Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Netaveiðar
Netaveiðar
Mynd / Svava Lovísa Aðalsteinsdóttir
Fréttaskýring 7. desember 2021

Þorskurinn gaf 132 milljarða

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Sjávarafurðir vega sem fyrr þungt í vöruútflutningi landsmanna. Þorskurinn ber höfuð og herðar yfir aðrar fisktegundir. Miklar sveiflur eru jafnan í útflutningi afurða uppsjávartegunda. Bretland er stærsti kaupandi íslenskra sjávarafurða. Laxinn er í sókn og miklar vonir bundnar við loðnu á næsta ári.

Á árinu 2020 voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 620,3 milljarða króna, að því er fram kom í frétt á vef Hagstofunnar fyrir nokkru. Þar af skiluðu iðnaðarvörur 298,5 milljörðum, eða um 48% af heild. Ál og álafurðir áttu stærstan hlut í útflutningi á iðnaðarvörum.

Þorskur ber höfuð og herðar yfir aðrar tegundir. Hann skilaði um 132 milljörðum króna í útflutningstekjur á síðasta ári, sem eru um 49% af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Mynd / Vilmundur Hansen.

Verðmæti útfluttra sjávarafurða var rétt tæpir 270 milljarðar, um 43,5% af heild. Er það tæplega 4% hækkun í verðmætum talið frá árinu 2019. Landbúnaðarvörur námu um 35,3 milljörðum en þar var aðallega um eldisfisk að ræða. Aðarar vörur gáfu 16,5 milljarða.

Hér á eftir verður gluggað nánar í útflutningstölur sjávarafurða í talnaefni Hagstofunnar. Einnig verður stuðst við Radarinn, fréttavef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en þar er að finna hafsjó fróðleiks um íslenskan sjávarútveg.

Þorskur með rétt um helming

Um 98% af íslenskum sjávarafurðum eru flutt út og seld á erlendum markaði. Hátt í 50 fisktegundir og annað sjávarfang eru tilgreind í talnagrunni Hagstofunnar um útflutning en vægi þeirra er afar misjafnt. Þær tíu tegundir sem skila mestum verðmætum eru með um 89% af heildarverðmætum sjávarafurða. Sjá meðfylgjandi töflu.

Þorskur ber höfuð og herðar yfir aðrar tegundir. Hann skilaði um 132 milljörðum króna í útflutningstekjur á síðasta ári, sem eru um 49% af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Það hlutfall hefur ekki verið svo hátt síðan árið 1987, segir Radarinn. Ýsan er í öðru sæti með 19,7 milljarða og makríll í því þriðja með 18,2 milljarða.

Loðnan, sem lengst af hefur skapað mikil verðmæti, nær ekki inn á topp tíu listann 2020 vegna loðnubrests. Aðeins var flutt út loðna fyrir 2,7 milljarða króna. Í ár réttir loðnan aðeins úr kútnum. Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2021 var útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í tæplega 21 milljarð króna.

Á næsta ári stefnir í mjög góða loðnuvertíð. Útflutningsverðmæti loðnu gæti orðið 50 til 70 milljarðar eða meir árið 2022 ef fram fer sem horfir, samkvæmt greiningu Íslandsbanka.

Frysting hefur vinninginn

Sjávarafurðir skiptast í nokkra afurðaflokka sem endurspegla gamlar og nýjar aðferðir við geymslu matvæla, svo sem herðingu (þurrkun), söltun, frystingu og kælingu.

Hraðfrystingin kom fram á síðustu öld og hefur haft vinninginn um langt skeið sem helsti afurðaflokkurinn. Fluttar voru út frystar afurðir fyrir um 120 milljarða árið 2020, sem er um 44% af heildinni.

Útflutningur á ferskum kældum sjávarafurðum hefur verið í mikilli sókn síðustu áratugi. Ferskar afurðir eru reyndar að mestu bundnar við fáeinar botnfisktegundir. Ferskur fiskur, ísaður og óunninn fiskur meðtalinn, nam um 81 milljarði, eða um 30% af heildinni. Ferskar afurðir eru jafnframt sú vinnsluaðferð sem skila einna mestri verðmætaaukningu.

Mjöl og lýsi eru sérstakur afurðarflokkurinn og skipa þriðja sætið með 12% af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Gamlar vinnsluaðferðir eins og söltun og herðing reka lestina. Söltun með 10% af heildarverðmætum og hertar afurðir með 4%. Annað ótiltekið er innan við 1%.

Misjafnt er eftir tegundum hvaða framleiðsluaðferð er valin. Stærstur hluti af þorskinum er unninn í ferskar afurðir. Þær skiluðu um 41% af verðmætum þorskafurða, frysting var með 35% en söltun 17,5%. Grálúðan er hins vegar nær öll flutt út fryst svo annað dæmi sé tekið.

Bretar kaupa mest

Bretar kaupa mest allra þjóða af fiskafurðum frá Íslandi. Útflutningur þangað var um 48,6 milljarðar á síðasta ári sem er um 18% af heildinni. Frakkland kemur þar á eftir með 36,4 milljarða og Bandaríkin eru í þriðja sæti með 23,3 milljarða. Sjá nánar í meðfylgjandi töflu.
Franski markaðurinn hefur verið í mikilli sókn síðustu árin. Þangað hafa leitað í vaxandi mæli ferskar afurðir, einkum þorskafurðir. Meira er flutt út af þorski til Frakklands en Bretlands. Frakkar keyptu þorsk fyrir 28,3 milljarða, þar af ferskar afurðir fyrir 23,9 milljarða. Bretar keyptu þorsk fyrir 22,5 milljarða, þar af voru ferskar afurðir einungis 4,1 milljarður.

Sú var tíðin að Bandaríkin voru einna mikilvægust fyrir íslenskar sjávarafurðir. Aðrir markaðir reyndust síðan hagstæðari og þá minnkaði salan þangað verulega. Bandaríkjamarkaður hefur svo verið vaxandi seinni árin, einkum hefur verið mikill vöxtur í sölu á ferskum afurðum þangað.

Rótgrónir markaðir fyrir saltfisk á Spáni og Portúgal eru sem fyrr afar mikilvægir. Nígería er sömuleiðis ofarlega á blaði en þangað fer megnið af hertum fiski sem Íslendingar framleiða.

Sveiflur í uppsjávarfiski

Sjávarafurðum er gjarnan skipt eftir því hvort um afurðir sé að ræða sem unnar eru úr botnfiski, flatfiski, uppsjávarfiski eða skelfiski.

Útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða nam tæplega 207 milljörðum króna á árinu 2020, að því er fram kemur á Radarnum. Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða var rúmlega 46 milljarðar króna. Hlutdeild uppsjávarafurða í útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild var rétt rúm 17% á árinu 2020. Á þessari öld hefur hlutdeild uppsjávarafurða mest farið í 30% (árið 2013) en lægst í rúm 13% (árið 2004).

Verðmæti skelfiskafurða, það er krabba og skeldýra, var rúmir 10 milljarðar króna á árinu og dróst saman um tæp 21% á milli ára. Vægi þeirra í útflutningsverðmæti sjávarafurða alls var tæp 4%.

Fiskur á pari við álið og iðnaðinn

Á Íslandi er fiskeldi, jafnt í sjókvíum sem landeldi, flokkað með landbúnaðarvörum í opinberum hagtölum eins og nefnt var hér að framan en ekki með með sjávarafurðum ólíkt því sem gerist í Noregi til dæmis.

Fiskeldi hér á landi hefur verið í örum vexti. Á árinu 2020 var eldisfiskur fluttur út fyrir 29,3 milljarða króna samkvæmt tölum Hagstofunnar, þar af var lax 22,6 milljarðar. Ljóst að laxinn náði því marki að vera annar verðmætasti fiskurinn í útflutningi á síðasta ári og kemur þá næst á eftir þorskinum.

Á síðustu öld voru sjávarafurðir með yfirgnæfandi stöðu sem verðmætasta útflutningsvara landsins. Í lok tíunda áratugar þessarar aldar skákaði álið og annar iðnvarningur fiskinum og hefur æ síðan skilað mestum verðmætum. En ef eldisfisknum er bætt við sjávarafurðir, sem eðlilegt væri að gera, þá skila þau samanlagt um 299,2 milljörðum króna, eða 48% af heildarvöruútflutningi. Fiskurinn, jafnt villtur sem alinn, og annað sjávarfang er því í raun á pari við iðnaðarvörur og álið þegar kemur að útflutningstekjum á árinu 2020.

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...