Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kynnir íslenskar matarkistur
Fólk 17. október 2018

Kynnir íslenskar matarkistur

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Sigríður Anna Ásgeirsdóttir leiðsögumaður á og rekur ferða­þjónustufyrirtækið Crisscross, sem sérhæfir sig í að kynna íslenskan mat og matarhefðir fyrir erlendum ferða­mönnum. Hún byrjaði með ferðirnar fyrir tveimur árum sem hafa vaxið þétt síðan og segir hún það koma ferðamönnunum á óvart hversu mikil fjölbreytni er í íslenskri matarflóru. 
 
„Ég tók þátt í Startup tourism með vinkonu minni, Ólöfu Ingólfsdóttur, þar sem við áttum að koma með tillögu að nýjung í ferðamennsku. Þar sem við höfum báðar sameiginlegan mataráhuga lá það beinast við að koma með þá hugmynd inn enda var enginn að sinna þessu hér heima. Þannig ákváðum við að koma með hugmynd að matarferðum en slíkar ferðir eru vel þekktar í Norður-Ameríku og í Frakklandi og Ítalíu þar sem fléttað er saman vín- og matarferðum. En það er í raun ekkert annað fyrirtæki sem hefur verið að fókusera á ferðir eins og við hjá Crisscross bjóðum upp á.“
 
Persónulegar dagsferðir
 
Sigríður Anna seldi nýverið fyrirtæki sitt, Kruss, þar sem hún framleiddi mysudrykk, til ábúenda á Erpsstöðum í Dölum. Hún tók þátt í matarmarkaðnum í Hörpu í nokkur skipti og kynntist þar íslenskum matvælum og framleiðendum. 
 
 „Það sem hefur verið í boði hérna heima er rölt um miðbæ Reykjavíkur með smakki á nokkrum stöðum og það hafa verið nokkrir aðilar sem hafa verið með þessar ferðir. Síðan er auðvitað hægt að stoppa í Efstadal og Friðheimum sem tengist þá meira gullna hringnum. Ég hef mest farið með ferðamennina á Vesturlandið og kynnt þá fyrir matarkistunni þar. Hjartað í ferðunum eru dagsferðir í Borgarfjörð og Hvalfjörð þar sem við förum á staði þar sem er ekki eins mikið af ferðamönnum. Þetta flokkast undir slowtravel-ferðir sem skilja meira eftir sig í nærumhverfinu. Við höfum einnig boðið upp á lengri ferðir á Vestfirði og erum að skoða Snæfellsnesið,“ segir Sigríður Anna og bætir við:
 
„Við tökum eftir því að þessir ferðamenn sem koma í ferðirnar vilja persónulegri þjónustu og að kynnast íslenskum matarhefðum ásamt því að kynnast framleiðendum. Einnig er mikill áhugi á nýjungum í matargerð sem hefur náttúrlega farið vaxandi hérna eftir hrunið. Fólk er orðið sniðugra að nota matvæli úr nærumhverfinu og að því leyti er hugsunarhátturinn mikið breyttur. Ferðamennirnir vilja fá bragðgóðan íslenskan mat og höfum við mikið verið með sjávarfang, kryddjurtir, lambakjöt og skyr sem dæmi.“
 
Það kemur ferðamönnunum sem koma í matarferðirnar á óvart hversu mikil fjölbreytni er í íslenskri matarflóru. 
 
Fjölbreytnin kemur á óvart
 
Flestir sem koma í ferðirnar eru frá Bandaríkjunum og Kanada en einnig frá Frakklandi, Bretlandi og Singapúr sem dæmi. 
 
„Þetta eru litlir hópar, eða innan við tíu manns í hvert sinn. Þannig næ ég að bjóða upp á meira samtal við fólkið. Undantekningarlaust er fólkið mjög ánægt með íslenskan mat og fjölbreytnina, hún kemur þeim á óvart. Einnig hafa ferðamennirnir mikinn áhuga á hvað sé mikill fjölskyldubúskapur hérlendis,“ útskýrir Sigríður Anna og segir jafnframt:
 
„Í okkar ferðum bjóðum við upp á íslenskt matarhandverk, bæði frá þeim framleiðendum sem við heimsækjum sem og öðrum sem nota hráefni úr íslenskri náttúru, mat sem er bragðgóður og hefur sögu að segja. Við reynum að tengja matarupplifunina við frásagnir af fólki og staðarháttum og hvernig aðstæður og umhverfi hefur haft áhrif á matarvenjur Íslendinga í gegnum tíðina. Fólk hefur mikla ánægju af því að borða mat sem hefur bein tengsl við þá staði sem við heimsækjum.“
 
Gagnkvæmur ávinningur
 
Ferðaskrifstofan Crisscross sérhæfir sig í að kynna land og þjóð í gegnum mat og matarhefðir með heimsóknum til bænda og smáframleiðenda og er því samstarfið við þessa aðila mjög mikilvægt.
 
 „Við höfum mikið heimsótt Bjarteyjarsand í Hvalfirði, Háafell í Borgarfirði, Miðdal í Kjós og Erpsstaði í Dalasýslu, sem sagt bændur sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Það skiptir öllu máli að eiga gott samstarf við heimamenn sem eiga það flestir ef ekki allir sameiginlegt að hluti af búskapnum hjá þeim er samofinn ferðaþjónustu. Þetta eru bændur sem hafa aðstöðu og viljann til að taka á móti fólki. Það þarf að vera gagnkvæmur ávinningur til að þetta gangi upp,“ segir Sigríður Anna og varðandi framhaldið bætir hún við:
 
„Þetta getur þróast á margan hátt eins og til dæmis með námskeiðshaldi með matreiðslumönnum og heimafólki. Það er mikill áhugi á að komast í tengsl við hráefnin og jafnvel hráefnisöflun. Einnig snýst þetta um tengsl við náttúruna og ef veður leyfir förum við með smakk út í náttúruna og bendum á árstíðabundin hráefni, eins og jurtir, fjallagrös og ber.“

5 myndir:

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...