Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kjötiðnaðarmeistarar úr Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna taka til hendi í sjálfboðavinnu fyrir mæðrastyrksnefnd fyrir jólin 2014. Talið frá vinstri: Bergsveinn Símonarson, Erlendur Sigurþórsson og Arnar Sverrisson.
Kjötiðnaðarmeistarar úr Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna taka til hendi í sjálfboðavinnu fyrir mæðrastyrksnefnd fyrir jólin 2014. Talið frá vinstri: Bergsveinn Símonarson, Erlendur Sigurþórsson og Arnar Sverrisson.
Mynd / HKr.
Fréttir 10. febrúar 2016

Uggur innan raða kjötiðnaðarmanna

Höfundur: smh
Tveimur kennurum í kjötiðn við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi var sagt upp fyrir yfirstandandi önn, en þeir hafa kennt við skólann á undanförnum árum. Kennari sem hefur kennt fagið við  Verkmenntaskólann á Akureyri mun flytja á höfuðborgarsvæðið svo óvissa er með kennsluna á Akureyri.
Kennsla í kjötiðn hefur einungis farið fram í þessum tveimur skólum á undanförnum árum. Uggur er innan raða kjötiðnaðarmanna vegna þessa ástands, en ástæðan fyrir uppsögnunum er að enginn nemandi hafði sótt um í náminu. 
 
Fjallað verður um vandamálið á félagsfundi
 
Að sögn Halldórs J. Ragnarssonar, formanns Meistarafélags kjötiðnaðarmanna, hefur verið fjallað um málið á vettvangi félagsins og í kjölfarið var boðað til félagsfundar 28. janúar 2016.
 
Halldór J. Ragnarsson, formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna.
„Þessi fundur verður haldinn að Stórhöfða 31 þar sem MATVÍS er til húsa. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, Níels Sigurður Olgeirsson, formaður MATVÍS, og Ólafur Jónsson, sviðsstjóri matvæla- og veitingasviðs hjá Iðunni, verða meðal fundargesta.
„Þetta er opinn fundur, sumsé ekki bara fyrir félagsmenn Meistarafélags kjötiðnaðarmanna, heldur líka fyrir kjötiðnaðarmenn almennt,“ segir hann.
 
Ýmsar ástæður fyrir ástandinu
 
Um ástæður þess að engin aðsókn er í kjötiðnaðarnám segir Halldór að erfitt sé nákvæmlega að festa á það fingur.
 
„Það er ekki gott að segja, en hluti af ástæðunni er væntanlega það vinnuumhverfi sem kjötiðnaðarmenn starfa í. Það er líklega ekki mjög spennandi fyrir ungan nema, kannski 16–17 ára, að fara að vinna í umhverfi þar sem hitastigið í vinnslusal er þetta 8–12 gráður. Svo er þetta kannski spurning hvort það þurfi ekki að fara að endurskoða námskrá kjötiðnaðar, því kjötiðnaður á Íslandi er kannski ekki unglingafræðsla heldur fullorðinsfræðsla. Meðalaldur útskriftarnema í kjötiðnaði eru 30,2 ár frá því að kennsla hófst í MK.
 
Þetta er nú bara þannig að eftir námið í grunnskóla þá hefur reynslan sýnt að nemendur sem ljúka námi í kjötiðn taka sér smá frí frá skóla til að ákveða næsta skref. Sumir fara að vinna í kjötvinnslum og fá áhuga kannski á því að fara að læra eftir nokkra ára vinnu við fagið.
Það má vel vera að ódýru vinnuafli sé líka um að kenna en við skulum ekki gleyma því að þeir einstaklingar sem flokkast undir ódýrt vinnuafl hafa margir hverjir farið í kjötiðnaðarnám á Íslandi og hafa útskrifast með glæsilegar einkunnir,“ segir Halldór.
 
Kjötiðn er fjögurra ára samningsbundið iðnnám
 
Að sögn Halldórs hefst nám í matvæla- og veitingageiranum með einnar annar sameiginlegu grunnnámi en að því loknu velja nemendur sérnám í bakaraiðn, framreiðslu, kjötiðn eða matreiðslu. Allar þessar greinar eru löggildar iðngreinar. Námið er samningsbundið sem lýkur með sveinsprófi. Sveinsprófið veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.
 
„Kjötiðn er fjögurra ára samningsbundið iðnnám. Þar af eru þrjár annir í skóla, alls 60 einingar, og 20 einingar eru í verklegri kennslu í kjötiðn,“ segir Halldór. „Þær skiptast á tvær annir og lýkur með verklegu lokaprófi sem er meginhluti námsmatsins, en einnig kemur til símat fagkennara.
 
Halldór segir að það sé líka hægt að fara í nám í kjötskurði. „Meginmarkmið náms í kjötskurði er að nemendur öðlist þekkingu, skilning og færni til að annast alla meginþætti í störfum kjötskurðarmanna í kjötvinnslum, sláturhúsum og kjötsöludeildum verslana. Meðalnámstími er tvö og hálft ár, samtals tvær annir í skóla og 80 vikna starfsþjálfun. Námið er alls 120 einingar og lýkur með fagprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og halda áfram sérnámi til sveinsprófs í kjötiðn.“
 
Breiður starfsvettvangur kjötiðnaðarmanna
 
„Íslenskir kjötiðnaðarmenn og -konur koma víða við,“ segir Halldór. 
„Þeir starfa í kjötvinnslum, kjötdeildum verslana, og heildverslunum. Þeir starfa einnig sem sölumenn umbúða, krydds og hjálparefna, sem og sölumenn véla og tækja fyrir kjötiðnað. Þeir starfa við sölu og markaðssetningu á kjöti og matvælum. Þá starfa kjötiðnaðarmenn í álverum, við opinbera þjónustu, í sláturhúsum og á fleiri vinnustöðum.“
 
Halldór telur að það séu klárlega tækifæri fyrir kjötiðnaðarmenn varðandi starfsmöguleika, til dæmis vegna uppgangs í alls kyns smáframleiðslu matvæla og miklum vexti í ferðaþjónustunni.  
„Vandamálið er hins vegar að þessi svokallaða beint frá býli-sala, svo ég taki hana sem dæmi, er yfirleitt þannig að viðkomandi bændur eru að gera þetta sjálfir og selja sínar afurðir á sínum svæðum. Það er svo sem í góðu lagi ef svæðið sem þeir selja á telur ekki meira enn 100 íbúa, eins og áttunda grein iðnlaga gerir ráð fyrir. Vandamálið er að Heilbrigðiseftirlit og eða Matvælastofnun hvers umdæmis veitir einhverjum aðila til að vera með vinnslu, leyfið er veitt þar sem allar kröfur um hreinlæti og aðbúnað eru uppfylltar. En hver á svo að fylgja því eftir ef viðkomandi er farinn að selja afurð sína á svæði sem telur meira en 100 íbúa? Svo ég vitni aftur í iðnlögin þá ættu sýslumenn að staðfesta réttmæti gagna um starf og starfsþjálfun.  
 
Fagmennskan til fyrirmyndar
 
Halldór hefur ekki áhyggjur af því að staða skólamála komi niður á faglegri stöðu greinarinnar í landinu.
„Það eru til að mynda faglærðir kjötiðnaðarmenn í öllum kjötvinnslum landsins og það sýnir sig að það er ekki verið að gefa afslátt á þeim stöðum. Einnig kemur það berlega fram í fagkeppni sem Meistarafélagið heldur á tveggja ára fresti að fagmennskan er til fyrirmyndar á þeim vörum sem sendar eru í keppnina. 
Þó svo að ekki séu fyrsta árs nemar í skólanum á vorönn þá tel ég framtíðina vera bjarta, vinnslurnar eru að taka nema og ég held að það séu um 40 nemar á samningi. Þá má þó auðvitað ekki slá slöku við, það verður að eiga sér regluleg endurnýjun í þessi fagi eins og öðrum iðnfögum.“ 

2 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...