Undirbúa stofnun matvælaklasa
Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar samþykkti á aðalfundi sínum í apríl að fela stjórn félagsins að hefja undirbúning að stofnun matvælaklasa í Eyjafjarðarsveit með þátttöku matvælaframleiðenda, veitingaaðila og áhugamanna um mat úr héraði.
Kynningarfundur um hugmyndina var haldinn á Lamb Inn á Öngulsstöðum í liðinni viku þar sem frummælendur voru Laufey Haraldsdóttir, lektor og deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, Garðar Kári Garðarsson, landsliðskokkur og yfirmatreiðslumaður á Strikinu, Karl Jónsson, formaður Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar, og Jóhannes Geir Sigurgeirsson á Öngulsstöðum sem kom inn í forföllum Arnars Árnasonar, formanns Landssambands kúabænda.
Góð mæting var á fundinn og voru þar fulltrúar matvælaframleiðenda, veitingaaðila, sveitarstjórnar og fleiri áhugasamir. Eftir framsögu var spjallað vítt og breitt um hugmyndina og ákveðið að stjórn Ferðamálafélagsins héldi áfram með undirbúning að stofnun matvælaklasans.
Eyjafjarðarsveit er mikið matvælaframleiðsluhérað og sáu fundarmenn ótvíræða kosti í að ramma inn samstarf matvælaframleiðenda og ferðaþjónustunnar með þessum hætti.