Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sigrún og Þröstur hafa aðeins verið að auka hlut sinn í kínakálsræktuninni, en hvítkálsræktunin er ennþá langmest.
Sigrún og Þröstur hafa aðeins verið að auka hlut sinn í kínakálsræktuninni, en hvítkálsræktunin er ennþá langmest.
Mynd / smh
Fréttir 13. september 2018

Óhagstæðasta sumarið undanfarin 20 ár

Höfundur: smh
Sigrún Pálsdóttir í Garðyrkjustöð Sigrúnar segir uppskeruhorfur vera sæmilegar í besta falli, en þau Þröstur Jónsson, maður hennar, eru aðallega með hvítkál í sinni ræktun og hafa verið á undanförnum árum.
 
Um 150 tonn af hvítkáli er skorið upp í meðalári á þessum árstíma hjá Sigrúnu, en útséð er með að það náist þetta árið vegna vætutíðar. „Útplöntun seinkaði um tíu daga og svo má segja að við höfum misst júlí eiginlega alveg út. Það seinkar því allri uppskeru og hún verður mun minni þar sem allt vex hægar. Góðir dagar í ágúst hafa bjargað því sem bjargað verður,“ segir Sigrún.
 
Útiræktun stendur tæpast undir sér
 
Garðyrkjustöð Sigrúnar er ein fárra garðyrkjustöðva sem eftir eru á Íslandi sem helgar sig eingöngu útiræktun á grænmeti. „Útiræktun hefur dregist saman á síðustu árum, enda stendur hún tæpast undir sér á Íslandi nema bændurnir geti gert nánast allt sjálfir.
 
Afurðaverð til bænda hefur staðið nokkurn veginn í stað. Afkoman hjá okkur hefur verið svipuð á undanförnum árum, enda höfum við bara þurft að vinna meira sjálf þegar aðstæður – til dæmis á markaði eða tíðarfar – hafa verið okkur óhagstæðar,“ segir Sigrún en þau hafa stundað ræktun á Flúðum í um 20 ár. 
 
Hvítkál ekki bara til kjötsúpugerðar
 
„Við höfum aðeins verið að auka við okkur í kínakálinu, þar sem nokkrir stórir ræktendur hafa hætt eða dregið saman ræktun á undanförnum misserum. Neysla á kínakáli hefur hins vegar aðeins dalað á kostnað annarra salattegunda, þannig að það hefur ekki verið mikið svigrúm til vaxtar í þeirri ræktun. Held það mætti hins vegar alveg sækja fram í markaðssetningu á kínakálinu, því notkun á því í matreiðslu er frekar einhæf hér á landi og það er nánast eingöngu notað til að blanda saman við salat af ýmsu tagi. Það sama má segja með hvítkálið – það býr yfir miklu fjölhæfari matreiðslu­möguleikum en bara til kjöt­súpugerðar. Við sjáum að erlendis er hvítkálið notað á mjög fjölbreyttan hátt í matreiðslu.
 
Ekki von á rauðkálsuppskeru
 
Síðan erum við með grænkál, spergilkál, blómkál og rauðkál – en þó talsvert minna af þessum káltegundum en hinum. 
 
Reyndar er rauðkáls­stykkið okkar enn vel blautt og við gerum okkur ekki von um mikla uppskeru af því. Það má líklega segja að þetta hafi verið versta sumarið sem við höfum upplifað í okkar ræktun,“ segir Sigrún. 
Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...