Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Keldnalandið.
Keldnalandið.
Mynd / Jenna Film
Fréttir 10. september 2021

Vilja að tilraunastöðin á Keldum verði flutt

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nokkur óvissa hefur verið um framtíð tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum sem starfrækt hefur verið á Keldum í Reykjavík í um 70 ár.

Nú hefur bæjarráð Ölfuss samþykkt að fela bæjarstjóra að óska eftir viðræðum við menntamálaráðherra um að tafarlaust verði hafist handa við að finna stofnuninni heppilega lóð í sveitarfélaginu.

Tilraunastöðin á Keldum sinnir meðal annars rannsóknum, þjónustu og vöktun á dýrasjúkdómum og þjónustu við landbúnað og fiskeldi.

Land tilraunastöðvarinnar ætlað að fjármagna borgarlínu

Starfsemin er nú í uppnámi þar sem ríkið hefur samþykkt að færa eignarhald á landi Keldna undir félagið „Betri samgöngur“ til að fjármagna borgarlínu.
Af þessu tilefni hefur bæjarráð Ölfuss samþykkt að fela bæjarstjóra að óska eftir viðræðum við menntamálaráðherra með það að leiðarljósi að stofnunin flytji alla sína starfsemi í Ölfusið á næstu þremur árum.

Hveragerðisbær bendir á Reyki

Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur tekið undir bókun bæjarráðs Ölfuss og vill að starfsemin á Keldum verði flutt að Reykjum í Ölfusi þar sem Landbúnaðarháskóli Íslands er með garðyrkjustarfsemi sína þar í dag.

Í bókun bæjarráðs Hveragerðis­bæjar vegna málsins segir til dæmis:

„Bæjarráð samþykkir tillöguna samhljóða og felur bæjarstjóra að kynna hana fyrir öllum sem koma að umræddu máli og jafnframt að benda aðilum á að á svipuðum slóðum, eða í Keldnaholti, fer fram viðamikil starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands sem einnig er í uppnámi verði áform tengd borgarlínu að veruleika.

Sú starfsemi ætti vel heima að Reykjum, á landi í eigu ríkisins, í túnfæti höfuðborgarsvæðisins þar sem rík hefð er fyrir rannsóknarstarfi og kennslu.“

Skylt efni: Hveragerði | Keldur