org og www.filidf.org

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...