Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Heldur fjölgar í sauðfjárstofninum
Fréttir 3. september 2015

Heldur fjölgar í sauðfjárstofninum

Sauðfé taldist vera samtals 487.806 á árinu 2014 samkvæmt tölum MAST. Það er nokkur fjölgun frá 2013 þegar stofninn var 471.434 skepnur.
 
Sauðfjárrækt er sem fyrr langmest á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Í því sem MAST skilgreinir sem vesturumdæmi voru 123.170 fjár í fyrra og 120.614 í Norðvesturumdæmi en þar undir eru líka Vestfirðir. Í þriðja sæti kemur Suðurumdæmi með 83.294 fjár og Austurumdæmi með 79.882 fjár. Suðvesturumdæmi var svo með 3.897 fjár.   
 
Stofnstærðin svipuð frá síðustu aldamótum
 
Fjöldi sauðfjár á Íslandi hefur haldist nokkuð stöðugur frá árinu 2000 eða á bilinu 450.000 til 480.000. Sauðfé hefur samt fækkað verulega á liðnum áratugum og er það nú aðeins um helmingur af stofnstærðinni árið 1980 þegar sauðfjárstofninn taldi 827.927 skepnur. Sú tala var komin niður í 749.097 árið 1981 og fækkaði sauðfé mjög ört á Íslandi frá árinu 1981 og fram til 1992 þegar það taldist vera 487.545. Þá kom smá aukning til 1994 þegar fjöldinn var kominn í 499.335. Þá varð aftur fækkun í stofninum til 1995 þegar hann fór í 458.367 fjár. Smá aukning varð þá til 1999 er fjöldinn fór upp í rúmlega 490.000 skepnur. Síðan hefur fjöldinn verið á nokkuð svipuðu róli, í kringum 465 þúsund fjár að meðaltali, en fæst varð féð þó árið 2005 þegar stofninn taldi aðeins 454.950 fjár eða 32.856 færri en á síðasta ári. 
 
Óvissa um horfur
 
Nokkur óvissa er um hvað bændur gera í haust, vegna minni heyöflunar víða vegna kuldatíðar. Hugsanlega verður því heldur færra fé sett á í vetur en áður.  
 
Sjúkdómavarnir
 
Eldgos bitna jafnan hart á sauðfé, en árstími skiptir þó verulegu máli. Í tengslum við rannsókn á áhrifum eldgossins í Holuhrauni tók Matvælastofnun grassýni á átta bæjum á Austurlandi í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Mælt var meðal annars magn flúors og brennisteins með það að markmiði að kanna hvort magn þessara efna gætu haft áhrif á heilsufar grasbíta á svæðinu. Á fimm af þessum átta bæjum höfðu sýni verið tekin af túnum 2013 og við samanburð milli ára reyndist magn brennisteins vera töluvert hærra en árið áður en ekki reyndist marktækur munur á flúormagni. Bæði gildin, ásamt magni ýmissa steinefna, reyndust innan viðmiðunarmarka og því var ekki talin hætta á neikvæðum heilsufarslegum áhrifum á búfénað sem beitt var á túnin á viðkomandi bæjum svo og bæjum í svipaðri fjarlægð frá gosstöðvunum það sem eftir lifði ársins. Áætlað er að ráðast í frekari sýnatökur á svæðinu vorið 2015. 
 
Rannsóknir á útbreiðslu kregðu
 
Á árinu hófst rannsóknarverkefni í samstarfi við Keldur þar sem útbreiðsla kregðu á líflambasölusvæðum var könnuð en sýnatökur fóru fram í haustslátrun 2014. Endanlegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir en kregða er þekktur sjúkdómur í sauðfé og töluvert útbreitt vandamál. Kindur sem sýkjast af kregðu geta átt á hættu að veikjast af skæðari lungnasjúkdómum í kjölfarið, t.d. lungnapest.
 
Garnaveiki og riðuveiki
 
Í nóvember greindist garnaveiki á sauðfjárbúinu Blöndubakka í Héraðshólfi. Ekki hafði greinst garnaveiki í Héraðshólfi síðan fyrir fjárskipti í kringum árið 1990. Einnig greindist tilfelli garnaveiki á bænum Dölum í Fjarðabyggð en síðast greindist sjúkdómurinn á tveimur bæjum í Fjarðabyggð árið 2010.
 
Við reglubundna skimun fyrir riðuveiki voru alls 4.111 sýni frá 273 bæjum send til rannsóknar á Keldum. Þar af voru 43 línubrjótar. Hefðbundin riða fannst í tveimur sláturhúsasýnum frá bænum Neðra-Vatnshorni í Vatnsneshólfi, en síðast greindist hefðbundin riða á landinu árið 2010. Hefðbundin riða greindist síðast í Vatnsneshólfi árið 2000. Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á að hvetja bændur til að senda hausa af föllnu fé til rannsóknar á Keldum en það getur skipt sköpum fyrir baráttuna gegn sjúkdómnum.
 
Sullur
 
Á haustmánuðum greindist vöðvasullur í sláturlambi. Tilfellið undirstrikar mikilvægi ormahreinsunar í hundum því ormurinn þarfnast viðkomu í görnum hunda og refa en í þeim lifa fullorðnir ormar.
Vöðvasullur er lirfustig bandormsins Taenia ovis og greindist fyrst á Íslandi árið 1983 en kindur eru millihýslar ormsins. Sjúkdómurinn smitast ekki yfir í menn og því er ekki um hættu fyrir neytendur að ræða en hann getur þó valdið sauðfé töluverðum óþægindum ásamt skemmdum á kjöti að því er segir í skýrslu MAST.
 

Skylt efni: Sauðfjárstofninn

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...

Landselastofninn við sögulegt lágmark
Fréttir 3. desember 2021

Landselastofninn við sögulegt lágmark

Hafrannsóknastofnun leggur til að beinar veiðar á landsel verði áfram takmarkaða...

Innflutningur á dönskum jólatrjám dregst saman en sala íslenskra eykst
Fréttir 2. desember 2021

Innflutningur á dönskum jólatrjám dregst saman en sala íslenskra eykst

Fyrsta helgin í sölu íslenskra jólatrjáa er nú fram undan í íslenskum jólaskógum...

Fjármálaráðherra vill skoða kaup á Hótel Sögu
Fréttir 2. desember 2021

Fjármálaráðherra vill skoða kaup á Hótel Sögu

Í frumvarpi fjármálaráðherra til fjárlaga fyrir árið 2020 er lagt til að skoða m...

Sauðfjárbændum hefur fækkað um ríflega þriðjung á 40 árum
Fréttir 2. desember 2021

Sauðfjárbændum hefur fækkað um ríflega þriðjung á 40 árum

Á síðasta ári voru sauðfjárbændur í landinu 2.078 samkvæmt haustskýrslum og höfð...

Sóknarmöguleikar sem verðskulda athygli og uppbyggingu
Fréttir 2. desember 2021

Sóknarmöguleikar sem verðskulda athygli og uppbyggingu

„Mér finnst ég standa inni í málaflokki sem er bæði tengdur sterkt inn í fortíð ...