Mynd/Halldís Gríma Halldórsdóttir Níu kílóa lambhrútur fæddist á bænum Bjarnastöðum i Öxarfirði undir síðustu helgi. Sá stærsti sem þar hefur komið í heiminn.
Fréttir 08. maí 2020

Níu kílóa lambhrútur fæddist á bænum Bjarnastöðum

Margrét Þóra Þórsdóttir
„Þetta er stærsta lamb sem fæðst hefur hér á bæ,“ segir Halldís Gríma Halldórsdóttir á Bjarnastöðum í Öxarfirði. Þar reka foreldrar hennar, Halldór S. Olgeirsson og Elín Maríusdóttir, sauðfjárbú. Undir síðustu helgi fæddist þar 9 kílóa lambhrútur, ansi hreint stór og stæðilegur. 
 
Halldís Gríma segir að eitt sinn fyrir nokkrum árum hafi fæðst 7 kílóa lamb á bænum, en Trölli, 9 kílóa lambið, sé það allra stærsta sem þau hafi áður séð. Burður gekk hægt, en tókst að lokum. 
 
Lambhrúturinn lifði í þrjá daga, en líkast til hefur eitthvað gefið sig í honum innvortis við burðinn sem gekk hægt fyrir sig enda hrúturinn engin smásmíði. Mynd / Elín Maríusdóttir
 
Heimilismenn á Bjarnastöðum börðust við að halda lífi í lambinu en það lifði í þrjá daga. Telur hún að skaði hafi orðið innvortis í burði. Lambhrúturinn stóð upp og hann hélt haus.Móðir lambhrútsins er tvævetra undan hrút úr Broddanesi á Ströndum en faðirinn er heimahrútur á Bjarnastöðum. 
 
Um 350 ær bera þetta vorið á Bjarnastöðum í Öxarfirði og segir Halldís Gríma að vel gangi í sauðburði það sem af er. „Við erum ríflega hálfnuð núna og það gengur allt samkvæmt áætlun,“ segir hún. 
Skylt efni: sauðburður