Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fjölskyldan á Öngulsstöðum, frá vinstri Árdís Eva, Guðný, Karl, Þórhallur Jón, Skírnir Már og Haukur Sindri.
Fjölskyldan á Öngulsstöðum, frá vinstri Árdís Eva, Guðný, Karl, Þórhallur Jón, Skírnir Már og Haukur Sindri.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 20. maí 2015

Byggjum upp hægt en örugglega

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við erum á fullu í að byggja þennan rekstur upp, en förum okkur hægt, það verða engar kollsteypur teknar í þeim efnum, við tökum eitt skref í einu,“ segja þau Karl Jónsson og Guðný Jóhannesdóttir sem reka ferðaþjónustuna Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit ásamt Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, föður Guðnýjar, og Ragnheiði Ólafsdóttur.  Lamb Inn og Gamli bærinn á Öngulsstöðum hlutu á dögunum Hvatningarverðlaun Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
 
Rekstur ferðaþjónustu hófst á Öngulsstöðum III árið 1996 eftir að fjósi og hlöðu hafði verið breytt í gisti- og veitingaaðstöðu, en áherslum og nafni var breytt árið 2012. 
 
Gistirými er fyrir 38 manns og hefur undanfarin misseri verið unnið að endurbótum á herbergjum, m.a. hefur nýtt parket verið lagt á öll gólf.  Í vetur hafa herbergi verið máluð og skipt um náttborð og skrautmuni. Þeim framkvæmdum lýkur innan tíðar. Eitt fjölskylduherbergi er í boði og rúmar það 4–6 manns og segja þau Guðný og Karl að mikil eftirspurn sé eftir herbergjum af þeirri stærð.  Tvö herbergjanna eru sérstaklega útbúin með aðgengi fyrir fatlaða í huga.
 
Keyptu Öngulsstaði 3 og bæta við gistirými
 
Fyrir áramótin keypti fyrirtækið Öngulsstaði 3, sem foreldrar Jóhannesar byggðu árið 1950. Þau Karl og Guðný fluttu þangað ásamt fjölskyldu sinni í hluta hússins. Framkvæmdir standa nú yfir við innréttingu á 6 herbergjum til útleigu, en þau verða með sameiginlegu baði. „Þetta hús hefur staðið autt í nokkur ár og ég held að það hafi blundað í okkur öllum að gera eitthvað skemmtilegt við það. Það varð því úr að fyrirtækið okkar keypti það og við hófumst handa við að breyta hluta þess í gistirými til útleigu,“ segir Karl. Þau segjast hafa fundið fyrir ákveðinni þörf fyrir gistirými í aðeins lægri klassa en er á gistihúsinu, þó öll aðstaða og aðbúnaður verði þar góður.
 
Hefðbundið íslenskt lambalæri slær í gegn
 
Rúmgóður matsalur er til staðar og í takt við nafn staðarins kemur ekki á óvart að eigendur sérhæfa sig í lambakjöti, einkennisrétturinn er hið hefðbundna íslenska lambalæri og nýtur það mikilla vinsælda. „Við bjóðum upp á sérvalið og verkað lambalæri, eldum það lengi við vægan hita og berum fram með heimalögðuðu rauðkáli, grænum baunum, brúnuðum kartöflum, sósu og rabarbarasultu sem við búum til sjálf hér heima.  Þessi hefðbundna sunnudagssteik Íslendinga hefur algjörlega slegið í gegn, útlendingar sem hér hafa snætt eru sólgnir í lambalærið okkar,“ segir Guðný.  Til að toppa máltíðina geta gestir gætt sér á „gamaldags“ rjómatertu í eftirrétt, en hún samanstendur af svampbotnum, þeyttum rjóma og kokteilávöxtum.  Sunnudagssteikin er í boði alla daga yfir sumarmánuðina en panta þarf sérstaklega yfir veturinn. 
 
Áhersla er lögð á matvæli úr heimabyggð, þorsk og bleikju úr nágrenninu er að finna á matseðlinum, ís sem búinn er til í Holtseli í Eyjafjarðarsveit er einnig í boði og bjórinn sem þeir gestir sem það kjósa geta skolað matnum með niður kemur líka úr Eyjafirði, Kaldi frá Bruggsmiðjunni á Árskógssandi.
„Við réðum afar færan ástríðukokk í eldhúsið okkar í sumar, Unni Maríu Axelsdóttur, og með hennar aðstoð ætlum við að auka veg veitingastaðarins á þessu ári. Við verðum með sama gamla góða matseðilinn í gangi í sumar, en bryddum nú upp á þeirri nýjung að bjóða fastan sérrétt á hverjum degi til viðbótar við matseðilinn og látum það rúlla eftir vikudögum,“ segir Karl.
 
Góð aðstaða fyrir fundi og ráðstefnur
 
Prýðisgóð aðstaða er á Öngulsstöðum til að halda fundi og smærri ráðstefnur eða námskeið og hefur hún að sögn Karls verið nýtt  í auknum mæli.  Sæti er fyrir 20 til 30 manns í fundarsal, en þar er allt til staðar sem til þarf, tölvutengingar, skjávarpi, töflur og netaðgangur. Eins er hægt að nýta aðstöðu í veitingasal þar sem um 40 manns komast fyrir í sæti.  „Við erum með þrjá fundapakka í boði eftir því hvað hverjum og einum hentar hverju sinni.  Sumir þurfa aðeins part úr degi fyrir sinn fund, aðrir heilan dag og svo eru einnig fundir eða námskeið sem taka lengri tíma og þá er gistingin komin inn.  Veitingar eru svo einnig til reiðu eftir því sem hverjum hópi hentar best,“ segir Karl. Fundaraðstaðan hefur verið mikið nýtt nú í vor, undir námskeið og fundi þar sem fólk hefur m.a. dvalið í 1–2 daga. „Í janúar fengum við m.a. heilan kvennakór í æfingabúðir og gátum þá nýtt aðstöðuna fyrir æfingar kórsins,“ segja þau Guðný og Karl.
 
Samningur við stéttarfélög
 
Yfir sumarið er meirihluti gesta útlendingar, en Íslendingar sækja staðinn heim í meira mæli yfir veturinn. Gerður hefur verið samningur við stéttarfélög á Austurlandi, í Þingeyjarsýslum og Skagafirði, sem niðurgreiða gistingu fyrir sína félagsmenn og segir Karl að fyrirkomulagið hafi gefist einstaklega vel. „Þetta hefur mælst vel fyrir og margir nýta sér það að skreppa í heimsókn í Eyjafjörðinn, fara á skíði, njóta menningar eins og að fara í leikhús eða á tónleika og slaka á í sveitasælunni. Við höfum fengið fjöldann allan af Austfirðingum til okkar og Skagfirðingum líka undanfarna vetur.“
 
Markmið að auka nýtingu árið um kring
 
Sumarið 2013 var sérlega gott í rekstri ferðaþjónustunnar, það besta frá upphafi, en sumarið 2014 toppaði það og útlit er fyrir áframhaldandi velgengni því bókanir fyrir komandi sumar eru góðar að sögn eigenda.  „Það má segja að hér sé nánast allt fullt yfir sumarið, erlendum ferðamönnum hefur sem kunnugt er fjölgað mjög undanfarin ár og virðist ekki lát á þeirri þróun.  Okkar markmið er því að auka nýtingu árið um kring og við höfum einbeitt okkur að því að fjölga gestum yfir vetrartímann.  Það hefur tekist ágætlega þannig að ekki er ástæða til annars en bjartsýni,“ segja þau Guðný og Karl. Þau bæta við að með því að bjóða upp á beint   flug til Akureyrar opnist miklir möguleikar bæði fyrir gistihlutann og ferðaskrifstofuna.
 
Samstarf við kanadíska ferðaskrifstofu
 
Lamb Inn fékk á liðnu ári ferðaskrifstofuleyfi og vænta eigendur mikils af því, m.a. er stefnt að auknu samstarfi við erlendar ferðaskrifstofur.  Í fyrravor dvaldi hópur kanadískra bænda á Öngulsstöðum, en Karl komst í samband við ferðaskrifstofu í Ontario sem skipuleggur bændaferðir.  „Ég sendi tölvupóst út til þeirra og lýsti í stuttu máli því sem í boði er hjá okkur, fékk svar um hæl þar sem fram kom að mönnum litist vel á og er skemmst frá því að segja að hingað kom hópur kanadískra bænda og dvaldi á Norðurlandi þrjá daga.  Allir voru himinlifandi með ferðina, höfðu gaman af að kynnast íslenskum landbúnaði, landi og þjóð,“ segir Karl.  Annar hópur Kanadamanna kom síðastliðið haust og von er á þeim þriðja nú í lok maí. „Við höfum svo sett saman glæsilega bændaferð til Kanada í samvinnu við þessa sömu ferðaskrifstofu í haust,“ segir hann,  en hægt er að nálgast upplýsingar um hana á vefsíðu Lamb Inn. Ferðin verður frá 12.–18. september, flogið til Toronto og ferðast um Ontario-fylkið. 
 
Vilja auka afþreygingu á staðnum
 
Til stendur að auka afþreyingu þannig að fólk hafi eitthvað við að vera á meðan það dvelur á staðnum.  Göngustígar hafa verið lagðir í næsta nágrenni og gestum gefst kostur á að leigja hjól og bruna um næsta nágrenni hjólandi.  Þá eru uppi ýmsar hugmyndir með nýtingu á hlöðu og ýmsar afþreyingarhugmyndir eru uppi á borðum.  Með Öngulsstöðum 3 fylgdi gróðurhús þar sem þegar er hafin rækt á blómum og matjurtum.  „Okkar stefna er að rækta sem allra mest af því sem nýtt er heima við og sækja það sem þarf um eins skamman veg og unnt er,“ segir Guðný.

8 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt