Að landa vonlausum samningi
Hafi maður nokkru sinni séð vonlausan samning skríða heim var það í fyrstu umferð úrslita Íslandsmótsins í sveitakeppni þegar Sævar Þorbjörnsson í sveit Karls Sigurhjartar kom þremur gröndum heim gegn Vigni Haukssyni og Gunnlaugi Sævarssyni í sveit Hótels Norðurljósa. Austur gefur – allir á hættu.
Sævar spilaði samninginn í norður. Vestur hafði hindrað í hjarta og út kom hjartakóngur hjá austri og meira hjarta. Vignir Hauksson sat í vestur, hann drap með ásnum og spilaði tígli í þriðja slag. Sagnhafi hélt áfram með tígulinn í fjórða slag. Vörnin er nú komin með tvo tígulslagi, sagnhafi einn tígulslag en annar til reiðu í holu. Nú eru fyrir sagnhafa í augsýn þrír laufslagir, einn hjartaslagur, tveir á spaða og tveir á tígul. Sem er ekki nóg. Enn vantar einn slag.
Sævar sá að möguleiki væri á að hægt yrði að skvísa austur í svörtu litunum ef skipting spilanna væri þannig. Hann tók rauðu slagina tvo og spilaði svo öllum svörtu háspilunum, slag eftir slag. Gunnlaugur í austur varð um síðir að kasta frá sér valdinu. 9. slagurinn í húsi – þrátt fyrir óleguna í laufi í sögulegu spili. Vörnin gat gert betur en mjög vel spilað hjá Sævari og kennir okkur að gefast aldrei upp.