Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Varmaland í allri sinn dýrð að morgni málþings. Hótel Varmaland á miðri mynd og var málþingið haldið á Þinghamri sem er byggingin lengst frá. Horft til norðurs í átt til Baulu.
Varmaland í allri sinn dýrð að morgni málþings. Hótel Varmaland á miðri mynd og var málþingið haldið á Þinghamri sem er byggingin lengst frá. Horft til norðurs í átt til Baulu.
Mynd / HGS
Líf og starf 3. nóvember 2023

Skógur er matarkista

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson.

Víða var komið við á vel sóttu málþingi skógarbænda sem haldið var að Þinghamri á Varmalandi í Borgarfirði laugardaginn 14. október síðastliðinn.

Í þessari grein verður sagt frá fyrri hluta þingsins sem fjallaði um matvæli sem hægt er að hafa í og af skógi. Í næsta tölublaði Bændablaðsins má vænta umfjöllunar um seinni hluta þingsins sem gekk út á skógarumhirðu og gagnvið. Fyrir áhugasama má nálgast frekari upplýsingar um málþingið undir fréttir á skogarbondi.is þar sem meðal annars er aðgengilegur hlekkur á myndupptöku af Youtube-síðu Bændasamtaka Íslands.

Nokkrir framsögumenn á málþinginu. Mynd tekin eftir málþingið. Á myndinni eru f.v.: Brynjólfur Jónsson, Egill Gautason, Eygló Björk Ólafsdóttir, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Lárus Heiðarsson, Jóhann Frímann Þórhallsson, Agnes Geirdal, Dagbjartur Bjarnason, Björgvin Eggertsson og Eiríkur Þorsteinsson. Á myndina vantar: Bjarna Diðrik Sigurðsson, Björn Bjarndal Jónsson, Cornelis Aart Meijles, Elisabeth Bernard, Gunnar Þorgeirsson og Jóhann Gísla Jóhannsson.

Samstaða

Þemu málþingsins voru tvö, þ.e. „matur úr skóginum“ og „umhirða skógarins“. Áður en komið var að fræðsluerindum bauð Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður búgreina- deildar skógarbænda, gesti velkomna á málþingið og lýsti gleði sinni með að skógarbændur væru aftur komnir saman til að vera með á viðburði sem þessum.

Honum var í sínum opnunarorðum hugleikið hversu mikilvægt það væri að að bændur stæðu saman og minntist á hvimleitt orðaskak bænda á milli vegna íhaldssamra búskaparhátta.

Nær væri ef bændur ættu samræður en væru ekki í eltingarleik við laganna bókstaf, en svo virðist sem einmitt sá bókstafur sé valdur að óþarfa ágreiningi milli búgreina.

Meiri samstaða

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, kom einnig inn á þessi vandræði og sammæltust formennirnir, hann og Jóhann Gísli, um að þessi kurr yrði ekki leystur með einhverju skóhorni í aflögðu fjárhúsi heldur yrði að gera það með víðtækri sátt.

Að öðru leyti sagði Gunnar frá fjölbreyttu starfi sem starfsmenn Bændasamtakanna vinna dags daglega. Hann sagði meðal annars frá stóru verkefni sem snýr beint að loftslagsmálum og senn kemur að því að Kolefnisbrúin taki til starfa á sínu sviði. Að lokum sagði hann frá ömurlegu ástandi í landinu vegna skipulagsmála.

Frumbyggjahyggjar

Í erindi Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra, sem flutt var af Aðalsteini Sigurgeirssyni, fagmála- stjóra Skógræktarinnar, var einnig komið inn á skipulagsmál en frá hinum endanum. Það er nefnilega þannig að skipulagsmál eru mannanna verk; byggð á ábúðarfullum ákvörðunum valdamanna hverju sinni. Náttúran er lítið að skipta sér af skipulagsmálum og allra síst á umbreytingartímum loftslags eins og flestir sérfræðingar sammælast um að nú séu í loftinu. 

Í erindi Þrastar var kynnt til sögunnar nýyrðið „frumbyggja- hyggja“ þar sem átt er við að manneskjan á það til að setja merkimiða á allt, ólíkt náttúrunni.

Það lýsir sér til að mynda í þröngsýninni við að skipuleggja inn í framtíðina eftir því hvernig hlutirnir voru áður, en ekki eins og náttúran þróast. Staðarefniviður er sem sagt sjaldnast heppilegasta hráefnið.

Sjálfbærni

Eygló Björk Ólafsdóttir, matvæla- framleiðandi hjá Móður Jörð í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, sagði frá lífrænum búskap og ræktun í skjóli skóga og skjólbelta.

Ræktarlandið í Vallarnesi er um 70 hektarar og er skýlt af 230 hektara skógi og skjólbeltakerfi sem telur um 9 kílómetra.

Matvæli þeirra eru seld um land allt og nemur magn þeirra 120 tonnum á ársgrundvelli. Skógrækt og skjólbeltarækt hefur verið stunduð í Vallanesi í 40 ár og er grundvöllur gjöfullar ræktunar á jörðinni, ár eftir ár. Ekki er nóg með að skjól auki ræktunina vegna hækkandi hitastigs heldur auðgast lífvænlegur jarðvegurinn einnig.

Ekki nóg með að á Vallanesi sé ræktað lífrænt korn og suðrænt grænmeti heldur nýta þau nú aukaafrakstur skógarins búinu til framdráttar. Skóginn og skjólbeltin þarf að grisja.

Viðurinn er notaður í borð og planka til uppbyggingar á staðnum og afsagið er notað í kurl í göngustíga og til húshitunar. Auk alls þess er heimaræktaða kornið þurrkað með viði skógarins.

Sveppapepp

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði frá sambýli sveppa. Það er bæði erfitt og einfalt að útskýra sveppi en það er eins og sveppir séu alls staðar, þeir eru límið sem gerir líf mögulegt á jörðinni og sveppir eru stærstu lífverur jarðarinnar. Mjög lítill hluti sveppa er ætur og hér á landi er helst að finna góða matarsveppi í skógum.

Tré hafa mikla þörf fyrir samlífi með sveppum. Þar sem sveppaflóran er rík dafna trén betur.

Í birkiskógum er gjarnan góð sveppaflóra enda hefur það vistkerfi fengið langan tíma að mótast. Í þeim má meðal annars finna eftirsóttustu skógarsveppi Evrópu, þ.e. kóngsveppi og kantarellur.

Skógarmatarkistan

Elisabeth Bernard er mannfræðingur og vinnur hjá Skógræktarfélagi Íslands. Hún sagði frá öllum þeim tækifærum sem leynast í skóginum er við kemur mat.

Forðabúr skógarins gefur einnig tekjur og í Skógræktarritinu ár hvert má sjá yfirlit ýmissa flokka með skógafurðir og magn og tekjur af viðkomandi flokki.

Ber eru til dæmis náttúruauðlind sem Íslendingar hafa nýtt óspart í gegnum tíðina og í Finnlandi er sala bláberja að skila þúsund milljarða króna tekjum árlega. Með aukinni skógrækt hefur einnig orðið vakning í nýtingu á sveppum  og nú eru sveppir tíndir víða um land. Við erum þó enn að átta okkur á aðstæðum og getum nýtt þessa matarkistu enn betur. Með fleiri skógum skapast óteljandi tækifæri.

„Suðfjárrækt“

Agnes Geirdal hefur verið býflugnabóndi í rétt tæpan áratug. Að vera bóndi er lífsstíll en að vera býflugnabóndi er suðandi hamingja. Það er einmitt hljóðsins vegna að fólki fannst viðeigandi að kenna búgreinina við „suðfé“.

Agnes sagði skemmtilega frá lífsferli hunangsflugnanna, allt frá tilhugalífi, skemmtanahaldi og lífshættulegum systkinaerjum. Það er ekkert grín að vera býfluga. Samfélagið er mjög stéttskipt og allir hafa sitt hlutverk. Líf flugnanna snýst um að þjóna drottningu með einræðistilburði og felst fyrst og fremst í að fljúga á milli blóma og koma heim með sætindi handa henni sem kallað er hunang.

Þótt drottningin sé stór þá er hún ekki jafn heimtufrek og manneskjan, en til að þóknast henni þurfa 12 flugur að strita allt sitt líf til að útvega hunang í eina teskeið. Hunang er munaðarvara.

Vöggufífill

Cornelis Aart Meijles, sérfræðingur

hjá Ráðgjafarmiðstöð land- búnaðarins, sagði frá mörgu fróðlegu í fyrirlestri sínum sem nefndist „Verður bóndinn læknir framtíðarinnar?“ Grasrótarstarf þrífst best í heilbrigðum jarðvegi.

Þróunin í landbúnaði um heim allan hefur haft þá tilhneigingu að drepa jarðveginn jafnt og þétt. Hann fær ekki að dafna með allri þeirri flóru og fánu sem til þarf. Lífið undir fótum okkar á að iða af örverum, svepprótum og vera uppfullt af næringarefnum sem plönturnar nýta þegar þær stækka með tilstuðlan sólarinnar. Matvæli í dag eru mun rýrari af næringarefnum og allt öðruvísi en þau voru áður en dauðhreinsaður landbúnaður kom við sögu með öll sín kemísku efni og uppróti.

Við megum ekki líta niður til jarðvegsins, hann er undirstaða allrar ræktunar. Cornelis endaði erindi sitt á því að segja frá vöggufífli, en það er planta sem mögulega getur verið ný nytjaplanta til fóðurs hér á landi.

Kornrækt

Egill Gautason, sérfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði frá mikilvægi skjóls í kornrækt. Uppskera á norðlægum stöðum ræðst mikið af verðri.

Með skjóli af trjám má jafna vind og þar með hækka hitastig. Þar sem sumur eru stutt, eins og á Íslandi, má lítið út af bera ef ræktun á að skila þeirri afurð sem vænst er, svo sem í ræktun korns. Korn hefur lengi verið ræktað á Íslandi og eru aðstæður mjög misjafnar eftir landshlutum. Alla jafna gera skjólbeltin mikið gagn en það er þó ekki algilt.

Góð kornuppskera sýnir sig best í þunga kornsins og því lengur sem hægt er að skýla plöntunni aukast líkur á að korn þroskist og þyngist. Nánar er fjallað um kornrækt í nýlegri skýrslu sem ber nafnið „Bleikir akrar“.

Samantekt

Matarkista skógarins er auðlind sem við getum  nýtt okkur í mun ríkari mæli en verið hefur.

Víða nýtist skjólið til að rækta matvörur til manneldis, eins og dæmin sýna hjá frumkvöðlunum í Vallanesi, en löngu er orðið tímabært að gefa skógarbotninum gaum og leita markvisst að sveppum, berjum og sinna býflugnarækt. Skógurinn og nytjar hans eru grundvallarþættir í sjálfbærni þjóðar.

Skylt efni: skógarbændur | Skógrækt

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...