Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Unnsteinn Snorri Snorrason.
Unnsteinn Snorri Snorrason.
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 15. júní 2020

Gæðastýringin hefur skilað árangri

Höfundur: Unnsteinn Snorri Snorrason.
Að undanförnu hefur skapast talsverð umræða um beitarmál sauðfjárbænda, einkum þeirra bænda sem eru þátttakendur í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Gagnrýnin snýr að mestu að framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar. 
 
Landssamtök sauðfjárbænda hafa af metnaði byggt upp gæðastýringu í sauðfjárrækt sem hluta af stuðningskerfi við íslenska sauðfjárbændur. Vissulega hefur verkefnið þróast og breyst frá upphafi þess og ljóst að ekki er kominn neinn endapunktur í þeim efnum. 
 
Gæðastýringin hefur skilað miklum árangri
 
Þegar kemur að því að meta árangur landnýtingarþáttar gæðastýringar má horfa til fjölmargra atriða. Það má til dæmis horfa til þess að verkefnið hefur aukið þekkingu bænda á landnýtingu og stuðlað að því að nú er unnið markvisst að aðgerðum á þeim beitarsvæðum sem falla undir viðmiðunarmörk gæðastýringarinnar. Vissulega má deila um hvar við setjum slík viðmiðunarmörk. Þessi viðmið þarf að endurmeta reglulega og tryggja að þau séu sett fram á grunni vísindalegrar þekkingar. Er sú landnýting sem nú er stunduð að ganga á gæði landsins? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað í þessari umræðu. Árangur af landgræðslu ræðst ekki endilega af því hvort land sé friðað fyrir beit eða ekki. Árangurinn ræðst ekki síst af því fjármagni og þeirri vinnu sem sett er í uppgræðsluverkefni. Friðun getur hins vegar verið nauðsynleg við ákveðnar aðstæður og í tengslum við gæðastýringuna hefur verið unnið að því að friða slíkt land. Gæðastýringin er þannig byggð upp að nýting lands, sem fellur undir viðmið, stuðlar að því að landið endurheimti fyrri gæði en slík verkefni þurfa að vinnast tíma.
 
Sauðfjárbændur fjár­magna stóran hluta land­græðslu­verkefna ár hvert
 
Flestir bændur stunda land­græðslu með einhverj­um hætti, þó svo að umfang sé ólíkt. Í samvinnu við Landgræðsluna er unnið að tvenns konar verkefnum. Annars vegar í verkefninu Bændur græða landið þar sem yfir 500 bændur eru þátttakendur og unnið á um 5.300 ha. árlega. Hins vegar á vegum Landbótasjóðs Landgræðslunnar þar sem 300 aðilar koma að með einum eða öðrum hætti að 60 verkefnum þar sem unnið er á um 7.000 ha lands. Meðal þeirra verkefna eru aðgerðir sem skilgreindar eru í landnýtingarþætti gæðastýringarinnar. Kostnaður Landgræðslunnar við þessi verkefni árið 2019 var um 145 milljónir. Á móti leggja bændur fram vinnuframlag og ýmsan annan kostnað sem til fellur við framkvæmdina. Ekki er haldið sérstaklega utanum vinnuframlag og fjármagn sem bændur leggja til þessara verkefna. Að auki stundar fjöldi bænda uppgræðslu á sínum jörðum án aðkomu Landgræðslu eða annarra stofnanna. Líklega hleypur framlag bænda til landgræðslu á hundruðum milljóna ár hvert. 
 
Hefur ástand beitarlands breyst frá því að gæðastýring hófst?
 
Einn af veikleikum við framkvæmd gæðastýringarinnar er sá að unnið með gögn sem eru orðin 10-15 ára gömul. Gögnin eru uppruninn í verkefninu Nytjaland sem unnið var á árunum 2002-2008. Það verkefni er sá grunnur landupplýsinga sem gæðastýringin byggir á. Því miður var ekki haldið áfram á sínum tíma með verkefnið, því það var sannarlega þörf á því að þróa aðferðafræðina betur og bæta þar með nákvæmni gagnanna og ekki síður til þess að fylgjast með framvindu gróðurfars. 
 
Landgræðslan hefur eftirlit með framkvæmd landnýtingaþáttar gæðastýringarinnar og þar að auki er það eitt af hlutverkum Landgræðslunnar að fylgjast með gróðurframvindu. Ef forsendur gæðastýringarinnar eru jafn rangar og gagnrýnin ber með sér, þá hljóta áhrif þess að koma fram í afturför lands. Það væri gagnlegt fyrir þessa umræðu ef Landgræðslan myndi miðla upplýsingum um breytingar gróðurfars síðustu 10 árin á þeim landssvæðum sem landbótaáætlanir eru virkar. 
 
Aðstæður í landinu er mjög ólíkar og engin ein lausn hentar alls staðar. Verkefni um mat að gróðurauðlindum sem stofnsett var að frumkvæði bænda árið 2017 er ætlað til þess að þróa og bæta stjórntæki við landnýtingu.  Bændur standa heils hugar á bak við það verkefni, en því er ekki lokið og það er þýðingarmikið að halda því samstarfi áfram eigi markmiðin að nást.
 
Umræða um lausagöngubann
 
Í fréttum Stöðvar 2 laugardaginn 30. maí lýsti landgræðslustjóri sinni skoðun að banna ætti lausagöngu búfjár á Íslandi. Í hans málflutningi kom fram hvaða áhrif slíkt bann myndi hafa. Hann telur m.a. að það muni sparast miklir peningar skattgreiðanda þegar kemur að kostnaði girðinga vegna þess að þá væri hægt að leggja niður girðingar sem tengjast landgræðslu, skógrækt, vegstæðum og sauðfjárveikivörnum. Þá muni ekki þurfa að smala lönd sem eru friðuð og þannig spara bændum mikið umstang. Það verður fróðlegt að sjá útfærslur á þessum hugmyndum landgræðslustjóra á næstu dögum. Enda er Landgræðslustjóri varla að koma fram með slíkar fullyrðingar í fjölmiðlum án þess að hafa skoðað málið í þaula.
 
Bændur eru einn fjölmennasti hópur sem starfar að landgræðslu hérlendis, ef ekki sá fjölmennasti. Yfirlýsingar á borð við ummæli Landgræðslustjóra 30. maí grafa undan þeirri vinnu og koma þannig niður á uppgræðslu landsins. Hefðbundin nýting sameiginlegra beitilanda á sér langa sögu sem byggir í mörgum tilvikum á stjórnarskrárvörðum réttindum. Breytingar verða að vinnast í samstarfi við bændur svipað og hefur verið gert þar sem vel hefur tekist til í verkefnum innan gæðastýringar. Annars munu þær einfaldlega ekki skila árangri. 
 
Landnotkun sauðfjárbænda er ekki yfir gagnrýni hafin. Víða er þörf á því að sinna landbótum og beitarstýringu af meiri krafti en gert er í dag. Það er hins vegar skoðun Landssamtaka sauðfjárbænda að landnýtingarþáttur gæðastýringar hafi ekki bara breytt hugarfari bænda og heldur líka aukið verulega samstarf við Landgræðsluna þegar kemur að góðri nýtingu beitilands. Landssamtök sauðfjárbænda harma því þá ákvörðun Land­græðslunnar að setja samskipti við sauðfjárbændur í þennan farveg. Óhjákvæmilegt er annað en að Landssamtök sauðfjárbænda kalli eftir samtali við stjórnvöld um fjármögnun og framkvæmda samstarfsverkefna sauðfjárbænda og Landgræðslunnar.
 
Unnsteinn Snorri Snorrason
framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...