Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tölvuteikning af landeldisstöð GeoSalmo í Þorlákshöfn.
Tölvuteikning af landeldisstöð GeoSalmo í Þorlákshöfn.
Líf og starf 1. maí 2023

Fiskeldi í Þorlákshöfn

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Nýjasta viðbótin við félagskerfi Bændasamtaka Íslands (BÍ) er fiskeldisfyrirtækið GeoSalmo, sem nýverið gekk inn í búgreinadeild landeldis. Fyrirtækið hyggur á uppbyggingu sinnar landeldis- stöðvar í vor á Laxabraut við Þorlákshöfn og kemur sér þar fyrir við hlið fyrirtækisins Landeldis, sem var stofnaðili búgreinarinnar innan BÍ.

Bjarki Már Jóhannesson er yfir viðskiptaþróun GeoSalmo.

Bjarki Már Jóhannesson var búgreinarfulltrúi GeoSalmo á Búgreinaþingi BÍ sem haldið var í febrúar. Hann segir að stöðin þeirra verði í grundvallaratriðum með þeim hætti, að þar verður laxeldi í lokuðum landeldiskerjum þar sem fiskur sé alinn frá hrogni í sláturstærð. „Tæknin sem fyrirtækið stefnir á að nota er svokölluð „Hybrid flow-through“-tækni, eða gegnumstreymi með endurnýtingu. Það þýðir einfaldlega að vatn flæðir í gegnum stöðina, en í stað þess að fara beint í affall eftir að fiskurinn hefur nýtt það er það endurnýtt að stórum hluta, eða um 70 prósent,“ segir Bjarki.

Byggt upp í tveimur fösum

Bjarki segir að áætlunin sé að hefja uppbyggingu núna á vordögum. „Hafist verður handa við að grófjafna lóðina og áætlað er að afhenda lóðina í lok sumars til verktaka. Planið er að reisa 24 þúsund tonna landeldisstöð. Uppbyggingin verður fasaskipt þar sem byrjað er á að reisa eina línu af fiskeldiskerjum ásamt fiskvinnslu og öðrum nauðsynlegum innviðum. Eftir að fyrsta fasa er lokið getur stöðin framleitt um átta þúsund tonn á ári af laxi. Seiðin fyrir þennan fyrsta fasa munu koma úr seiðaeldisstöðinni á Laugum í Landsveit sem félagið hefur keypt og er verið að taka í gegn og nútímavæða. Í seinni fasa framkvæmdarinnar er svo tveimur línum af fiskeldiskerjum bætt við og framleiðslugetan fer upp í 24 þúsund tonn á ári. Þá verður einnig reist endurnýtingarkerfi, seiðaeldisstöð og gróðurhús sem nýtir affallsvatn frá seiðaeldinu.

Við stefnum á að byrja að slátra úr fyrsta fasanum á fyrsta ársfjórðungi ársins 2026 og full afköst ættu að nást í kringum 2029- 2030,“ útskýrir Bjarki.

Sérfræðingar ráðnir til verkefnisins

Fyrirtækið GeoSalmo er að stærstum hluta í eigu Aðalsteins Jóhannssonar sem var fjárfestir í gagnaverageiranum, hjá Advania og fjárfestingabankanum Beringer Finance.

Aðalsteinn hefur, að sögn Bjarka, ekki áður komið að fiskeldi en fyrirtækið hefur ráðið til sín hóp sérfræðinga sem kemur að hönnun og skipulagningu á stöðinni í Þorlákshöfn. „Við höfum til að mynda fengið norska fyrirtækið Artec Aqua til að hanna og byggja fiskeldisstöðina en þeir hafa reynslu af uppbyggingu sambærilegra verkefna í Noregi, sem hafa gefið góða raun,“ segir Bjarki.

Hann segir að áhugi sé á að byggja upp stöðvar í fleiri sveitarfélögum. „Fyrirtækið er komið í viðræður á fleiri stöðum um mögulegar staðsetningar. Þar ber helst að nefna land í sveitarfélaginu Vogum þar sem aðstæður fyrir landeldi eru mjög ákjósanlegar og hefur fyrirtækið þegar hafið formlegar viðræður við sveitarfélagið.“

Vatn, raforka og fóður

Helstu hráefni fyrir rekstur landeldisstöðvar eins og GeoSalmo ætlar að reisa í Þorlákshöfn, eru ferskt vatn, sjór, heitt vatn, raforka og fóður.

Bjarki segir að á fullum afköstum sé áætlað að hámarks vatnsþörf sé 750 lítrar á sekúndu af fersku vatni, 18.500 lítrar á sekúndu af sjó og átta lítrar á sekúndu af heitu vatni.

„Í fullbyggðri stöð þarf um 28.800 tonn af fóðri á ári. Við leggjum áherslu á innlent hráefni. GeoSalmo stefnir að því að versla fóður frá íslenska framleiðandanum Laxá. Enn fremur hefur fyrirtækið lagt áherslu á það við fóðurframleiðendur að beina markaðssetningu sinni að Íslandi, þar sem íslenskt afgangshráefni sem flutt eru út í dag getur nýst í laxafóður.

BioMar, sem er einn af þremur stærstu fóðurframleiðendum heims, hefur ásamt Síldarvinnslunni tilkynnt um áform sín í þessa veru og fleiri eru að kanna möguleikana. Að því marki sem erlend plöntuhráefni væru nýtt til þeirrar fóðurframleiðslu væri skilyrði um að þau væru upprunavottuð.

Sjálfbært hráefni til fóðurgerðar

Bjarki segir mikla þróun vera í gangi í framleiðslu á sjálfbærum hráefnum fyrir laxafóður – og GeoSalmo fylgist vel með henni. „Með fóðri frá Laxá eða nýrri verksmiðju BioMar verður kolefnisspor þess fóðurs sem GeoSalmo nýtir með því allra lægsta sem um getur í nokkru dýrafóðri, enda ekki um að ræða flutninga á hráefnum eða fullunnu fóðri milli landa.

Vatn kemur úr grunnvatnsauðlind á svæðinu sem mun verða borað eftir – bæði jarðsjó sem og fersku vatni en mikill meirihluti vatns sem nýttur verður í stöðinni verður sjór.

Stefnt er á samning við Landsvirkjun til kaupa á rafmagni en reiknað er með að eldið þurfi um 25 megavött á ári.“

Rask á hrauni helstu neikvæðu umhverfisáhrifin

GeoSalmo hefur markað sér þá umhverfisstefnu að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið frá sinni starfsemi, nýta auðlindir á ábyrgan hátt og endurnýta úrgang eins og hægt er. Fyrirtækið aðhyllist hugmyndir um hringrásarhagkerfið.

Bjarki segir að helstu neikvæðu umhverfisáhrif af GeoSalmo stöðinni verði landnýtingin og raskið á hrauninu á svæðinu þar sem stöðin verður byggð. „Svæðið er þó skipulagt sem iðnaðarsvæði á deiluskipulagi sveitarfélagsins og því áætlanir um að nýta það hvort sem það er GeoSalmo eða eitthvað annað. Töluvert þarf af vatni í svona starfsemi og mun það koma úr grunnvatni, bæði jarðsjór og ferskvatn. Samlegðaráhrif vatnsvinnslu á svæðinu getur skapað niðurdrátt í grunnvatnsgeyminum sem gæti verið „óæskilegt“ en þess vegna hefur verið komið á samvinnu milli hagaðila á svæðinu um að vakta þessa mikilvægu auðlind.

Þá liggur stærsti hluti kolefnisfótspors fiskeldis í fóðrinu og með því að versla innanlands frá fóðurframleiðanda sem nýtir innlent hráefni eins og hægt er má minnka það mjög mikið.“

Kostir og gallar landeldis og sjóeldis

Þegar Bjarki er spurður um muninn á landeldi og sjóeldi, segir hann að báðar aðferðirnar hafi kosti og galla – önnur komi ekki endilega í stað hinnar. „Fiskeldi á landi veitir augljóslega möguleikann á að stýra umhverfisaðstæðum nær fullkomlega þar sem sjóeldið stjórnast mikið af duttlungum náttúrunnar. Þar á móti þarf að kosta til miklu landrými og öðrum auðlindum, ásamt fjármagni, til þess að öðlast þessa stjórn.

Sjóeldi býr að því að þurfa ekki land en kvíar í sjó rúma töluvert fleiri rúmmetra en ker á landi og vegna takmarkana á stjórn umhverfisins er nauðsynlegt í sjóeldi að velja staði þar sem straumar og súrefni eru náttúrulega fyrir hendi en þar sparast orka. Óneitanlega er einnig mun minni líkur á og auðveldara að sporna við slysasleppingum úr landeldi en úr sjóeldi eins og staðan er í dag.

Það er auðveldara líka að hafa stjórn á sjúkdómavaldandi veirum og bakteríum í landeldi. Það er til dæmis hægt að meðhöndla vatn áður en það nær til fiskanna í landeldi og fiskurinn er yfirleitt bólusettur við helstu sjúkdómavaldandi bakteríum sem bóluefni er til við.

Það er líka hægara að meðhöndla sjúkdóma sem koma upp í landeldi og varna útbreiðslu úr einu kari til annars. Í sjóeldi er mun erfiðara að eiga við slíkt en þar er nokkuð opið á milli kvía.“

Bjartsýnn á framtíðina innan BÍ

Bjarka líst gífurlega vel á að vera komin í BÍ, enda séu GeoSalmo og aðrir í fiskeldi vissulega bændur.

„Hjá okkur verður alinn fiskur á landi sem gerir okkur kleift að safna skít og fóðurleifum sem til verður í framleiðslunni. Slíkt hráefni getur síðan nýst í áburð í öðrum landbúnaði.

Við sjáum því fyrir okkur að til framtíðar séum við og önnur eldisfyrirtæki góð viðbót í BÍ og matvælaframleiðslu á Íslandi og þegar fram líða stundir órjúfanleg frá heildinni.“

Skylt efni: Fiskeldi | GeoSalmo

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...