Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Stöðugleiki er í ylræktinni á Íslandi, en útiræktunin er dálítið happdrætti.
Stöðugleiki er í ylræktinni á Íslandi, en útiræktunin er dálítið happdrætti.
Mynd / smh
Viðtal 6. október 2015

Þurfum að fara í öflugt kynningarátak

Höfundur: smh
Samband garðyrkjubænda fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Í vor tók nýr formaður við stjórnartaumunum, þegar Gunnar Þorgeirsson í Ártanga leysti Svein Sæland af hólmi.
 
„Ég ætlaði nú alltaf að fara út í kúabúskap. Ég kynntist konunni 1979 og fór að vinna hér á bænum hjá tengdaforeldrum mínum árið 1981, en þau voru með kýr og kindur. Fljótlega breyttu þau svo búskapnum og fóru yfir í svínarækt og þar hefur verið rekið svínabú síðan. Hvernig það kemur til að við stofnum þessa garðyrkjustöð á sér nokkuð sérstaka forsögu. Bjarni, sem var kenndur við Blómaval, er kvæntur systur pabba og hann bað mig eiginlega að fara að framleiða pottablóm fyrir sig. Hann sagði mér að fara bara til Danmerkur og prófa að vinna við þetta. Ég hlýddi því bara og við fórum út 1985. Svo leiðir eitt af öðru; ég fór í garðyrkjuskóla úti og þegar náminu var lokið ári síðar fluttum við heim og byggðum garðyrkjustöð og fórum að framleiða pottaplöntur fyrir Bjarna. Sú framleiðsla var svo meginþunginn í okkar starfsemi þangað til fyrir nokkrum árum að við færðum okkur að mestu leyti yfir í kryddjurtirnar. Við erum þó enn með dálítið af laukum, jólastjörnu og garðplöntum.“
 
Voru nærri hætt framleiðslu
 
„Eftir fjármálahrunið 2008 drógum við mjög úr framleiðslu á pottablómum og vissum ekki alveg hvað við ættum að gera. Það minnkaði mjög sala á öllum tegundum hjá okkur og um tíma leit þetta bara mjög illa út hjá okkur. Við vorum nærri komin á þá skoðun að við ættum bara að selja þetta og fara að gera eitthvað allt annað. 
 
Árið 2012 vorum við komin á þá skoðun að breyta um ræktun og skoðuðum ýmsa möguleika í því sambandi; til dæmis jarðarber og tómata. Við fórum svo í skoðunarferð til Noregs að sjá hvað þeir væru að gera í ræktun á kryddjurtum í pottum. Vorum búin að heyra að Norðmenn væru mjög framarlega í því. Það er skemmst frá því að segja að eftir þá ferð varð ekki aftur snúið með þá hugmynd. Við duttum líka inn á ákveðinn tíðaranda hér á Íslandi þar sem mikil vakning var í því sem kalla má „græna neyslu“. Við höfum líka verið í samstarfi við veitingastaðina – og erum farin að sinna beint þörfum þeirra og það er mjög skemmtilegt samstarf. Það má nefna í því sambandi að við erum með þá nýbreytni núna að vera farin að rækta svokallaðar spírur ýmissa tegunda sem eru eftirsóttar hjá matreiðslumönnum. Svo erum við jafnvel að spá í að fara að senda frá okkur framleiðsluna tvisvar í viku svo ferskleikinn sé alltaf eins og best verður á kosið, en hingað til höfum við gert það vikulega.“ 
 
Stöðugleiki í ylræktinni
 
„Það má segja að garðyrkja undir gleri sé alltaf tiltölulega stöðug og hefur líklega heldur verið upp á við en hitt,“ segir Gunnar um stöðu og horfur í greininni, en um hálft ár er liðið síðan hann tók við formennsku. „Þar eru ýmsir áhugaverðir vaxtarsprotar og ég get nefnt að núna eru tilraunir í gangi í Garðyrkjuskólanum þar sem jarðarber eru ræktuð allan ársins hring undir ljósum. Útiræktin er alltaf dálítið veðurfarslegt happdrætti. Eins og menn upplifðu í sumarbyrjun, að það bara kom engin júnímánuður. Ég heyrði fyrir stuttu í kartöflubónda sem býr hér ekki langt frá mér og honum leist ekkert á blikuna þegar ágúst var hálfnaður. Svo kíkti hann aftur undir núna þegar komið var undir mánaðamót og þá hafði ræst talsvert úr þessu bara í þessum hlýindum og vatnsveðri sem kom seinni hlutann í ágúst. Á Norður- og Austurlandi er þetta hins vegar bara mjög erfið staða. Síðustu tvö ár voru hins vegar frekar erfið hér á Suðurlandi enda rigndi þá alveg látlaust nánast.“
 
Lítil endurnýjun er vandamál
 
„Það er því miður ekki mikil endurnýjun í þessari grein – og ég held raunar að við stöndum í svipuðum sporum og aðrar greinar landbúnaðarins að því leyti. Við höfum gríðarlegar áhyggjur af þeirri stöðu. Við sjáum fólk eldast í greininni en lítill áhugi er á því að taka við. Það er ætlunin að koma inn á þessi vandamál í samningaviðræðunum sem eru á næsta leiti, varðandi gerð nýrra búvörusamninga. Eitt af því sem hamlar eðlilegri nýliðun er að fjárfestingin er mjög mikil ef fólk hefur áhuga á því að byrja frá grunni. Það er líka kominn tími á það mjög víða í garðyrkjunni að það verði farið í endurnýjun á húsakosti og öðrum búnaði – og það skiptir líka máli varðandi þessa nýliðun. Það hefur lítið verið byggt af nýju húsnæði á undanförnum árum. Kannski lítið verið gert í þessum málum frá síðasta garðyrkjusamningi, í kringum 2001 og 2002. Þá fékk greinin stuðning til að úrelda húsnæði og til að auka lýsingu og fleira, en á móti var tollverndin tekin af nokkrum tegundum grænmetis. Við erum kannski ekki að óska eftir svipaðri leið að þessu sinni, en það þarf að huga alvarlega að því hvernig hleypa megi lífi í nýliðunina í garðyrkjunni. Svo er fjármagnið bara mjög dýrt. Mér sýnist reyndar staðan vera svipuð á öðrum Norðurlöndum hvað nýliðun varðar. Held að það sé verkefni okkar að fara í öflugt kynningarstarf – og að við þurfum að fara alveg niður í grunnskólaaldur með slíkt ímyndar- og kynningarátak.“
 
Mikilvæg samningagerð fram undan
 
„Á endanum skiptir öllu hvernig tekst til í þessum búvörusamningum sem fram undan eru við ríkið, hvernig horfurnar verða á því að auka fjárfestingu í greininni. Skiptir þar miklu  máli niðurgreiðslan á flutningskostnaði í raforkunni – sem hefur verið mikill skilningur á sem betur fer og skiptir kannski mestu máli. Síðan hefur verið veittur stuðningur í formi krónutölu á seldu magni af tómötum, papriku og gúrkum – vegna þess að tollverndinni var aflétt af þessum tegundum. Við viljum að þessu verði þá í það minnsta haldið áfram. 
 
Varðandi kostnað við orkuflutning þá er það ekkert alveg einfalt mál, en við finnum þó fyrir betri hljómgrunni upp á síðkastið fyrir því að við getum tryggt framlagið í samningi við greinina. Við skiljum að það sé dálítið flókið að taka gjaldskrána og breyta henni, sérstaklega fyrir garðyrkjuna, því þar koma inn í myndina jafnræðissjónarmið og fleiri greinar eru auðvitað líka að nota mikið rafmagn. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál garðyrkjunnar og við treystum því að það verði áfram tekið tillit til okkar sjónarmiða í þessu máli og það fest inn í búvörusamninginn. Ef það gerist ekki erum við háðir því að þetta skili sér í fjárlögum hvers árs. Ráðherra hefur talað fyrir því að samningurinn verði jafnvel til tíu ára og við erum á sömu línu með það, því það skiptir máli að vita hvernig framtíðarlandslagið muni líta út að þessu leyti.“ 
 
Einn rammasamningur fyrir landbúnaðinn
 
Gunnar segir að fram undan sé þessi búvörusamningagerð við ríkið. Það sé áhugi af beggja hálfu fyrir því að gera einn rammasamning yfir landbúnaðinn í heild sinni og þar sé tekið inn menntunarmál, aukin arðsemi í landbúnaði, nýliðun, umhverfismál, fæðuöryggi og fleira. Síðan verða gerðir undirsamningar fyrir hverja búgrein fyrir sig. 
 
„Hjá okkur þarf að uppfæra eitt og annað, ég get nefnt kartöflutollinn sem dæmi. Hann hefur verið óbreyttur í krónum talið frá því að GATT-samningurinn var gerður árið 1994. Tollverndin í kartöflunum hefur því veikst mikið með árunum. 
 
Garðyrkjusamningurinn rennur út nú í lok árs og við höfum óskað eftir því á grundvelli þessara viðræðna að framlengja hann óbreyttan um eitt ár, á meðan það er verið að ganga frá öðrum undirsamningum. Ég sé fyrir mér að það verði þá hægt að ganga frá þessu endanlega um þarnæstu áramót. 
Í þessum heildarsamningi sem er í spilunum held ég að það verði horft dálítið til garðyrkjusamningsins, því það hefur verið mikill friður um þann samning. Hjá okkur háttar styrkjafyrirkomulaginu þannig til, að það er borgað visst á 100 kíló af seldum tómötum – og ef það seljast 200 kíló þá fækkar krónunum á hvert kíló um helming.  
 
Það hefur verið talað um að breyta styrkjakerfinu þannig að það verði farið að styrkja á land í stað framleiðslu – í svipuðum dúr og Evrópusambandið er með. Það kallar hins vegar á alveg gríðarlega vinnu við það að skrá land og hafa eftirlit með því. 
 
Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur í garðyrkjunni – ef það á að fara að styrkja út á land – að útiræktinni sé komið undir það kerfi. En það á allt eftir að koma í ljós hvernig þetta verður. 
 
Núna eru viðræður komnar í fullan gang og svo verður heilmikil vinna fram undan í haust að koma þessu öllu heim og saman; hvað eigi að vera í rammasamningnum og hvað á að vera í undirsamningum. Mér heyrist það vera vilji formanns Bændasamtakanna að allar greinar verði þar undir; skógræktin til að mynda og allar aðrar búgreinar. Auðvitað er það skynsamleg nálgun að ýmsu leyti þar sem greinarnar skarast í svo mörgu – til að mynda varðandi nýliðunar- og umhverfismál.“
 
Upprunamerkingarnar enn í ólagi
 
Á dögunum bárust fréttir um að samkvæmt könnun Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna væri enn talsverður misbrestur á því að innflutt grænmeti væri merkt með uppruna eins og reglur hafa gert ráð fyrir nú um nokkurt skeið. „Já, þetta er eiginlega með ólíkindum hjá versluninni að geta ekki komið þessu í lag – og stundum er jafnvel gengið svo langt að bakkar frá Sölufélagi garðyrkjubænda eru notaðir undir innflutta grænmetið,“  segir Gunnar. „Við höfum lagt mikla áherslu á að þetta sé að minnsta kosti í lagi okkar megin – að við merkjum okkar vörur með fánaröndinni okkar. 
 
Við erum um þessar mundir að innleiða gæðahandbók garðyrkjunnar og hún mun ná til allra þeirra sem stunda garðyrkju; hvort sem er í útirækt, blómum eða ylrækt. Grundvöllur þess að þú fáir að nota fánaröndina er þá að þú farir eftir gæðahandbók garðyrkjunnar. Við höfum verið að skoða útfærslur af slíkum handbókum á Norðurlöndunum og viljum vanda til verka í þessu.  Á Norðurlöndunum eru þeir með þriðja aðila í eftirliti með notkun á gæðahandbókum og eftirfylgni. Við viljum ekki að það fari fyrir fánaröndinni eins og til dæmis merkinu um vistvæna vottun, sem með tímanum varð auðvitað marklaust eins og komið hefur í ljós.“
 
Þurfa að kaupa upprunavottorð fyrir hina hreinu íslensku orku
 
Eins og upplýst hefur verið í Bændablaðinu fyrir skemmstu má sjá á orkureikningum landsmanna að upprunavottorð hinnar hreinu íslensku raforku hefur í einhverjum tilvikum verið selt. Uppruni orkunnar­ er þar sagður vera frá kjarnorku, olíu, kolum og gasi. Ástæða þessa mun vera sala íslenskra orkufyrirtækja á upprunavott­orðum ís­lenskrar raf­orku, sem verða þá í staðinn að taka á sig „mengandi framleiðslu“. Íslensk matvælaframleiðslufyrirtæki, sem hafa getað státað af hreinni framleiðslu, hafa sum hver þar með misst þessi sjálfgefnu fríðindi – og þar með ímynd – þótt þau geti keypt upprunavottorðið til baka.
 
„Mér finnst dálítið sérkennilegt í þessu máli að í raun er verið að selja kolefniskvóta til Evrópu – ég sé þetta ekki öðruvísi,“ segir Gunnar. „Í staðinn sitjum við uppi með það að uppruni íslenskrar raforku er skráð þannig að hluti hennar er framleiddur úr kjarnorku og hluti úr jarðefnaeldsneyti, þótt við vitum að 98 prósent af íslenskri raforku er endurnýjanleg – sem er mjög undarlegt. Við höfum því óskað eftir því við ráðuneytið að það verði upplýst um það hverjir hagsmunirnir eru í þessu sambandi og hvort hugsanlega sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ég treysti því að það varpi þá ljósi á það hvað við séum að fá út úr þessu. Það hefur í það minnsta ekki endurspeglast í lægra raforkuverði hér á Íslandi. 
Mér skilst að stjórnvöld heimili þetta á grundvelli samkomulags við Evrópusambandið og það er því þeirra að svara fyrir þetta, en ég átta mig ekki á því hvers vegna þessi leið er farin. Þetta gerir þetta enn furðulegra að garðyrkjan þurfti svo að kaupa sig frá þessu til þess að hafa hreinleikavottorð á rafmagnið. Við reiknuðum það út að fyrir garðyrkjuna þá eru þetta kannski fjórar til fimm milljónir á ári, sem við þyrftum að greiða fyrir hreinleikavottorð á íslensku rafmagni. Þegar þetta rann upp fyrir mönnum þá féllust mönnum bara hendur, ég held að enginn hafi enn farið út í það að kaupa sig frá þessu. Fyrir flesta garðyrkjumenn er kannski enginn hvati til þess eins og er – á meðan til dæmis ekki er um útflutning að ræða – en ég spyr nú bara að því hvernig þetta virkar til dæmis með lífræna vottun. Svo er þetta bara í grundvallaratriðum galið; það er alltaf verið að selja íslenskan hreinleika og svo birtist þetta á rafmagnsreikningunum okkar. Ég held reyndar að þetta snúi að fleiri greinum en garðyrkjunni – ég spyr til dæmis um áhrifin á fiskútflutninginn. Sú hlið hefur ekki komist upp á yfirborðið í umræðunni. 
Önnum kafinn félagsmálamaður
 
Gunnar er oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps – og má kalla önnum kafinn félagsmálamann. Hann reynir þó að líta inn á garðyrkjustöðina í lok dags og um helgar og sinnir nú aðallega viðhaldsmálum þar. „Sumir dagar hjá mér fara alveg í félagsmálin og stundum alveg fram á rauða nótt,“ segir Gunnar sem er formaður Samtaka sunnleskra sveitarfélaga, formaður Samtaka orkusveitarfélaga, formaður skipulagsnefndar, formaður skólanefndar menntaskólans á Laugarvatni, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Árnessýslu – auk formennskunnar í Sambandi garðyrkjubænda. „Konan, Sigurdís Edda Jóhannesdóttir, stýrir garðyrkjustöðinni og ræktuninni alfarið og er reyndar sest á skólabekk í Garðyrkjuskólanum. 
 
Það er gott að geta rætt ýmis mál yfir kvöldmatnum sem snúa að starfseminni; hvort auka eigi þetta eða hitt eða hvort byrja eigi að sá fyrir þessu eða hinu. Hagnýtir hlutir sem gott er að við getum talað saman um af einhverju viti.“
 

3 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt