Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Skortur á ferskvatni talinn valda næstu hörmungum
Fréttir 31. mars 2015

Skortur á ferskvatni talinn valda næstu hörmungum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Vatn er drifkraftur alls lífs á jörðinni og án þess kemst enginn maður af. Fjölmargir vísindamenn hafa af því miklar áhyggjur að mannkynið sé þegar farið að ganga um of á vatnsbirgðir sínar sem kunni að orsaka mikil átök í náinni framtíð.

Í síðasta jólablaði Bænda­blaðsins var greint frá grunnvatnsmælingum NASA sem framkvæmdar voru með gervihnöttum. Þær sýndu miklu verri stöðu hvað grunnvatnsbirgðir varðar víða um lönd en menn höfðu áður talið. Þó Íslendingar bölvi harðri náttúru á Íslandi með öllu sínu roki, þá búa samt fáar þjóðir eins vel og Íslendingar hvað varðar vatn og ýmsar aðrar náttúruauðlindir. Við megum því búast við aukinni ásókn í okkar náttúrugæði á komandi árum og þá ekki síst vatnið. Því hlýtur að vera mikilvægt að þjóðin fari vel með þessa auðlind og tryggt sé að allir Íslendingar eigi sinn rétt hvað varðar almennt aðgengi að nægu hreinu vatni. Einnig að tryggt verði að nýtingarréttur á vatni verði aldrei framseldur í hendur einstakra fjárfesta um alla ókomna framtíð. 

Hvers vegna mun skortur á ferskvatni valda næstu hörmungum?

Í breska blaðinu The Observer var birt grein eftir Robin McKie,  vísindaritstjóra blaðsins, þann 8. mars sl. undir fyrirsögninni; Hvers vegna mun skortur á ferskvatni valda næstu hörmungum? Þar er vitnað til nokkurra dæma um ástandið. Þar segir m.a.: „Því miður fyrir okkar plánetu, þá eru auðlindir jarðar nú að verða uppurnar með ógnvænlegum hraða. Fólki heldur áfram að fjölga, en ekki hefur tekist að tryggja allri þeirri fjölgun aðgengi að fersku vatni. Djúpstæðar afleiðingar af því eru nú að koma í ljós. Fregnir berast af stórum svæðum víða um heim þar sem vatnsbirgðir hafa verið að þorna upp. Meira en milljarður einstaklinga, eða sjöundi hver jarðarbúi, býr nú við skort á hreinu og öruggu drykkjarvatni. Í fyrstu viku mars var ástandið svo slæmt í brasilísku borginni São Paulo að íbúar voru í örvæntingu sinni farnir að bora niður í jörðina um alla borg í leit að vatni. Það var borað í gegnum kjallaragólf og á bílastæðum til að reyna að finna grunnvatn. Yfirvöld borgarinnar tilkynntu þá að líklegt væri að gripið yrði til skömmtunar á vatni og að íbúar kynnu aðeins að hafa aðgengi að vatni tvo daga í viku.“

Rifist út af tankbíl með vatni

Þess má geta að Brasilía er talin geyma um 12% af ferskvatnsbirgðum heimsins. Vatnsskortur er því eitthvað sem íbúar þar í landi hafa ekki þurft að óttast fram undir þetta. Vatnskreppan í São Paulo eða „vatnshrunið“ eins og þetta fyrirbæri hefur líka verið nefnt, er sagt hafa stillt 20 milljón íbúum borgarinnar fram á brún hengiflugs. Í einu blokkahverfi borgarinnar gripu yfirvöld til þess ráðs í febrúar að fá tankbíl með 90 þúsund lítra að vatni. Það kostaði  sem svaraði ríflega 250 þúsund krónum. Upphófst síðan mikið rifrildi og deilur þegar farið var að ræða hvernig ætti að skipta kostnaðinum niður á íbúa og afgreiða þessi mál í framtíðinni. 

Fjórða þurrkaárið í röð í uppsiglingu í Kaliforníu   

„Í Kaliforníu hafa yfirvöld lýst því yfir að ríkið sé nú líklega að ganga inn í fjórða þurrkaárið í röð. Janúarmánuður hafi verið sá þurrasti síðan skráning veðurfarsmælinga hófst. Á sama tíma hafi vatnsnotkun á hvern íbúa stöðugt verið að aukast.
Arabísku furstadæmin í vanda

Í Mið-Austurlöndum hafi dreifbýl svæði verið að breytast í eyðimörk vegna ofnotkunar á grunnvatni. Einna verst er ástandið að verða í Íran. Stórkostleg ofnotkun á vatni samfara lítilli úrkomu hafa orsakað það að vatnsból þorna upp með alvarlegum afleiðingum fyrir landbúnaðarframleiðsluna. Af sömu ástæðu hafa arabísku furstadæmin verið að fjárfesta í vatnseimingarstöðvum og stöðvum til að hreinsa vatn úr skólpi. Krónprinsinn Sheikh Mohammed bin Zayed al-Nahyan viðurkenndi alvarleika málsins þega hann sagði: „Fyrir okkur er vatn orðið mikilvægara en olían.“

Stórkostlegur vandi í uppsiglingu í Suður-Asíu

Í greininni í Observer er sagt að svipaðar fregnir séu að berast úr öðrum heimshlutum. Í Suður- Asíu hafi t.d. verið greint frá gríðarlegu grunnvatnstapi. Þar hafi grunnvatni verið dælt upp af miklu ábyrgðarleysi í heila öld. Um 600 milljónir manna búi nú á svæði frá austurhluta Pakistan á þurrum sléttum Norður-Indlands og inn í Bangladesh, sem er ekki nema 2.000 ferkílómetrar að stærð eða um 2% af flatarmáli Íslands. Á þessu svæði er stunduð mesta vökvun fyrir landbúnaðarframleiðslu á jörðinni. Um 75% bænda á þessu svæði reiða sig á uppdælingu á grunnvatni til að vökva ræktarlönd sín og vatnsnotkunin fer vaxandi. Á sama tíma sýna gervihnattamyndir að staða grunnvatnsins í jarðlögum rýrnar með ógnvænlegum hraða.

Bandarísk umhverfisrannsókn sýnir að í heild nemi ferskvatnið á jörðinni 10,6 milljónum rúmkílómetra. Ef þetta yrði sett í einn vatnsdropa væri hann 272 kílómetrar í þvermál. Um 99% af þessu vatni er grunnvatn og talsvert af því er ekki aðgengilegt. Til samanburðar er allt vatn í ám og vötnum, sem er önnur meginuppspretta neysluvatns á jörðinni, að gefa af sér vatnsdropa sem væri tæplega 56 kílómetrar í þvermál. Þessi vatnsuppspretta er í vaxandi hættu samhliða hlýnun jarðar.

Þessu til viðbótar er bent á að hlýnun jarðar sé nú að leiða til þess að jöklar hverfi sem hafi mikil áhrif á byggðir á vatnasvæðum neðan þeirra jökla.

Vatnsskortur veldur deilum

Á fundum ráðamanna um allan heim hefur komið fram að fjöldi þeirra jarðarbúa sem hafi ekki aðgengi að nægu vatni muni vaxa stöðugt út 21. öldina. Sífellt fleira fólk verði að slást um þessa auðlind. Stutt sé síðan leyst var úr deilu Egypta og Eþíópíumanna um stíflu í ánni Níl. Í framtíðinni er líklegt að koma muni upp mun alvarlegri átök samfara uppþornun vatnslinda.

Norðurslóðir ekki ónæmar fyrir hættunni

Greinarhöfundur í Observer segir að norðurslóðir séu alls ekki ónæmar fyrir þessu ástandi, þó þar sé meiri úrkoma en annars staðar á jörðinni og búast megi við aukinni úrkomu á komandi árum. Hlýnandi loftslag muni hafa áhrif á fjölmarga þætti er varðar aukna úrkomu, eins og mengun. Það hafi m.a. áhrif á vatnsgæði og auki hættu á flóðum og skemmdum á mannvirkjum og ræktarlandi.

Vaxandi hætta steðjar að mannkyni

„Heimurinn horfir nú fram á vatnskreppu sem mun hafa áhrif á alla jarðarbúa. Jean Chrétien, fyrrverandi forsætisráðherra Kanada og meðstjórnandi í aðgerðarhópnum InterAction Council, segir: Ef við ætlum að nota vatn með sama hætti og við höfum gert á liðinni tíð, þá getur mannkynið ekki viðhaldið sér í framtíðinni.“ 

Skylt efni: Umhverfismál | vatn

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...