Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Ungnautin liggja gjarnan þétt frekar en að þurfa að liggja á steinsteypu.
Ungnautin liggja gjarnan þétt frekar en að þurfa að liggja á steinsteypu.
Mynd / Erik Raddum
Á faglegum nótum 26. október 2023

Nautgripir þurfa gott legusvæði

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nautgripir hafa náttúrulega þörf til að liggja og þumalfingursreglan er að nautgripir eigi að liggja að minnsta kosti hálfan daginn.

Með lengri legutíma fylgja meðal annars betri möguleikar á því að nautgripirnir jórtri í ró og næði, séu með hreinni klaufir og betra heilbrigði á klaufum. Kýr með eigið legusvæði eru einnig með meira blóðflæði í júgri og því með aukna mjólkurframleiðslu.

Eftirfarandi grein er þýdd og endursögð eftir norska dýralækninn Åse Margrethe Sogstad, en greinin birtist fyrst í Buskap 5/2022.

Geta allir gripir legið þægilega samtímis?

Í Noregi er sérstakt kerfi sem kallast DVP (DyreVelferdsProgram) en það er eins konar dýravelferðaráætlun sem nautgripabú gangast undir. Þá kemur dýralæknir í heimsókn á viðkomandi bú og fer yfir ýmiss konar þætti er lúta að velferð dýranna og gefur búinu einkunn. Matið fer fram sem blanda af viðtali við bónda og athugun á gripum og aðstöðu. Ein af spurningunum sem farið er yfir er hvort gripirnir geti legið þægilega og allir á sama tíma. Þá er jafnframt litið til hreinleika gripa, hvort þeir eru með einhver lítil sár, hárlausa bletti o.s.frv.

Við þetta mat er m.a. litið til aðgengilegs legusvæðis gripanna og þar fá hefðbundin básafjós jákvæða einkunn, þar sem kýrnar hafa í rauninni sinn eigin aðgengilega hvíldarstað, svo framarlega sem básaskiljur séu til staðar. Á móti kemur skortur á hreyfingu svo dæmi sé tekið. Í lausagöngu er þessu aftur á móti öðruvísi háttað. Þar geta komið upp tilfelli þar sem legusvæðið er mögulega ekki alltaf ákjósanlegt.

Á móti kemur að gripir í legubásafjósum geta þá valið sér svæði og mögulega komið sér fyrir á haganlegum stað, sé tækifærið til staðar. Básar geta þó verið afar misgóðir og oft sjást gripir sem standa í básum lengur en góðu hófi gegnir og er það vísbending um að legusvæðið sé ekki nógu gott enda eru nautgripir í raun latir að eðlisfari og kjósa gjarnan að leggjast sé þess nokkur kostur.

Gripir sem standa hálfir upp í básana gefa einnig til kynna að legusvæðið sé með einhverjum hætti óheppilegt. Að jafnaði ættu að vera fáir gripir sem eru ekki að „gera neitt“ þ.e. hvorki að éta, drekka né liggja, nú eða í mjöltum. Frávik frá þessu geta verið merki um of knappt aðgengi að góðum svæðum s.s. skert aðgengi að fóðurgangi, of lítið fóður, skortur á aðgengi að vatni, of þétt á gripunum eða óheppileg legusvæði.

Burður í hreinni stíu með nægum undirburði gefur kálfinum gott upphaf og er mjög gott fyrir kýr á þessum viðkvæma tíma.

Kýr eiga að hafa aðgengi að mjúku legusvæði

Í norskri reglugerð um aðbúnað nautgripa segir, svipað og í þeirri íslensku, að kýr skuli að lágmarki hafa aðgengi að þægilegu, þurru, hreinu og trekklausu legusvæði. Þetta á einnig við um fengnar kvígur sem eiga minna en tvo mánuði eftir af meðgöngutímanum. Legurýmið þarf að hanna þannig að gripurinn geti staðið, legið og lagst niður og staðið upp á eðlilegan hátt. Þá þarf legusvæðið að vera nægilega langt og breitt þannig að gripirnir geti legið þar eðlilega.

Hnjáprófið

Það er mikilvægt að allir gripir geti legið samtímis og á legusvæði sem uppfyllir reglugerðir. Mjúkt undirlag getur verið mottur, dýnur eða að lágmarki 5–6 cm þykkt lag af undirburði segir í norskum leiðbeiningum. Steinsteypa er ekki þægileg til að liggja eða ganga á og því er mælt með því að eitthvað mýkra sé til að hvíla sig á, jafnvel þótt reglugerð kunni mögulega ekki að krefjast þess. Til þess að meta hvíldarsvæðið er mælt með því að falla niður á hnén á legusvæðinu, þetta kallast hnjáprófið. Ef það er óþægilegt, fyrir þann sem prófar hnjáprófið, er það vísbending um það að yfirborðið sé óþægilegt að liggja á. Einnig er mikilvægt að vera meðvitaður um að ef göngusvæðið virðist meira aðlaðandi fyrir gripina að liggja á en þar til gert legusvæði þá er klárlega eitthvað að. Það ætti því alltaf fyrst að tryggja mýkt legusvæðis áður en eitthvað er gert til þess að gera gangsvæðin mýkri.

Kálfar saman í stíu. Nóg pláss og mikið af undirburði.

Lengri legutími – meiri mjólk

Legutíminn í mismunandi fjósum getur verið breytilegur og oftast frá 9 til 14 klukkustunda, allt eftir þægindum legusvæðisins. Í norskum fjósum getur þetta haft áhrif á mjólkurframleiðslu hverrar kýr sem nemur +/- 5 lítrum mjólkur á dag. Almennt séð gildir það að því mýkra sem legusvæðið er, því betra. Í Noregi er reynslan sú að minnstu þægindin felast í því að liggja á steypu, þar á eftir koma gamlar, þunnar og samanþjappaðar gúmmímottur, þá kurlmottur, svo marglaga mottur, dýnur, vatnsdýnur og að síðustu ýmsar útgáfur af þykkum undirburði s.s. hálmdýnu svo dæmi sé tekið. Hálmdýna er klárlega mjúk að liggja á en eigi hún að vera góð sem legusvæði þarf að viðhalda henni reglulega. Ríkulegt magn af undirburði á hverjum degi er alltaf gagnlegt, óháð þeirri gerð sem legusvæðið er. Skemmt undirlag, blautt eða óhreint gerir legusvæðið óaðlaðandi og getur meðal annars aukið hættu á særindum gripanna, júgurbólgu, lakari mjólkurgæðum og óhreinindum gripa.

Lágmarkskröfur um rými í stíum

Allir gripir eiga að geta legið samtímis í hópstíum og segir nánar um lágmarksstærð á stíum í reglugerð. Athygli skal vakin á því að í reglugerðum er kveðið á um lágmarksmál en ekki nauðsynlega ráðlögð mál og því er mælt með því að ganga lengra, þegar rýmisþörf er reiknuð, en reglugerð kveður á um. Þá er mælt með því í dag að skilja að legusvæði annars vegar og annað svæði innan stíu og gildir þetta einnig um geldneytastíur. Þannig ætti að vera með gúmmí eða þar til gert plast ofan á steyptum rimlum þar sem ætlast er til að gripirnir hvílist.

Hitaeinangrandi gólf fyrir kálfa

Samkvæmt hinni norsku reglugerð eiga smákálfar að fá aðgengi að aðstöðu sem gefur þeim tækifæri til að leggjast niður, liggja, standa upp og sinna náttúrulegri þörf sinni fyrir umhirðu. Legusvæðið á að vera þurrt og laust við dragsúg, mjúkt en þétt og með gólfi sem einangrar mögulegan kulda neðan frá. Þá er óheimilt að hafa kálfa á rimlum. Þarlendir bændur, sem eru með rimla eða ristar í eldri stíum smákálfa, mega leysa málið með því að setja gegndræpar mottur í stíurnar eða þekja með þykkum undirburði.
Þá ráðleggja Norðmenn, sé þess nokkur kostur, að hýsa saman smákálfa frá eins til tveggja vikna aldri og gjarnan strax frá fyrsta degi, nema sjúkdómaástand valdi því að smithætta sé til staðar. Þá má ekki hafa kálfa eina og sér frá átta vikna aldri. Í öllu falli ættu kálfarnir að fá að sjá og geta haft samband við aðra kálfa. Bændum er ráðlagt að gera hnjáprófið í stíum kálfanna einnig og taka sérstaklega eftir því hvort hnén verða blaut eða óhrein við prófunina. Ef það gerist þarf að huga að undirlaginu og bæta úr ástandinu. Ef smákálfar ganga undir kúm á að vera til staðar kálfaskjól, svo þeir geti komist í var þegar þeim hentar.

Útigangur á að hafa aðgengi að sömu þægindum s.s. að geta legið samtímis og að undirlagið uppfylli sömu kröfur og hér að framan greinir.

Kálfar eru saman a.m.k. tveir og tveir, sem er mjög gott fyrir atferli þeirra. Mikilvægt er að hafa mikið af undirburði hjá þeim.
Myndir / Åse M. Sogstad

Geta gripirnir hreyft sig eðlilega?

Önnur spurning í DVP heimsókninni, sem hér að framan var getið um, er hvort svokallaður hreyfiferill gripa sé eðlilegur. Þetta er sérstaklega skoðað hjá stærstu gripunum og þá sérstaklega hjá gripum í lausagöngu. Sé legusvæðið óþægilegt, s.s. vegna harðs undirlags, rangra stillinga á innréttingum eða þrenginga, sést það oftast vel á hreyfiferli gripanna. Þannig ætti ekki að taka kú lengri tíma en 6 sekúndur að standa á fætur, ef það tekur lengri tíma bendir það til þess að eitthvað sé að svo sem hált undirlag svo dæmi sé tekið.

Fullorðin norsk kýr, sem er vel að merkja nokkuð stærri en fullorðin íslensk kýr, þarf hálfan metra af rými framan við legusvæðið þegar hún stendur á fætur. Ætla má að þetta sé heldur minna fyrir íslenskar kýr. Þegar kýr stendur á fætur rykkir hún höfðinu fram á við og skýrir það þessa plássþörf. Þegar fjós eru hönnuð í dag þarf að horfa sérstaklega til þessa þáttar og þá taka mið af 20% stærstu kúnna og miða plássþörfina við þær.

Í eldri fjósum er annað atriði sem gott er að fylgjast með en það er ef það sjást mjög glansandi fletir á innréttingum í fjósinu þar sem kýrnar eru. Það bendir til þess að kýrnar rekist oft þar utan í. Þá þarf alltaf að horfa til hárlausra svæða eða lítilla sára á gripunum sem benda til hins sama.

Nautgripir kjósa helst sjálfir að liggja á svæðum sem eru opin og hafa útsýni. Þessari þörf gripanna getur verið erfitt að mæta í sumum fjósum en gott að hafa í huga við hönnun eða breytingar.

Áhrif á hreyfingu

Algengir gallar, sem leiða til truflunar á hreyfiferli grips, eru of stuttir básar, of lág herðakambsslá eða hún staðsett of aftarlega eða lélegt undirlag í bás gripsins. Í sumum tilfellum er nokkuð einfalt að laga herðakambsslána og staðsetja rétt en það er þó ekki alltaf. Þetta ætti þó að skoða alvarlega, ef talið er að hreyfing gripanna sé ekki rétt. Í sumum tilvikum er jafnvel hægt að skipta herðakambsslánni út með strekkiborða, sem þá getur gefið eftir ef viðkomandi gripur snertir hann.

Forgangsröðun

Fjárfesting í góðri dýravelferð getur verið kostnaðarsöm, þótt margir sjái að það geti borgað sig til lengri tíma litið. Þegar efnahagsástandið er þungt getur þó verið erfitt að forgangsraða hvaða aðgerðir skipti mestu máli fyrir velferð dýra og afkomu búsins. Í Noregi er litið svo á að áðurnefnd DVP úttekt sé einmitt góður upphafspunktur við slíka forgangsröðun. E.t.v. mætti koma upp svipuðu kerfi á Íslandi, til hagsbóta fyrir nautgripi landsins og afkomu hérlendra nautgripabúa.

Skylt efni: Nautgripir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...