Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Ryan Dennis er 29 ára Bandaríkjamaður hefur dvalið hér á landi í vetur að skrifa um aðstæður og reynslu íslenskra kúabænda.
Ryan Dennis er 29 ára Bandaríkjamaður hefur dvalið hér á landi í vetur að skrifa um aðstæður og reynslu íslenskra kúabænda.
Mynd / fr
Gamalt og gott 21. ágúst 2023

Úr sarpi Bændablaðsins: Ísland síðasta vígi fjölskyldubúsins

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Ísland gæti verið síðasta landið í heiminum þar sem venjulegt meðalstórt kúabú getur framfleytt fjölskyldu. Þetta er skoðun Ryan Dennis, 29 ára Bandaríkjamanns, sem dvalið hefur hér á landi í vetur við skriftir. Ryan er hér á Fulbright-styrk og snýst verkefni hans um að skapandi skrif um aðstæður og reynslu íslenskra kúabænda.

Ryan kom hingað til lands í september á síðasta ári og hefur síðan þá ýmist ferðast um landið og heimsótt kúabændur í lengri eða styttri tíma eða setið við skriftir. Hann stefnir að því að gefa út greinar sínar í bókmenntatímaritum og vonast síðan til þess að með því geti hann sannfært bókaútgefendur um að gefa skrif sín út á bók. Hann hefur skrifað um dvöl sína hér á landi í tímaritið Progressive Dairyman, sem gefið er út í þremur löndum auk þess sem það má finna á netinu.

Vill sýna fram á hag af stuðningi

En hvers vegna þessi áhugi á kúabændum og mjólkurframleiðslu hjá manni sem menntaði sig í skapandi skrifum?

„Ég er sonur kúabænda, ég er uppalinn á kúabúi í New York-ríki. Ég held að mín kynslóð hafi upplifað þá tíma þegar byrjaði að halla undan fæti í búskap í Bandaríkjunum, þegar fjölskyldubúin fóru að berjast í bökkum. Það rann upp fyrir mér að enginn hefur sagt þá sögu, um hvernig breyttir búskaparhættir hafa leikið kúabændur í Bandaríkjunum. Það má segja að sú uppgötvun hafi ýtt undir áhuga minn á skapandi skrifum og þá einkum skrifum um kúabúskap. Ég komst að því að mögulega er Ísland síðasta og eina landið í heiminum þar sem að 60 kúa bú getur framfleytt fjölskyldu. Þess vegna vildi ég koma hingað og segja sögu þeirra, hvað það þýðir að vera kúabóndi á Íslandi. Í stærra samhengi vonast ég eftir því að með skrifum mínum geti ég sýnt fram á, að einhverju leyti, hversu mikinn hag ríki og samfélög hafa af því að styðja við bændur líkt og gert er hér á landi, efnahagslegu og félagslegu tilliti.“

Íslenskt meðalbú framfleytti ekki fjölskyldu í Bandaríkjunum

Ryan segir að hann telji vonlaust að kúabú, sem er af meðalstærð hér á landi, gæti framfleytt fjölskyldu í Bandaríkjunum.

„Ekki við núverandi pólitískar og efnahagslegar aðstæður. Á búi foreldra minna eru 60 kýr en það er varla að það nái endum saman og þó vinnur mamma úti. Ég held að styrkjakerfið sem þið búið við hér á landi skipti gríðarlegu máli. Ég hef þó ekki gögn á bak við mig en ég tel svo vera og auk þess tel ég að kvótakerfið sem hefur, fram til þessa, skapað jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar hafi einnig mikið að segja varðandi afkomu kúabænda hér á landi. Í Bandaríkjunum er ekkert slíkt upp á tengingunum. Ég held í raun og veru að þessi skrif mín verði ákveðinn lofsöngur um íslenska kerfið, í samanburði við önnur landbúnaðarkerfi, líkt og í Bandaríkjunum. Ég fæ á tilfinninguna að það sé bara gott að vera kúabóndi hér á landi.“

KS var hjálplegt

Þegar Ryan kom til landsins hafði hann fáa tengiliði og að sumu leyti óljósa hugmynd um hvernig hann gæti borið sig að við að safna efnivið í skrif sín.

„Ég var í sambandi við Lands­samband kúabænda og Landbúnaðar­háskólann á Hvanneyri. En í raun og veru gerðist þetta þannig að ég fór að hringja í kúabændur, nánast með handahófskenndum hætti, og spyrja þá hvort þeir gætu hugsað sér að leyfa mér að heimsækja þá. Þeir bændur sem ég heimsóttu voru mér síðan hjálplegir við að finna aðra bændur sem tóku á móti mér.

Ég dvaldi á átta kúabúum, í um það bil fjóra daga á hverjum stað. Mér fannst það hæfilegur tími til að kynnast bændunum en ekki svo langur að þau yrðu dauðleið á mér. Í ofanálag heimsótti ég svo um 15 önnur kúabú í styttri heimsóknum. Flest þeirra voru í Skagafirði og Eyjafirði vegna þess að menn hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga voru mér mjög hjálplegir og útveguðu mér upplýsingar um kúabændur sem ég gæti haft samband við.“

Búskapur hér tæknivæddur og þróaður

Búin sem Ryan heimsótti voru af öllum gerðum, allt frá hefðbundnum básafjósum til nýtískulegra mjaltaþjónafjósa. Að mati Ryans er íslenskur búskapur mun tæknivæddari og þróaðri en í heimalandi hans.

„Það er mjög athyglisvert að sjá þróunina sem á sér stað hér á landi í uppbyggingu mjaltaþjónafjósa. Í Bandaríkjunum trúa menn mér ekki þegar ég segi þeim hversu algengir mjaltaþjónar eru að verða hér. Það er tækni sem er sáralítið notuð í Bandaríkjunum. Menn telja að þeir séu það dýrir að ekki séu forsendur fyrir kaupum á þeim og líklega hafa bændur rétt fyrir sér, vegna þess hversu óstöðugur markaður er með mjólkurvörur í Bandaríkjunum. Þar úti er málið líka leyst með ódýru vinnuafli, í mörgum tilfellum ólöglegu.“

„Leyfðu mér að spyrja konuna mína“

Ryan er afar ánægður með dvölina hér og móttökurnar, sem og það efni sem hann hefur viðað að sér. „Það sem mér finnst ótrúlegast er að ég gat í raun og veru hringt í ókunnugt fólk og sagt: „Hæ, ég er útlendingur sem þú þekkir ekki neitt. Mætti ég koma og dvelja hjá þér um hríð?“ Svarið var alltaf það sama: „Leyfðu mér að spyrja konuna mína.“ Svo hringdi ég tveimur dögum síðar og var þá bara spurður hvenær ég vildi koma. Þetta er alveg ótrúlegt og ekki líkt nokkru sem ég hef kynnst annars staðar, ekki í Bandaríkjunum, ekki í Þýskalandi, ekki í Írlandi. Ég áttaði mig á að þetta væri ekki vegna þess að þetta fólk vildi fá nafnið sitt í bók heldur vegna þess að hér býr gott fólk sem vill rétta öðrum hjálparhönd en ekki síður vegna þess að fólkið skyldi gildi þess að segja sögu sína, sögu búskapar og búsins. Það var ákaflega skemmtilegt að kynnast því hversu vel fólk er heima í sinni eigin sögu, sögu bæja, héraða og landsins í kringum sig. Það fannst mér afar spennandi.“

Vill sýna fjölbreytileikann

Skrif Ryans eru persónuleg að því leyti að hann tekur sína eigin upplifun af dvölinni og færir í búning. „Þetta eru ekki staðreyndaskrif eða gagnaskrif. Ég finn mér einhvers konar þema sem ég hef gegnumgangandi í hverri frásögn og skrifa í kringum það. Á einum bænum sem ég dvaldi á voru ábúendur ásatrúar og voru að byggja hof til heiðurs Óðni. Það var auðvitað þema sem ég nýtti mér með því að tengja saman trúarbrögð og landbúnað en einnig með því að sýna fram á fjölbreytileikann í bændastétt. Í Bandaríkjunum er viðtekin skoðun að bændur séu í meginatriðum eins, allri steyptir í sama mót. Að þeir gangi um í gallabuxum, köflóttum skyrtum og keyri um á pallbílum. Með þessum skrifum er ég meðal annars að varpa ljósi á fjölbreytileikann.“

Talað um bændur

Ryan segist sömuleiðis hafa mikinn áhuga stöðu kvenna í íslenskum landbúnaði. Hann sé enda femínisti, eins og allt fólk sem reyni að vera framsækið og frjálslynt hljóti að vera.

„Ég fæ það sterkt á tilfinninguna að hlutverk kvenna hafi og sé mun meira og sterkara í landbúnaði en víða annars staðar í þjóðfélaginu. Sumir segja að mögulega megi rekja þá stöðu allt til víkingaaldar, þegar menn börðust í herförum en konur höfðu umsjón með búskap. Kvenskörungar í bændastétt, sterkir persónuleikar, hafa augljóslega haft mikil áhrif á búskap og hafa enn. Ísland er fyrsta landið þar sem ég kynnist því að ekki sé talað um bónda og konu hans heldur um bændur.“/fr

Verðlaunagripir á kúasýningu
Gamalt og gott 5. apríl 2024

Verðlaunagripir á kúasýningu

Þann 31. ágúst 2002 var haldin kúasýningin Kýr 2002 í Ölfushöllinni. Þan...

Páskaeggjaframleiðslan á fullu
Gamalt og gott 28. mars 2024

Páskaeggjaframleiðslan á fullu

Árið 1979 voru framleidd tæplega fjögur hundruð þúsund páskaegg hérlendis, Íslen...

Mjólkurpóstur á Laugavegi
Gamalt og gott 22. janúar 2024

Mjólkurpóstur á Laugavegi

Mjólkurpóstur á Laugavegi í Reykjavík er myndin titluð og er frá árinu 1949. Þjó...

Heyflutningar
Gamalt og gott 12. desember 2023

Heyflutningar

Í mars það herrans ár 1966 stóðu pallbílar, fullfermdir af heyi við Bændahöllina...

Ullarflíkur frá Álafossi
Gamalt og gott 28. nóvember 2023

Ullarflíkur frá Álafossi

Hér sjást ullarflíkur frá Álafossi. Mynd tekin fyrir búnaðarblaðið Frey árið 198...

Kornskurður á Búlandi
Gamalt og gott 15. nóvember 2023

Kornskurður á Búlandi

Kornskurður á Búlandi í Austur-Landeyjum haustið 1981. Mynd sem birtist í þriðja...

MR búðin, Mjólkufélag Reykjavíkur, var stofnuð árið 1917
Gamalt og gott 31. október 2023

MR búðin, Mjólkufélag Reykjavíkur, var stofnuð árið 1917

MR búðin, Mjólkurfélag Reykjavíkur, var stofnuð árið 1917 og hefur selt í gegnum...

Helga á Engi í félagsskap „vina sinna“
Gamalt og gott 17. október 2023

Helga á Engi í félagsskap „vina sinna“

Mynd úr safni Bændasamtakanna. Með henni fylgir vélritaður miði sem á stendur: „...