Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Felublóm, hnattsigling og frúin kæna
Á faglegum nótum 15. maí 2015

Felublóm, hnattsigling og frúin kæna

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Á hádegi hinn 15. nóvember 1766 lögðu tvö frönsk skip upp í leiðangur frá höfninni í Nantes í Frakklandi, freigátan La Boudeuse og birgðaskipið Étoile. Um borð voru 330 óbreyttir sjóliðar og um fjörutíu yfirmenn, skipslæknar og náttúrufræðingar af ýmsu tagi.

Leiðangursstjóri var franskur aðalsmaður að nafni Louis Antoine de Bougainville. Markmið leiðangursins var að sigla umhverfis jörðina til að kanna og skrásetja veröldina fyrir konunginn Lúðvík fimmtánda.

Útúrdúr um sænska drottningu og karlinn hennar

Að sjálfsögðu var grasafræðingur með í för, læknirinn og grasafræðingurinn Philibert Commerson, þá 39 ára gamall. Commerson þessi, á frönsku Commerçon, hafði haft einhver samskipti við náttúrufræðinginn Carl Linné hinn sænska, sem mælti með honum við sænsku drottninguna Lovísu Úlriku sem var gift Adólfi Friðrik sem var Svíakóngur á árunum 1751 til 1771. Bæði voru þau þýsk, (eiginlega prússnesk, að uppruna, en á þessum árum þótti sjálfsagt að redda sér kóngum yfir landamæri, ef skortur var á þeim heima fyrir.

Lovísa Úlrika var frekja og systir Friðriks annars Prússakonungs. En hún var menningarlega sinnuð og mjög rómantísk og kom upp ýmsum söfnum í Svíaríki meðan hennar naut við. Meðal annars því sem nú er grunnurinn að sænska náttúrugripasafninu. Lovísa Úlrika fékk Commerson hinn franska til að safna fyrir sig fiskum frá Miðjarðarhafi, sem síðan voru prepareraðir fyrir náttúrugripasafnið. Þar eru nokkrir þeirra til enn. Eiginlega var Lovísa Úlrika algjör beturviti og lá ekki á skoðunum sínum um menn og málefni. Hún vildi leggja niður þing og ríkisráð í Svíþjóð og koma þar á einvaldsstjórn hins „upplýsta einvalds“ með mann sinn í aðalhlutverki. Það tókst henni samt ekki. Adólf Friðrik var ekkert að styrkja hana í þeirri baráttu. Hann var friðsemdarmaður sem leiddist pólitík og allt sem henni fylgdi. Notalegast þótti honum að fá að vera í friði að dunda sér við að gera tóbaksdósir. Fyrir því hafði hann ástríðu. Og mat. Banamein hans var ofát. Í opinberri skýrslu um andlát hans, við aðeins tæpra sextíu og tveggja ára aldur, stendur að hann hafi varpað lífsandanum eftir ríkulega máltíð þar sem á borðum var: Humar, kavíar, súrkál, rófur, vogsíld og kampavín. Með rjómabollum í eftirrétt. En þá var Commerson hvergi nærri. Hans sögu lauk á eynni Máritíus tveim árum síðar.

Okkar kona kemur til sögunnar

Í þessum vísindalega, franska hnattleiðangri var Commerson aðal grasafræðingurinn. Sem slíkur þurfti hann aðstoðarmann. Og ekki leitaði hann langt yfir skammt, því ráðskonan hans var býsna fróð grasakona. Vel greind og bæði læs og skrifandi, sem var óvenjulegt fyrir alþýðukonur á þessum tíma. Konan hét Jeanne Baret, nafn hennar er til í mörgum útgáfum og með ýmsum rithætti. Hún var fædd af alþýðufólki í afskekktu þorpi í Búrgúndíhéraði árið 1740. Skírnarvottorð hennar er enn til og á því virðist sem að hún hafi komið undir utan hlýju hjónasængur. Faðirinn mun þó hafa gengist við henni og hún notaði ættarnafn hans lengst af ævinnar. Hann var daglaunamaður ef marka má kirkjubókina. Meira er svo ekki vitað um líf og afdrif foreldranna. Né heldur um uppvöxt hennar. En ágiskanir hafa komið fram um það að móðir hennar, Jeanne Pochard, hafi tilheyrt hópi húgenotta. Meðal þeirra var áhersla lögð á lestrarkunnáttu og barnafræðslu. Mun frekar en meðal annarra „lægri“ þjóðfélagshópa þessa tímabils.

Einhvern tíma á árunum 1760–1764 mun Jeanne Baret hafa komið til Commersons og tekið að sér heimilisreksturinn. Líklega þó ekki fyrr en eftir að Commerson hafði misst konu sína af barnsförum árið 1762. Ungfrú Baret var fróðleiksfús og var fljót að læra af húsbónda sínum hvernig sinnt var um herbaríumarkir, skipulag þeirra sem og annarra náttúrugripa. Námsfýsin og hæfileikarnir voru kannski ekki það eina sem dró Commerson að henni.

Í desember 1764 fæddi hún son sem Commerson játaði svo sem ekki að hann væri faðir að. Og hún gaf ekki upp faðernið, heldur skráði soninn á sitt ættarnafn og kallaði hann Jean-Pierre Baret. Honum var komið í fóstur þar sem hann lést nokkrum mánuðum seinna. En Commerson hafði sett hjónabandsson sinn í fóstur til skyldmenna sinna og sá hann aldrei síðar.

Ráðabrugg

Árið 1765 fékk Commerson tilboð um að taka þátt í fyrirhuguðum hnattleiðangri. Hikandi og hikstandi hugleiddi hann málið. Heilsa hans var ekki upp á það besta og hann sá ekki fram á að komast í þetta nema með því móti að Jeanne kæmi með honum sem hjúkrunarkona, húshaldari og aðstoðarmaður við söfnunina og pappírsvinnuna. En tilboðinu og stöðu hans fylgdi réttur til að hafa með sér einkaþjón. Nú lögðu þau höfuðið í bleyti, líklega Jeanne þó mest, og fundu upp á því þjóðráði að hún myndi klæða sig í karlmannsföt og fylgja með í leiðangurinn sem karl. Leiðangurinn var í nafni franska hersins og þar gilti algjört bann við að konur væru skráðar í áhafnir franska flotans.

Til að trixið yrði sem trúverðugast, skyldu þau haga því þannig til að hún kæmi ekki um borð fyrr en rétt í þann mund sem leyst væri frá bryggju. Þann aukavarnagla höfðu þau líka á að látast sem þau væru alveg ókunnug og að hittast þarna í fyrsta sinni.

Þetta gekk upp. Meira að segja eftirlét kapteinn birgðaskipsins Étoile grasafræðingnum Commerson og aðstoðarmanni hans káetu sína til að „þeir“ hefðu betra rými og meira næði til vísindastarfanna. Í þessu fyrirkomulagi kom líka upp sá aukabónus að í káetunni var einkasalerni. Ekki skemmdi það heldur að káeta kapteinsins var vel aðskilin frá öðrum vistarverum skipsins. Þvi var lítil hætta á að hljóðskraf grasafræðinganna bergmálaði fram í skut þar sem aðrir höfðust við.

Felublómið

Í fyrstu rannsóknarhöfninni í Brasilíu uppgötvuðu þau klifurrunna sem var nýr fyrir vísindin. Þyrnóttur var hann, með stórum skermum af litríkum háblöðum sem lífguðu upp á skógarjaðra og vöfðu sig um trjákrónur. Þetta er fyrsta plantan sem Commerson greindi í leiðangrinum og gaf nafn leiðangursstjórans.

Bougainvillea er kominn inn á spjöld vísindanna með rithönd Jeanne Baret. Margir halda því fram að eiginlega eigi hún heiðurinn af fundinum og nafngiftinni og áætla það vegna persónulegra athugasemda hennar á herbaríumörkinni. Við köllum plöntur af þessari ættkvísl felublóm á íslensku, vegna þess að blómin eru hulin milli háblaðanna sem liggja utan um þau. Sjálfur vildi Commerson síðar heiðra samstarfskonu sína með því að gefa nýfundinni ættkvísl á eynni Madagaskar nafn hennar og kalla Baretia. Það gerði hann vegna þess hve honum þótti plantan hafa margbreytileg birtingarform í laufgerð og vaxtarlagi. En hann var of seinn. Aðrir voru fyrri til að lýsa þeirri ættkvísl og kalla hana Turraea. Til hennar reiknast um sjötíu tegundir dreifðar um Suðurhvel. Þær koma þessum pistli ekkert við að öðru leyti.

Afhjúpunin

En það kom að því að hið rétta kynferði aðstoðarmannsins var afhjúpað. Eiginlega fyrir slysni. Því þrátt fyrir að þrjú hundruð karlar væru í leiðangrinum grunaði engan þeirra að eitthvað væri athugavert við aðstoðarmann grasafræðingsins. En á Tahítí gerðust innfæddir full forvitnir um leiðangursmenn og fylgdust með hverri hreyfingu þeirra. Sennilegt er að Jeanne hafi þurft að „fara baksviðs“ eins og gerist hjá fólki. Á byggðum úthafseyjum hitabeltisins er lítið um skýlandi runnagróður undir gisnum krónum pálmatrjáa. Þannig að ekki hefur farið framhjá þeim af háttalaginu að þar var ekki karl á ferð. Og þar sem þeir höfðu alveg farið varhluta af vestrænni kurteisisinnrætingu og siðuðu uppeldi gátu þeir ekki á sér setið. Með flissi, hrópum og köllum tókst þeim að vekja alla viðstadda til vitundar um hinn augljósa og rétta kynstaðal aðstoðarmannsins.

Það mega Frakkar eiga að þeir eru yfirleitt upp til hópa fordómalausir séntilmenn. Leiðangurstjóranum, de Bougainville, þótti atvikið jafnvel nokkuð spaugilegt og gerði ekkert veður út af málinu þrátt fyrir að dálítið uppistand hafi orðið meðal meðstjórnenda hans vegna þessa. En Commerson var ekki skemmt, þótt hann reyndi að útskýra málið á hinn besta máta. En eftir þetta ákvað hann að draga sig í hlé og snúa ekki aftur til Frakklands. Hann settist að á Máritíus ásamt Jeanne Baret og hún var þar með honum þar til hann lést árið 1773. Eftir það tók hún saman við franskan sjómann. Þau giftust og hún bjó með honum það sem eftir var. Reyndar var sjómaðurinn á heimleið þótt hann gerði þarna stuttan stans. Saman fóru þau svo til Frakklands og settust að í fæðingarþorpi hans. Þannig lauk hún hringferð sinni um hnöttinn, fyrst kvenna í sögunni. En Commerson hafði verið ansi huggulegur við hana og gerði henni erfðaskrá þar sem hún fékk allar eigur hans og ógoldin laun fyrir leiðangurinn. Þessi auður beið eftir henni við heimkomuna og hann notaði hún til að koma fótunum undir rekstur á dálítilli veitingakrá sem hún rak síðan með bónda sínum.

Sögulok

En Jeanne kom ekki tómhent til Frakklands, því þangað færði hún allt safn Commersons og vísindagögn hans og kom þeim í hendur akademíunnar. Skipulögðu og vel upp settu. Og það verður seint skafið af sanngirni Frakka. Þeir eru vesenislaust fólk yfirleitt, þegar allt kemur til alls. Franska stjórnin sá gilda ástæðu til að gera vel við vísindakonuna Jeanne Baret og þakka afrek hennar með því að greiða henni góðan lífeyri til æviloka. En þá var vísindastörfum hennar lokið, þótt hún sinnti vinum og nágrönnum áfram með grasakunnáttu sinni meðfram veitingarekstrinum. Dauða hennar bar að 5. ágúst árið 1807, þá var hún 67 ára gömul.

Skylt efni: Garðyrkja | önnunarferðir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...