Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Guðfinna með börnum sínum tveimur, þeim Guðrúnu Katrínu og Árna Elís.
Guðfinna með börnum sínum tveimur, þeim Guðrúnu Katrínu og Árna Elís.
Mynd / úr einkasafni
Viðtal 2. maí 2019

Íslenskir sauðfjárbændur tilbúnir að takast á við verkefni framtíðar beinir í baki

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Mín sýn á framtíð sauðfjár-búskapar á Íslandi er björt. Við vitum að með réttri meðhöndlun og framsetningu erum við með einstaka og eftirsótta gæðavöru í höndunum,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, nýkjörinn formaður Landssamtaka sauð-fjárbænda, LS. 

„Markaðssetning á vörunni, bæði hér á landi og erlendis, hefur verið að þróast til hins betra á undanförnum misserum. Sú þróun þarf að halda áfram og eflast í góðu samstarfi bænda og afurðastöðva. Sauðfjárbændur hafa lýst sig tilbúna til að takast á við krefjandi umhverfisverkefni, svo sem eins og verkefni tengd kolefnisjöfnun, í samstarfi við stjórnvöld og aðra fagaðila og ég sé fyrir mér að verkefni af því tagi verði samofin þróun atvinnugreinarinnar á komandi árum.“

Guðfinna Harpa og foreldrar hennar, þau Guðný Eiríksdóttir og Árni Þórarinsson, reka um 600 kinda sauðfjárbú í Straumi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði.

Fædd á Straumi í Hróarstungu

Guðfinna Harpa er fædd árið 1982 á Straumi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði og er næstelst fimm barna þeirra Guðnýjar Eiríksdóttur og Árna Þórarinssonar, bænda á Straumi. Faðir hennar, Árni, er fæddur og uppalinn á Straumi, en móðir hennar er frá Fjallseli í Fellum á Fljótsdalshéraði. Þau Árni og Guðný hafa stundað búskap á Straumi um árabil. Þórarinn, afi Guðfinnu Hörpu, kom að Straumi 8 ára gamall og tók á fullorðinsárum og að loknu búfræðiprófi frá Hvanneyri við búinu. Fósturforeldrar hans höfðu keypt jörðina árið 1915. Saga fjölskyldunnar er því samofin sögu jarðarinnar.

„Fjölskyldan hefur verið hér nokkuð lengi og fyrst og fremst höfum við búið með sauðfé. Foreldrar mínir voru einnig lengi vel með nautaeldi með en hættu því nýlega,“ segir hún. 

Um þessar mundir býr fjölskyldan með um 600 fjár á jörðinni. Guðfinna og foreldrar hennar reka hvort sitt búið þegar að bókhaldinu kemur en ganga sameiginlega til allra verka, hvort heldur sem það er dagleg hirðing, fjárrag, heyskapur, sauðburður, bókhald eða hvaða verkefni sem sauðfjárbændur þurfa að sinna. Systkinin eru á álagstímum einnig innan handar og rétta fram hjálparhönd þegar á þarf að halda.

Ætlaði að verða kennari en búvísindin toguðu í

Guðfinna Harpa tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Egilsstöðum, en þangað fór hún til náms í beinu framhaldi af grunnskólaprófi. 

„Eftir stúdentsprófið tók ég mér hlé frá námi um tveggja ára skeið og reyndi mig á vinnumarkaði. Ég var einhvern veginn svo ákveðin í því að verða kennari þegar ég lauk stúdentsprófinu að ég prófaði að vinna hvort sitt árið í leik- og grunnskóla. Að hluta til stefndi ég á kennaranámið vegna þess að ég hafði talið mér trú um að kennarastarfið hentaði vel á móti því að vera bóndi. Það var alveg frá því ég man eftir mér mitt draumastarf að verða bóndi,“ segir hún. 

Þegar að því kom að sækja um nám við háskóla fann hún að búvísindanám við Hvanneyri togaði æ meira í sig. Hún kveðst lítið sem ekkert hafa kynnt sér það nám, enda stefnt að því að verða kennari, en þegar frestur til að sækja um námið var um það bil að renna út fór hún að lesa sér til.

„Ég þekkti ekki neitt til á Hvanneyri og það voru satt best að segja sárafáir héðan að austan sem voru við nám þar á þeim tíma. Fyrsta árið mitt í skólanum vorum við tvö að austan við nám á Hvanneyri, í umhverfisskipulagi og búvísindum. Ég lét bara vaða og sótti um nám í búvísindum og sé svo sannarlega ekki eftir því,“ segir hún, en námsárin á Hvanneyri voru á árunum 2004 til 2008.

„Ég lærði alveg heilmikið í þessu námi og kynntist mörgu frábæru fólki, m.a. fyrrverandi sambýlismanni mínum, en við komum í byrjun árs 2009 inn í búskapinn á Straumi með foreldrum mínum. Árin tvö þar á undan höfðum við komið okkur upp eigin húsnæði, byggt við fjárhúsin á bænum og breytt skipulagi þannig að við gætum fjölgað fénu og byggt þannig undir að við gætum verið með í búskapunum,“ segir Guðfinna, en leiðir hennar og sambýlismannsins skildi á árinu 2013. Þau eiga tvö börn, Guðrún Katrínu, sem fæddist árið 2009 og Árna Elís, sem fæddist 2011. Meðfram búskapnum hefur Guðfinna starfað sem ráðunautur, fyrst hjá Búnaðarsambandi Austur-lands og síðan hjá Ráðgjafar-miðstöð landbúnaðarins frá stofnun hennar 2013. 

Hef mikinn metnað fyrir sterkri og framsækinni sauðfjárrækt hér á landi

Guðfinna Harpa segir að hún hafi að einhverju leyti tekið þátt í félagsmálum frá því hún hóf búskap. Hún er í stjórn Búnaðarfélags Hróarstungu, í varastjórn Búnaðar-sambands Austurlands og formaður Félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum. Þá gaf hún kost á sér á lista við síðustu sveitarstjórnarkosningar og er varabæjarfulltrúi á Fljótsdals-héraði og gegnir formennsku í umhverfis- og framkvæmdanefnd sveitarfélagsins. 

Hún segir að fólk sem hún virðir og treystir hafi hvatt sig til að bjóða sig fram í formennskustólinn hjá LS og hún látið slag standa.

„Ég hef mikinn metnað fyrir sterkri og framsækinni sauðfjárrækt á Íslandi,“ segir hún. „Eins fyrir öflugu félagskerfi í landbúnaði þar sem fjölbreyttar raddir sauðfjárbænda heyrast. Ég sá tækfæri núna í því að leggja mitt af mörkum og það var helsta ástæða þess að ég bauð mig fram. Mótframbjóðendur mínir eru feikilega öflugir menn með marga kosti og ég á von á því að þeir verði áfram sterkir liðsmenn í samtökunum,“ segir Guðfinna Harpa.

„Kannski var helsta ástæðan fyrir því að bjóða mig fram að ég losnaði við að gera upp á milli þeirra.“

Annasamur tími fram undan

Hún segir, spurð um helstu kosti sína í nýju embætti,  að sér veitist auðvelt að ná yfirsýn, hún sé heiðarleg, dugleg og sjálfstæð í vinnubrögðum. Þá eigi hún gott með að vinna með fólki og virkja það með sér, en til þess sé kostur að hlusta á fjölbreytt sjónarmið og vera tilbúin til að miðla upplýsingum á milli og til fólks.

„Ég á alveg von á að þetta verði annasamt verkefni, formaður LS þarf að vera töluvert á ferðinni hér og hvar. Heilmikið þurfi að koma við  í höfuðborginni þar sem unnið sé með stjórn og framkvæmdastjóra sem og öðru starfsfólki í verkefnum sem LS tekur þátt í. Þá þurfi að hitta og ræða við stjórnmálafólk, starfsmenn ráðuneyta og stofnana sem samtökin vinni náið með.

„En það þarf líka að sinna grasrótinni hringinn í kringum landið, stjórnarmenn LS hafa reynt að heimsækja aðildarfélögin með formlegum hætti einu sinni á ári og ég á ekki von á að nein breyting verði þar á. Svo fer heilmikill hluti þessa starfs fram með síma og á símafundum, enda er samstarfsfólkið dreift um allt land og því nauðsynlegtlegt að nýta sér tæknina þegar færi gefst á því,“ segir Guðfinna.

Fé hefur fækkað um 42 þúsund á liðnum árum

Hún segir að vissulega hafi staðan verið mjög erfið undanfarin fjögur ár þegar kemur að rekstri sauðfjárbúa. Afurðaverð lækkaði talsvert árið 2016 og tók svo snarpa dýfu niður á við ári síðar og hefur enn ekki komið til baka. Framleiðslukostnaður sé á sama tíma svipaður sem þýði að rekstur búanna sé víða erfiður. Guðfinna segir bændur m.a. hafa brugðist við stöðunni með fækkun fjár, frá árinu 2016 hafi vetrarfóðruðum kindum fækkað um 42 þúsund.

„Ástæður fyrir þessari þróun á afurðaverði eru tengdar breytingum á gengi með tilliti til útflutnings, stöðu ákveðinna markaða og miklum birgðum. Nú má segja að staðan gagnvart öllum þessum þáttum hafi breyst, mismikið þó. Birgðastaða er til að mynda gjörbreytt frá því sem var, framleiðsla hefur minnkað og mun áfram minnka næsta haust þegar tekið er mið af fækkun fjár milli ára. Þessar breytingar gefa okkur góðar vonir um að við getum farið að spyrna okkur upp frá botninum og farið að nálgast jafnvægi. Það eru þó alltaf heilmiklir óvissuþættir inni í dæminu, sá stærsti um þessar mundir er hver áhrif innflutningur á ófrystu hráu kjöti mun hafa á innanlandsmarkaðinn. Ég er þó ekki mjög svartsýn hvað það snertir. Íslenskir neytendur eru meðvitaðir neytendur og velja vöru sem þeir treysta og þekkja af gæðum.“

Íslenskir sauðfjárbændur hafa sýnt þrautseigju

Guðfinna Harpa segir að hvaða atvinnugrein sem er þurfi tíma til að vinna sig út úr hremmingum í líkingu við þá sem sauðfjárræktin hefði gengið í gegnum; þar sem framleiðslukostnaður er miklu hærri en afurðaverð.

„Þegar svo kemur að því að viðsnúningur verður þarf að byggja reksturinn upp að nýju, en bændur hafa þurft að halda að sér höndum í viðhaldi eigna og endurnýjun rekstrarfjármuna. Að vera í stöðu sem þessari veldur þreytu en það er mitt mat  að íslenskir sauðfjárbændur séu fullir þrautseigju og þeir eru tilbúnir að takast á við spennandi verkefni framtíðar beinir í baki.“

Guðrún Katrín og Árni Elís huga að fénu úti á túni.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt