Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
„Mér hefur hvergi litið betur en í kringum skepnur en vissi auðvitað að fleiri störf væru til skemmtileg en að vera bóndi. Mér líður mjög vel í þessu starfi,“ segir Sigurgeir Hreinsson. Hann söðlaði um á liðnu ári, hætti búskap á jörð sinni Hríshóli í Eyjafjarðarsveit sem hann hafði stundað í ríflega 30 ár og tók við stöðu framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Eyjafjarðar. 
„Mér hefur hvergi litið betur en í kringum skepnur en vissi auðvitað að fleiri störf væru til skemmtileg en að vera bóndi. Mér líður mjög vel í þessu starfi,“ segir Sigurgeir Hreinsson. Hann söðlaði um á liðnu ári, hætti búskap á jörð sinni Hríshóli í Eyjafjarðarsveit sem hann hafði stundað í ríflega 30 ár og tók við stöðu framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Eyjafjarðar. 
Mynd / MÞÞ
Gamalt og gott 17. ágúst 2023

Úr sarpi Bændablaðsins: Kom snemma í ljós að ég ætlaði að verða bóndi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Mér hefur hvergi litið betur en í kringum skepnur, en vissi auðvitað að fleiri störf væru til skemmtileg en að vera bóndi. Mér líður mjög vel í þessu starfi,“ segir Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar.

Hann söðlaði um á liðnu ári, hætti búskap á jörð sinni Hríshóli í Eyjafjarðarsveit sem hann hafði stundað í ríflega 30 ár, flutti heimili sitt eilítið norðar í sama sveitarfélagi, í þéttbýlið við Hrafnagil en starfar á Akureyri, í húsakynnum Búnaðarsambandsins við Óseyri. „Það var auðvitað ekki sjálfgefið að mér féllu þessu miklu umskipti, að sinna störfum að mestu leyti við skrifborð þegar maður hefur vanist því að vera sjálfs síns herra á eigin jörð í meira en þrjá áratugi. Það hefur verið mikið að gera, hvert verkefnið á fætur öðru komið upp sem þarf að takast á við, svo það er í nógu að snúast.“

Fjallganga er eitt helsta áhugamál Sigurgeirs og Bylgju Sveinbjörnsdóttur eiginkonu hans. Hér eru þau á liðnu sumri í Kerlingarfjöllum.

Sigurgeir flutti að Hríshóli 1. júní árið 1961, daginn eftir tveggja ára afmæli sitt. Foreldrar hans keyptu jörðina og byggðu hana upp. Ættir sínar rekur Sigurgeir til Suður-Þingeyjarsýslu en þaðan eru bæði móðir hans, Erna Sigurgeirsdóttir, og faðir, Hreinn Kristjánsson, Erna frá Arnstapa í Ljósavatnsskarði og Hreinn frá Svartárkoti í Bárðardal. Margir af afkomendum afa og ömmu Sigurgeirs í móðurætt fluttu í Eyjafjörð og byggðu þar upp sínar jarðir. Afi hans og amma í föðurætt bjuggu í Svartárkoti, en Kristján afi hans lést fyrir aldur fram og hafði fyrir andlátið gert ráðstafanir og beðið bróður sinni búsettan í Eyjafirði að finna jörð þar í sveit fyrir konu sína og börn. Ekkjan hélt ásamt börnum sínum, því yngsta 9 ára að Öxnafellskoti, sem nú heitir Fellshlíð. Elstir voru synirnir, Jón örlítið yfir tvítugt og Hreinn sem var 18 ára. Þeir bræður byggðu Fellshlíð upp, þar með talið öll hús og bjuggu þar félagsbúi til ársins 1961.

Aldrei kom annað til greina en að verða bóndi

„Ég held það hafi snemma verið ljóst að hugur minn stefndi í þá átt að verða bóndi, ég hafði eiginlega ekki áhuga fyrir neinu nema skepnum og búskap,“ segir hann. Þegar verið var að spyrja börnin í skólanum hvað þau ætluðu sér að verða þegar þau yrðu stór vafðist mörgum tunga um tönn, en Sigurgeir og öll skólasystkin hans velktust ekki í vafa um að hann yrði bóndi. Eins og raunin varð. Hann segir að örsjaldan hafi hann látið sér detta eitthvað annað starf í hug. Eitt sinn þegar hann var ungur að árum kom Þráinn Karlsson leikari ríðandi heim á hlað í Hríshóli, „og mér fannst hann alveg ótrúlega flottur og lét mér til hugar koma eitt augnablik að verða leikari eins og hann. Svo man ég líka að föðurbróðir minn var smiður og reykti pípu, það fannst mér líka ógurlega töff og langaði að feta í hans fótspor. Af hvorugu varð,“ segir hann.

Séð yfir fjósið á Hríshóli.

Aldrei gert neitt annað ef frá er talin ein sláturtíð

Búskapurinn átti hug Sigurgeirs allan og ungur þekkti hann allar skepnur á bænum. Þá var hann fljótur að læra stærðir á túnum jarðarinnar, lá yfir túnkortum átta ára gamall og lærði utanbókar stærð á hverri einustu spildu. Það kom því ekki á óvart að Sigurgeir hélt til náms á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðingur þaðan. Að loknu námi starfaði hann tvívegis að sumarlagi í Noregi, fyrra sumarið í afleysingum fyrir fimm bændur og hið síðara á einum og sama bænum. Þá vann hann víðs vegar á Íslandi um skeið eða þar til hann rúmlega tvítugur að aldri settist að á Hríshóli og tók til starfa á búi foreldra sinna.

„Ég hef aldrei unnið við neitt annað en búskap, ef frá er talin ein sláturtíð þegar ég var í síðasta bekk í grunnskóla. Ég og vinur minn Árni Sigurðsson á Höskuldsstöðum ákváðum þá um haustið að fá okkur vinnu á sláturhúsinu á Akureyri og gerðum það. Við mættum svo bara í skólann eins og fínir menn 25. október. Ég veit nú ekki hvort þetta hafi verið vel séð, en við komumst upp með þetta.“

Séð heim að Hríshóli í Eyjafjarðarsveit.

Pabba þótti ég nægilega ráðsettur

Félagsbú um rekstur búsins að Hríshóli var stofnað um áramótin 1980 til 1981 með þátttöku Sigurgeirs og foreldra hans. Hann hafði þá starfað við búið frá því um haustið, var kominn með kærustu, Bylgju Sveinbjörnsdóttur frá Akureyri. Þau trúlofuðu sig um jólin 1980.

„Ætli pabba hafi ekki þótt þetta vísbending um að ég væri hættur flakkinu og nægilega ráðsettur,“ segir hann. Bylgja og Sigurgeir eiga þrjú börn: Elmar, sem er trésmiður og bóndi á Hríshóli, Ernu, iðnaðarverkfræðing í Reykjavík, og Eydísi, nema við Menntaskólann á Akureyri. Bylgja er klæðskeri og kjólasveinn að mennt og starfar sem verslunarstjóri hjá Föndru á Akureyri.

Ekkert hik á manni á þessum árum

Sigurgeir og Bylgja byggðu sér stórt íbúðarhús fljótlega eftir að þau settust að á jörðinni og voru sveitungar margir hverjir undrandi á stórhug þeirra. „Það þótti mörgum þetta býsna mikil bjartsýni hjá okkur og Bylgja hafði raunar aðeins nefnt hvort ekki væri ráð fyrsta kastið að fá leigt einhvers staðar í nágrenninu. En ég var ólmur í að byggja upp til framtíðar, elsta barnið okkar var þegar fætt og einhvern veginn var það svo á þessum árum að það var ekki neitt hik á manni,“ segir Sigurgeir.

Á Hríshóli hafa kýr verið í öndvegi, grunntekjur búsins hafa alla tíð komið frá mjólkurframleiðslunni, en einnig hefur verið búið með kindur, mest um 160 talsins.

Félagsbúið var rekið til ársins 1996 þegar foreldrar Sigurgeirs drógu sig í hlé og hættu búskap. Frá þeim tíma og þar til sumarið 2013 ráku Bylgja og Sigurgeir búið. Hin síðari ár ásamt Elmari syni sínum og sambýliskonu hans, Sunnu Axelsdóttur.

Í upphafi búskapar þeirra var fyrir á Hríshóli nýlegt 40 kúa fjós. Á árinu 2003 var svo byggt nýtt lausagöngufjós með mjaltaþjóni af De Laval-gerð. Sigurgeir segir búskap sinn hafa alla tíð einkennst af því að fylgjast með tækninýjungum á hverjum tíma og tilheyrandi framkvæmdum eða fjárfestingum. Þannig voru ábúendur á Hríshóli í hópi þeirra fyrstu til að prófa sig áfram með kornrækt og fjölmargar tilraunir hafa gerðar í jarðrækt um árin.

Barnabarnið Hlynur Snær Elmarsson, fimm ára, hefur gaman af búskapnum. Hér er hann á þreskivélinni þegar verið er að dæla korni yfir á vagninn.

Ekki fyrstur en oft annar!

„Ég held ég hafi prófað allt sem hægt er á þeim vettvangi, enda áhugasamur um að skoða þá kosti sem í boði eru og henta hér um slóðir. Það er mikilvægt að finna út hvað er hagkvæmt fyrir búskapinn, hvað gengur upp og hvað ekki. Þess vegna er nauðsynlegt að fylgjast vel með því sem er að gerast varðandi nýjungar á tæknisviðinu og í ræktun búfjár og jarðar. Geri menn það ekki er hætta á að þeir heltist úr lestinni og þá verður erfiðara að hoppa aftur upp á vagninn, skrefin verða stærri og erfiðari. Tækniframfarir eru yfirleitt til mikilla bóta, en ég hef haft fyrir venju að ríða ekki á vaðið, vera ekki fyrstur til að prófa eitthvað nýtt og þannig getað séð hvernig þetta kemur út hjá öðrum. Þetta er kannski ákveðin fyrirhyggja en oftast var ég fljótur til að prófa þær nýjungar sem í boði voru í búskapnum,“ segir Sigurgeir.

Flatgryfjur munu ryðja sér til rúms

Hann nefnir einnig að á árinu 2011 hafi verið steyptar út flatgryfjur á Hríshóli. Áður eða frá árinu 2007 var notast við útistæður og kom það að sögn Sigurgeirs það vel út að ákveðið var að steypa gryfjurnar.

„Við vorum í þeirri stöðu að ferbagga vélin okkar var að syngja sitt síðasta og stóðum því frammi fyrir því að hana þyrfti að endurnýja en einnig voru aðrir kostir í boði og við veltum þeim fyrir okkur áður en við tókum þessa ákvörðun. Það varð fyrir valinu að steypa út flatgryfjur og ég hygg að mögulega sé það ein besta aðferðin til að verka hey sem völ er á. Skilyrðið er þó að góð aðstaða sé fyrir hendi og sú var raunin heima á Hríshóli. Mér finnst líklegt að þessi aðferð eigi eftir að ryðja sér til rúms til framtíðar litið, kostir hennar eru margir. Heyskapur tekur skemmri tíma og mér þykja heygæðin betri en þegar verkað er í plast,“ segir hann.

Sigurgeir stundaði búskap í ríflega þrjá áratugi og segist þegar hann líti yfir farinn veg að sér þyki, „eins og maður hafi alltaf verið blankur en samt haft það alveg þokkalegt,“ eins og hann orðar það. Aldrei liðu mörg ár á milli stórra framkvæmda eða fjárfestinga í húsum, vélum og tækjum, „en ég ók aldrei um á dýrum bílum, mitt mottó í þeim efnum er að þeir séu ekki of gamlir og bili ekki of mikið, þá er ég sáttur“.

Blundaði í mér að prófa eitthvað nýtt Þá segist hann einnig sáttur við þá ákvörðun að hverfa frá búskap og takast á við önnur og ný verkefni. Hríshóll sé í góðum höndum, en að rekstrinum standa nú Elmar sonur hans í félagi við systur Sigurgeirs, Helgu Berglindi, og mág, Guðmund Óskarsson.

„Við veltum málum auðvitað vel fyrir okkur áður en við tókum þá ákvörðun að hætta. Annaðhvort yrðum við áfram bændur fram á elliár eða skiptum um starfsvettvang þegar möguleiki var á þokkalegri vinnu. Sú varð niðurstaðan, kannski ekki síst af því að jörðin er áfram í eigu fjölskyldunnar, það er gott að vita af sínu fólki á staðnum og gerir manni kleift að skjótast þangað í heimsókn hvenær sem færi gefst,“ segir Sigurgeir og líkir því að nokkru við afa- og ömmuhlutverkið.

„Við getum skroppið og tekið þátt í því sem skemmtilegt er og eins þegar á þarf að halda og farið svo bara heim!“ Bætir við að það hafa raunar blundað í sér um skeið að breyta til, prófa eitthvað annað og nýtt.

Flatgryfjur voru teknar í notkun á Hríshóli árið 2011, en þær eru 2,70 á hæð, 6,5 metrar á breidd og um 35 metra langar. Sigurgeir er þess fullviss að heyskaparaðferð af þessu tagi muni ryðja sér til rúms á komandi árum

Reynslubolti í félagsmálum

Sigurgeir hefur frá unga aldrei tekið þátt í félagsmálum og er mikill reynslubolti á þeim vettvangi. Lét fyrst til sín taka í ungmennafélagsmálum, sat í sveitarstjórn Saurbæjarhrepps og var þar oddviti áður en sveitarfélagið sameinaðist Hrafnagils- og Öngulsstaðahreppi og varð Eyjafjarðarsveit og þá hefur hann verið í stjórnum Búnaðarfélaga og ýmissa félaga annarra eins og Félagi sauðfjárbænda í Eyjafirði og Félagi kúabænda auk búnaðarsambandsins, Búnaðarþings og öllu sem því fylgir.

„Ég var nú alltaf af og til að lofa fjölskyldunni að hætta afskiptum mínum í þessum félagsmálum og stundum tókst það í smástund, en svo leið ekki að löngu þar til ég var komin á ný í eitthvert bras. Þetta félagsmálavafstur tekur tíma og kostar fjarveru frá heimili. en ég hafði alla tíð gaman af mannlegum samskiptum og það er auðvitað ómetanlegt að hafa kynnst öllu því góða fólki um land allt sem verið hefur með mér í þessu.“ 

Grein tekin úr 2. tölublaði Bændablaðsins árið 2014

Verðlaunagripir á kúasýningu
Gamalt og gott 5. apríl 2024

Verðlaunagripir á kúasýningu

Þann 31. ágúst 2002 var haldin kúasýningin Kýr 2002 í Ölfushöllinni. Þan...

Páskaeggjaframleiðslan á fullu
Gamalt og gott 28. mars 2024

Páskaeggjaframleiðslan á fullu

Árið 1979 voru framleidd tæplega fjögur hundruð þúsund páskaegg hérlendis, Íslen...

Mjólkurpóstur á Laugavegi
Gamalt og gott 22. janúar 2024

Mjólkurpóstur á Laugavegi

Mjólkurpóstur á Laugavegi í Reykjavík er myndin titluð og er frá árinu 1949. Þjó...

Heyflutningar
Gamalt og gott 12. desember 2023

Heyflutningar

Í mars það herrans ár 1966 stóðu pallbílar, fullfermdir af heyi við Bændahöllina...

Ullarflíkur frá Álafossi
Gamalt og gott 28. nóvember 2023

Ullarflíkur frá Álafossi

Hér sjást ullarflíkur frá Álafossi. Mynd tekin fyrir búnaðarblaðið Frey árið 198...

Kornskurður á Búlandi
Gamalt og gott 15. nóvember 2023

Kornskurður á Búlandi

Kornskurður á Búlandi í Austur-Landeyjum haustið 1981. Mynd sem birtist í þriðja...

MR búðin, Mjólkufélag Reykjavíkur, var stofnuð árið 1917
Gamalt og gott 31. október 2023

MR búðin, Mjólkufélag Reykjavíkur, var stofnuð árið 1917

MR búðin, Mjólkurfélag Reykjavíkur, var stofnuð árið 1917 og hefur selt í gegnum...

Helga á Engi í félagsskap „vina sinna“
Gamalt og gott 17. október 2023

Helga á Engi í félagsskap „vina sinna“

Mynd úr safni Bændasamtakanna. Með henni fylgir vélritaður miði sem á stendur: „...