Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Leitað leiða til að bregðast við áfalli vegna niðurskurðar
Fréttir 23. nóvember 2020

Leitað leiða til að bregðast við áfalli vegna niðurskurðar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Riðuveiki var staðfest á fjórum sauðfjárbúum í Skagafirði, Stóru-Ökrum, SyðriHofdölum, Grænumýri og Hofi í Hjaltadal. Í kjölfarið var lögum samkvæmt fyrirskipaður niðurskurður alls fjár á búunum, eða á um 2.500 gripum. 

 „Fyrst og fremst höfum við af fremsta megni reynt að finna leiðir til að bregðast við þessu gríðarlega áfalli og áfallateymi sveitarfélagsins var strax virkjað og bauð fram sína aðstoð sem síðan hefur verið fylgt eftir með samtölum,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar. 

Erfið staða fyrir bændur

Sigfús Ingi segir þessa stöðu erfiða fyrir þá bændur sem fyrir urðu en hún snerti fjölskyldur þeirra og nágranna og hafi í raun áhrif um allt skagfirska samfélagið og víðar. Að hluta til var um að ræða stór og myndarleg ræktunarbú sem eftir var tekið og því mikil eftirsjá að því starfi sem þar var unnið. 

„Fólk hér um slóðir tekur þetta inn á sig og er dapurt, við finnum alveg fyrir því að þessi atburður leggst þungt á menn,“ segir Sigfús Ingi. Hann nefnir einnig að hann komi til með að hafa áhrif á félagsstarf bænda í héraði, sem að hluta til var byggt upp á viðburðum tengdum sauðkindinni, m.a. hrútasýningum.

Mikil vinna við greiningu sýna

Sveitarstjóri segir að héraðsdýralæknir hafi tekið fjöldann allan af sýnum og nú sé verið að greina þau. Um mikinn fjölda sýna sé að ræða og því geti tekið nokkuð langan tíma að greina þau öll. Sýnunum sé forgangsraðað. 

Sigfún Ingi Sigfússon.
Dýrt að koma sér upp nýjum bústofni

Sigfús Ingi segir sveitarfélögin tvö í Skagafirði, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur ásamt Bændasamtökum Íslands og atvinnuvegaráðuneyti séu í samstarfi þar sem verið er að skoða hvað hægt sé að gera til viðbótar því sem þegar hefur verið gert. 

„Það snýst m.a. um á hvern hátt við getum sem best veitt bændum stuðning og aðstoð. Þá sé vinna í gangi á vegum atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðu og m.a. verið að skoða leiðir til að koma til móts við þá bændur sem vilja hefja sauðfjárrækt á nýjan leik eftir tilskilinn fjárlausan tíma. 

Það er dýrt að koma sér upp nýjum bústofni. Líflömb eru mun dýrari en verðmæti sláturlamba og þeir styrkir sem nú standa til boða eru ekki nægilega háir til að bera kostnað við kaup á þeim. Það er því í gangi vinna við að finna leiðir til að hækka þessa styrki svo unnt sé að styðja með öflugum hætti við þá sem vilja byrja aftur.“

Förgunarmálin í ólestri

Þá segir Sigfús Ingi að það hafi verið slæmt að upplifa það ástand sem ríkir í landinu varðandi förgun dýrahræjanna. Áhrifaríkasta leiðin sé að brenna úrganginn, en brennsluofn sem til staðar er í Reykjanesbæ annar ekki allri brennslunni. Sá úrgangur sem eftir stendur mun fara til urðunar að Skarðsmóum í Skagafirði en þar er um að ræða urðunarstað sem búið var að leggja af. Úrganginum var því fargað þar á  undanþágu. 

„Þetta sýnir okkur að við þurfum að taka okkur á í þessum efnum, það þarf að ráða bragarbót á þessum urðunarmálum sem fyrst. Við verðum að hafa tiltækar viðunandi leiðir ef atburður af svipuðu tagi kemur upp á ný,“ segir Sigfús Ingi.

Skylt efni: Skagafjörður | riða | Riðuveiki