Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Hvort ert þú svartur fugl eða fljúgandi myrkur?“ spyr Kristján frá Djúpalæk hrafninn í einu ljóða sinna. Krummi á ferð um vetur.
„Hvort ert þú svartur fugl eða fljúgandi myrkur?“ spyr Kristján frá Djúpalæk hrafninn í einu ljóða sinna. Krummi á ferð um vetur.
Mynd / Sigurður Ægisson
Líf og starf 12. desember 2022

Einstakur karakter og bráðgreindur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hrafninn eftir séra Sigurð Ægisson er ein af áhugaverðari bókunum sem komið hafa út á þessu ári. Í bókinni rekur höfundur sögur af hrafninum með þjóðinni allt frá því að hann leiddi Flóka Vilgerðarson upp að Íslandsströndum.

Sigurður Ægisson, guðfræðingur og þjóðfræðingur.
Mynd / Mikael Sigurðsson

Sigurður segir að svo langt sem hann muni hafi hann haft áhuga á fuglum og í seinni tíð þjóðfræði þeim tengdri og ekki síst hrafninum, sem hefur fylgt þjóðinni allt frá landnámi og jafnvel fyrr. „Ég hef lengi haft áhuga á krumma, því mér hefur alltaf fundist hann bera af öðrum fuglum að svo mörgu leyti. Einstakur karakter og bráðgreindur.

Jón, bróðir minn, og vinir hans voru með nokkra hrafnsunga í haldi á Siglufirði þegar ég var krakki og þá komst ég nær þeim og fékk að kynnast þeim betur en úr fjarlægð. Það var eftirminnilegt og kveikti í raun það bál sem síðan hefur logað í hjarta mínu fyrir þessum einstaka fugli og ég hef í mörg ár gefið hröfnum reglulega yfir vetrartímann.“

Tíunda bók höfundar

Sigurður Ægisson er guðfræðingur og þjóðfræðingur að mennt. Hann hefur í gegnum tíðina skrifað jöfnum höndum greinar í blöð og tímarit, hér á landi sem erlendis, um guðfræði, náttúrufræði, sagnfræði og þjóðfræði og margt fleira. Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin, er tíunda bók hans.

Á meðal gáfuðustu dýra

Að sögn Sigurðar var það, samkvæmt rituðum heimildum, hrafn sem leiddi Flóka Vilgerðarson upp að Íslandsströndum og því til sögur og sagnir um krumma allt frá níundu öld. „Ég hef unnið að söfnun heimilda fyrir þessa bók í aldarfjórðung og safnað ýmsum upplýsingum af þessum blakka spekingi á þeim tíma.“

Krummi veit lengra nefi sínu og löngum tengdist hann myrkraöflunum og ekki var laust við að galdramenn notuðu parta úr búki hans í kukli sínu. Vísindin telja hann reyndar á meðal gáfuðustu dýra sem þessa reikistjörnu byggja og þjóðtrúin segir hann geta orðið 900 ára.

Hrafnar komu við sögu þegar taka átti Svein Björnsson (um 1596–1648) af lífi í Rauðsdalsskörðum á Barðaströnd á 17. öld, fyrir galdra og annað misjafnt. „Þetta eru vinir mínir,“ er haft eftir Sveini. En þegar hrafnarnir fóru allt í einu að krunka einni röddu: „Tág, tág“, á Sveinn að hafa sagt: „Nú ætla þeir að svíkja mig.“ Skildu böðlar hans þá krunkið og sendu eftir viðartágum þeim, sem hinn dæmdi var loks hengdur í. Pennateikning eftir Ragnar Lárusson (1935–2007), frá 1961. Mynd / Timarit.is
Hrafnaþing og bæjarhrafnar

Sagt er að hrafnar haldi hrafnaþing á haustin og skipi sér niður á bæi yfir veturinn og leita því á náðir manna þegar hart er í ári og jarðbönn eru.

Í bókinni kemur fram að samkvæmt sumra manna sögn haldi hrafnar þing tvisvar á ári, vor og haust. Á vorþingum semja þeir sín á milli hvernig skuli hegða sér á sumrin, en almenn sögn er það að þeir haldi reglulegt hreppamót á haustin. „Á haustþingum skipa þeir sér niður á bæi tveir og tveir, karlhrafn og kvenhrafn, og er það kallað að þeir „setji niður“ eins og sveitanefndir skipa hreppsómögum í niðursetu um hreppinn. En fari svo að ekki verði jafnmargir karlhrafnar og kvenhrafnar á sama hrafnaþingi er sagt að hinir hrafnarnir leggist allir á hinn staka að þinglokum, elti hann og drepi hvort sem nokkur bær er til fyrir hann til niðursetu eða ekki. Hrafnar þeir sem niður eru settir á hvern bæ eru ýmist kallaðir „heimahrafnarnir“ eða „bæjahrafnarnir“.

Fugl Óðins og hrafnamál

Sigurður rifja upp í bókinni að hrafninn sé fugl Óðins. „Hrafninn var fugl Óðins og var helgaður honum; því er Óðinn kallaður hrafnaguð. Huginn og Muninn sitja á öxlum honum, og segja í eyru honum öll tíðindi, er þeir sjá og heyra.“

Hann segir einnig að sú hafi verið tíðin að mönnum hafi þótt hámark mannlegrar speki að skilja hrafnamál, enda urðu hinir vísu menn, er það höfðu numið, margs áskynja um orðna hluti og óorðna, sem öðrum voru huldir.

Hrafninn frá mörgum hliðum

Í bókinni Hrafninn – þjóðin, sagan, þjóðtrúin fjallar Sigurður um hrafninn frá mörgum hliðum og leitar víða fanga og niðurstaðan er sú að hrafninn er engum öðrum fugli líkur.

Í einum af þremur viðaukum bókarinnar er svo að finna allar íslenskar þýðingar sem vitað er um, sjö að tölu, á hinu magnaða kvæði Edgars Allans Poes, The Raven. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.

Skylt efni: Bækur | bókaútgáfa

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 14. júní 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Nýr listrænn stjórnandi
Líf og starf 11. júní 2024

Nýr listrænn stjórnandi

Celia Harrison er nýr listrænn stjórnandi Skaftfells, listamið-stöðvar Austurlan...

Hrossagaukur
Líf og starf 11. júní 2024

Hrossagaukur

Hrossagaukur er meðalstór og nokkuð algengur vaðfugl. Það er áætlað að hér séu y...

Geitur til gleði og nytja
Líf og starf 10. júní 2024

Geitur til gleði og nytja

Á Lynghóli í Skriðdal er myndarbýli með um 350 fjár, 80 geitum og 60 nautum. Þeg...

Þörungar, þang og þari
Líf og starf 10. júní 2024

Þörungar, þang og þari

Aukin vakning hefur verið undanfarin ár í vinnslu heilsuafurða úr þörungum, þar ...

Þegar Siggi Dan vann Larsen
Líf og starf 10. júní 2024

Þegar Siggi Dan vann Larsen

Í maí árið 1972 tefldi danski stórmeistarinn Bent Larsen fjöltefli í sænsku borg...

Snillingar og hálfvitar
Líf og starf 7. júní 2024

Snillingar og hálfvitar

Bridds er skemmtileg hugaríþrótt sem reynir á rökhugsun, minni, stærðfræði, taln...

Rafbók um býflugur
Líf og starf 7. júní 2024

Rafbók um býflugur

Ingvar Sigurðsson, býflugnabóndi í Hveragerði, gefur út 130 síðna rit um býflugn...