Mynd/TB Sveinn Margeirsson mun stjórna reglulegum hlaðvarpsþáttum fyrir Bændablaðið um nýsköpun og þróun í landbúnaði.
Fréttir 13. desember 2019

Nýr hlaðvarpsþáttur: Víða ratað með Sveini Margeirssyni

Ritstjórn

Nýjasti þátturinn í hlaðvarpi Bændablaðsins er undir stjórn Sveins Margeirssonar matvælafræðings og doktors í iðnaðarverkfræði. Hann heitir „Víða ratað“ og mun fjalla um tækniumbyltingar, nýsköpun og þróun í landbúnaði og tengdum greinum.

Viðmælandi Sveins í fyrsta þætti Víða ratað er Hlynur Þór Björnsson verkfræðingur. Hann stofnaði nýlega fyrirtækið Bálka miðlun ehf. en það sérhæfir sig í notkun á bálkakeðjutækninni (e. blockchain). Það er tækni sem kom fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tíu árum og er byltingarkennd aðferð til þess að skrá og halda utan um upplýsingar. Bálkakeðjutæknin er m.a. talin nýtast í matvælageiranum til þess að halda utan um rekjanleika og aðrar upplýsingar um vörur, s.s. kolefnisfótspor eða dýravelferð.

Hlynur er jafnframt formaður rafmyntaráðs, www.ibf.is, sem hefur það markmið að gera Ísland að leiðandi afli í nýsköpun á rafmyntum og bálkakeðjum.

Sveinn ræddi við Hlyn um það hvernig bálkakeðjutæknin mun hafa áhrif á matvælaframleiðslu og landbúnað í náinni framtíð.


Viðmælandi Sveins í fyrsta þætti Víða ratað er Hlynur Þór Björnsson verkfræðingur og sérfræðingur í bálkakeðjutækninni. 

Hlaðvarpsþættir Bændablaðsins eru aðgengilegir á SoundCloud og verða einnig fáanlegir í helstu streymisveitum á næstu dögum.