Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 21. október 2019
Segir engin rök lögð fram fyrir 1.000 íbúa lágmarkinu
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Rökin fyrir 1.000 íbúa lágmarki finnast hvergi, Alþingi má aldrei setja slík mörk bara til að gera eitthvað,“ segir í ályktun sem sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefur samþykkt, en hún hafnar alfarið lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga.
Sveitarstjórnin bendir á að sjálfbærni sveitarfélaga fari ekki eingöngu eftir íbúafjölda og minni sveitarfélög standist ný skuldaviðmið almennt betur en þau stærri. Þá er einnig nefnt að mörg minni sveitarfélög veiti íbúum góða þjónustu og í þeim sé lýðræðisleg virkni almennt meiri en í stærri sveitarfélögum. Jaðarsvæði eigi jafnan erfiðast í sameinuðum sveitarfélögum.
Þó svo að sveitarfélög starfi saman að þjónustu sem hentugt þykir hafi það ekki neitt að gera með stærð þeirra. Eins bendir sveitarstjórnin á að þó svo að faglegir veikleikar kunni að vera á þjónustu minni sveitarfélaga búi þau líka yfir mikilvægum styrkleikum, svo sem yfirsýn og nánd. „Sameining sveitarfélaga þar sem innan við 5% íbúa landsins býr, breytir sáralitlu um styrk sveitarfélagsins í heild,“ segir í ályktun sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps.
Minni sveitarfélögum haldið utan vinnunnar
Hún átelur að minni sveitarfélögum hafi beint og óbeint verið haldið utan við vinnu sem fólst í gerð tillögu um sameiningu sveitarfélaga og 1.000 íbúa markið. Minni sveitarfélög hafi ekki komið að þeirri vinnu. Þá hafi stærri sveitarfélög beitt þau minni aflsmun á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og m.a. talið sér sæma að samþykkja á þinginu að minni sveitarfélög skyldu annan hvort sameinast innbyrðis eða renna undir þau stærri. Til að fá þau á sitt band hafi stórfé verið lofað úr jöfnunarsjóði.
„Stuðningur sumra minni sveitarfélaga helgaðist líka af því að þau eiga þegar í viðræðum um sameiningu. Það er sérstakt að slík sveitarfélög, sem vilja jafnvel alls ekki sameinast stórum nágranna sínum sjálf, styðji tillögu sem þvingar önnur lítil sveitarfélög í þá stöðu,“ segir sveitarstjórnin í Grýtubakkahreppi. „Það er einnig sérstakt að samþykkt þings, sem þannig er fengin, sé blygðunarlaust kynnt sem vilji sveitarfélagsstigsins í heild, þó gangi þvert gegn vilja mikils meirihluta þeirra sveitarfélaga sem tillagan snertir með beinum hætti.“
Ný jaðarsvæði verða til í nýju sveitarfélögunum
Grýtubakkahreppur telur það ganga þvert gegn öllum markmiðum tillögunnar að þvinga fram sameiningar sveitarfélaga „þar sem fyrirséð er að þær muni ná yfir mjög stór landsvæði eða að ný jaðarsvæði í stórum sveitarfélögum verða til og þar sem íbúar eru sannfærðir um að sameining muni leiða til skertra lífskjara og lakara þjónustustigs,“ eins og segir í ályktuninni og að alls ekki sé viðunandi að Alþingi samþykki slíka tillögu í nafni lýðræðis og undir því fororði að styrkja eigi búsetu úti um landið, þegar áhrifin á sumum svæðum verði þveröfug.
Grýtubakkahreppur gagnrýnir ráðherra fyrir að hafna því að bjóða litlu sveitarfélögunum til fundar og heyra þeirra sjónarmið, en hreppurinn heitir á Alþingi að hlusta á þeirra sjónarmið. Ófært sé að góð markmið í tillögunni falli í skuggann af valdbeitingu stærri sveitarfélaganna.
Hvergi finnast rök fyrir 1.000 íbúa lágmarkinu
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, bendir í pistli á heimasíðu hreppsins á að alls séu um þessar mundir 39 sveitarfélög í landinu sem ekki nái 1.000 íbúa markinu, af 72 sveitarfélögum alls.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi.
„Fyrir svo harkalegri aðgerð þurfa að vera ríkir hagsmunir og sterk rök. Því er ekki að heilsa í þessu máli, enda alger fásinna að sameining sveitarfélaga, þar sem aðeins 5% þjóðarinnar búa, í eitthvað stærri einingar, hafi nokkur áhrif á styrk sveitarfélaga landsins í heild. Raunar finnast hvergi í gögnum eða ferli málsins nokkur rök fyrir þessu lágmarki.
Hins vegar er mörgu snúið alveg á haus, t.d. að samstarf sveitarfélaga sé ólýðræðislegt þar sem íbúar færist fjær ákvarðanatöku og ábyrgð, því þurfi sveitarfélög að vera svo stór að þau ráði við að sinna þjónustu ein og óstudd. Af þessum sökum þurfi að sameina lítil sveitarfélög. Hvergi er hins vegar nefnt hvaða þjónustu er átt við, eða hvaða þjónustu íbúar litlu sveitarfélaganna séu ekki að fá. Enda er staðreyndin sú að íbúar minni sveitarfélaga eru almennt sáttir og fá ágæta þjónustu.“
Valdi samstarf lýðræðisbresti
Þröstur segir samstarf sveitarfélaga um rekstur og þjónustu ganga ágætlega og sé hagkvæm leið fyrir íbúana og hafi hvorki með stærð þeirra né lýðræði að gera. Valdi samstarf sveitarfélaga lýðræðisbresti væri ekki úr vegi að hefjast handa þar sem hann er mestur, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu þar sem hefð er fyrir miklu samstarfi sveitarfélaga.
Þröstur segir það alvarlegt að takmarkað samráð hafi verið haft við litlu sveitarfélögin og að auki rangt farið með þegar frá því sé sagt, m.a. að tillaga um sameiningu sé lögð fram með velþóknun sveitarstjórnarstigsins í heild og að allir séu jákvæðir og sammála tillögunum. Í engu sé getið um harða andstöðu gegn lögþvinguðum sameiningum né efasemdum um þá leið, sem þó sé áberandi í umsögnum margra sveitarfélaga.