Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands benda til þess að meirihluti landsmanna, 72,3%, vilja veg smábátaútgerðar mun meiri en nú er.
Niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands benda til þess að meirihluti landsmanna, 72,3%, vilja veg smábátaútgerðar mun meiri en nú er.
Mynd / Þórdís Una
Á faglegum nótum 18. maí 2023

Smábátaútgerð: 72,3%

Höfundur: Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Í garð er genginn sá árstími sem heillar mig mest, íslenska vorið. Haustið fylgir fast á eftir.

Þessar tvær árstíðir eru tímar umbrota í lífríkinu. Vorið lokkar upp úr moldinni líf úr fasta svefni. Liljurnar við rætur kanadíska garðahlynsins hér í bakgarðinum eru fyrstar, svo spretta á fætur nokkrir fíflar og bóndarósin teygir sig í ljósið.

Lóan og krían koma úr langferð og gleðja okkur, veturbarða Íslendinga. Gæsir og álftir sömuleiðis, en nýjustu fréttir eru að mun minna sé af þessum fiðruðu vinum okkar en undanfarin ár. Getur skýringin verið að það sé orðið svo dýrt að fljúga?

Laxar og silungar ganga í ár, kollur leggjast á egg og hrognkelsið gengur upp að ströndinni.

Af vorboðunum er þó einn þeirra sem í mínum huga slær þeim öllum við. Ilmurinn úr jörðinni þegar hún hefur safnað í sig yl sólar og sunnan vinda. Það er fallegasta lykt á Íslandi.

Að hausti skartar náttúran guðdómlegri litadýrð

Atburðarásin snýst til baka, jurtirnar hverfa til vetrardvalar og þeir fuglar sem nenna því fljúga á suðrænar slóðir.

Hvernig þetta þrautskipulagða fyrirkomulag varð til veit enginn, þrátt fyrir öll vísindi nútímans. Lífið er dásamlegur galdur.

Einn af vorboðum Íslands er trillukarlinn. Í marsmánuði hefjast grásleppuveiðarnar sem eiga sér árhundraða sögu. Atvinnuveiðar hófust þó aðeins fyrir rúmum sex áratugum með útflutningi saltaðra grásleppuhrogna. Til forna var hrognkelsið stungið í fjöru og veitt í net. Grásleppan var jafnvel borin á tún fyrir kýrnar sem kunnu vel að meta. Samkvæmt heimildum var blá slikja á mjólkinni úr þessum kúm.

Rætur íslensks sjávarútvegs liggja í smábátaútgerðinni. Þar liggur upphafið. Að auki liggja í smábátaútgerðinni menningarleg verðmæti sem ber að varðveita og hlúa að. Fjölmargrar sjávarbyggðir, hringinn í kringum landið, byggðust upp á útgerð lítilla báta og nýtingu nálægra fiskimiða.

Hvaðan fengu stjórnvöld rétt til þess að afnema þessa tengingu? Frá almenningi?

Í 75. grein stjórnarskrár lýðveldisins er kveðið skýrt: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Fyrir Alþingi liggja frumvörp um kvótasetningu grásleppu og umbyltingu strandveiða. Í greinargerðum þessara frumvarpa er hvergi að finna tilvísun í þessa mikilvægu grein stjórnarskrárinnar, hvað þá rökstuðning um að frumvörpin varði almannahagsmuni.

Í mínum huga er þetta stjórnsýslulegt fúsk.

Margfalt eftirlit

Í byrjun maímánaðar halda strandveiðimenn til hafs, vopnaðir handfærum, veigaminnsta veiðarfæri sem beitt er við Íslandsstrendur.

En það er ekki eins og þeir hafi frjálsar hendur. Mega róa fjóra daga í viku, verða að skila sér í höfn eigi síðar en 14 klukkustundum eftir að þeir lögðu frá, mega nota fjórar færavindur og að hámarki veiða 774 kg af óslægðum þorski í róðri.

Þá verða þeir að tilkynna, áður en þeir landa, eigin ágiskun í gegnum smáforrit hver sé dagsaflinn. Þetta er eitt það fíflalegasta innan fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Upplýsingar um hvort tveggja liggja fyrir nokkrum mínútum eftir löndun. Eina skýringin sem ég hef heyrt frá Fiskistofu er að hugsanlega séu einhverjir með falinn afla um borð sem þeir ætli sér að landa síðar. Heyr á endemi.

Fiskveiðieftirlit Fiskistofu með grásleppu- og strandveiðum er margfalt á við eftirlit með togaraflotanum. Sá síðarnefndi veiðir rúmlega helming þorskskaflans á meðan grásleppukarlar og strandveiðiflotinn dregur úr sjó 5-6%. Á árinu 2022 fór Fiskistofa ekki í eitt einasta dróna/eftirlitaflug yfir togaraflotann. Það verður að teljast sérstakt afrek.

Hver er árangurinn?

Ég vona að flestir þeirra sem hafa haft sig í gegnum þessa lesningu minnist þess að matvælaráðherra skipaði stóran hóp fólks undir vinnuheitinu „Auðlindin okkar“.

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þar sé einlægur vilji að baki til að nálgast það meginmarkmið verkefnisins að skapa sátt um sjávarútveginn meðal þjóðarinnar, í samræmi við fyrirheit í sáttmála ríkjandi ríkisstjórnar.

Í „hálfleik“ þessarar vinnu dreifði matvælaráðuneytið 220 blaðsíðna bæklingi með kynningu á niðurstöðum starfshópanna fjögurra, þ.e. „Aðgengi“, „Umgengni“, „Samfélag“ og „Tækifæri“.

Á síðustu síðu bæklingsins (220) var fyrirheit um að framkvæma ætti skoðanakönnun meðal almennings um viðhorf hans til sjávarútvegsmála.

Á fundinum þar sem bæklingnum var dreift var þetta því miður það eina sem ég sá ástæðu til að fagna.

Mér fannst málskrúðið í bæklingnum óþægilega litað lofgjörð um kvótakerfið, sjónarmiðum þeirra sem vilja smábátaútgerðina feiga, sem og að sniðgengnar voru grundvallarspurningar.

Það var á mörkum þess að ég tryði því að hvergi örlaði á gagnrýnum spurningum varðandi árangur ráðgjafarstarfs Hafró síðastliðna fjóra áratugi. Starfshóparnir sáu heldur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá staðreynd að verðlagning landaðs afla er tvöfalt, þar sem ætíð hallar á þá sem reiða sig eingöngu á frjálsa uppboðsmarkaði sjávarafla.

Í mínum huga var og er stærsta spurningin þessi: Hver er árangurinn af ráðgjöf Hafró síðastliðna áratugi? Þessa spurningu var hvergi að finna hjá starfshópunum eða í bæklingnum.

Grásleppa. Fyrir Alþingi liggja frumvörp um kvótasetningu grásleppu og umbyltingu strandveiða. Mynd / Haukur Hólmsteinsson
Hafsbotninn er kolefnisforðabúr

Ekki örlaði heldur á því að taka til skoðunar skýrslu sem birtist í vísindatímaritinu Nature í marsmánuði 2022 um samspil togveiða og losunar á koltvísýringi úr hafsbotninum. Sé mark á henni takandi er skýrslan kolsvört fyrir togveiðiflotann.

Ég hef hvorki menntun né kunnáttu til að dæma þar um, en af fálæti starfshópanna fjögurra má ætla að engum þeirra þótti mark á þessu takandi, hvað þá heldur matvælaráðuneytinu. Starfshóparnir, samkvæmt því, ásamt ráðuneytinu, hljóta því að vita betur.

Sé svo er sjálfsagt að málið sé afgreitt með greinargerð þar sem sýnt er fram á að innihald skýrslunnar sé markleysa.

Samkvæmt vísindunum er hafsbotninn stærsta kolefnisforðabúr jarðar. Getur verið að botnrót auki losun koltvísýrings? Skýrslan í Nature áætlar að við hvert tonn af fiski sem veitt er í troll, losni að meðaltali 50 tonn af koltvísýringi, þrisvar sinnum meira en að meðaltali við aðrar veiðar.

Yfirgnæfandi stuðningur

Hvað sem öllu þessu líður fékk matvælaráðuneytið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að gera ítarlegra skoðanakönnun um viðhorf almennings varðandi sjávarútveginn.

Ég viðurkenni fúslega að ég var hreint ekki svo viss um hversu mikill stuðningur almennings væri við smábátaútgerðina. Fyrir um 30 árum lét Landssamband smábátaeigenda gera skoðanakönnun svipaðs eðlis. Stuðningur almennings þá var svo mikill að það var allt að því óraunverulegt. Í könnuninni nú var almenningur hins vegar í fyrsta skipti spurður um afstöðu hans til strandveiða, fjórtán árum eftir að þær voru leiddar í lög.

Niðurstaðan er afgerandi. 72,3% aðspurðra vilja veg þeirra mun meiri en nú er. Matvælaráðherra þarf því ekki lengur að velkjast í vafa um hlutina. Hún hefur yfirgnæfandi stuðning almennings þar við.

Það var eftir öðru að viðbrögð stórútgerðarinnar voru þau að almenningur hefði ekki hundsvit á sjávarútvegi. Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í október sl. kom Svandís Svavarsdóttir á seinni fundardeginum og hélt stutta tölu. Mér er sérstaklega minnisstætt þau orð sem hún lét falla að fundarmenn mættu kalla hana strandveiðiráðherra. Þessu vil ég trúa. Þegar stjórnvöld efndu til strandveiðikerfisins voru þau að bregðast við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Það stendur enn upp á þau að ganga þannig frá hnútum að sómi sé að. Eina leiðin til að fullnægja því markmiði að öllum þeim sem það velja að sækja sjó innan þess kerfis er að tryggja með lögum ákveðinn dagafjölda til veiðanna.

Vissulega mun aflinn undir slíku fyrirkomulagi sveiflast um einhverjar þúsundir tonna til og frá, en sú stærð er hjóm eitt hjá þeim frávikum sem eru innbyggð í kvótakerfið, s.s. VS afli, undirmál, tegundatilfærslur og fleira.

Þá er ótalið brottkastið sem er stærsta óræða stærðin í heildarmyndinni.

Eftirleikur matvælaráðherra er auðveldur.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...