Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Líf&Starf 16. nóvember 2016
Forystu-Svartur í blindbyl á Hellisheiði
Bókin Forystufé eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp er nú komin út í endurbættri og aukinni útgáfu en þetta hálfsjötuga rit er löngu orðið að leiðarsteini í íslenskri búfjárrækt.
Hetjusögur Ásgeirs og samstarfsmanna hans af hinum miklu vitskepnum, vinum þeirra sauðamönnunum og harðfengi sauðkindarinnar í erfiðum aðstæðum eru einstakt lesefni. Bændablaðið grípur hér ofan í frásagnir bókarinnar af fjárrekstri yfir Hellisheiði. Það er fræðimaðurinn Helgi Haraldsson á Hrafnkelsstöðum sem hér heldur á penna og hann slær jafnframt botninn í bókina eins og hún var í útgáfunni frá 1953. Millifyrirsagnir eru Bændablaðsins.
Í sögu þessari er Helgi með um 1.300 fjár í sláturrekstri til Reykjavíkur haustið 1926, meirihlutinn lömb. Svartur sauður tók forystuna í rekstrinum en hann var sonur Golta, sem Helgi hafði keypt af Jóni bónda á Einarsstöðum í Reykjadal. Rekstrarmenn stytta sér leið um Hellisskarð ...
Enginn tími fyrir ástarævintýri!
„... Var það einmitt í Hellisskarði, sem Kolviður sat fyrir Búa Andríðarsyni, sem segir í Kjalnesinga sögu, og féll þar Kolviður fyrir Búa. Dregur Kolviðarhóll nafn sitt af honum. En steinninn, sem Búi varðist við, stendur þar enn í hlíðinni og minnir á biðlana, sem þarna börðust til forna.
En þetta umgetna kvöld var enginn tími til að láta hugann dvelja við tíu alda gamalt ástarævintýri, sem endaði með skelfingu. Nú var það aðeins blákaldur veruleikinn, sem blasti við, og hann var á þá leið, að við vorum úti á Hellisheiði með á annað þúsund fjár í mokandi snjókomu, eins og hún getur mest verið, þegar snjó hleður niður í logni og frostleysu.
Byrjaði að snjóa, þegar kom efst í Kamba, en við héldum, að þetta væri aðeins él eitt og fórum styttri leiðina, eins og venjulegt var. Snjónum hlóð svo niður jafnt og þétt alla leiðina. Kom nú vel í ljós, hvað það hafði að þýða að hafa Svart í fararbroddi, því að hann rann alltaf jafn vel á undan, þó að færðin versnaði. Þegar kom að efra skarðinu, ofan við Kolviðarhól, var að byrja að bregða birtu og snjórinn orðinn hvorki meira né minna en vel á hnéskel á manni.
Þarna úr skarðinu og heim á Hólinn er slitróttur vegur, grjótskriður til beggja handa og víða stórgrýti, sem oft hefur reynzt fulltorveld leið með þreytt fé, þó að auð jörð væri, sem venjulegast er, þegar rekið er á haustin.
Var nú stanzað þarna og ráðið ráðum sínum, og sýndist flestum, að hér yrði að láta staðar numið, því að engin tök væru á að reka fé í hópi í þessari færð á þeim vegi, sem fram undan var. Og undir öllum venjulegum kringumstæðum var þetta hárrétt. En ekki þótti okkur það efnilegt að eiga að liggja þarna úti um nóttina með féð.
Meira en kílómetra löng fjárlest niður Hellisskarðið
Mér kom samt í hug að gera eina tilraun og reyna nú til þrautar forystuna í Svarti og til hvers hann dygði. Bað ég tvo mennina að fara á undan og gera braut þar, sem þeim sýndist greiðfærast, og vita, hvort Svartur tæki ekki í brautina á eftir þeim.
Ekki höfðu þeir lengi farið, þegar Svartur lagði af stað, og nokkrir sauðir lestuðu sig á eftir honum og myndaðist þarna braut, sem allt féð lestaði sig eftir. En hvergi var nema ein kind, því að brautin rúmaði ekki meira, og þegar fyrstu sauðirnir komu að túngarðinum á Kolviðarhóli, þá voru síðustu kindurnar að leggja af stað úr Skarðinu.
Ekki veit ég fyrir víst, hvað þetta er löng leið, en ekki þætti mér ólíklega til getið, að það væru jafn margir metrar og kindurnar voru í hópnum, þannig að ein kind hafi verið á hverjum metra. Þannig þokaðist reksturinn áfram, þótt hægt færi, þar til allt var komið í hóp við túngarðinn. Þar var því borgið, og við máttum sjálfir leita náttstaðar á þeim ágæta stað, Kolviðarhóli. Býst ég við, að engum, sem þarna var, muni úr minni líða þessi langa fjárlest, sem þokaðist áfram í kvöldhúminu yfir fannbreiðuna og var, eins og skuggar væru að læðast áfram.
Ekki voru nein þreytumerki á Svarti að sjá, en af honum rauk, svo heitur var hann eftir að troða brautina þessa löngu leið.
Ég er þess fullviss, að ef hann hefði verið uppgefinn, þá hefðu nógar hendur boðist til þess að bera þessa hetju dagsins heim á Hólinn. Tókum við nú Svart með okkur heim, til þess að hann þyrfti ekki að liggja úti um nóttina. Mættum við Sigurði, gestgjafa á Kolviðarhóli, á hlaðinu, og tók hann okkur tveim höndum, sem hans var venja. Var hann orðinn alvarlega hræddur um okkur, því að hann frétti í símanum, að við hefðum lagt á heiðina. Hafði hann ljós í hverjum glugga, sem að skarðinu vissi, til þess að vísa okkur leið. Sagðist hann hafa búizt við, að eitthvað af mönnunum kæmist alla leið, en engin kind.
Forystusauðurinn leiddur til stofu á Kolviðarhóli
Sögðum við nú ferðasöguna í stuttu máli, og sýndum Sigurði þann svarta, sem var sá þrettándi í hópnum, og var ekki við annað komandi, en að við kæmum með hann með okkur inn í stofu, og þar fékk hann brauð, eins og hann vildi.
Þarna um kvöldið var það samþykkt einum rómi, að Svartur endaði ekki ævi sína í þessari ferð, ef hann fengi bílferð heim aftur, sem og varð. Fannst okkur ekki hægt að launa minna þetta afrek á Hellisheiði, því að um það voru allir á einu máli, að án hans hefðum við legið úti með allan reksturinn uppi á miðri heiði.
Morguninn eftir tók svo Svartur við forystunni á nýjan leik og var léttstígur niður Vellina eftir hvíldina og allt brauðið.
Svartur varð ellefu vetra og var alltaf jafn öruggur í hverri raun og fór fleiri ferðir en þessa til Reykjavíkur, og vildu menn heldur hans fylgi, en þótt maður væri, og læt ég þetta nægja um Svart að sinni, þó að fleira mætti til tína.“
Hinn dýri pappír þjóðarbúsins!
Helgi á Hrafnkelsstöðum segir síðan fáeinar sögur til viðbótar en slær svo botninn í með eftirfarandi ádrepu sem kann að koma nútímamönnum spánskt fyrir sjónir: Ég hef nú sagt frá þremur kindum undan Golta gamla, og málshátturinn segir, „að allt er, þá þrennt er“. Læt ég því staðar numið, þó að ég gæti sagt fleiri sögur af börnum Golta. En þar sem þær taka þessum sögum ekki fram, finnst mér óþarfi að eyða dýrmætum tíma frá lesendunum til þess að lesa þær, og dýrum pappír frá þjóðarbúinu, enda hefi ég haft öðrum hnöppum að hneppa um dagana en eyða pappír. Og læt ég svo staðar numið.“