Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Starfsmenntanám í garðyrkju í uppnámi
Fréttir 26. september 2019

Starfsmenntanám í garðyrkju í uppnámi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Mikil óánægja er innan garð­yrkj­unnar vegna fyrir­hugaðra breytinga á fyrirkomu­lagi starfs­mennta­náms í greininni. Til stendur að flytja námið af framhaldsskólastigi og færa undir háskóla­deildir innan Landbúnaðar­háskólans. Skapar það óvissu um m.a. meistara­réttindi starfs­greinanema að námi loknu.

Heiðar Smári Harðarson, for­maður Félags skrúðgarðyrkju­meistara, segir að hann og fleiri hafi talsverðar áhyggjur af nýrri stefnu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands þegar kemur að starfsmenntanámi í garðyrkju.

„Garðyrkjuskólinn er hluti af Landbúnaðar­háskóla Íslands og það er verið að gera skipu­rit Landbúnaðarskólans meira pýramídalagað og taka starfs­námið og færa það undan framhaldsskólalögum undir 19. grein háskólalaga um aðfara­nám fyrir háskóla. Vandamálið við þetta er að ef námið er fært undir lög um háskóla er það ekki lengur undir framhaldsskólalögum eins og allar aðrar iðngreinar og það hefur óljósar afleiðingar í för með sér fyrir skrúðgarðyrkjuna sem lög­gilda iðngrein og nemendur sem leggja stund á það nám,“ segir Heiðar.

Ekkert samstarf við hagaðila

„Eins og stefnan hefur verið kynnt fyrir mér er Landbúnaðarháskólinn að setja starfsmenntanám í skrúð­garðyrkju og öðrum garð­yrkju­greinum í uppnám. Þegar ákveðið var að fara í þessar breytingar á skipuriti skólans var ekki haft samráð við fagaðila garðyrkjunnar og þeir fengu ekki að leggja neitt til málanna eða koma með ábendingar. Í raun var stefnan kynnt fyrir okkur eftir að búið var að ákveða hana eins og málið væri okkur nánast óviðkomandi og við fengum lítið sem ekkert að tjá okkur á fundinum sem ætlaður var til þessa. Opinberlega var stefnan á vinnslustigi þegar kynningin fór fram og hefur hún lítið sem ekkert breyst síðan, þrátt fyrir að við höfum sent bréf til rektors og háskólaráðs Landbúnaðarháskólans og þeirra ráðuneyta sem málið varðar og óskað sérstaklega eftir því að þessi vinna yrði lögð til hliðar þar til mögulegar afleiðingar svona stefnubreytingar hefðu verið skoðaðar ofan í kjölinn. Lítið hefur verið um greinargóð svör,“ segir Heiðar.

„Nám í skrúðgarðyrkju, sem er löggild iðngrein, er eins uppbyggt og aðrar iðngreinar þar sem nemendur halda dagbók utan um sitt 60 vikna verknám úti í atvinnulífinu og ljúka námi með sveinsprófi. Í reglugerð um sveinspróf er gert ráð fyrir að nemendur hafi lokið burtfararprófi frá iðnmenntaskóla á framhaldsskólastigi. Hvaða áhrif koma svona breytingar til með að hafa fyrir þá nemendur sem óska eftir að þreyta sveinspróf í skrúðgarðyrkju? Hvaða áhrif hafa þessar breytingar á fagið, stéttina eða mögulega aðrar iðngreinar í kjölfarið?“

Engin greining á
afleiðingunum fór fram

„Flestir sem ég hef talað við um þetta mál eru sammála um að þetta sé óheillaþróun þar sem ekki virðist hafa farið fram nein greining á mögulegum afleiðingum stefnubreytingarinnar og ekkert samráð haft við starfsgreinaráð námsbrauta eða atvinnulífið. Hagaðilar hafa komið saman á nokkrum fundum í sumar og rætt þessi mál og er þungt hljóð í mönnum. Þetta mál snertir ekki aðeins skrúðgarðyrkjunámið, það eru sjö brautir á framhaldsskólastigi innan Landbúnaðarháskólans. Margir þessara hagaðila fengu ekki fundarboð á kynningarfundinn og maður setur stórt spurningarmerki við svona vinnubrögð. Það er eins og það eigi bara að keyra þetta mál í gegn,“ segir Heiðar. „Við erum að skoða þetta mál betur í samstarfi við Samtök iðnaðarins og munum tjá okkur frekar á næstunni.“

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...