Grillaðar lambakótelettur með indverskum blæ
Matarkrókurinn 10. júní 2025

Grillaðar lambakótelettur með indverskum blæ

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Nú er líklega of seint í rassinn gripið að grilla þegar kannski bestu dagar sumarsins eru nýliðnir. En ef eitthvað er öruggt þá er það að Íslendingar munu halda áfram að grilla þó dragi ögn fyrir sólina.

Kannski er þess vegna fínt að mæta rigningu og roki með mikið kryddaðan, en þó ekki sterkan rétt í indverskum stíl sem er borinn fram með hvítum baunum í Garam masala sósu, basmati hrísgrjónum, ristuðum rauðrófum og grilluðu grænkáli.

Ég set alvarlega fyrirvara við mína þekkingu á indversku eldhúsi og fer eflaust yfir línuna einhvers staðar. Vitandi t.d. að það eru til ansi margar 100% hárréttar uppskriftir af Garam masala sem ég þekki ekki. Og að hin eina hárrétta uppskrift er til á ansi mörgum heimilum, sem eru sko ansi mörg á Indlandi. Með öðrum orðum, ég biðst fyrir fram afsökunar á vitleysunni í mér en stenst ekki mátið að prófa mig áfram með krydd og brögð.

Við flest hér á skerinu klúðrum illa því annars einfalda verki að sjóða hrísgrjón að mati þeirra þjóða sem rækta og borða mest af þeim í heiminum eins og Indverja. Hvernig klúður? Jú, með því að skola ekki hrísgrjónin almennilega fyrir suðu og losna þannig við óvelkomna sterkju sem hefur áhrif á áferð, bragð og útlit. Lögum þetta, takk, því það er svo fljótlegt og einfalt.

Bestu kryddblöndurnar eins og þær sem indversk matargerð byggir brögðin á eru þær sem við gerum sjálf, með því að rista fyrst krydd á pönnu og mala svo í morteli og kalla þannig fram meiri dýpt í bragði en annars fengist. Ég hvet ykkur til að prófa sjálf, en annars fást líka prýðilegar kryddblöndur í flestum verslunum. Heilar rauðrófur er svo auðvelt að elda, skolið og hendið þeim í ofn með ullinni og öllu og eldið í gegn, geymið svo í kæli, skrælið og hitið upp eða notið kaldar þegar hentar.

Garam masala kryddblanda

50 g broddkúmen fræ
15 g svartar kardimommur
12 g svartur pipar heill
2 stk. kanilstangir
12 g grænar kardimommur
12 g negulnaglar
3 stk. stjörnuanis
1 stk. múskathneta
4 lárviðarlauf
50 g kóreander-fræ

Ristið á þurri stórri pönnu á meðalhita í 2–3 mínútur, látið kólna og myljið síðan í morteli eða blandara. Geymið í loftþéttu íláti og athugið að uppskriftin er mun stærri en þið þurfið fyrir það sem á eftir kemur svo þið eigið nóg í nokkrar máltíðir.

Ristaðar rauðrófur

2–3 rauðrófur heilar og eldaðar
Olía
Salt
Balsamik-edik

Skrælið rauðrófur og skerið í bita, setjið ögn af olíu og rausnarlega slettu af balsamic ediki á og saltið. Eldið í ofni á 160 °C í 30 mínútur.

Grillaðar lambakótelettur og grænkál

1 kg lambakótilettur eða lambahryggvöðvi
Salt 2 msk.
Garam masala blanda
Olía
Handfylli af grænkáli
Sítróna

Látið kjötið standa við stofuhita í a.m.k. 30 mínútur, saltið vandlega, penslið með olíu og kryddið með blöndunni. Grillið á meðalhita eftir smekk hvers og eins, ég mæli með meðaleldun (e. medium). Penslið grænkál með olíu, saltið og kreistið sítrónusafa yfir, grillið eftir smekk.

Hvítar baunir í Garam masala sósu

200 g hvítar baunir úr dós
1 stk. laukur
½ stk. fennel
3 stk. hvítlauksrif
Olía
1-2 msk. Garam masala
2 dl kókosrjómi
Salt
Sítróna

Skerið lauk og fennel í teninga, kremjið hvítlauk og saxið. Svitið lauk og fennel í olíu í 2–3 mínútur á meðalhita, bætið hvítlauk og Garma masala við og svitið áfram í 2–3 mínútur. Sigtið vökvann frá baununum, hellið kókosrjóma og baunum í og sjóðið í 10 mínútur, smakkið til með salti og sítrónusafa.

Basmati hrísgrjón með kardimommum

300 g basmati hrísgrjón
5 svartar kardimommur
Salt

Skolið hrísgrjónin vandlega í köldu vatni, hrærið með höndunum til að fjarlægja sterkju sem gerir vatnið mjólkurlitað og skiptið um vatn nokkrum sinnum. Sigtið síðasta skolvatnið frá, bætið við vatni í hlutföllum samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum með svartar kardimommur saman við og klípu af salti. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum.

Grillaðar lambakótelettur með indverskum blæ
Matarkrókurinn 10. júní 2025

Grillaðar lambakótelettur með indverskum blæ

Nú er líklega of seint í rassinn gripið að grilla þegar kannski bestu dagar suma...

Grillarar allra landa sameinist
Matarkrókurinn 26. maí 2025

Grillarar allra landa sameinist

Fyrsti maí er liðinn og sólin er farin að þrýsta sér í gegnum vorhretið og vonan...

Fiskneysla fiskveiðiþjóðar & stolinn karfi
Matarkrókurinn 12. maí 2025

Fiskneysla fiskveiðiþjóðar & stolinn karfi

Þó að fiskur sé stór hluti af sjálfsmynd Íslendinga þá hefur fiskneysla dregist ...

2 fyrir 1-tilboð
Matarkrókurinn 23. apríl 2025

2 fyrir 1-tilboð

Það að geta gert tvo hluti í einu eða fengið meira fyrir minna er alltaf æskileg...

Einfalt og gott um jólin
Matarkrókurinn 20. desember 2024

Einfalt og gott um jólin

Allir vilja hafa hlutina eftir sínu höfði um jólin og hefðirnar í flestum fjölsk...

Graflax hjólarans
Matarkrókurinn 11. desember 2024

Graflax hjólarans

Alveg eins og það var einu sinni leiðinlegt að fá sokka í jólapakkann en svo gam...

Hefðir og hangikjöt
Matarkrókurinn 27. nóvember 2024

Hefðir og hangikjöt

Ég vil aðeins hita upp fyrir jólin, sem eru rétt handan við hornið, og hvetja ti...

Grunnsósur fyrir sósuþjóð
Matarkrókurinn 30. október 2024

Grunnsósur fyrir sósuþjóð

Mér er nokk sama hvort tölfræðin er opinberlega skráð, allir kokkar landsins vit...