Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Landbúnaðarsýningin verður haldin í Laugardalnum í Reykjavík dagana 12.-14. október.
Landbúnaðarsýningin verður haldin í Laugardalnum í Reykjavík dagana 12.-14. október.
Fréttir 7. september 2018

Uppselt á úti- og innisvæði á landbúnaðarsýningu

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Undirbúningur fyrir stórsýninguna „Íslenskur landbúnaður 2018“ í Laugardal í Reykjavík dagana 12.–14. október stendur nú sem hæst. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar sýningarhaldara er uppselt á sýningarsvæðið en um 90 aðilar hafa pantað bása á inni- og útisvæði. Hann segir að fjölbreytnin verði í fyrirrúmi og að svona stór og fjölbreytt sýning muni lyfta upp ímynd íslensks landbúnaðar.
 
„Ég er handviss um að sýningin mun vekja mikla athygli og gagnast landbúnaðinum í heild. Þetta er atvinnugrein sem byggir á gömlum merg en er jafnframt ákaflega mikils virði fyrir land og þjóð til framtíðar litið. Landbúnaður spannar allt landið og er afar mikilvægur í samfélaginu. Sjálfur er ég búinn að vera viðloðandi sýningarhald í 24 ár og halda ótal sýningar, bæði sjávarútvegs-, veiði- og hótelsýningar, mikið af heilsusýningum og fleiru. Það kom mér satt að segja á óvart hvað landbúnaðargeirinn er fjölbreyttur og stór. Bændur eru að fást við marga hluti sem er aðdáunarvert. Sjálfur held ég að greinin muni eflast í framtíðinni því að ungt fólk sækir í fjölbreytnina. Íslenskur landbúnaður er síður en svo einhæfur og getur byggt á sínu góða orðspori sem felst í hreinum og hollum framleiðsluvörum.“
 
„Það er engin spurning að sýningin mun lyfta íslenskum landbúnaði,“ segir Ólafur M. Jóhannesson sýningarhaldari. Hann býst við miklum fjölda gesta í nýju Laugardalshöllina dagana 12.–14. október. 
 
Tæki, rekstrarvörur, þjónusta og matur
 
Ólafur segir að gestir geti búist við fjölbreyttri sýningu þar sem fyrirtæki, félög og stofnanir kynni sínar áherslur. „Það verður mikið af stórum og litlum tækjum – allar tegundir í raun sem sýndar verða á úti- og innisvæði. Þarna verða allir helstu vélasalar landsins og þjónustufyrirtæki landbúnaðarins. Mikið af ýmsum rekstrarvörum verða kynntar og ekki síst framleiðsla bænda. Matvæla- og afurðafyrirtæki sýna það sem þau hafa fram að færa. Þá eru fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu og húsbyggingum ýmiss konar áberandi ásamt fleirum.“
 
Fyrirlestrar um landbúnað
 
Í hliðarsal í Laugardalshöllinni verða haldnir fyrirlestrar um allt milli himins og jarðar tengt landbúnaði, bæði fyrir lærða og leikna. „Það verða á annan tug fyrirlestra sem verða fluttir á laugardag og sunnudag. Það verður t.d. fjallað um smávirkjanir í landbúnaði, nýja holdanautakynið, fóðrun, skógrækt, votlendi og rannsóknir í landbúnaði og matvælaframleiðslu,“ segir Ólafur og minnir á að dagskráin verði birt á bbl.is þegar hún liggur endanlega fyrir. 
 
Á sýningarsvæðinu verður nóg að bíta og brenna. „Það verður Bændakaffi þar sem gestir geta fengið veitingar á sanngjörnu verði. Að auki munu bændur grilla á teini fyrir utan Laugardalshöllina þar sem hægt verður að smakka íslenskar úrvalsafurðir.“
 
Ólafur á von á því að fjöldi bænda leggi leið sína á sýninguna en hún er líka opin almenningi. „Félagsmönnum í Bændasamtökunum er öllum boðið á sýninguna og þar að auki fá fyrirtækin sem taka þátt fjölda boðsmiða til þess að koma til sinna viðskiptavina. Við finnum mikinn áhuga hjá almenningi á sýningunni sem er til marks um áhuga á íslenskum landbúnaði í dag.“
 
Opið frá föstudegi til sunnudags
 
Sýningin hefst með opnunarhófi kl. 13.00 föstudaginn 12. okt. Þann dag er opnunartími 14.00–19.00, á laugardag 13. okt. 10.00–18.00 og sunnudag 14. okt. 10.00–17.00. Miðar gilda alla helgina en miðaverð er kr. 1.000 og frítt fyrir aldraða, öryrkja, námsmenn og börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum. Sem áður segir munu félagsmenn í Bændasamtökum Íslands fá senda boðsmiða á sýninguna sem gilda alla sýningardagana. Tímarit Bændablaðsins kemur út vikuna fyrir sýningu og mun þjóna sem sýningarblað.
 
 
Evrópa bjó sjálf til orkukreppu
Fréttir 9. desember 2021

Evrópa bjó sjálf til orkukreppu

Það sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis, samkvæmt lögmáli Murphys. Leik...

Notkun lífræns áburðar og beitarfriðun aukist
Fréttir 9. desember 2021

Notkun lífræns áburðar og beitarfriðun aukist

Í skýrslu Landbótasjóðs segir að 2020 hafi verði úthlutað tæpum 95 milljónum kró...

Ísteka riftir samningum við bændur
Fréttir 8. desember 2021

Ísteka riftir samningum við bændur

Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur rift samningum við þá bændur sem sjást beita hry...

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022
Fréttir 8. desember 2021

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022

New Holland dráttar­véla­framleiðandinn heldur áfram að sópa að sér verðlaunum o...

Konur borða meira af laufabrauði en karlar
Fréttir 8. desember 2021

Konur borða meira af laufabrauði en karlar

Um 90% þjóðarinnar borða laufabrauð um jólin samkvæmt könnun sem Gallup gerði fy...

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum
Fréttir 8. desember 2021

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum

Niðurstöður könnunar benda til skorts á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum. Sa...

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...