Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Breiðavað er myndarbýli við Lagarfljót skammt neðan við Egilstaði. Þar rekur Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Landssamtaka skógareigenda, kúabúskap ásamt fjölskyldu sinni auk þess að stunda skógrækt.
Breiðavað er myndarbýli við Lagarfljót skammt neðan við Egilstaði. Þar rekur Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Landssamtaka skógareigenda, kúabúskap ásamt fjölskyldu sinni auk þess að stunda skógrækt.
Líf&Starf 4. desember 2018

Skógarbændur eru að ná frábærum árangri á jörðum sínum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Landssamtök skógareigenda (LSE) eru búgreinasamtök skógarbænda, sem sameina alla skógarbændur landsins í ein samtök. Tilgangur samtakanna er að bæta aðstöðu skógræktar sem atvinnugreinar í sem víðustum skilningi, bændastéttinni til hagsbóta og að vera samtök og málsvari þeirra sem stunda skógrækt á bújörðum. 
 
Jóhann Gísli Jóhannsson, kúabóndi og skógarbóndi á bænum Breiðavaði á Austurlandi. Hann er formaður Landssamtaka skógareigenda og er hér staddur við Stracta Hótel á Hellu þar sem aðalfundur LSE fór fram í haust. Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
 
Innan vébanda LSE eru fimm aðildarfélög en þau eru Félag skógareigenda á Suðurlandi, Félag skógarbænda á Vesturlandi, Félag skógarbænda á Vestfjörðum, Félag skógarbænda á Norðurlandi og Félag skógarbænda á Austurlandi. Samtökin hafa aðsetur í Bændahöllinni við Hagatorg í Reykjavík og eru með heimasíðuna www.skogarbondi.is.
 
Jóhann Gísli Jóhannsson, kúabóndi og skógræktarbóndi á Breiðavaði við Lagarfljót, er formaður samtakanna. Hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum blaðsins um stöðu og framtíð skógræktarinnar með tilliti til skógarbænda um allt land.
 
Helstu áherslumálin eru nýsköpun og upplýsingagjöf
 
– Út á hvað gengur starfsemi samtakanna og hvaða verkefni eru þið helst að fást við og hvað eruð þið með marga félagsmenn?
„Helstu áherslumál LSE þessi misserin eru afurðamál, nýsköpun og upplýsingagjöf. Helsti samstarfsaðili okkar er Skógræktin og vinnum við náið með þeim að sameiginlegum markmiðum sem gengur út á að tryggja skógrækt í landinu. Félagsmenn LSE eru um 700 og jarðirnar eru um 500 vítt og breitt um landið. Fyrst hófst skipulögð skógrækt á bújörðum á Fljótsdalshéraði 1990 og mun það landsvæði væntanlega vera með forystu á mörgum sviðum á næstu árum líkt og hingað til. Um aldamótin varð skógrækt á bújörðum víðtækari og þar sem ræktunarskilyrði eru víða mjög góð á Íslandi verður líklega hægt að fá gott timbur í þokkalegu magni úr öllum landshlutum eftir áratug eða tvo,“ segir Jóhann Gísli.
 
Hafa náð góðum árangri
 
– Hafa skógarbændur náð góðum árangri í sinni ræktun í gegnum árin?
„Já, skógarbændur vinna náið með ráðgjöfum Skógræktarinnar og hafa þeir heilt yfir náð frábærum árangri. Nýta má afurðir úr skóginum fyrr en menn þorðu að vona. Skjól er líklega það fyrsta sem fólk verður vart við, svo aukinn fuglasöngur úr skóginum, þá meiri uppskera berja og sveppa, stundum meiri grasvöxtur og þá er tilvalið að stýra beit um þau svæði að ógleymdum timburnytjunum sjálfum. Bændur geta til dæmis nýtt timbrið úr 15 ára gömlum lerkiskógi í girðingarstaura svo dæmið sé tekið.“
Margar áskornir
 
– Hver er helsta áskorun skógar­bænda í dag og hvernig ætlið þið að mæta þeirri áskorun?
„Áskoranirnar eru margar og vert er að nefna nokkrar. Fyrst er að nefna að þau svæði sem ætluð er undir skógrækt séu nýtt til fulls, þ.e. að gróðursetning, slóðagerð og viðeigandi umhirða sitji ekki á hakanum. Næst er að nefna ógn af loftslagsbreytingum, því þær virðast gerast ansi hratt. 
 
Hvað mun það þýða fyrir okkar ræktun á næstu árum og áratugum? 
Verða skaðvaldar ágengari á sumar tegundir eins og er til dæmis farið að sýna sig á birkinu nú um stundir? 
Verða veður og árstíðir með öðru móti á Íslandi eftir nokkra áratugi en nú er? 
Þetta eru vissulega áskoranir og við verðum að huga vel að tegunda- og kvæmavali. Það leiðir svo að þriðju áskoruninni sem er að passa upp á að skógarbændur séu vel upplýstir um stöðu mála,“ segir Jóhann Gísli um leið og hann leggur áherslu á mikilvægi þess að skógarbændur sæki sér þekkingu og að upplýsingagjöf sé með besta móti. Þá segir hann að stjórnvöld mættu sinna málaflokknum betur, enda vantar fjármagn frá hinu opinbera til þess að standa við gerða samninga við skógarbændur um nytjaskógrækt, t.d. þarf fjármagn til grisjunar og umhirðu.
 
Mælt með fjórum megin trjátegundum
 
– Hvaða trjátegundir eru að standa sig best í bændaskógrækt og eru einhverjar nýjar plöntur að koma sterkt inn?
„Stundum er sagt að ekki sé gott að setja öll eggin í sömu körfuna. Sérfræðingar okkar hafa hingað til mælt með fjórum megin trjátegundum þegar ætlunin er að búa til timbur og binda sem mest kolefni, en það eru lerki, fura, ösp og greni. Það fer meðal annars eftir landgerð hvaða tegund hentar best. Aðrar tegundir hafa verið reyndar með góðum árangri sem og kynbætur og kvæmaval. Tré búa yfir ýmsum hæfileikum sem fáir gera sér grein fyrir; svo sem aðlögunarhæfni, útbreiðslugetu og þrautseigju. Ef ég nefni einhverjar tegundir má nefna ofurlerkiblendinginn Hrym sem vex hratt og vel við erfiðar aðstæður, sitkaelri sem svipar til íslenska birkisins en hefur ýmsa kosti fram yfir, og alaskaösp, en sumir klónar af henni eru harðgerðir og vaxa mjög vel og við ættum að leggja meiri áherslu á notkun hennar þar sem hún bindur mikið kolefni á tiltölulega skömmum tíma.“
 
Stafafuran hefur skipað sér ákveðinn sess hérlendis
 
– Hvað með jólatrjárækt hjá skógarbændum, hvernig er staðan þar, getum við ekki farið að rækta okkar eigin jólatré?
„Jú, jú, margir skógarbændur eru nú þegar farnir að rækta jólatré með ágætum árangri. Stafafuran hefur skipað sér ákveðinn sess hérlendis enda sú tegund sem er bæði auðveld í ræktun og hefur marga kosti sem jólatré, svo sem vegna barrheldni, ilms og forms. Akurrækt á jólatrjám hefur verið reynd og stundum gefist ágætlega. Þá eru helstu tegundir greni og þinur, en kynbætur standa yfir á fjallaþini um þessar mundir svo þess er vonandi ekki langt að bíða að þinur verði meira í stofum landamanna. Betur má ef duga skal í að mæta eftirspurn eftir íslenskum jólatrjám sem verða sífellt vinsælli.“
 
Því sjálfbærari sem við erum því betra
 
– Hvaða skoðun hefur þú á innflutningi trjáa, eins og jólatrjám, eigum við að vera að standa í svona innflutningi?
„Því sjálfbærari sem við erum, því betra. Því meira sem við gerum sjálf því minna er vonandi flutt inn. Söluaðilar vilja fá íslensk tré til að selja þar sem þau tré seljast oft á undan þeim innfluttu. Það fylgir því viss hætta að flytja inn tré, sem og aðrar lifandi afurðir. Sveppir, pöddur eða aðrir skaðvaldar geta  fylgt innflutningi og haft óafturkræfar afleiðingar á alls kyns ræktun hérlendis.“
 
Kúabúskapur og skógrækt fer vel saman
 
– Hvað með sjálfan þig og þína fjölskyldu? Þið eruð kúabændur og skógarbændur. Hvernig fer það saman? Og hvað eruð þið með mikið undir í skógrækt og hvernig gengur?
„Það fer mjög vel saman að vera kúa- og skógarbóndi. Maður getur skapað skjól fyrir gripina og hægt er að nota skóginn til þess að mynda skjól fyrir ræktun sem skilar sér í aukinni uppskeru. Við erum með um það bil 50 hektara undir skógrækt og við erum aðallega með lerki og furu. Skógræktin gengur mjög vel, við gróðursettum að mestu 1991 og 1992 og búið er að grisja þá reiti. Það sem kom úr þeirri grisjun verður nýtt í girðingarstaura og kurl. Síðan var aftur gróðursett 2014 til 2016.“
 
– Hvað finnst þér skemmtilegast og áhugaverðast við skógræktina?
„Það er gaman að fylgjast með skógi verða til, og að taka þátt í því að skapa þessa auðlind sem skógurinn er. Trjárækt skiptir auðvitað miklu máli við bindingu kolefnis og í framtíðinni á þetta eftir að vera stór atvinnuvegur, ef fjármagn fæst til áframhaldandi gróðursetningar,“ segir Jóhann Gísli og bætir við að samvinna skógarbænda gangi mjög vel enda hittist bændurnir reglulega á fundum og námskeiðum sem eru haldin víða um land. „Þar skiptast menn vissulega á ráðum og eru stöðugt að læra. Þá leita menn mikið til sinna skógræktarráðgjafa sem eru á vegum Skógræktarinnar, sem gefa góð ráð um næstu skref.“ 
 
Mikilvæg í bindingu kolefnis, uppgræðslu og skjólmyndun
 
–Hvernig sérðu bændaskóg­ræktina þróast áfram á næstu 10 til 15 árum?
„Ég sé hana vaxa og dafna á næstu árum. Hún á vonandi eftir að aukast mikið, enda mikilvæg í bindingu kolefnis, uppgræðslu og skjólmyndun. Með því að fjórfalda skógrækt á næstu árum eiga Íslendingar að geta orðið sjálfbærir þegar kemur að timbri árið 2060. Þá getur hráefnið sem skógræktin skilar auðvitað skipt skógarbændur töluverðu fjárhagslegu máli.“
 
Jóhann Gísli segir að endingu að með því að hefja skógrækt geta íslenskir bændur kolefnisjafnað framleiðslu sína. „Fáir ef nokkrir bændur í heiminum eru í eins góðri aðstöðu til þess, því hér á landi er lítið af skógi og mikið land. Tré binda mest kolefni á meðan þau eru að vaxa og því eru miklir möguleikar í kolefnisbindingu hér á landi. Það er einnig ljóst að Íslendingar geta ekki mætt kröfum Parísarsamkomulagsins um bindingu kolefnis, nema með því að auka skógrækt. Og það liggur á því tré ná hámarksbindingu um 15 til 20 árum eftir gróðursetningu. Við viljum því hvetja sem allra flesta bændur til þess að hefja skógrækt,“ segir formaður Landssamtaka skógareigenda. 
 

Úr ályktunum aðalfundar Landssamtaka skógareigenda í október 2018

Flutningur til landbúnaðarráðuneytis
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur þunga áherslu á að bændaskógræktin verði færð frá umhverfisráðuneyti til landbúnaðarráðuneytis.“
 
Rök:
Bændaskógrækt er eins og hver önnur grein landbúnaðar og því eðlilegt að hún sé undir landbúnaðarráðuneytinu og fjármagn til hennar verði greitt út af Búnaðarstofu eins og annar stuðningur til landbúnaðarins.
 
Samþykkt að vísa tillögunni til stjórnar LSE með meirihluta atkvæða.
 
Verklag við uppgjör
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, beinir því til stjórnar LSE að fara með Skógræktinni yfir það fyrirkomulag sem er við úttektir framkvæmda og fjárhagsuppgjör við bændur.“
 
 Greinargerð:
 Umhugsunarvert er að í dag eru allar framkvæmdir og fjárhagslegt uppgjör við skógarbændur framkvæmdar af Skógræktinni. Þar er átt við áætlanagerð, útvegun plantna, framkvæmdir og fjárhagslegt uppgjör.
 
Verkefnaflutningur frá Skógræktinni til LSE
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, felur stjórn LSE að hefja viðræður við Skógræktina um það, hvort tímabært sé, að LSE taki að sér ákveðin verkefni sem Skógræktin sinni í dag.“
 
Greinargerð: 
Hugmyndir hafa verið uppi um að LSE, sem samnefnari skógarbænda, gæti tekið að sér ákveðin verkefni, sem Skógræktin sinnir nú. Svo sem ráðgjöf og uppgjör við skógarbændur, upplýsingagjöf og fræðslu, eða jafnvel plöntuafhendingu. Í dag er allt ferlið í höndum Skógræktarinnar og spurning hversu æskilegt það er, eða hvort til greina komi að Skógræktin deildi út ákveðnum verkefnum til LSE.

 

Skylt efni: skógarbændur

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...