Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ungneyti á Litla-Ármóti. Glittir þar í gular eyrnamerkingar.
Ungneyti á Litla-Ármóti. Glittir þar í gular eyrnamerkingar.
Mynd / Aðsendar
Fréttaskýring 12. janúar 2023

Yfir tonni af kjöti sóað að ósekju

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna undanþágubeiðni bónda um að nautgripur, sem hann hafði sent til slátrunar, yrði fargað vegna rangra eyrnamerkinga, var úrskurðuð ógild hjá matvælaráðuneytinu um miðjan desember. Úrskurðurinn er fordæmisgefandi og gæti haft áhrif á úrvinnslu fleiri sambærilegra mála sem komið hafa upp á sama svæði.

Á síðustu mánuðum hefur nokkrum nautgripaskrokkum verið fargað á Sláturhúsinu á Hellu vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um að merkingar á gripunum séu ófullnægjandi. Magnús Ingvarsson sláturhússtjóri leiðir að því líkum að að minnsta kosti fimm skrokkum hafi verið hent vegna þessa í fyrra en auk þess hefðu tveir farið sömu leið ef ekki hefði verið fyrir DNA sönnun á uppruna þeirra.

Hóflega má áætla að ungneyti sé um 250 kg og er því hægt að gera ráð fyrir að töluvert meira en tonni af nautakjöti hafi verið sóað af þessari ástæðu. Tjón bænda sem í þessu lentu hleypur á milljónum króna.

Hrafnhildur Baldursdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson, bændur á Litla-Ármóti, en málið varðar uxa sem þau sendu til slátrunar.
Álitamál um handskrifað gripanúmer

Í febrúar sl. hringdi Magnús sláturhússtjóri í Litla-Ármót, til þeirra Ragnars Finns Sigurðssonar og Hrafnhildar Baldursdóttur, og tilkynnti þeim að grip sem slátrað hafði verið þann dag yrði fargað að beiðni Matvælastofnunar, vegna þess að gripanúmer í eyrnamerki hans væri handskrifað en ekki forprentað.

Benti hann þeim á að hafa samband við héraðsdýralækni og sækja um undanþágu.

„Við sendum fimm uxa til slátrunar. Allir voru þeir með merki í báðum eyrum og töldum við þau uppfylla allar reglur og viðmið. Síðar kom í ljós að einn gripurinn var með handskrifað gripanúmer á annars forprentuðu merki. Þegar við fórum að skoða þennan einstaka grip virðist vera að merkingin með forprentuðu merkjunum hafi mistekist og höfðum við sett í hann neyðarmerki, þ.e. merki með forprentuðum upplýsingum um bú og land ásamt handskrifuðu gripanúmeri. Merkingin átti sér stað fyrir rúmum tveim árum. Þá var heilbrigð skynsemi enn við lýði hjá MAST og handskrifuð neyðarmerki talin eðlilegur hlutur og letrið metið óafmáanlegt,“ segir Ragnar Finnur.

Eyrnamerkin sem eiga að fara í gripina eru gul plötumerki sem eru upphaflega forprentuð með einkennismerki, búsmerki og gripanúmeri. Þeim er komið fyrir í báðum eyrum gripa innan 20 daga frá fæðingu skv. ákvæðum reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar búfjár.

Markmiðið með því að merkja búfé á þennan hátt er að tryggja rekjanleika búfjárafurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti.

Merkin sem málið snýst um eru plastplötur með forprentuðu bæjarnúmeri en handskrifuðu gripanúmeri. Móðerni, faðerni og fæðingardagur gripsins voru einnig skráð á merkin sem stemmdu við hjarðbók.

Ragnar Finnur segir að forprentuðu merkin eigi það til að brotna eða detta úr á líftíma gripanna. Jafnvel komi fyrir að merki fari forgörðum við upphafsmerkingu eins og í þessu tilfelli. Hægt er að panta merki með forprentuðum upplýsingum um land og bú og fylgir þeim sérstakur penni til að skrá gripanúmer á plötuna. Þannig er hægt að bregðast fljótt við ef merki detti úr gripum.

„Þessi handskrifaða merking fer ekkert af frekar en sú sem er forprentuð. Hún er óafmáanleg og notkun á þessum merkjum hefur tíðkast í langan tíma,“ segir hann.

Slíkar merkingar þóttu fullnægjandi sönnun á uppruna gripanna samkvæmt eftirlitsmönnum Matvælastofnunar þar til nýlega. Túlkun stofnunarinnar á reglugerðinni virðist breytast því í fyrra var farið að taka strangar á kröfum um merkingar.

Ragnar og Hrafnhildur rekja breytinguna til mannabreytinga innan MAST. „Við vorum farin að heyra að eftirlitsaðilar væru farnir að taka strangara á því í sláturhúsinu ef merki vantaði í grip, eða ef gripanúmer væri handskrifað. Einnig heyrist okkur í samtali við aðra bændur að það líti út fyrir að einhverjir fái undanþágur en aðrir ekki. Þetta hljómar því eins og um sé að ræða geðþóttaákvörðun innan stofnunarinnar hverju sinni.“

Rekjanleikinn algjör

Í sjónarmiði Ragnars Finns og Hrafnhildar í úrskurði Matvælastofnunar kemur fram að skilningur þeirra á tilgangi reglugerðar um merkingar búfjár sé að tryggja rekjanleika búfjárafurða. Fyrir hafi legið forprentað bæjarnúmer ásamt skýrt merktu gripanúmeri ásamt móðerni, faðerni og fæðingardegi sem stemmdi við hjarðbók og því væri hægt að taka allan vafa á uppruna gripsins. Töldu þau öll skilyrði hafa verið fyrir hendi til að veita undanþágu fyrir slátrun gripsins. Ákvörðun héraðsdýralæknis hafi verið íþyngjandi og valdið þeim fjárhagstjóni.

„Þegar Magnús hafði samband brugðumst við með undanþágubeiðni til héraðsdýralæknisins. Enginn vafi var á um hvaða grip ræddi og því töldum við að gefa ætti undanþágu því rekjanleiki væri til staðar. Héraðsdýralæknir heldur því engu að síður til streitu að henda eigi gripnum. Okkur finnst dapurlegt að fórna lífi gripsins til einskis með tilliti til matarsóunar og umhverfis,“ segir Hrafnhildur.

Ragnar segist hafa verið í reglulegu sambandi bæði við Magnús sláturhússtjóra og starfsmenn Matvælastofnunar í ferlinu, til að reyna að leysa úr málinu á farsælan hátt. Magnús segist hafa boðist til að geyma gripinn í frysti á meðan úr málinu væri skorið en hafi fengið ítrekun frá Matvælastofnun um að henda honum.

Ragnar og Hrafnhildur skilja ekki af hverju farið var fram með slíku offorsi. „Við athuguðum hvort mætti taka gripinn heim og nýta hann til eigin nota en það var ekki leyfilegt.

Eingöngu átti að henda honum og af einhverri ástæðu var mikil áhersla lögð á að gripnum yrði fargað hið snarasta.“

Hjónin segjast ekki hafa reiknað nákvæmlega út tjón þeirra vegna málsins, en auk innleggsins sem þau misstu af og á að greiða þann kostnað og tíma sem fór í uppeldi nautsins, leggst á þau förgunargjald.

„Einnig fór töluverður tími í að leita réttar okkar en lengd málsins spannar ellefu mánuði. Þannig að heildartjón af völdum þessa atviks hleypur fljótt á hundruðum þúsunda króna, sé vinnan reiknuð með. Okkur þykir þetta allt rosalega dapurlegt.

Í öðru orðinu er talað um matarsóun en svo er gripið til svona aðgerða vegna rangtúlkunar á regluverki,“ segja þau.

Verklagsreglum breytt

Í umsögn Matvælastofnunar, sem sjá má í úrskurði matvælaráðuneytisins, er vísað í 5. grein reglugerðarinnar um merkingu búfjár, þar sem fram kemur að tiltekin viðurkennd forskráð plötumerki skuli notuð, þar sem allar upplýsingar eigi að vera prentaðar á merkið svo þær séu óafmáanlegar. Krafan sé að upplýsingarnar á merkjunum séu óafmáanlegar og lítur Matvælastofnun svo á að handskrifaður texti á merki uppfylli ekki það skilyrði.

Þá vísar stofnunin í 15. grein umræddrar reglugerðar.

„Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að berist ómerkt dýr í sláturrétt sláturhúss skuli það tilkynnt dýralækni sláturhússins. Dýrinu skuli slátrað en heilbrigðisskoðun dýralæknis frestað eða tryggt við heilbrigðisskoðun dýralæknis og stimplun að afurðirnar fari ekki til manneldis. Jafnframt er kveðið á um í ákvæðinu að Matvælastofnun geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef viðhlítandi skýringar koma fram á því af hverju dýrið er ómerkt og hægt er að sýna fram á uppruna þess m.a. hvaða einstaklingsnúmer dýrið hafði og skráningu í hjarðbók. Það er á ábyrgð sláturhúss og/eða eiganda búfjár að sýna fram á uppruna og veita skýringar sem og óska eftir undanþágu fyrir heilbrigðisskoðun dýralæknis. Matvælastofnun vísar til þess að rekjanleiki samkvæmt löggjöfinni teljist ekki fullnægjandi þegar forprentuð eyrnamerki vantar í nautgrip.“

Þá rekur stofnunin breytt verklag til tilmæla Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem tilkynnt var sláturleyfishöfum í júní árið 2021. Þar voru sláturleyfishafar beðnir um að kynna verklagsbreytingar fyrir sínum viðskiptamönnum, þ.e.a.s. bændum.

Breytingarnar fólu meðal annars í sér að undanþágubeiðnir skyldu berast a.m.k. sólarhring fyrir slátrun. Í þessu tiltekna tilfelli hafi undanþágubeiðnin borist eftir slátrun.

Gekk lengra en ákvæði reglugerðarinnar

Í úrskurði matvælaráðuneytisins kemur fram að það taki ekki undir það sjónarmið Matvælastofnunar að hafna beri undanþágubeiðni bóndans á þeim forsendum að stofnunin hafi breytt verklagi sínu eins og lýst sé.

Verklagið gangi lengra en ákvæði reglugerðarinnar og feli í sér íþyngjandi kröfur sem ekki hafi stoð í henni og gangi jafnvel í berhögg við skýrt orðalag reglugerðarinnar. Þannig hafi stofnunin brotið gegn ákvæðum um meðalhóf með ákvörðun sinni. Þá telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningaskyldu sinni með því að tilkynna aðeins sláturleyfishöfum breytt verklag en ekki bændum, enda sé um að ræða verklagsbreytingar sem hafi bein og íþyngjandi áhrif á bændur.

Úrskurður ráðuneytisins var því að ógilda ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna undanþágubeiðninni.

Í niðurstöðu úrskurðarins kemur fram að bændurnir geti krafist bóta en bera þarf slíka kröfu upp við ríkislögmann. Ragnar og Hrafnhildur gera fastlega ráð fyrir því að ganga í það verk á næstunni.

Biðlar til bænda

Magnús, sláturhússtjóri á Hellu, segir að gripum merktum með handskrifuðu númeri hafi fækkað gríðarlega enda séu menn orðnir meðvitaðir um nýjar verklagsreglur. Hann segir hins vegar að fyrir komi að gripir beri slík merki en þá séu þau í öllu falli fyrir löngu skrifuð.

„Það sést að þetta eru ekki nýskrifuð merki og auðséð að ekki er verið að reyna að svindla. Það leikur enginn vafi á uppruna frekar en á öðrum merkjum.“

Handskrifuð merki eru því frekar undantekning en regla og bendir Hrafnhildur á að uppruni hafi aldrei verið vafaatriði í þeirra máli.

„Ég veit ekki betur en að bændur séu að reyna að gera sitt besta og hlýða tilmælum. Í okkar tilfelli var hægt að fara beint inn í hjarðbókina og sjá að ekki kom annað dýr til greina. Ég velti fyrir mér af hverju neyðarmerkin séu ekki leyfð eins og áður, fyrst þau standa bændum til boða. Ef bændum er treyst til að merkja gripina sína sjálfir, af hverju er þeim ekki treyst til að endurmerkja með merki með handskrifuðu gripanúmeri ef merki dettur úr? Mér finnst í raun algjör sóun á fjármunum Matvælastofnunar að leggjast svona þungt á mál sem eru nokkuð augljós í úrvinnslu. Eðlilegra væri að stofnunin legði þunga sinn í að leysa alvarlegri mál. Það er vel skiljanlegt að það þurfi að vera reglur en það má ekki ganga út yfir almenna skynsemi.“

Ragnar segir niðurstöðu matvælaráðuneytisins að öllum líkindum fordæmisgefandi fyrir önnur tengd tilfelli sem komið hafa upp.

„Við vonum að mál okkar verði til þess að ekki þurfi að sóa frekari tíma og fjármunum fyrir bændur, umhverfið og Matvælastofnun. Nú stendur til að Ríkisendurskoðun geri úttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra og því biðla ég til bænda að beina athugasemdum til Ríkisendurskoðanda ef þeir hafa orðið varir við misbrest eða undarlega starfshætti við eftirlit Matvælastofnunar. Allt er þetta mannanna verk sem má bæta. “

Viðbrögð Matvælastofnunar:

Verklagsreglur útfærðar eftir úrskurð

Matvælastofnun vinnur nú að því að útfæra verklagsreglur stofnunarinnar hvað varðar ómerkta nautgripi á sláturhúsum til samræmis við úrskurð matvælaráðuneytisins. Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, og Freydís Dana Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri afurða kjöts hjá MAST, svöruðu fyrirspurn þegar kallað var eftir viðbrögðum MAST við úrskurðinum. „Viðbrögð okkar eru jákvæð. Í úrskurðinum kemur fram viðurkenning á verkferlinu eins og MAST hefur sett það fram. En útfæra þarf túlkun einstakra tilfella betur og það er það sem við erum að vinna að núna.“

Þær svöruðu enn fremur sértækum spurningum um úrskurðinn og málið í heild:

Mér skilst að neyðarmerki hafi verið í boði til kaups fyrir bændur og vitað hafi verið að forprentaðar merkingar gætu farið forgörðum, annaðhvort við upphafsmerkingu eða á líftíma gripa. Hvað varð til þess að MAST breytti afstöðu sinni gagnvart þessum merkjum?

„Það sem varð til þess að MAST breytti afstöðu sinni er ábending frá ESA sem átti við rök að styðjast. Hin svokölluðu neyðarmerki eru í raun ætluð sem bráðabirgðamerki til að nota í gripi á meðan beðið er eftir því að pöntun á endurprentuðu merki komi í hús. Þessi merki eru fyrst og fremst ætluð til þess að nota í gripi í stíum sem týna merki og nauðsynlegt er að bregðast við og auðkenna þá vegna hættu á að rekjanleiki gripa hverfi ef fleiri en einn í sömu stíu missir merki og erfitt er að þekkja þá í sundur.

Það var aldrei meiningin með þessum merkjum að þau yrðu að varanlegum merkjum í eyrum gripa. Möguleikinn á endurprentun merkja hefur ávallt verið fyrir hendi og afgreiðsla tekur almennt ekki meira en viku (fyrir utan sumarleyfistíma). Líftími kvendýra sem mögulega eru merktir með bráðabirgðamerki snemma á lífsleiðinni er of langur til þess að hægt væri að taka tillit til hans. Séu einhverjar ástæður fyrir því að bóndi getur ekki beðið eftir varanlegu merki fyrir slátrun getur bóndi sent inn undanþágubeiðni til héraðsdýralæknis og sett var verklag um að bærist umsókn tímanlega þar sem sýnt var að erfitt væri að skipta um merki var tekið tillit til þess. Þar með taldi stofnunin að búið væri að taka tillit til gripa sem þegar voru með neyðar-/bráðabirgðamerki.“

Nú urðu bændur varir við að sumir fengu undanþágur en aðrir ekki, í nákvæmlega sömu aðstöðu, og tala um geðþóttaákvörðun stofnunarinnar í því samhengi. Getið þið brugðist við slíku?

„Sömu verklagsreglur eru við lýði í öllum umdæmum og reynt eftir því sem mögulegt er að samræma verklag á þessu sviði sem og öðrum. Það er misjafnt eftir umsóknum hvort allar upplýsingar sem til þarf koma fram, þó svo að dýraeigendurnir telji sig vera í sömu stöðu þá nálgast héraðsdýralæknar undanþágubeiðnir út frá áhættu en einnig er tekið tillit til stöðu skráninga hjá viðkomandi bónda við síðasta eftirlit ásamt fleiri upplýsingum. Stefna MAST er að gera sitt besta til að koma í veg fyrir misræmi á milli svæða.“

Er einhver ástæða fyrir því að þessi mál, sem komu upp, eru einangruð við eitt svæði?

„Vandamál vegna handskrifaðra eða ólögmætra merkja virðast fyrst og fremst tengjast einu/mjög fáum sláturhúsum. Kynningarbréf frá MAST fóru til allra sláturhúsa og oftar en einu sinni og voru sláturleyfishafar beðnir um að kynna reglurnar fyrir sínum viðskiptavinum. Það getur hafa orðið einhver misbrestur á því. En flestir bændur hafa aðgang að Bændablaðinu þar sem þessar verklagsreglur voru einnig kynntar í grein sem ég sendi inn á síðasta ári til þess að reyna að tryggja að allir hefðu aðgang að þessum upplýsingum. Verkferlar héraðsdýralækna eru þeir sömu í öllum umdæmum. Í flestum umdæmum sækja menn um undanþágu vegna vanmerkinga sólarhring fyrir slátrun og er þá langoftast hægt að fyrirbyggja þessi vandamál. Sárasjaldan verður misbrestur á því nema, eins og fram hefur komið, hjá örfáum sláturleyfishöfum.“

Matvælastofnun fer offari

Afstaða Bændasamtaka Íslands á málinu er einörð og fleiri mál af sambærilegum toga eru í vinnslu innan samtakanna. Þau telja að framkvæmd Matvælastofnunar við veitingu undanþága vegna frávika í merkingum nautgripa sé ekki í samræmi við regluverkið. Hilmar Vilberg Gylfason, lögfræðingur hjá BÍ, bendir m.a. á að stofnunin hafi ekki ansað fyrirspurn samtakanna um málið í átta mánuði. Þá skjóti skökku við að heimtaka á skrokkum sé ekki leyfð við þær aðstæður sem Ragnar og Hrafnhildur lýstu.

„Það hefur verið eindregin afstaða Bændasamtakanna alveg frá því samtökin fengu fyrst fregnir af þessu máli að þarna væri MAST að fara offari. MAST er hluti af stjórnsýslunni og verður að fylgja þeim reglum sem þar gilda sem eru meðal annars rannsóknarreglan og meðalhófsreglan. Því miður er þetta ekki eina málið af sambærilegum toga en vonandi verður þessi úrskurður til þess að hér eftir verði fylgt verklagi sem byggir á meðalhófi. Bændasamtökin hafa átt umtalsverð samskipti við MAST vegna þessara mála og ítrekað bent á að framkvæmd veitingar undanþága vegna frávika í merkingum á nautgripum sé ekki í samræmi við regluverkið.

Það er tvennt í þessu, í fyrsta lagi að MAST er heimilt að veita undanþágur og ber að veita þær ef hægt er að sýna fram á um hvaða grip/gripi er að ræða. Í maí á síðasta ári, eða fyrir tæpum átta mánuðum, sendu Bændasamtökin upplýsingabeiðni á MAST þar sem óskað var eftir tilteknum upplýsingum sem varða framkvæmd veitingar undanþága á þessum grundvelli, en þrátt fyrir margar ítrekanir hefur stofnunin enn ekki brugðist við erindinu.
Í öðru lagi höfum við klórað okkur ansi mikið í kollinum yfir þeirri einörðu afstöðu MAST að leyfa ekki heimtöku á skrokkum sem ekki uppfylla kröfur reglugerðar um rekjanleika. Það er nokkuð sérstakt að stofnunin skuli túlka regluverkið á þann veg að óheimilt sé að taka óstimplað kjöt út úr sláturhúsi til heimaneyslu en sama grip hefði mátt slátra í hlöðunni heima á bæ til sömu nota. Bændasamtökin hafa óskað skýringa á þessari afstöðu MAST en ekki fengið neinar skýringar sem standast skoðun.

Í öllu þessu þá skýtur skökku við að á tímum þar sem mikið er rætt um matarsóun og loftslagsmál sé 250 kg nautsskrokkum, sem í öllu falli myndu standast heilbrigðisskoðun, fargað, án þess að stjórnsýslan svo mikið sem blikni, á þeim grundvelli einum að í eyranu á gripnum sé handskrifað merki, sem þó er vel læsilegt og hægt að rekja. Það er að sjálfsögðu framkvæmd sem stenst enga skoðun. Sérstaklega í ljósi þess að það er jú bóndinn sem setur merkin í eyrun á gripunum og því verði jafnframt að ganga út frá því að sami bóndinn sé heiðarlegur með það hvaða gripur sé að fara í sláturhús,“ segir Hilmar.

Skylt efni: búfjármerki

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Gerum okkur dagamun
12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun