Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bændur hér á landi nota um 1.600–1.800 tonn af heyrúlluplasti á ári en gróflega reiknað þarf um 1 kg af plasti í hverja rúllu af heyi.
Bændur hér á landi nota um 1.600–1.800 tonn af heyrúlluplasti á ári en gróflega reiknað þarf um 1 kg af plasti í hverja rúllu af heyi.
Mynd / H.Kr.
Fréttaskýring 19. desember 2021

Umvendingar á plastmarkaði skapa tækifæri

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Allflestir bændur losa sig við notað heyrúlluplast gegnum þjónustuaðila sem sækja plastið og koma því í endurvinnslu, hérlendis eða erlendis. Tilkoma nýrrar Evrópureglugerðar er að gjörbreyta endursölumarkaði á endurunnu plasti. Endurgjald hefur hækkað og endurunnið plast orðið eftirsóttara og þar með verðmætari vara.

Búfjárbændur þurfa að treysta á heyfeng yfir veturinn. Traustið byggir á því að pökkun heysins tryggi gæði þess og geymsluþol. Þar kemur heyrúlluplast til sögunnar. Bændur hér á landi nota um 1.600–1.800 tonn af heyrúlluplasti á ári en gróflega reiknað þarf um 1 kg af plasti í hverja rúllu af heyi. Talið er að um 3.000 bú hér á landi stundi heysöfnun.

Það skiptir bændur mjög miklu máli að heyrúlluplast fari í endurvinnslu. Í könnun meðal bænda sem Úrvinnslusjóður lét Maskínu framkvæma í ársbyrjun 2017 undirstrikar það; 97,8% bænda sögðu þar að það skipti mjög eða fremur miklu máli að heyrúlluplastið þeirra fari til endurvinnslu. Þar kom einnig fram að 85,4% bænda flokka sitt heyrúlluplast. Í 81,2% tilvika losuðu þjónustuaðilar bændur við plastið en 10,5% fóru sjálfir með það á söfnunarstöð.

Hækkandi endursöluverð á endurunnu plasti

Plastið sem notað er í heyrúllur er að allverulegu leyti unnið úr frumframleiddum plastperlum, fjöletýleni, sem byggt er upp sem teygjanlegar og límkenndar firnasterkar umbúðir með UV vörn sem þolir bæði mikinn hita og kulda.

Ratcliffe og plastperlurnar
Ratcliffe og plastperlurnar
Einn stærsti framleiðandi af fjöletýleni (polyethylene), hreinum plastperlum, er efnaframleiðandinn Ineos. Stofnandi og stærsti eigandi fyrirtækisins er Jim Ratcliffe, sem er orðinn Íslendingum kunnur fyrir stórtæk uppkaup á jörðum hér á landi. Fyrirtækið Ineos sérhæfir sig í framleiðslu á plasti og efnavinnsluvörum úr jarðefnaeldsneyti en starfsemin gerði Ratcliffe m.a. að ríkasta manni Bretlands og meðal ríkustu manna veraldar. Auðæfi Ratcliffes hafa þó hrunið á árinu ef marka má viðskiptamiðilinn Bloomberg. Þau voru metin á tæpa 30 milljarða dollara í maí sl. en eru í dag 12 milljarðar dala.

Markaðsverð á frumframleiddum plastperlum hefur ávallt ákvarðað verð á endurunnu plasti – notað metið ódýrara en nýtt. En að undanförnu hefur þessi fylgni kollvarpast og í raun hefur orðið til virkur markaður á endurunnu plasti.

Ástæðan er ný Evrópu­sambands­tilskipun um endurunnið plast sem mun taka gildi árið 2025. Samkvæmt henni verður framleiðendum plastumbúða gert að hafa að minnsta kosti 25% af umbúðunum úr endurunnu plasti. Stórir notendur umbúða og umbúðaframleiðendur eru þegar farnir að aðlaga framleiðslu sína að kröfum nýju Evrópureglugerðarinnar og við það hefur skapast eftirspurn eftir endurunnu plasti.

Það sýnir sig ekki síst í hækkun á endursöluverði. Eitt kíló af endurunnum plastperlum kostaði 0,93–1,04 evrur í október árið 2020 en kostaði 1,8–1,95 evrur í október síðastliðnum samkvæmt upplýsingum frá Guðlaugi Sverrissyni, rekstrarstjóra hjá Úrvinnslusjóði.

Hvað gerir Úrvinnslusjóður?

Úrvinnslusjóður fer með umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds og beitir hagrænum hvötum til að fá heyrúlluplast úr sveitum landsins flutt flokkað til endurvinnslu.

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kíló af plasti sem notað er til þess að pakka heyrúllu. Úrvinnslugjaldið er notað til að greiða fyrir meðhöndlun heyrúlluplasts og endurnýtingu eftir að það hefur þjónað upphaflega tilgangi sínum. Það er gert til að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun.

 Guðlaugur Sverrisson, rekstrarstjóri hjá Úrvinnslusjóði.

Úrvinnslugjaldið á að standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutningi hans frá söfnunarstöð til móttökustöðva eða endurnýtingarstöðva. Þá á gjaldið að standa undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Úrvinnslusjóður heldur utan um umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds og samningum við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga.

Hvert fer plastið?

Sveitarfélög bera ábyrgð á úrgangi og eru því í allflestum tilfellum þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs. Þau stýra útboði þar sem kveðið er á um hvernig þjónustunni til bænda skuli vera háttað.

Guðlaugur segir misjafnt hversu mikla þjónustu sveitarfélög bjóði upp á. Þannig sé úrgangur sóttur á bú í Skagafirði einu sinni í mánuði ásamt hirðu á heyrúlluplasti, meðan heyrúlluplast er sótt tvisvar til þrisvar á ári í Borgarfirði. Heyrúllu­plastið er svo flutt á skilgreindan núllpunkt. Í dag eru núllpunktar útflutningshafnirnar í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði.

Þjónustuaðilum Úrvinnslusjóðs er í sjálfsvald sett hvert þau fara með plastið svo lengi sem þau afhenda það viðurkenndum ráðstöf­unaraðilum. Þannig fari allt útflutt heyrúlluplast til viðurkenndra endurvinnslufyrirtækja innan EES og er mest sent til fyrirtækjanna Daly Plastics og Peute í Hollandi og Somex í Póllandi.

 Eitt kíló af endurunnum plastperlum kostaði 0,93–1,04 evrur í október árið 2020 en kostaði 1,8–1,95 evrur í október.

Af þeim 1.100–1.400 tonnum af heyrúlluplasti sem hefur fallið til ár hvert á sl. fjórum árum hefur gróflega 95% verið endurunnið. Um 65–70% þess er flutt út þar sem erlendir kaupendur endurvinna plastið til áframhaldandi notkunar. Um 30–35% fara svo til endurvinnslufyrirtækisins Pure North Recycling í Hveragerði sem meðhöndlar plastið og umbreytir því í plastpallettur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum.

Hvatagreiðslur til Hveragerðis

Sigurður Halldórsson hjá Pure North Recycling kallaði eftir meira hráefni til endurvinnslu í viðtali í Bændablaðinu í febrúar síðastliðnum. Þar sagði hann að fyrirtækið gæti tekið á móti 150–200 tonnum af rúlluplasti til vinnslu á mánuði sem er töluvert meira en þeir fá til meðhöndlunar í dag.

Ástæðan ku vera bitbein um hver eigi að borga fyrir flutning á plastinu til Hveragerðis, þar sem úrvinnslugjaldslögin kveða á um að þjónustuaðili fái greitt miðað við að hann skili úrgangi á þann núllpunkt sem næstur er. Sem dæmi er núllpunktur fyrir þjónustuaðila í Skagafirði á útskipunarhöfninni á Akureyri.

Endurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði tekur við heyrúlluplasti og umbreytir því í plastpallettur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum. Mynd / H.Kr

Þannig hafa þjónustuaðilar ekki val um að flytja plastið til endur­vinnslu í Hveragerði nema aðrir en hið opinbera standi undir kostnaði við þá auka flutningskílómetra sem af því hlýst.

Til þess að mæta þessu ákalli hækkaði Úrvinnslusjóður endur­vinnslugjaldið til Pure North í Hveragerði 1. júlí síðastliðinn. Þannig getur innlenda endurvinnslu­fyrirtækið borgað þjónustuaðilum hærra gjald fyrir flutning til Hveragerðis frá tilteknum núll­punktum.

Úrvinnslusjóður greiðir þjónustuaðilum 38 kr. fyrir hvert kíló sem fer í útflutning auk flutnings­jöfnunar, en Pure North Recycling fær um 60 kr. fyrir hvert kíló sem það tekur við frá sjóðnum.

Mikil tækifæri í endurvinnslu

Eins og fram hefur komið er söfnun, flokkun og meðhöndlun heyrúllu­plasts ekki einföld.
Mikilvægi endurvinnslu er hins vegar orðið skýrt, einstaklingar vilja vera umhverfisvænni og velja eftir því, fyrirtækjum er það ljóst og eru farin að

Endurunnið heyrúlluplast þegar komið á markað
Framleiðendur heyrúlluplasts hafa, eins og aðrir stórir umbúðaeigendur, lagt í mikla þróunarvinnu á vörum sínum og framleiðslu í átt að umhverfisvænni afurð.
Framkvæmd hefur verið lífsferilsgreining á ferlum í átt að sjálfbærari framleiðslu. Hefur það leitt til þess að vörur skapi minna kolefnisfótspor. Síðan hafa komið fram nýjar afurðir, meðal annars enn teygjanlegra plast, þannig að hver rúlla þurfi minna af plasti en ella. Þá kom nýlega á markað heyrúlluplast þar sem 30% af efninu er endurunnið úr notuðu heyrúlluplasti. Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri innflutningsfyrirtækisins Plastco, telur engan gæðamun á nýju plasti og því endurunna.
Hann segir hins vegar aðra liti en hvítt og ljósgrænt vera á algjöru undanhaldi. „Okkar framleiðendur telja hvítt koma best út er varðar geymsluþol og gæði heyfengs. Enn fremur skilar hvítt mestu í endurvinnslu.“

taka afstöðu í verki og það sama á sér stað í iðnaði. Allt þetta hefur velt af stað jákvæðri hreyfingu.

Afleiðingar nýju Evrópu-tilskipunarinnar skapa mikil tækifæri fyrir þá sem fást við endurvinnslu á plasti. Flækjustigið er hátt og enn sem komið er fer allt of mikið af plasti í almenna urðun og í brennslu til orkunýtingar að mati Guðlaugs.

Heyrúlluplast fæst í mörgum litum og veldur það nokkurri óhagkvæmni við endurvinnslu á því.
„Ef endurvinnsluaðilar fengju að ráða þá myndu þeir velja hvítan lit á heyrúlluplastið,“ segir Guðlaugur. „Sterkir litir, m.a. svartur, skapa vandkvæði við endurvinnslu og lækka endursöluverð á perlunum sem búnar eru til úr heyrúlluplastinu.“

Því þurfa endurvinnsluaðilar að sundurgreina heyrúlluplastið eftir litum áður en það fer til meðhöndlunar og svo endurvinnslu. „Evrópureglugerðin og hækkun endursöluverðs skapar hvata og gerir heyrúlluplastið að eftirsóknarverðri vöru. Innsöfnunarkerfið hér á landi er þrautreynt og bændur hafa verið í fremstu röð í að bæta umgengni og endurvinnslu,“ segir Guðlaugur.

Hann nefnir að á undanförnum árum hafi bændur stórbætt umgengni við heyrúlluplast eftir notkun og kemur það í dag mun hreinna til meðhöndlunar og endurvinnslu en áður var. „Þar hefur skipt mestu að almenn vakning er hjá bændum um að gæta að sjálfbærni á öllum sviðum,“ segir Guðlaugur.

Bændur kjósa hvítt

„Bændur vilja gott plast og spá mikið í gæði, því það liggur mikið undir fyrir þá,“ segir Hanna Dögg Maronsdóttir, markaðsstjóri Bústólpa, sem er einn af söluaðilum heyrúlluplasts á landinu.

Hanna Dögg Maronsdóttir, markaðsstjóri Bústólpa.

Plastið er fáanlegt í mörgum stærðum, gerðum og litum. „Tækjabúnaður ræður helst hvaða stærð af plasti er keypt. En svo spilar reynsla manna inn í valið. Sumir vilja fá forstrekkt á meðan aðrir vilja það alls ekki. Á tímabili var mikil litagleði í gangi, en hún hefur farið minnkandi,“ segir hún. Þannig hafi Krabbameinfélagið verið styrkt með sölu á bleiku og bláu heyrúlluplasti og svart plast sé eilítið ódýrara sem gæti haft áhrif á eftirspurn eftir því.

Bændur séu þó orðnir meðvitaðir um að hvítt plast gefi best í endurvinnslu og því sé alltaf keypt mest af því. „Margir vilja aðskilja fyrri og seinni slátt með litum og velja þá helst ljósgrænt. Miðað við eftirspurnina núna munum við einungis bjóða upp á hvítt, grænt og svart plast fyrir næsta ár,“ segir Hanna Dögg. Þá eigi hún von á að geta boðið upp á rúlluplast sem er að hluta til unnið úr endurunnu efni.

Aðfangaverð hefur hækkað gríðarlega á síðastliðnu ári, bæði vegna hækkandi olíuverðs og heimsfaraldurs. Innkaupaverð á heyrúlluplasti hækkaði um 40% á árinu. Hanna segist hafa vonast til að þessar hækkanir gengu til baka að einhverju leyti en þó sé mjög erfitt að spá fyrir um það.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...