Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hluti hópsins á kynningunni með Friðriki Sigurðssyni lengst til vinstri og sendiherranum Kristjáni Andra Stefánssyni við hlið hans. Óli Viðar Andrésson er bak við þá.
Hluti hópsins á kynningunni með Friðriki Sigurðssyni lengst til vinstri og sendiherranum Kristjáni Andra Stefánssyni við hlið hans. Óli Viðar Andrésson er bak við þá.
Mynd / Davíð Samúelsson
Fréttir 3. apríl 2018

KS kynnir íslenska lambakjötið í París

Höfundur: smh
Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga (KKS), í samstarfi við utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í París, stóð á dögunum fyrir lambakjötskynningu í sendiherrabústaðnum í París. 
 
Friðrik Sigurðsson, yfir­matreiðslumaður hjá utanríkis­ráðuneytinu, hafði frumkvæðið að kynningunni ásamt Óla Viðari Andréssyni, sölustjóra KKS, og Kristjáni Andra Stefánssyni, sendiherra Íslands í Frakklandi.
 
„Hvatinn að þessari kynningu var að sendiherra Íslands í París, sem er mikil áhugamaður um að leggja íslenskum framleiðendum lið í að koma vörum sínum á framfæri í Frakklandi. Hann fékk Friðrik Sigurðsson, matreiðslumeistara og bryta utanríkisráðuneytisins, í nokkra daga verkefni í París þar sem verið var að kynna afurðir úr íslensku sjávarfangi og þá kviknaði sú hugmynd að taka eina lambakjötskynningu í framhaldi af því. Friðrik, sem hefur unnið með okkur í nokkrum kynningum í Rússlandi, hafði samband við okkur og bauð okkur að vera með, sem við að sjálfsögðu þáðum,“ segir Óli Viðar.
 
Áhrifafólki boðið
 
Að sögn Óla Viðars var lagt upp úr því að bjóða áhrifafólki í matvæla- og veitingageiranum í Frakklandi á kynninguna. „Þetta voru til að mynda dreifingaraðilar, Michelin-kokkar, blaðamenn og veitingahúsaeigendur.
 
Það sem við notuðum á kynningunni voru vöðvar úr framparti, læri og hrygg, einnig lifur og hangikjöt.
Markmiðið með þessu er að ná inn á vel borgandi markaði og selja íslenska lambakjötið sem sérstaka vöru. Það gerum við með því að selja söguna með, það tekur tíma og mjakast hægt og rólega í rétta átt.
 
Síðan verður tíminn að leiða það í ljós hvort við náum árangri á þessum markaði, en það er þakkarvert þegar utanríkisþjónusta Íslands er tilbúin að bakka okkur upp og hjálpa okkur með að opna á möguleika fyrir afurðir okkar á erlendir grundu.
 
Því höfum við fengið að kynnast meðal annars í Rússlandi, Japan og núna Frakklandi og reyndar fleiri löndum,“ segir Óli Viðar.