Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Búfjárbeit á uppblásnu landi getur aldrei talist sjálfbær, hvorki í Lesotho né á Íslandi.
Búfjárbeit á uppblásnu landi getur aldrei talist sjálfbær, hvorki í Lesotho né á Íslandi.
Mynd / Hafdís Hanna Ægisdóttir.
Lesendarýni 22. febrúar 2016

Hvernig getur beit á uppblásnu landi talist jákvæð og jafnvel sjálfbær?

Höfundur: Þórunn Pétursdóttir landgræðsluvistfræðingur
Á hverju ári sækir Ísland heim hópur háskólafólks frá nokkrum löndum Afríku og Asíu sem öll eiga það sammerkt með okkur að glíma við afleiðingar landeyðingar af völdum ósjálfbærrar landnýtingar. 
 
Hópurinn situr meðal annars fjölmörg námskeið Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem okkar fremstu sérfræðingar frá  Landbúnaðarháskólanum, Landgræðslunni og fleiri stofnunum á sviðum vistfræði, landnýtingar- og landgræðslufræða kenna þeim að þekkja orsakir og afleiðingar landhnignunar. Þeim er einnig leiðbeint um hvað þurfi að gera til að stöðva landeyðingu og hvaða aðferðir reynast bestar til að byggja upp gróður og jarðvegsgæði á rofnu landi. Síðast en ekki síst er þeim kennt að tileinka sér aðferðafræði sjálfbærrar landnýtingar. Í stuttu máli þýðir það að nýta ekki landið/auðlindina meira en svo að gæði hennar haldist stöðug og rýrni ekki. 
 
Nýting á gróðurlitlu landi getur aldrei talist sjálfbær
 
Forsendur þessara viðmiða eru að auðlindin sé í það góðu ástandi að hún þoli nýtingu. Nýting á gróðurlitlu landi getur því aldrei talist sjálfbær, alveg sama þótt gróður virðist í framför. Fyrst þarf landið að ná upp því sem í vistfræði kallast viðnámsþróttur gegn raski sem og öflugu þanþoli. Ímyndum okkur íþróttamann sem brotnar svo illa að hann getur ekki keppt um sinn. Brotið grær en hann getur ekki keppt aftur fyrr en löngu seinna því beinið sem brotnaði er svo viðkvæmt gegn hnjaski að það getur auðveldlega brotnað aftur ef hann fer ekki rólega í að byggja upp fyrri getu og styrk áður en hann keppir á ný. Þannig verðum við að líta á ferli gróðurframvindu á uppblásnum svæðum. Svæðin verða að fá sem mestan frið til að gróa og ná upp fyrri vistgetu. Það tekur tíma og það verður að virða.
 
Allt þetta læra afrískir og asískir nemendur Landgræðsluskólans. Þau fara einnig í fjölbreyttar vettvangsferðir og heimsækja meðal annars bændur og landbúnaðarráðgjafa sem miðla þeim af reynslu sinni. Á ferðum sínum um Ísland upplifa nemarnir líkindin við gróðurvana heimahagana og sjá að það er full ástæða fyrir því af hverju þetta námskeið er í boði hér norður við heimskautsbaug. Ósjálfbær landnýting á viðkvæmu landi leiðir alltaf til landeyðingar, sama hvaða heimsálfa á í hlut. 
 
Skýtur skökku við
 
Það skýtur því skökku við að lesa hér á síðum Bændablaðsins lærðar greinar um að beit á illa grónu landi geti haft góð áhrif á gróðurframvindu innan svæðanna? Samkvæmt beitarfræðum getur skipulögð beitarstýring á vel grónu landi aukið tegundafjölbreytni flórunnar. Engin slík rannsókn hefur þó verið gerð hérlendis að mér vitanlega og því erfitt að staðhæfa að hið sama eigi við hér og í þeim löndum sem vitnað er til. Samanburður á gróðurbreytingum innan ágætlega gróinna beitilanda, gerður með um 25 ára millibili á bæði láglendi og hálendi hérlendis, sýndi reyndar að minna beitarálag og hlýnandi loftslag hafði almennt leitt til aukins hlutfalls háplantna í gróðurþekju og meiri uppskeru innan mælireitanna (Borgþór Magnússon o.fl. 2006). 
 
En – það gengur aldrei upp að bera saman epli og appelsínur. Það er einfaldlega ekki hægt að bera gróðurframvindu og uppsöfnun kolefnis í eldfjallajarðvegi illa gróinna íslenskra hálendissvæða saman við það sem gerist til að mynda í vel grónu skandinavísku landi. Þær rollur sem raga um auðnir munu heldur aldrei skilja eftir nægilegt magn af áburðarefnum til að efla vistgetu kerfanna en þær fara létt með að bíta þann litla gróður sem finnst á svæðinu og tryggja að fræframboð verði lítið sem ekkert.
 
Þurfum að vinna út frá staðreyndum
 
Rétt eins og nemar Landgræðslu­skólans læra að þótt vistfræðilegar forsendur fyrir landeyðingu og endurheimt eyddra vistkerfa séu alls staðar þær sömu þá ráða landfræðilegar, umhverfis- og veðurfarslegar aðstæður hvaða nálganir og aðferðir virka best á hverjum stað. Íslenskar aðstæður eru erfiðar. Við þurfum að vinna út frá þeirri staðreynd og stýra eða jafnvel stöðva tímabundið landnýtingu á viðkvæmum svæðum í takt við það. Kannski fyrsta skrefið sé að senda okkur öll í Landgræðsluskólann?  
 
Heimildir:  
Magnússon B., B.H. Barkarson, B.E. Guðleifsson, B.P. Maronsson, S. Heiðmarsson, G.A. Guðmundsson, S.H. Magnússon og S. Jónsdóttir. 2006.
Vöktun á ástandi og líffræðilegri fjölbreytni úthaga 2005. Fræðaþing landbúnaðarins.
 
Þórunn Pétursdóttir
landgræðsluvistfræðingur

Skylt efni: búfjárbeit | landeyðing

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...

Sala á 3.357 ærgildum
Fréttir 5. desember 2023

Sala á 3.357 ærgildum

Á innlausnarmarkaði með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. nóvember, bár...

Sæðingar verða niðurgreiddar
Fréttir 5. desember 2023

Sæðingar verða niðurgreiddar

Sæðingar verða niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu.

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.