Mynd/Odd Stefán Á hverju ári framleiða íslenskir bændur um 30.000 tonn af kjöti, 15.000 tonn af grænmeti og 150 milljón lítra af mjólk.
Skoðun 16. júlí 2020

Íslenskt, eða hvað?

Arnar Árnason
Það eru ekki margar vikur síðan íslenskur landbúnaður var ofarlega í huga þjóðarinnar. Á meðan COVID-19 stóð hæst hér á landi voru fjölmargir – jafnvel úr óvæntustu áttum – sem ræddu og rituðu um mikilvægi greinarinnar, enda fátt mikilvægara en fæðuöryggi þjóðar og sjaldan sem við hér á landi þurfum að leiða hugann að og tryggja þessa helstu grunnþörf mannsins. Í framhaldinu var hrundið af stað stóru markaðsátaki þar sem við erum hvött til að styðja við hvers konar íslenska framleiðslu, velja íslenskt og versla íslenskar vörur og þjónustu. 
 
Fjöldi starfa í landbúnaði
 
Á hverju ári framleiða íslenskir bændur um 30.000 tonn af kjöti, 15.000 tonn af grænmeti og 150 milljón lítra af mjólk. Framleiðslan fer fram á um 3.150 býlum hringinn í kringum landið og mikill fjöldi fólks kemur að framleiðslu, vinnslu, flutningi og sölu og framreiðslu matvæla til neytenda. 
 
Íslendingar vilja íslensk matvæli og við sem sjálfstæð þjóð eigum auðvitað að hafa þann manndóm að framleiða það sem við þurfum og getum, á sjálfbæran hátt. Við eigum líka að líta til umhverfisþáttarins og vera ekki að flytja inn vörur sem við getum og erum að framleiða hér, hinum megin að af hnettinum. Það er einfaldlega óskynsamlegt. 
 
Tollvernd í mýflugumynd
 
Í byrjun júlímánaðar voru boðnir út tollkvótar á landbúnaðarvörum til landsins. Var það í fyrsta sinn sem það er gert með nýju úthlutunarkerfi, en þegar innleiðing þess kerfis var í umræðunni vöruðu forsvarsmenn bænda mjög við því að það myndi veikja tollvernd innlendra búvara enn frekar, á sama tíma og tollkvótar væru að stóraukast. Sú varð heldur betur raunin. Nú er staðan sú að tollvernd fyrir nautakjöt er einungis fjórðungur þess sem hún var í upphafi árs 2019, á sama tíma og tollkvóti frá ESB hefur aukist úr 100 tonnum í 547 tonn síðastliðin 3 ár og mun aukast enn fremur á næsta ári og fara í 696 tonn. 
 
Með nýrri aðferð er stuðst við svokallað „hollenskt útboð“. Markmið stjórnvalda var að lægra útboðsverð ætti að skila sér í lægra verði til neytenda, en ég leyfi mér að efast að fólk hafi ætlað sér að gera tollverndina að nánast engu eins og raun varð í nautakjötinu. 
 
Allar forsendur tollasamnings við ESB brostnar
 
Þessi gríðarlega lækkun á tollvernd samhliða stórauknum tollkvótum getur ekki staðið óbreytt. Forsendur tollasamnings við Evrópusambandið eru til að mynda algerlega brostnar. Forsvarsmenn bænda hafa reyndar alla tíð mótmælt þeim samningi harðlega, enda var samið um gríðarlegt magn af landbúnaðarvörum til landsins. Barist hefur verið fyrir endurskoðun samningsins og jafnvel uppsögn allt frá því hann tók gildi árið 2018. Ástæðurnar eru nokkuð augljósar, þegar samningurinn var gerður var Bretland hluti af Evrópusambandinu en við gildistöku samningsins var ljóst að Bretland ætlaði sér út úr sambandinu. Það þarf því auðsjáanlega að endurskoða samninginn út frá þeim forsendum, þá sérstaklega í ljósi þess að nú er unnið að viðskiptasamningi við Bretland sem að öllu óbreyttu kæmi til viðbótar við ESB-samninginn. Samhliða þeirri samningavinnu þarf augljóslega að endurskoða ESB-samninginn. 
 
Brexit er þó ekki eini forsendubresturinn. Ferðamannafjöldinn hefur hrunið sökum COVID-19 og því ekki þörf á öllu þessu kjöti eins og áður var talið, en hröð fjölgun ferðamanna var ein aðalforsenda þess að stjórnvöld juku innflutningskvótana frá ESB á sínum tíma. Ef við tökum COVID-19 út fyrir sviga þá var ferðamönnum þegar farið að fækka en heildarfjöldi erlendra ferðamanna á síðasta ári var 14,1% minni en árið 2018.
 
Íslenskt, gjörið svo vel
 
Margt jákvætt hefur gerst í íslenskri nautakjötsframleiðslu undanfarin ár. Við gerð búvörusamninga árið 2016 var til dæmis ákveðið að taka upp sérstakt sláturálag fyrir betri gripi og háum fjárhæðum ráðstafað til byggingar og reksturs einangrunarstöðvar fyrir nýtt erfðaefni í holdanautarækt hér á landi. Á einangrunarstöðinni er nú að fæðast þriðji hópur hreinna Angus-kálfa og kálfar undan fyrstu nautunum farnir að fæðast víðs vegar um landið. 
 
Með upptöku EUROP-matskerfis fyrir nautgripakjöt höfum við svo séð töluverða bætingu í flokkun á stuttum tíma, þá sérstaklega í UN-flokki þar sem um 26% gripanna hafa flokkast í O- og ofar, þar af 11,4% í R- og ofar, það sem af er þessu ári. Það verður að teljast ansi góður árangur og eiga bændur hrós skilið fyrir góða frammistöðu.
 
En, því miður hefur þessi mikla vinna og góði árangur ekki skilað sér sem skyldi til bænda. Ekki eru margir mánuðir síðan við fengum yfir okkur 10–12% verðlækkun á kúm sökum hárrar birgðastöðu á nautgripahakki og verð á ungnautakjöti til bænda hefur nánast staðið í stað um allnokkurt skeið.
 
Sanngjörn samkepppni
 
Framleiðslukostnaður hvers konar er ívið hærri á Íslandi en víða annars staðar. Margt spilar inn í; lítill markaður, hár launakostnaður og flutningskostnaður aðfanga og svo sú staðreynd að við búum á eyju í miðju Atlantshafi þar sem veðurfar leyfir færri uppskerur en víða á meginlandi Evrópu og lega landsins hefur áhrif á nýtingarmöguleika landsvæða. Allt hefur þetta áhrif til hækkunar á framleiðslukostnaði. 
Þetta gerir okkur erfitt í að keppa á grundvelli verðs þegar tollverndar nýtur ekki við eða hún er af jafn skornum skammti og nú er orðin raunin.
 
Á Íslandi þekkjast ekki svokölluð verksmiðjubú, þar sem jafnvel þúsundir gripa eru aldir, og við búum við strangt og kostnaðarsamt regluverk. Við viljum hins vegar ekki slá af þeim kröfum sem gerðar eru varðandi aðbúnað manna og dýra hérlendis og það veit ég að neytendur vilja ekki heldur. En þetta kostar. Við getum hins vegar sannanlega keppt í gæðum, en þegar verðmunur fer yfir ákveðið mark þá vitum við að verðþolið nær ekki nema ákveðið langt.
 
Lögum þetta
 
Tvennt þarf að koma til ef við ætlum ekki að láta innflutt nautakjöt koma í stað íslenskrar framleiðslu. Endurskoða þarf hið nýja úthlutunarkerfi tollkvóta og gera þarf nýjan viðskiptasamning við ESB um landbúnaðarvörur sem endurspeglar betur raunþörf markaðarins. Stjórnmálafólk getur ekki komið fram með fögur fyrirheit um stuðning við íslenskan landbúnað og skrifað fjölda greina um mikilvægi íslenskrar matvælaframleiðslu, ásamt því að ráðast í átak þar sem neytendur eru hvattir til að velja íslenskt og styðja við íslenska framleiðslu, á sama tíma og rekstrargrundvelli matvælaframleiðenda er kippt undan þeim með ódýrum innfluttum matvælum sem bera litla sem enga tolla.  
 
Ef það er sannanlega vilji stjórnmálafólks að styðja við íslenska framleiðslu og sjá hag íslensks landbúnaðar sem vænstan, þá þarf að ráðast í þá vinnu, ekki seinna en núna.
 
Arnar Árnason
formaður Landssambands kúabænda