Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jónas Á. Ágústsson hefur staðið vaktina við sölu á rafeindavogum og öðrum búnaði allar götur frá því brautryðjendur á heimsvísu hófu þróun á slíkum búnaði á Ísafirði á áttunda áratug síðustu aldar. Hann stofnaði ELTAK ásamt fleirum árið 1991 til þess m.a.
Jónas Á. Ágústsson hefur staðið vaktina við sölu á rafeindavogum og öðrum búnaði allar götur frá því brautryðjendur á heimsvísu hófu þróun á slíkum búnaði á Ísafirði á áttunda áratug síðustu aldar. Hann stofnaði ELTAK ásamt fleirum árið 1991 til þess m.a.
Mynd / HKr.
Líf og starf 30. janúar 2019

Vigta allt frá títuprjónum til trukka

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Jónas Á. Ágústsson hjá ELTAK ehf. hefur kynnt undur rafeinda­voganna allt frá þeirri miklu byltingu sem varð í kjölfar þess að Örn Ingólfsson, rafmagns­tæknifræðingur á Ísafirði, hannaði fyrstu íslensku rafeindavogina á 8. áratug síðustu aldar. 
 
„Við erum með vogir fyrir allt sem þarf að vigta á Íslandi, hvort sem það eru títuprjónar, trukkar eða heybaggar. Á landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöllinni vorum við t.d. að sýna vogir sem henta vel fyrir grænmetisframleiðslu og pökkun. Við eigum mikil viðskipti við grænmetisbændur og síðan eru vaxandi viðskipti við þá sem selja undir slagorðunum „Beint frá býli“. Nú eru fjölmargir bændur farnir að selja sínar vörur beint til neytenda og þá er mikilvægt að vera með nákvæma vigtun. Við bjóðum þar löggildar vogir sem geta sýnt verð á hvert kíló. Þarna sjáum við mikinn vöxt hjá bændum sem eru að selja sínar afurðir til ferðamanna og annarra sem koma beint heim á bæ. Við bjóðum þar upp á mjög góða kosti. Síðan þarf að vigta heybagga og ýmislegt annað sem tilheyrir landbúnaði,“ segir Jónas. 
 
Hann segir að ELTAK sé líka mjög öflugt þegar kemur að tækjabúnaði fyrir kjöt- og fiskvinnslur þar sem fyrirtækið er með áratuga reynslu. Sérhæfir ELTAK sig nú í sölu og þjónustu á rafeindavogum og öðrum búnaði til vigtunar, stýringar, skömmtunar, vörufrágangs og pökkunar.
 
Uppruninn rakinn til Ísafjarðar
 
„Uppruni okkar er fyrir vestan. Hugmyndasmiðurinn Örn Ingólfsson starfaði að þróun rafeindavoga innan veggja Pólsins hf. eftir að hann lauk námi í rafmagnstæknifræði í Árósum í Danmörku árið 1977. Hannaði hann í kjölfarið fyrstu íslensku rafeindavogina og síðan tók boltinn að rúlla með innleiðingu á tölvuvogabyltingunni fyrir fiskvinnslu og útgerðir. Framleiðsla á hinum þekktu Póls vogum hófst svo árið 1978. Pólstækni var síðan stofnað utan um þessa starfsemi á Ísafirði árið 1986.
 
Rafmagnstæknifræðingurinn Örn Ingólfsson.
Ég tók þátt í þeirri byltingu frá byrjun og vogirnar frá Pólstækni vöktu heimsathygli. Fyrirtækið varð svo gjaldþrota og nýtt fyrirtæki, Póls rafeindavörur, tók við hlutverkinu 1991. Þá stofnaði ég mitt fyrirtæki, Eltak, til að annast sölu á þeirra vörum á Íslandi. Í framhaldinu hófum við að flytja inn rafeindavogir og erum nú orðnir mjög stórir á því sviði og höfum á boðstólum vogir fyrir allt mögulegt.“
 
Velvilji fiskvinnslufyrirtækja á Ísafirði skipti sköpum við þróun rafeindavoga
 
Jónas segir að margt hafi spilað inn í til að gera þessa tæknibyltingu mögulega á Ísafirði. Þar hafi ekki síst verið um að ræða endalausan velvilja stjórnenda fiskvinnslufyrirtækja á svæðinu, einkum Hraðfrystihúss Norðurtangans og Íshúsfélags Ísfirðinga sem voru á þeim tíma fullkomnustu frystihús landsins. Þar fengu frumkvöðlarnir í tölvuvogum og margvíslegum öðrum búnaði að prófa sig áfram og þróa sínar vörur við raunaðstæður á vinnustað. Fyrsta rafeindavogin var einmitt sett upp í Norðurtanganum á Ísafirði, sem innvigtunarvog fyrir afla. Var það eins konar karavigt.
 
Sú ákvörðun sem Jón Baldvin Hannibalsson beitti sér fyrir sem ráðherra, að grænlenskum togurum yrði um tíma eingöngu heimilt að landa afla sínum á Ísafirði, hafði einnig gríðarlega mikið að segja fyrir smíði skipavoga á Ísafirði og þróunarvinnu á vörum frá Pólstækni. Voru allir grænlensku togararnir á skömmum tíma komnir með Póls skipavogir um borð. 
 
Þess má geta að Póls vogirnar sem voru í árdaga þessarar byltingar seldar um allan heim eru margar hverjar enn í notkun á markaðnum. Marel eignaðist 76% hlut í fyrirtækinu 2004 og síðan fyrirtækið að fullu, en frumkvöðlarnir seldu sinn hlut. Framleiðslu voganna var svo hætt á Ísafirði 2007, en fjöldi þeirra er enn í notkun. Marel hélt samt áfram framleiðslu á vörum Póls og er sumt af þeirri hönnun t.d. í samvalsvélum og öðru enn grunnurinn að fjölmörgum framleiðsluvörum Marels. Marel er nú orðið að risa á alþjóðlegum markaði og hefur eignast fjölda annarra fyrirtækja í framleiðslu voga og tækja fyrir matvælageirann, eins og Scanvægt í Danmörku 2006 og Stork Food Systems í Hollandi árið 2007.
 
Ný vog í Bolungarvík tekur 60 tonn
 
Þess má geta að Eltak setti m.a. upp nýja hafnarvog í Bolungarvík í nóvember til að vigta fulllestaða trukka. Sú vog er 18 metra löng og tekur allt að 60 tonn. Hún ætti því að þola það sæmilega þó einhverjum dytti í hug að stíga á vigtina eftir allt átið um jólin. 
 
„Við erum því enn með mikla tengingu vestur á firði og seljum reyndar mikið út um allt land. Enda teljum við okkur vera sérfræðinga í öllu er varðar vigtun hvort sem um er að ræða lítið eða mikið.“
 
Mikill vöxtur í þjónustu við bændur
 
– Þú nefndir landbúnaðinn, sérðu mikil tækifæri á því sviði í framtíðinni?
„Já, það er engin spurning. Við sjáum mikinn vöxt í þjónustu við íslenska bændur. Enda hafa neytendur mjög verið að kalla eftir því að geta verslað beint við bændur. Þar hefur regluverkið svolítið verið að þvælast fyrir mönnum og nokkur umræða hefur verið um það á síðustu misserum hvernig hægt sé að létta á því kerfi. Þannig að þeir bændur sem vilja geti nýtt sér tækifæri á þessu sviði til að auka sínar tekjur og ná meira til sín af virðisaukanum í greininni. 
 
Maður sér þetta vera að gerast víða um heim. Fólk vill komast nær frumframleiðendum þeirra matvæla sem það borðar,“ segir Jónas.
 
ELTAK var með kynningarbás á sýningunni Íslenskur land­búnaður 2018 sem fram fór í Laugardalshöllinni í október. Jónas segir að það hafi verið gott framtak. Fimmtíu ár á milli slíkra sýninga í Reykjavík væri samt of mikið, en sitt mat eftir mikla reynslu á þessu sviði væri að svona sýningu mætti vel setja upp á fimm til sex ára millibili. Þau tíðindi spurðust reyndar út nú fyrir árslok að sýningarhaldarar hafi ákveðið að halda næstu landbúnaðarsýningu í Reykjavík á árinu 2021. 
 
Velvilji stjórnenda hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga og Hraðfrystihúss Norður­tangans á Ísafirði ásamt stjórnendum annarra fiskvinnsluhúsa á Vest­fjörðum skipti sköpum í upp­byggingu og þróun fyrirtækja sem nýttu tölvutæknina í hönnun búnaðar fyrir matvælaiðnaðinn. 

Skylt efni: rafeinda­vogir | ELTAK

Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta matvælaráðherra og af hverju?
Líf og starf 6. desember 2024

Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta matvælaráðherra og af hverju?

Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta matvælaráðherra og af hverju?

Á döfinni í desember
Líf og starf 5. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Þjóðarréttur Íslendinga
Líf og starf 4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Það er með mikilli ánægju, jafnvel stolti sem við landsmenn höfum neytt brauðter...

Baldur Högni
Líf og starf 4. desember 2024

Baldur Högni

Nafn: Baldur Högni Benediktsson.

Tildra
Líf og starf 4. desember 2024

Tildra

Tildra er lítill vaðfugl eða fjörufugl sem stoppar hér á Íslandi á ferð sinni mi...

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika
Líf og starf 4. desember 2024

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika

Ragnars Þorsteinssonar, sauðfjárbóndi og ljósmyndari í Sýrnesi í Aðaldal, hefur ...

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.