Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þróun á snjallgleraugum og hugbúnaði tengdum notkun þeirra fleygir fram um mun á komandi árum vafalítið efla alla bústjórn, létta kúabændum vinnuna og auka afköstin enn frekar.
Þróun á snjallgleraugum og hugbúnaði tengdum notkun þeirra fleygir fram um mun á komandi árum vafalítið efla alla bústjórn, létta kúabændum vinnuna og auka afköstin enn frekar.
Á faglegum nótum 22. desember 2020

Fjós framtíðarinnar

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Í kringum síðustu aldamót fór Landbúnaðarháskólinn af stað með námskeið sem fjallaði um fjósbyggingar og hvernig mætti byggja nýja gerð af fjósum hér á landi líkt og þá var þekkt erlendis. Á þessum tíma voru í kringum 95% fjósanna á Íslandi hefðbundin básafjós og snerist þetta námskeið, sem varð afar vinsælt og var haldið um allt land, um það að til væru aðrar og betri lausnir en að hafa kýr bundnar á bása. Nú, rúmum 20 árum síðar, er staðan á Íslandi orðin gjörbreytt og algengasta fjósgerðin er einmitt sú lausagöngufjósgerð sem verið var að hampa á námskeiðunum á sínum tíma. 

En ef farið væri af stað með sambærilegt námskeið í dag og það fengi sama titil hver yrði þá boðskapur fyrirlesaranna? Líklegt er að megin áherslan væri lögð á annars vegar dýravelferðarþætti og hins vegar að kynna fyrir þátttakendum það úrval af sjálfvirkni og tækninýjungum sem þegar eru til í dag en hafa e.t.v. ekki náð fótfestu á Íslandi enn sem komið er. Öll þessi tækni sem er til í dag gera kúabændum dagsins í dag og framtíðarinnar mögulegt að auka afköst búa sinna til muna miðað við það sem áður var. Í raun er í dag hægt að tala um starfræn kúabú, þ.e. kúabændur sem byggja bú með allri nútíma tækni dagsins í dag geta mikið til stýrt búum sínum byggt á stafrænum upplýsingum.

Snjallsímar eru líklega til á hverju heimili í dag og fleiri og fleiri smáforrit eru nú í boði fyrir kúabændur til að auðvelda reglubundin störf.

Sjálfvirk mjaltatækni

Í dag er notkun á mjaltaþjónum á Íslandi orðin afar algeng og hentar vel fyrir þá bústærð sem er hér á landi en þessi tækni hefur ekki náð sömu útbreiðslu þar sem kúabú eru stærri. Skýringin felst í takmarkaðri afkastagetu kerfanna og enn í dag er ekki komin hagkvæm mjaltaþjónalausn fyrir stór kúabú, þ.e. bú með þúsundir kúa. Þrátt fyrir að bústærð muni vafalaust halda áfram að vaxa hér á landi á komandi árum og áratugum þá má telja nokkuð öruggt að sú mjaltaþjónatækni sem er notuð í dag, og hefur verið meira eða minna svipuð síðustu 20 árin, muni áfram henta vel fyrir íslenskar aðstæður.

Mjólkurgreiningar

Undanfarin ár hefur orðið hreint bylting í greiningartækni fyrir mjólk og er í dag hægt að fá tækjabúnað sem greinir mjólkurgæði í rauntíma við mjaltir, þ.e. búnað sem bæði gefur bændunum upp frumutölu kúnna en einnig efnainnihald mjólkurinnar. Þá er þegar til í dag tæknibúnaður sem flokkar mjólkina á staðnum í rauntíma og getur því skilið frá mjólk sem t.d. er lág í efnainnihaldi eða af slökum mjólkurgæðum. Þessari tækni fleygir fram og á hverju ári bætist við í flóruna og í dag finnst búnaður sem greinir einnig mismunandi vaka í mjólkinni sem auðveldar alla bústjórn t.d. varðandi heilsufar og frjósemi. Þá hefur verið unnið þrekvirki við að þróa hugbúnaðinn sem tölvukerfin nota í dag og geta bændur því fengið mun nákvæmari greiningar tölvukerfanna nú en áður auk þess sem flest betri tölvukerfin gefa bændunum í raun ráðleggingar um það sem rétt sé að gera t.d. hvað varðar meðhöndlun gripa o.þ.h.

Þjarkanotkun

Í dag eru ekki einungis notaðir þjarkar við mjaltir heldur einnig bæði við að skafa skít og gefa fóður og þessi tækni hefur verið í notkun í mörgum fjósum hér á landi alllengi. Þá hefur sjálfvirk fóðurblöndun einnig rutt sér til rúms undanfarin ár og hlutverk bóndans fer þá frá því að sinna fóðruninni sjálfur yfir í að tryggja að nægt magn af réttum fóðurefnum sé til í forðabúrum sjálfvirku kerfanna. 

En þróun á þjörkum heldur stöðugt áfram og í dag eru þegar til á markaði margskonar sjálfkeyrandi vélar sem sjálfsagt er að horfa til þegar fjós eru hönnuð. Þetta á t.d. við um sjálfvirkar vélar sem bera undirburð í bása, sjálfkeyrandi dráttarvélar og þ.h. Þjarkar eru í eðli sínu afar nákvæmir og því er oft hægt að spara töluvert pláss þar sem þeir eru notaðir en á móti kemur að taka þarf inn í myndina öryggisatriði til að gera vinnusvæðið hættulaust. 

Nýjasta tæknin í þessa veru er notkun á flygildum (drónum) sem hægt er að forrita til að fljúga um fjósin og fylgjast með gripunum, veita eftirlit og jafnvel sinna greiningum á heilbrigði s.s. með notkun á hitamyndavélum.

Skynjarar og sjálfvirk vöktunarkerfi eru orðin afar fullkomin og í dag er m.a. hægt að láta tölvukerfi fylgjast með bæði atferli og fóðrun smákálfa svo hægt sé að bregðast við tímanlega ef þörf krefur.

Aðbúnaður

Þegar kýr eru fóðraðar til hámarksafurða þarf að gera skýra og nákvæma fóðuráætlun. Kýr dagsins í dag mjólka 20-30 kg að jafnaði á Íslandi en sumar mun meira. Erlendis eru þessar tölur allt að tvöfalt hærri og ótal rannsóknir benda einmitt til þess að afurðamiklar kýr séu einkar hagkvæmar í rekstri, auk þess sem þær hafa að jafnaði lægra sótspor en hinar afurðaminni, og því stefna flestir bændur að því að auka afurðasemi kúnna sinna. Til þess að svo megi vera þarf margt að vinna saman og þyngst vega þar annars vegar góður aðbúnaður og hins vegar góð bústjórn. Í dag er þekking á aðbúnaðarkröfum nautgripa afar góð og þær lausnir sem þegar eru til og bæta aðbúnað gripanna eru bæði þrautreyndar og endingargóðar. Með öðrum orðum þá eru lausagöngufjós þar sem kýr eru á hálm-, sand- eða taðundirlagi eða á mjúkum legubásum þær lausnir sem eru taldar best henta. Mjúkt undirlag og mjúkt umhverfi, þ.e. innréttingar sem taka sérstakt tillit til þess að kýr eru ekki sérlega liprar eða léttar á sér, er eitthvað sem haft er í huga þegar ný fjós eru hönnuð nú orðið. Þá eru flest ný fjós í dag með sjálfvirka stýringu á helstu umhverfisþáttum eins og loftgæðum og lýsingu svo hámarka megi velferð gripanna og um leið afurðasemi þeirra.

Nákvæmnisfóðrun

Hér að framan var minnst á bústjórnina og eitt veigamesta atriði hvers kúabús er fóðrunin. Fóðurkostnaður er stærsti kostnaðarliður á hverju búi og skiptir höfuðmáli að nýta fóðrið eins vel og hægt er. Þegar kýr eru fóðraðar segi ég oft við bændur að þeir séu í raun ekki að fóðra kýr heldur að fóðra milljarða af örverum í vömb kúnna. Örverur eru í eðli sínu ofur viðkvæmar og því jafnara og stöðugra starfsumhverfi sem við sköpum þeim, því meira mjólka kýrnar. Nákvæmnisfóðrun leikur því lykilhlutverk á kúabúum sem stefna að því að hámarka nýtingu kúnna og í dag er til mikið úrval af tæknibúnaði sem auðveldar bændum þennan þátt í bústörfunum. Sjálfvirk holdastigun með notkun þrívíðra og innrauðra myndavéla er tækni sem stóreflir bústjórnina og notkun tölvuskynjara sem geta mælt og metið fóðurgæðin í rauntíma er ekki síður áhugaverð tækni sem fleiri og fleiri kúabændur um allan heim hafa verið að taka í notkun. Bóndinn fær því afar nákvæmar upplýsingar um fóðrið sem fer til kúnna og getur tryggt einkar vel að það sé alltaf eins og jafnt að gæðum frá degi til dags. Örverurnar þakka svo fyrir þessa þjónustu og kýrnar í kjölfarið með auknum og jöfnum afurðum.

Snjallsímar og -gleraugu

Í dag eiga líklega flestir snjallsíma og í dag geta þeir létt verulega störf kúabænda. Fleiri og fleiri forrit eru í boði sem eru sérhæfð fyrir kúabúskap auk þess sem ýmis önnur forrit, sem hugsuð eru fyrir almenna notkun, henta einnig til að bæta bústjórnina. Þannig eru t.d. til forrit sem geta greint kýrnar út frá mynd, komið með tillögu að holdastigun, aðstoðað við heilsufarsgreiningar og margt fleira mætti tína til. Þá færist í vöxt að þróa búnað fyrir snjallgleraugu þannig að bændur geta fengið fram á lítinn skjá á gleraugunum allskonar mikilvægar upplýsingar í rauntíma, sem auðvelda vinnuna í fjósinu. Á komandi árum mun notkun á þessari tækni stóraukast og tengist s.s. ekki fjóshönnuninni beint en mun klárlega breyta starfi bændanna í framtíðinni.

Sjálfvirk vöktun

Notkun á hverskonar skynjurum hefur aukist hreint ótrúlega á undanförnum örfáum árum. Fyrsta notkun á skynjurum við kúabúskap var líklega þegar bændur fengu hálsólar með einstaklingsmerkingu og hreyfiskynjara á kýrnar sínar á sínum tíma. Þegar kýrnar gengu svo til mjalta og fóru um þar til gert hlið eða greiningarbúnað var lesið af skynjaranum og fengust þannig mikilvægar upplýsingar um atferli gripsins. Síðan þessi tækni kom á markað hefur mikið vatn runnið til sjávar. 

Í dag eru skynjararnir bæði minni og endingarbetri, en einnig miklu fjölhæfari og einfaldari í notkun. Í dag geta bændur t.d. sett rafræn merki í eyru kúnna og þurfa ekki hálsólarnar lengur. Þá geta tölvukerfi vaktað smákálfana og látið vita ef þeir missa heilsuna t.d. ef þeir drekka lítið eða fara sjaldan og fá sér að éta nú eða einfaldlega liggja of mikið. Beiðslisgreiningarbúnaður, þ.e. búnaður sem byggir á hreyfiskynjaratækni, er mikið til fullþróaður fyrir alllöngu en hugbúnaðurinn sem vinnur úr upplýsingum um hreyfingar kúa er alltaf að verða betri og betri. Í dag getur t.d. tölvubúnaður fylgst með atferli kúnna, hvar þær eru í fjósinu og t.d. hve lengi þær standa við fóðurgang, brynningarstamp eða í legubás. Þá er hægt að fá sjálfvirka skynjara sem láta vita ef kýr er að fara að bera, hve mikið hún jórtrar, hvort hún sé með hita eða hve hratt hún andar svo dæmi sé tekið. Á hverju ári bætist í þessa flóru sem öll er gerð til að bæta bústjórn, létta vinnu bændanna og um leið auðvitað að auka afköst þeirra.

Önnur atriði

Af öðrum þáttum sem t.d. bændur erlendis horfa til við hönnunar á kúabúum í dag er t.d. kynjahlutfall kálfa, en með notkun á kyngreindu sæði gjörbreytast allar forsendur við hönnun fjósanna. Þá er með notkun á erfðaefnisgreiningum hægt að haga uppeldi á gripum með öðrum hætti en áður þar sem snemma verður ljóst hvort ástæða sé til að ala t.d. kvígu sem framtíðar mjólkurkú eða til kjötframleiðslu. Ennfremur hafa orðið stökkbreytingar í tæknilegum möguleikum í tengslum við kynbætur s.s. stóraukin notkun á glasafrjóvgun, skolun á eggjum úr ungum kvígum og þess háttar möguleikar sem breyta bæði forsendum við kúabúskapinn en einnig vinnunni á búunum sjálfum. Þá má að síðustu nefna að nákvæmnisgreiningar á mjólk eru alltaf að verða betri og einfaldari og færist víða í vöxt örverugreiningar heima á búum, sem styttir alla ferla og eykur nákvæmni við lyfjameðhöndlun sjúkra kúa.

Hér að framan hefur verið farið í stuttu máli yfir helstu atriði sem hægt er að nýta á kúabúum dagsins í dag. Upptalningin er hvorki tæmandi né endanleg enda koma á markað nýjar lausnir nánast í hverjum mánuði. Vegna smæðar markaðarins á Íslandi er hins vegar ekki allt í boði sem fæst erlendis en þar sem afar auðvelt er í dag að bæði komast í samband við erlenda aðila sem og að panta erlendis frá ætti það að vera hægur vandi fyrir hvaða kúabónda sem er að útbúa bú sitt með nákvæmlega þeirri tækni og þeim búnaði sem hann eða hún vill.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...