Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Rasmus og Sven gera bollur
Matarkrókurinn 18. mars 2024

Rasmus og Sven gera bollur

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Hakkréttir eru fín leið til að metta marga og vinsæll valkostur á heimilum landsins. Gott hakk er jafn næringarríkt og heilar steikur, en um leið ódýrara og oft fljótlegra í meðhöndlun.

Á námsárum mínum á ónefndum veitingastað í Reykjavík var mikið höndlað með nautakjöt. Afskurðurinn af steikunum, sem ekki rataði á diska gestanna var alltaf hakkaður og umbreytt í máltíðir fyrir starfsfólkið. Það voru afar hófstillt fagnaðarlæti þegar fimmti og síðan sjötti hakkrétturinn í vikunni var borinn á borð, lausnamiðaðir kokkarnir breyttu þá til og buðu starfsfólkinu upp á bollur til að lægja öldurnar. Jú, jú, sumir sáu í gegnum þetta, en samt ekki alveg allir.

Danir eiga einfaldan kjötbollurétt sem flest börn eru mjög hrifin af og ég mæli með að lesendur prófi. Gömlu nýlenduherrarnir kalla réttinn Boller i karry og eiga samkvæmt danskinum að vera gerðar úr svínakjöti, en við ráðum auðvitað hvað við gerum hér og notum kannski svín, en líklega eitthvað annað. Kjötbollurnar eru soðnar og síðan löguð mild karrísósa úr hluta af kjötbollusoðinu, borið fram með soðnum hrísgrjónum. Svo má leika sér með annað meðlæti og þeir allra flippuðustu bæta meira að segja við grænmeti í sósuna.

Svo býð ég upp á ofureinfaldar steiktar bollur með kartöflum og hrásalati, uppskriftin að bollunum er beint úr sænsku handbókinni, en kannski ekki alveg meðlætið að þessu sinni.

Bollurnar
800 g hakk að eigin vali
3 tsk. fínt salt

2 laukar
2 egg
4 msk. hveiti
pipar
1 lítri kjötsoð (eða vatn og kjötkraftur)

Byrjið á að skræla og saxa laukinn fínt, setjið hakk og salt í skál og hrærið vandlega saman í 2–3 mínútur. Auðveldast að gera með hrærivél ef hún er til staðar, bætið svo við lauk, eggjum, hveiti og pipar eftir smekk og hrærið vel saman. Kælið í ísskáp í 30 mínútur.

Setjið vatn og/eða kjötsoð í víðan pott og hitið að suðu, formið bollurnar og setjið í pottinn. Þegar allar bollurnar eru komnar í skuluð þið sjóða á hægum hita í 15 mínútur með lokið á. Færið bollurnar á fat og geymið, sigtið soðið til að nota í sósuna.

Karrísósa
3–4 laukar
4–5 gulrætur
120 g smjör
100 g hveiti
4 msk karríduft
4 dl kjötbollusoð
4 dl mjólk
Salt

Skrælið og skerið lauk og gulrætur í bita, svitið í potti með smjörinu og karrí á vægum hita í 3–4 mínútur, bætið hveitinu saman við og hrærið vandlega saman. 

Bætið soðinu og síðan mjólk saman við og hrærið stöðugt í til að jafna sósuna og forðast að hún brenni. Smakkið til með salti, bætið bollunum í og hitið í nokkrar mínútur áður en þið berið matinn fram. Gott að bera fram með hrísgrjónum eða byggi.

Bollur með kartöflubátum og hrásalati

Þessi uppskrift er ansi sænsk, og þar er hakkið jafnan nauta- og svínakjöt til helminga eigi allt að vera samkvæmt bókinni.

Hér heima vita fæstir að allrahanda má vel nota í fleira en bakstur en það er mikið notað í Svíþjóð í matargerð, kjötbollur og síldarrétti svo dæmi sé tekið. Best er að fá allrahanda í heilum kornum sem eru á stærð við piparkorn, heitir einmitt kryddpeppar á sænsku og eru best nýmulin í morteli eða úr piparkvörn.

Bollurnar
600 g hakk
1 laukur
1 msk. smjör
160 ml mjólk
100 g hvítur brauðraspur
1 egg

2 tsk. salt
Hvítur pipar
1–2 tsk. Allrahanda krydd

Skrælið og saxið laukinn fínt, svitið laukinn í smjörinu í 2–3 mínútur án þess að hann brúnist. Blandið raspi saman við mjólkina, blandið síðan hakki, lauk, eggi og mjólkur-rasp blöndunni og kryddi saman. Formið í frekar litlar bollur og bræðið 200 g smjör á pönnu og brúnið bollurnar á öllum hliðum. Færið af pönnunni og hitið upp í sósunni. Berið fram með ristuðum kartöflubátum og heimalöguðu hrásalati.

Sósan hans Sven
3 msk. smjör
3 msk. hveiti
5 dl kjötsoð (eða vatn og kjötkraftur)
3 dl rjómi
1 msk. eplaedik
1 msk. sojasósa
Salt og svartur pipar

Bræðið smjör í potti og hrærið hveitinu saman við, bætið soðinu við smátt og smátt á meðan þið hrærið stöðugt. Sjóðið í 4 mín., bætið rjóma í, smakkið til með sojasósu, eplaediki, pipar og salti. Sumir vilja setja eitthvað sætt í lokin, t.d. ögn af sultu. Það má vel.

Kjötsúpa
Matarkrókurinn 2. október 2024

Kjötsúpa

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt ekki. Allir og allar fjölsk...

Subbu-Jobbi
Matarkrókurinn 18. september 2024

Subbu-Jobbi

Nú þegar skólarnir eru að byrja veitir ekki af því að æfa sig í frægustu samloku...

Piparosta-grísapasta
Matarkrókurinn 21. ágúst 2024

Piparosta-grísapasta

Eftir gular viðvaranir og alla þessa rigningu hættir sér ekki nokkur út að grill...

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja
Matarkrókurinn 29. júlí 2024

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja

Hásumar á Íslandinu fagra, á góðum degi, sólin skín jafnvel, kannski er ekki háv...

Stórkarlasteik
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grill...

Reykt svín og remúlaði
Matarkrókurinn 6. júní 2024

Reykt svín og remúlaði

Munurinn á heitreyktum og kaldreyktum mat er heilmikill.

Eitthvað ofan á brauð
Matarkrókurinn 10. maí 2024

Eitthvað ofan á brauð

Ef smjör er ekki eitt af sjö undrum veraldar þá hlýtur það að vera númer átta. N...

Hryggur um páskana
Matarkrókurinn 26. mars 2024

Hryggur um páskana

Það er nánast samofið páskunum að borða lambakjöt af einhverju tagi. Læri, hrygg...