Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þetta er árstíminn þegar flestir bændur eru að setja út kvígurnar sínar.
Þetta er árstíminn þegar flestir bændur eru að setja út kvígurnar sínar.
Mynd / Jón Eiríksson
Á faglegum nótum 29. maí 2023

Kvígubeit

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Þetta er árstíminn þegar flestir bændur eru að setja út kvígurnar sínar og oft eru þær settar í úthaga, sem er í fínu lagi ef þær komast þar í nógu orkumikla beit.

Kvígurnar eru framtíðin fyrir búið, peningavélar búsins í framtíðinni, og því þarf að hlúa sérstaklega vel að þeim frá fæðingu og fram að fyrsta burði.

Auðvitað á að hlúa vel að þeim alla tíð, líka eftir að þær eru orðnar að kúm, en flestir þekkja þó líklega vel hvað sterkt uppeldi getur skipt miklu máli þegar horft er til bæði endingar og hagkvæmni kúa.

Markmið búsins

Allir kúabændur ættu að setja sér skýr markmið þegar kemur að uppeldi á kvígum, hvenær þær eiga að ná nægum þroska svo hægt sé að sæða þær o.s.frv. Í dag er bændum ráðlagt að miða við að kvígur beri 22-23 mánaða og til að ná því þurfa þær því að verða kynþroska snemma.

Það getur vissulega verið einhver munur á kvígunum þegar kemur að kynþroska, en kynþroski og vöxtur eru sterkt tengdir eiginleikar og því er oftast miðað við að ná ákveðnum þunga eða stærð á ákveðnum aldri þegar miðað er við að kvígur séu tilbúnar til fyrstu sæðingar. Fóðrunin hefur því mikil áhrif á það hve fljótt kvígurnar verða kynþroska og eftir því sem eldið er kraftmeira vaxa þær hraðar og fara því fyrr að ganga.

Ef þær verða kynþroska snemma, en vöxtur hefur samhliða ekki verið góður, verða þær aftur á móti of litlar þegar þær bera og þurfa að nýta fyrsta mjaltaskeiðið í meiri vöxt en ella. Þetta kemur þá beint niður á nyt þeirra.

Stöðugur vöxtur mikilvægur

Það er alþekkt að það getur komið afturkippur í vöxt hjá kvígum sem eru settar út og það er einkar bagalegt enda á vöxtur þeirra að vera jafn og hraður fram að burði svo þær séu tilbúnar til sæðingar 12-13 mánaða gamlar svo þær beri nógu snemma að jafnaði, þar sem ekki allar halda við fyrstu sæðingu.

Frá tímabilinu eftir að mjólkurfóðrun lýkur og fram að fyrstu sæðingu ættu kvígurnar að þyngjast um þetta 700-900 grömm á dag, en til þess að svo verði þarf fóðrunin að vera góð og rétt jafnvægi á milli orku, próteins og steinefna. Oftar en ekki fá kvígur næga orku úr gróffóðrinu, en ekki er þó víst að þær fái nóg prótein eða steinefni.

Að þessu þarf því að huga sérstaklega þegar þær eru á beit og oft jafnvel fjarri útihúsum og því ekki fyrir augum ábúenda jafn oft og kýrnar. Það þarf því að skipuleggja beit kvíganna vel og sér í lagi eigi að sæða þær á þessu tímabili.

Venja rólega við

Til þess að ekki komi afturkippur í vöxtinn er mikilvægt að þegar kvígurnar eru settar út á beit þá séu þær vandar við, þ.e. vambarstarfsemin vanin við nýtt fóður. Því er ráðlegt að hafa þær til að byrja með í hólfi þar sem auðvelt er að fylgjast með þeim og venja þær þar við beitina samhliða gjöf, svo fóðurbreytingin verði ekki of hröð.

Þó allt takist eins vel og hægt er þarf ekki að koma á óvart að kvígurnar léttist aðeins í upphafi, það á sér eðlilegar skýringar s.s. vegna aukinnar hreyfingar og atferlis en fóðurskiptin sem slík hafa nánast alltaf áhrif á vöxtinn líka.

Flokka eftir stærð

Til þess að ná hámarksárangri af beitinni má ekki vera með of ólíka hópa af kvígum, þ.e. stærðarlega séð. Þær ætti því að flokka eftir stærð þegar þær eru settar út og ef einhver kvíga er lítil miðað við jafnöldrur sínar á hún að vera í flokki með yngri kvígum. Þetta er gert til þess að tryggja öllum kvígum sem jafnast aðgengi að þeim gæðum sem aðgengileg eru.

Eldri kvígur, sem hafa fest fang, geta svo verið sér en þetta er sá hópur sem má hafa á heldur slakari beit ef þörf krefur. Beitin þarf þó samt sem áður að vera góð enda eru þær bæði að vaxa og þroska fóstur en áherslan á daglega þyngdar- aukningu á þessu stigi má víkja að hluta til, ef ekki er um aðra kosti að ræða.

Próteinið þarf að tryggja

Beitin er eðlilega misgóð eftir ástandi hagans, gróðursamsetningu og -þroska auk áburðargjafar. Það á því að skipuleggja beitina vel og stýra henni, eigi að nást hámarksárangur og réttur vöxtur á kvígunum.

Eins og fyrr segir þarf að tryggja að próteinið sé nægt á móti orkunni, en alls ekki má gleyma stein- og snefilefnunum enda fylgist að aukin þörf fyrir þau ef tekist hefur að gefa kvígunum orku- og próteinríka beit. Bætiefnin má gefa með ólíkum hætti og finnast margar leiðir til þess og þá ættu gripir á beit alltaf að hafa aðgengi að saltsteinum að auki.

Fyrir yngri gripi má íhuga að gefa þeim kjarnfóður með beitinni, ef efasemdir eru um að beitin sé ekki nógu góð, enda er vambarstarfsemi þeirra afkastaminni en eldri gripa og má því litið út af bera ef halda á fast í kröfuna um öran líkamsvöxt.

Eftirlit með vexti

Það er alls ekki auðvelt að fylgjast með vexti á kvígum á beit og það er ekki hægt að gera einungis sjónrænt. Það ætti því að vera til staðar aðstaða, tökubásar eða læsanlegar átgrindur svo dæmi sé tekið, svo það megi fanga kvígurnar svo unnt sé að taka brjóstmálið á þeim, þ.e. ef ekki er hreinlega til staðar sérstakur vigtarbúnaður. Það er gott samræmi á milli þunga og brjóstmáls gripa og sé það mælt þegar kvígurnar eru settar út, liggur grunnlínan fyrir.

Svo má setja sér reglu um að ná að mæla einhverjar þeirra reglulega yfir beitartímabilið, ekki endilega allar og ekki endilega sömu aftur og aftur, til að fylgjast með ætlaðri þungaaukningu. Ef hún stefnir ekki í nógu rétta átt þarf auðvitað að bregðast við.

Til að fylgjast með vexti gripanna er einfalt að mæla brjóstmálið vegna fylgni á milli þunga og brjóstmáls.

Vatnið

Eins og fyrr segir þá þurfa kvígur í vexti á gríðarlega góðu fóðri að halda, eigi þær að halda örum vexti allt frá fæðingu og að burði. Svo þetta geti átt sér stað þarf allt í senn að vera til staðar: rétt magn og hlutfall næringarefna, steinefna, vítamína og góður aðbúnaður. Til viðbótar má hér nefna sérstaklega vatnið. Það er stórmunur á því hve mikið vatn nautgripir drekka, eftir gæðum þess.

Nautgripir geta auðvitað lifað með því að svolgra í sig óhreint vatni en það er ekki fyrsta val þeirra, þ.e. ef þeir hafa val. Þegar ég hef verið að heimsækja og ráðleggja bændum víða um heim þá hef ég yfirleitt sagt þeim frá mjög einfaldri þumalfingursreglu sem gott er að hafa í huga þegar kemur að gæðum vatns fyrir nautgripi. Ef bóndinn treystir sér til að drekka vatnið, þá er það nógu gott fyrir nautgripina!

Einfalt í raun. Ef þessu er fylgt, og magnið af vatninu er nægjanlegt og gripurinn getur nálgast það á tveimur ólíkum stöðum, þá hefur öllum skilyrðum verið fylgt.

Benda má á að fræðast má nánar um framangreint efni t.d. í bókinni Nautgriparækt, sem er aðgengileg á vef Bændasamtakanna.

Sem merki um að gæði vatns eiga að vera slík að bóndinn vilji sjálf(ur) drekka vatnið. Mynd /Ritvik Singh

Skylt efni: kvígur | kvígueldi

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...