Matarmarkaður Búrsins haldinn í tíunda sinn
Matarmarkaður Búrsins verður haldinn laugardaginn 5. mars og sunnudaginn 6. mars í Hörpu. Þetta var í tíunda skiptið sem þessi matarmarkaðshátíð er haldin á Íslandi. Samhliða fer fram úrslitakeppni Food and fun-kokkakeppninnar, í Norðuljósasal Hörpu.
Hátt í 50 aðilar kynna vörur sínar á matarmarkaðnum, bændur, sjómenn og smáframleiðendur. Veitingastaðurinn Matur og Drykkur verður með „pop-up bar“ og snakk á svæðinu. Aðgangur er ókeypis og opið frá 11-17 báða daga.
Saltað hrossakjöt, heitreyktur makríll og lifrarkæfa
Meðal þátttakenda í ár eru sauðfjárbúið Ytra-Hólmi, sem koma með ýmislegt góðgæti eins og grafið ærkjöt, tvíreykt hangikjöt, ærhakk, bjúgu, saltað hrossakjöt, marinerað hrossafille og marineraða lambaframparta. Bændurnir á Bjarteyjarsandi koma með góðgæti úr eigin framleiðslu. Barnamaturinn frá þeim Rakelu Garðarsdóttir og Hrefnu Sætran sem framleiddur er undir vörumerkinu VAKANDI verður kynntur.
Erpstaðir í Dölum verða með sínar eftirsóttu mjólkurvörur; ísinn, konfekt og aðrar krásir. Kokkhúsið verður með ýmsar útgáfur af Hólableikju. Ljómlind verður með nautakjöt, grafið ærfille og fleira. Heitreyktur makríll frá Ómari á Hornafirði er fastagestur á þessum markaði, sem og reyktur regnbogasilungur. Steðji kemur með óáfenga bjórinn sinn Radler. Svo verður félag kjötiðnaðarmanna með lifrarkæfusmakk á sunnudeginum. Þar fá mataráhugamenn tækifæri til að velja bestu lifrarkæfu ársins. Þá verður gamall uppgerður traktor fyrir utan höllina ásamt Tuddanum sem býður upp á hamborgara sem gerðir eru úr kjöti af holdanautgripum – sem eru að öllu leyti grasfóðraðir.