Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Veggspjald var búið til með 30 leiðum til að minnka plastnotkun og fór víða á samfélagsmiðlum.
Veggspjald var búið til með 30 leiðum til að minnka plastnotkun og fór víða á samfélagsmiðlum.
Mynd / Plastlaus september
Fréttir 16. október 2020

MS og SFG í sífelldri endurskoðun á umbúðamálum

Höfundur: smh

Árveknisátakinu Plastlaus september lauk þann 30. september með málþingi í Veröld – húsi Vigdísar. Yfirskriftin var Frá upphafi til enda – plastnotkun í íslenskri matvælaframleiðslu. Þar kom meðal annars fram að allar plastumbúðir frá bændum innan Sölufélags garðyrkjumanna eru endurvinnanlegar.

Sífelld endurskoðun á framleiðsluferlum og í umbúðaþróun

Sunna Gunnars Marteinsdóttir, samskiptastjóri MS, flutti erindi um þær aðgerðir sem þar hefur verið ráðist í – og stefnt er að – til að minnka plastnotkun. Hún sagði að af vinsælustu vöruflokkum þeirra í framleiðslu væru einungis tveir þeirra enn í plastumbúðum; ostur og skyr – annað væri mest í pappaumbúðum. Athugun fyrirtækisins leiddi í ljós að ekki væri slæmt að nota plast ef það væri einungis úr einnig tegund af plasti sem hægt væri að endurvinna. Því fór í gang vinna hjá MS við að laga þær vörur, sem þurfa að vera í plastumbúðum, að þeirri niðurstöðu.

Hjá Sunnu kom fram að bæði í framleiðsluferlunum og í umbúðaþróuninni væri sífelld endurskoðun í gangi um það hvar megi minnka plast og hvernig því sé skilað á sem bestan hátt til endurvinnslu, sem ekki verður í bili komist hjá að nota. 

Allt plast í endurvinnanlegt hjá SFG

Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjumanna (SFG), sagði að umbúðir utan um vörur garðyrkjubænda væru af ýmsum ástæðum nauðsynlegar; rekjanleikinn væri meiri og svo gegna þær ákveðnu verndarhlutverki fyrir vörurnar. Reynslan sýndi til dæmis að ópakkað útiræktað grænmeti rýrnaði um allt að 30 prósent – en ekki nema um tvö prósent þegar því væri pakkað. Kristín sagði hins vegar að ljóst væri að það væru bæði kostir og gallar við að pakka grænmeti.

Hún sagði að innan SFG væri stöðug leit að góðum umbúðalausnum. Umbúðaplastið væri orðið þynnra og minna væri notað af plasti utan um vörurnar, þannig að plastnotkunin hefði minnkað um 90–95 prósent í kílóum talið, og svo væri allt plast á vegum þeirra að fullu endurvinnanlegt.  

Frá 2009 hafa pappabakkar alveg leyst plastbakkana af hólmi hjá garðyrkjubændum innan SFG, að sögn Kristínar Lindu, en þeir eru allir unnir úr endurvinnanlegum pappa. Þá var á síðasta ári farið að nota niðurbrjótanlegar umbúðir utan um salat og smátómata og -gúrkur. Þar er um að ræða umbúðir úr „lífplasti“ – sem líkjast plasti, en er gert úr jurtasterkju eða sykureyr. 

Önnur erindi sem flutt voru í Veröld voru frá Þóru Þórisdóttur í Matarbúðinni Nándinni, sem fékk umhverfisviðurkenninguna Bláskelina á dögunum, Þóru Þorgeirsdóttur hjá Minna sorp og Gyðu S. Björnsdóttur frá SORPU.

30 leiðir til að minnka plastnotkun

Vegna samkomutakmarkana snerist starfið hjá Plastlausum september að þessu sinni um að miðla upplýsingum og hvetja fólk með rafrænum hætti. Veggspjald var til dæmis búið til með 30 leiðum til að minnka plastnotkun og fór víða á samfélagsmiðlum.

Skylt efni: Mjólkursamsalan.