Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Frá Fagþingi sauðfjárræktarinnar. Fv.: Eyþór Einarsson, Sigurgeir Þorgeirsson, Emma Eyþórsdóttir, Jón Viðar Jónmundsson, Bragi L. Ólafsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson og Logi Sigurðsson.
Frá Fagþingi sauðfjárræktarinnar. Fv.: Eyþór Einarsson, Sigurgeir Þorgeirsson, Emma Eyþórsdóttir, Jón Viðar Jónmundsson, Bragi L. Ólafsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson og Logi Sigurðsson.
Á faglegum nótum 15. apríl 2024

Ráðstefna í tilefni af 80 ára afmæli Tilraunabúsins að Hesti

Höfundur: Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í kjölfar Fagþings sauðfjárræktarinnar sem var haldið að Hvanneyri fimmtudaginn 21. mars, hófst afmælisráðstefna að Hesti kl. 18 sama dag.

Þarna voru vel á annað hundrað manns þótt veður hafi sett nokkurt strik í reikninginn um þátttöku. Á Hesti var kjötsúpa og aðrar veitingar í boði LbhÍ. Gísli Einarsson, fyrrum vinnumaður á Hesti, var fundar- og veislustjóri. Dagskrá hófst með nokkrum fyrirlestrum. Sigurgeir Þorgeirsson reið á vaðið með ágrip af sögu Hestsbúsins. Rakti hann m.a. þátt dr. Halldórs Pálssonar í stofnun búsins og starfsemi fyrstu áratugina. Nefndi hann einnig til sögunnar annað vísindafólk og bústjóra sem hafa haft mótandi áhrif á starf búsins. Samfelldur þráður í árin áttatíu er leiðandi hlutverk í kynbótastarfinu. Einnig hefur búið verið afgerandi í rannsóknum í sauðfjárrækt og síðustu tvo áratugina sem kennslubú

Jón Viðar Jónmundsson sagði frá þekktustu tilraunum tengdum Hesti fyrir fjárskiptin. Hluti þeirra tengdist baráttunni við mæðiveikina. Var þar unnið mikið frumkvöðlastarf varðandi beitingu sæðinga og kynbóta í baráttu við sjúkdóma. Merkar rannsóknir voru gerðar fyrir og um mæðiveikiniðurskurðinn 1950 varðandi áhrif fangs á fyrsta vetri á vöxt og þroska áa.

Ari Teitsson sagði frá þýðingu starfsins á Hesti fyrir ráðgjafarþjónustuna. Áhrif sæðingahrúta frá Hesti voru gríðarleg. Aðferðir sem þróaðar voru með stuðningi rannsókna á Hesti höfðu mótandi áhrif á ræktunarstarfið. Afkvæmarannsóknir, ómmælingar, breytingar á kjötmati og þjálfun bænda í líflambavali voru þar meðal lykilþátta.

Næstir voru þeir Logi Sigurðsson bústjóri og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, tengiliður skólans við búið um árabil, bæði varðandi kennslu og rannsóknir. Sögðu þeir félagar frá starfsemi búsins í dag. Afkvæmarannsóknir eru sem fyrr lykilþáttur í ræktunarstarfinu. Örmerki eru í öllum ám og sett í öll lömb við fæðingu. Áhugi er á að nýta þá tækni og aðra nútímabútækni enn betur á búinu. BS- og MS verkefni nemenda hafa verið nokkur ár hvert, sem ýmist nýta gögn úr tilraunum/athugunum á búinu eða úr gagnasafni Hestsbúsins.

Að erindunum loknum hélt fólk áfram að gera veitingunum skil, og nokkrir kvöddu sér hljóðs og rifjuðu upp sögur frá Hesti.

Yfirlitsmynd af tilraunabúinu á Hesti en þar hefur verið stunduð kennsla og rannsóknir á sauðfé síðan árið 1944. Mynd: LbhÍ

Fjárræktin á Hesti

Föstudaginn 22. mars var dagskrá haldið áfram að Hvanneyri. Fundarstjóri fram að hádegi var Sveinbjörn Eyjólfsson og eftir hádegi Bjarni Guðmundsson. Þeir héldu uppi léttri stemningu, góðum aga á frummælendum og örvuðu fólk til umræðna. Í fyrri hluti dagskrár föstudagsins var farið yfir áhrif Hestsbúsins á þróun sauðfjárræktar í landinu síðustu 80 árin. Fyrsta erindið fluttu þeir Jón Hjalti Eiríksson og Jón Viðar Jónmundsson, um fjárskiptaféð á Hesti og ræktun þess. Framlag valinna ættfeðra var metið; til þriggja hópa, þ.e. Hestsfjárins, íslenska fjárstofnsins almennt, og ARR stöðvarhrúta sérstaklega. Strammi 83-833 frá Hesti hefur hæst erfðaframlag allra ættfeðra.

Næst var erindi Jóns Viðars um sérstök kynbóta- og ræktunarverkefni á Hestsbúinu. Afkvæmarannsóknirnar á Hesti hófust sem tilraunaverkefni um þróun aðferða fyrir afkvæmarannsóknir hjá bændum, en urðu fljótt að raunverulegri ræktunarframkvæmd á Hesti. Þegar ómsjáin kom til um 1990 varð bylting í afkvæmarannsóknum og líflambavali hjá bændum. Rannsókna- og kynbótastarf Hestsbúsins átti stærstan þátt í þeirri byltingu.

Fóðrun

Undirritaður flutti erindi um fóðrunartilraunir, sem fyrstu áratugi Hestsbúsins vörðuðu leiðina í fóðrun frá vetrarbeit með léttu útheyi og fiskimjöli, yfir að fullri innifóðrun. Fengieldistilraunir voru fyrirferðarmiklar á þessu tímabili.

Á áttunda og níunda áratugnum voru gerðar tilraunir með fóðrun á seinni hluta meðgöngu og eftir burðinn. Rannsóknir á áhrifum rúningstíma á át og afurðir mörkuðu einnig þáttaskil. Seinna voru gerðar tilraunir með sjálffóðrun á rúlluböggum og með áhrif kjarnfóðurgjafar á síðari hluta meðgöngunnar.

Frjósemi

Næst var svo erindi Ólafs R. Dýrmundssonar um frjósemi og sæðingar. Langtímatilraunir 1953-1959 á Hesti með notkun hormóna til að auka frjósemi vöktu heimsathygli en höfðu ekki mikið hagnýtt gildi. Fyrstu tilraunir með Progestagen svampa til samstillingar gangmála áa, voru gerðar 1972 og gáfu góða raun, einkum við skipulagningu sæðinga. Á Hesti voru gerðar einu hérlendu rannsóknirnar á árstíðabundinni eistnastærð hrúta og mögulegu samhengi við frjósemi áa. Hestur kom líka mikið við sögu þróunar sauðfjársæðinga hérlendis.

Holdastigun

Bragi Líndal Ólafsson sagði frá aðlögun skosks holdastigunarkerfis hér á landi upp úr 1970 með umfangsmiklu þróunarstarfi á tilraunastöðvum Rala í sauðfjárrækt og dreifðum tilraunum á Austurlandi. Bragi kynntist holdastigunarkerfinu þegar hann var við nám í Skotlandi og vann svo að þessum tilraunum. Allar götur síðan hefur féð á Hesti verið holdastigað eftir umræddum kvarða og hafa holdastigagögnin talsvert vægi í gagnasafni Hestsbúsins til notkunar í náms- og rannsóknaverkefnum.

Beitarrannsóknir

Þá var komið að erindi Ólafs R. Dýrmundssonar um vor- og sumarbeitartilraunir. Hestur tók virkan þátt í „Stóru beitartilraununum“ sem voru á níu stöðum á landinu, bæði á úthaga og ræktuðu landi, með geldneyti og hross auk sauðfjár. Á Hesti var eingöngu sauðfé í tilrauninni. Sumrin 2002 og 2004 voru gerðar beitartilraunir á Hesti sem staðfestu m.a. hve góð vorbeit á tún skiptir miklu máli. Fyrstu plöntuvalstilraunir hér á landi voru gerðar á Hesti og Stálpastöðum í Skorradal á árunum 1964-1966.

Næst var svo undirritaður með samantekt um rannsóknir á síðsumar- og haustbötun sláturlamba.

Á fyrstu árum Hestsbúsins voru dreifðar tilraunir víða um land með haustbötun á tún í samanburði við úthaga. Vikið var að ýmsum atriðum sem þessar rannsóknir hafa gert skil í gegnum tíðina: vaxtarhraði, kjötgæði, efnainnihald, bragðgæði, hagkvæmni, sníkjudýrasmit, beitarplöntur.

Litaerfðir, ull og gærur

Emma Eyþórsdóttir fór yfir helstu verkefni tengd litaerfðum, ullarrannsóknum og rúningstíma. Stefán Aðalsteinsson og Halldór Pálsson voru frumkvöðlar í þessum efnum sem fleirum. Niðurstöður úr doktorsverkefni Stefáns varðandi litaerfðir sauðfjár eru vel þekktar víða um heim. Ýmis fleiri ullar- og gæruverkefni á Hesti hafa skilað upplýsingum um arfgengi ullar- og gærueiginleika. Tilraunir með haustrúning á Hesti og víðar sýndu mun betri flokkun haustrúinnar ullar samanborið við vetrar- eða sumarull. Haustrúningur var tekinn upp í kjölfarið um allt land.

Vöxtur og þroski

Eftir hádegismat á föstudegi, sem var ekki af verri endanum frekar en aðrar veitingar hjá Hendrik Hermannssyni og samstarfsfólki í mötuneytinu, gerði Sigurgeir Þorgeirsson grein fyrir þeim bálki rannsókna sem allflestir tengja líklega fjárræktarbúinu að Hesti: Vöxtur, þroski og skrokkeiginleikar.

Eiginleikar íslenska sauðfjárins og lína innan þess (hálappar, láglappar) munur milli kynja, arfgengi og erfðafylgni, vöxtur, þroski og vefjahlutföll; allt var þetta sett í samhengi. Hvað breyttist með Strammalínunni? Og hvernig passaði ómsjáin og EUROP-matið inn í þetta allt saman?

Stakerfðavísar

Næst flutti Jón Viðar Jónmundsson erindi hans og Emmu um rannsóknir á stakerfðavísum hjá íslensku sauðfé.

Páll Zóphoníasson var fyrstur í heiminum til að lýsa gulri fitu á kjötskrokkum sem víkjandi eiginleika. Bógkreppa er alvarlegur erfðagalli sem berst með víkjandi geni. Einnig ræddi Jón ARR riðuverndargenið, og frjósemiserfðavísa sem kenndir eru við formæðurnar Þoku og Lóu.

Framtíðarverkefni

Síðustu erindin fjölluðu um framtíðaráherslur í ræktun og rannsóknum. Undirritaður tók fyrir rannsóknir sem tengjast fóðrun, beit, nýtingu næringarefna og metanlosun.

Dæmi voru nefnd um möguleika sem ný rannsóknatækni býður upp á í þessum efnum. Eyþór Einarsson fór yfir líklegar áherslur í kynbótum til framtíðar. Hann nefndi aukna áherslu á eiginleika eins og heilbrigði og endingu, metanlosun og bragðgæði. Einnig ræddi hann möguleika sem felast í DNA-sýnasafni sem er að verða til vegna átaksverkefnis í kynbótum gegn riðu. Nýtt verkefni felur m.a. í sér að meta ávinning af erfðamengjaúrvali fyrir íslenska sauðfjárrækt.

Jón Hjalti Eiríksson fjallaði um erfðarannsóknir í sauðfjárrækt. Hingað til hefur mikið verið gert með úrvali á grundvelli ætternisupplýsinga án þess að þekkja ferlana sem valda erfðum eiginleikanna. Vaxandi skilningur er að byggjast upp með því að rýna í afritun DNA yfir í RNA, RNA yfir í prótein o.s.frv. Örveruflóran í vömbinni er áhugaverð í þessu sambandi, og þarna tengjast fóðurfræðin og erfðafræðin á hátt sem hægt væri að vinna með á Hestsbúinu í framtíðinni.

Eyjólfur Kristinn flutti svo erindi þeirra Loga um nýtingu Hestsbúsins til kennslu og rannsókna í framtíðinni, nýtingin hefur aukist mjög síðustu árin. Nemandinn Ósk Reynisdóttir kom í pontu og gerði grein fyrir áhugaverðu námsverkefni um geðslag áa og tengsl við afurðaeiginleika.

Ráðstefnulok

Eyjólfur Kristinn og Rósa Björk, markaðs- og kynningarfulltrúi LbhÍ, opnuðu heimasíðu Hestsbúsins þar sem í framtíðinni verður hægt að nálgast nýtt og eldra efni sem tengist Hestsbúinu og starfseminni þar.

Þá kvaddi sér hljóðs Sigurgeir Þorgeirsson og tilkynnti að stjórn Minningarsjóðs dr. Halldórs Pálssonar búnaðarmálastjóra, sem stofnaður var 1987 og hefur í gegnum tíðina stutt mörg góð verkefni, hefði komist að þeirri niðurstöðu að fella skipulagsskrá sjóðsins úr gildi og ráðstafa höfuðstól sjóðsins, sem er að upphæð rúmar 30 milljónir, í einu lagi til kaupa á nútíma tæknibúnaði til fóðrunarrannsókna á tilraunabúinu á Hesti. Verkefnið var valið í samráði við forsvarsmenn rannsókna á Hesti og telur stjórn sjóðsins að þessi ráðstöfun falli vel að markmiðum sjóðsins og muni nýtast vel í rannsóknastarfi og menntun bænda og búvísindamanna. Þessi ráðstöfun er háð því skilyrði að LbhÍ nái að fjármagna það sem upp á kann að vanta til að viðeigandi búnaður verði keyptur.

Í fjarveru rektors, Ragnheiðar Þórarinsdóttur, sem var erlendis en hafði með nútímatækni sett ráðstefnuna um morguninn, sleit Daði Már Kristófersson, varaformaður háskólaráðs LbhÍ, ráðstefnunni. Hann þakkaði þá höfðinglegu gjöf sem Sigurgeir tilkynnti um og þakkaði einnig öllum sem að ráðstefnunni komu fyrir sitt framlag.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...