Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Áætlað er að fyrsta sala kolefniseininga sem vottaðar eru samkvæmt nýrri tækniforskrift fari fram í desember. Með tækniforskriftinni koma skýrar leikreglur sem aðilar á markaði geta fylgt. Meðfylgjandi mynd var tekin við gróðursetningu fyrir loftslagsverkefni á vegum Yggdrasil Carbon í sumar.
Áætlað er að fyrsta sala kolefniseininga sem vottaðar eru samkvæmt nýrri tækniforskrift fari fram í desember. Með tækniforskriftinni koma skýrar leikreglur sem aðilar á markaði geta fylgt. Meðfylgjandi mynd var tekin við gróðursetningu fyrir loftslagsverkefni á vegum Yggdrasil Carbon í sumar.
Mynd / Aðsend
Fréttaskýring 7. desember 2022

Skýrar leikreglur um kolefnisjöfnun

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í ágúst á þessu ári gaf Staðlaráð Íslands út tækniforskrift um kolefnisjöfnun sem er viðauki við ISO staðal 14064 um gróðurhúsalofttegundir. Í þessum mánuði stendur til að fyrstu einingarnar sem vottaðar eru samkvæmt þessum nýju leiðbeiningum fari í sölu.

Haukur Logi Jóhannsson hjá Staðlaráði Íslands segir að ákall hafi verið eftir skýrum reglum. Tækniforskriftin er viðauki við alþjóðlegan staðal um gróðurhúsalofttegundir.
Mynd/Aðsend

Haukur Logi Jóhannsson, verkefnastjóri loftslagsverkefna hjá Staðlaráði Íslands – sem er aðili að Alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO, segir forsögu tækniforskriftarinnar vera þá að Loftslagsráð gaf út í lok árs 2020 álit þar sem farið var yfir stöðuna í kolefnisjöfnun á Íslandi.

Ráðinu þótti ljóst að ekki væri hægt að sannreyna margar fullyrðingar á bak við kolefnisjöfnun og áhyggjur voru að ýmsar yfirlýsingar fyrirtækja um kolefnisjöfnun væri ákveðinn grænþvottur. Aðilarnir á bakvið áðurnefnt álit sáu að ekki væru til leiðir til að sannreyna hvort yfirlýsingar fyrirtækja um kolefnisjöfnun væru sannar.

Í kjölfarið héldu Staðlaráð Íslands og Loftslagsráð Íslands vinnustofur í ársbyrjun 2021 þar sem hagaðilar á markaði áttu samtal. „Niðurstöður þeirrar vinnustofu voru þær að þetta væri nokkurn veginn villta vestrið hér á Íslandi. Það væri hver í sínu horni að gera það sem þau teldu vera rétt og víða væri pottur brotinn,“ segir Haukur Logi.

Vinnustofan leiddi af sér að sett var á fót tækninefnd á vegum Staðlaráðs Íslands. Þar var skoðað hvaða kerfi væru til sem hægt væri að nota til að votta framleiðslu íslenskra kolefniseininga og aðgerðir fyrirtækja og stofnana í átt að kolefnisjöfnun. Nefndin taldi að best væri að byggja á ISO 14064 staðlinum um gróðurhúsalofttegundir, en í hann vantaði kröfur, viðmið og leiðbeiningar til að hægt væri að votta kolefnisbókhald fyrirtækja og framleiðslu kolefniseininga. Tækniforskriftin er hugsuð sem viðauki við áðurnefndan staðal og er gagnslítil ein og sér.

Meira en kolefnisjöfnun til að ná kolefnishlutleysi

Haukur Logi segir að ef fyrirtæki og stofnanir ætla að kolefnisjafna sig samkvæmt tækniforskriftinni þarf viðkomandi skipulagseining í stuttu máli að móta loftslagsstefnu, setja sér markmið um að draga losun í algjört lágmark og móta aðgerðaráætlun um hvernig eigi að ná því marki. Lykilatriði er að einungis er hægt að kolefnisjafna fyrir það sem út af stendur og ekki er nokkur leið að koma í veg fyrir með innri aðgerðum.

Annað atriði í tækniforskriftinni er að við framleiðslu á kolefnis­ einingum er gerð krafa um viðbót (e. additionality) við óbreytt ástand. Ekki er hægt að fullyrða að framleiddar séu kolefniseiningar í verkefnum sem eru fyrir löngu tilbúin, hefðu hvort eð er gerst eða aðilar eru lagalega bundnir af.

Eins langt og Haukur Logi veit, er þetta í fyrsta skipti á heimsvísu sem tækniforskrift sem þessi er sett saman af staðlasamtökum og byggir á ISO staðli. Það var þó ekki verið að finna upp hjólið, heldur var tekið saman það sem er gott og gilt og hefur sýnt sig að virkar á alþjóðavísu.

Hann segir ýmislegt í farvatninu hjá alþjóðlegum staðlasamtökum sem muni hafa meira gildi hér á landi sem annars staðar. Það er þó einhver tími í að fullgildir alþjóðlegir staðlar frá samtökum eins og ISO verðir tilbúnir. Vinnan við þessa tækniforskrift mun nýtast og öðrum sem hafa hug á að fara í svipaða vegferð.

Guðmundur Sigbergsson var formaður tækninefndarinnar sem mótaði tækniforskriftina. Hann starfar sem framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands. Mynd / Aðsend
Rekjanleiki og engin tvítalning

Guðmundur Sigbergsson var formaður tækninefndarinnar sem mótaði tækniforskriftina, en starfar annars sem framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands. Hann segir Staðlaráð hafa nýst sem samráðsvettvang fyrir hlutaðeigandi aðila sem gátu mótað tækniforskriftina annars vegar út frá forsendum fyrirtækja og hins vegar út frá forsendum verkefnanna og skilgreint hvernig þessir aðilar mætast á markaði.

Hann segir að grunnforsenda kolefnisjöfnunar sé rekjanleiki og að tvítalning sé algjörlega fyrirbyggð. Ef eigandi kolefniseininga vill nýta þær til að jafna sína losun þá þarf viðkomandi að „brenna“ einingarnar þannig að ekki sé hægt að nota þær aftur.

Skógrækt og endurheimt votlendis ekki einu leiðirnar

Alls eru 97% af öllum útgefnum kolefniseiningum, samkvæmt Guðmundi, einingar sem urðu til við verkefni sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr losun – eins og endurnýjanleg orka framleidd í ríkjum þar sem kolaorkuver eru ráðandi. Ástæðurnar fyrir því að þetta er vinsælasta leiðin er sú að þessi verkefni hafa oft aðra tekjustrauma en vegna kolefniseininga, ekki þurfi að hafa áhyggjur af varanleika og á Kyoto­tímabilinu var lögð áhersla á samdrátt í losun.

Kolefnisbindingaverkefni eru hins vegar venjulega háð tekjum vegna sölu kolefniseininga, tryggja þarf varanleika þeirra og þau taka langan tíma – eins og í skógrækt þar sem allt að 50 ár taki fyrir allar einingarnar að taka gildi.

Allar kolefniseiningar fá ártal og raðnúmer. Ef einhver eining er árgerð 2022, þá á hún að vera með staðfestan árangur fyrir það ár, ekki árið sem verkefninu var hrundið í framkvæmd. Ekki er hægt að nýta einingar til kolefnisjöfnunar fyrr en ártalið rennur upp.

Kolefniseiningar ný hrávara

Ísland hefur lögfest markmið um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Með þessu markmiði og áðurnefndri tækniforskrift má gera ráð fyrir að markaður með kolefniseiningar fari stækkandi hér á landi. Erlendis hefur verið vöxtur á kolefnismörkuðum og eru margir sjóðir farnir að fjárfesta í loftslagsverkefnum af því að þeir hafa trú á að verð muni fara hækkandi ef ríki gera lagalega kröfu um að fyrirtæki vegi á móti sinni losun. „Þetta er ný hrávara sem er að verða til,“ segir Guðmundur.

Hann segir verkefnin sem eru í gangi á Íslandi sannarlega mikilvæg, en hvergi sé hægt að fullyrða að þau séu farin að framleiða fullgildar einingar.

Skógur sem er gróðursettur núna er allavega 50 ár að binda allt það kolefni sem af honum er vænst. Fyrirtæki sem styðja við skógrækt geta því ekki, samkvæmt tækniforskriftinni, haldið því fram að þau séu búin að kolefnisjafna sig en geta sagst eiga kolefniseiningar í bið sem virkjast ekki fyrr en eftir ákveðinn árafjölda þegar árangur er orðinn raunverulegur, staðfestur og skráður.

Gunnlaugur Guðjónsson hjá Skógræktinni segir að tækniforskriftin muni skapa eftirspurn eftir loftslagsverkefnum.
Mynd / Aðsend
Vottaðar einingar forsenda fjárfestingar

Gunnlaugur Guðjónsson, sviðsstjóri rekstrarsviðs hjá Skógræktinni, segir að undanfarin þrjú ár hafi stofnunin unnið samkvæmt kröfusettinu Skógarkolefni sem er gæðastaðall fyrir viðurkennt ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Kröfusettið nái hins vegar aðeins til kolefnisbindingar með nýskógrækt en tæknisforskriftin nær almennt yfir bæði losun og bindingu og styður því vel við þau verkefni sem eru vottuð undir Skógarkolefni. Tækniforskriftin tekur á losunarhliðinni sem er afar mikilvægt til að skapa eftirspurn eftir verkefnum í kolefnisbindingu.

Hingað til hafa verið í gangi verkefni hjá ýmsum aðilum sem miða að kolefnisbindingu og segir Gunnlaugur þau góð og gild. Hann segir hins vegar nauðsynlegt, ef fyrirtæki ætla að verja stórum fjárhæðum í loftslagsverkefni, að hægt sé að votta bindinguna til að fjárfestarnir fái eitthvað fyrir sinn snúð. Hann nefnir dæmi um 100 milljón króna skógræktarverkefni á Fjarðarhorni í Hrútafirði sem Festi, íslenskt fjárfestingafélag, stendur á bak við. Upp úr því koma 80-90 þúsund vottaðar kolefniseiningar sem er hægt að bókfæra til eignar og þá ýmist selja eða nota á móti losun.

Gunnlaugur tekur fram að skógrækt er langtímaverkefni og þegar kemur að kolefnisbúskapnum í heiminum þá skipta tíu ár til eða frá ekki höfuðmáli. „Það skiptir máli að þú hafir tekið ákvörðun um að fara í verkefni sem mun ná fram ákveðnum ávinningi á 50 árum. Þó svo að við myndum ná því að verða kolefnishlutlaus í dag þá myndi það ekki breyta því að það er uppsöfnuð þörf í andrúmsloftinu sem þarf að binda niður.“

Verð íslenskra eininga í hærri mörkum

Aðspurður um verð kolefniseininga segir Gunnlaugur erfitt að fullyrða um það. Þetta er á valkvæðum kolefnismarkaði og er meðalverðið í heiminum er á bilinu 40-50 dollarar. Það er hægt að fá mjög ódýrar einingar í þriðja heiminum, en öryggi þeirra er ekki alltaf tryggt. Íslenskar einingar verða líklega í hærri mörkum áðurnefnds meðalverðs.

Ein kolefniseining jafngildir einu tonni af gróðurhúsalofttegundum sem hefur verið kolefnisjöfnuð.

Íslenskt jarðnæði hlutfallslega ódýrt

Skógræktin hefur átt fundi með erlendum aðilum sem hafa áhuga á að setja í gang loftslagsverkefni hér á landi. Einu helstu hvatarnir á bak við það er sá að íslenskar jarðir eru hlutfallslega ódýrar og að allt land í Evrópu er orðið umsetið. Þegar opnaðist fyrir fjárfestingar í Austur- Evrópu hafi verð á úthaga og öðru jaðarlandi þar sem skógrækt fer fram á farið úr 800 evrum á hektarann yfir í 3.500 evrur.

Gunnlaugur segir að miklir möguleikar fylgi því að rækta skóg á jaðarlandi. Með því fæst kolefnisbinding sem hægt er að selja og timbur sem fellur til við grisjun. Ef skógur er ræktaður í 50-60 ár á rýru landi og felldur að því loknu er framleiðni landsins orðin mun meiri en áður.

Tekjuöflun ekki í sjónmáli

Bændablaðið setti sig í samband við Ívar Örn Þrastarson, deildarstjóra hjá Festi, sem stendur á bak við áðurnefnt loftslagsverkefni á Fjarðarhorni. Aðspurður hvort samsteypan sæi fram á að græða eitthvað á gróðursetningunni svaraði hann skriflega: „Hugsanleg tekjuöflun af verkefninu er ekki í sjónmáli eða fyrirséð. Þegar mælingar munu staðfesta að kolefnisbinding hafi átt sér stað í þessu verkefni, þá getum við minnkað kaup á kolefniseiningum frá öðrum en samsteypunni. Við gerum ráð fyrir að gróðursetningum í þessu verkefni ljúki vorið 2024 og að fyrstu mælingar á bindingu muni eiga sér stað fimm til tíu árum síðar. Þegar binding hefur svo verið staðfest mun hún fyrst verða bókfærð inn í kolefnisbókhald félagsins.“

Einar Bárðarson hjá Votlendissjóði sér fram á að hægt sé að búa til nýja tekjulind fyrir landeigendur.
Mynd / Aðsend
Neytendur geta veitt aðhald

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, tók þátt í mótun tækniforskriftarinnar. Hann segir að hér séu komnar þær leikreglur sem markaðurinn hefur verið að kalla eftir og þetta sé nauðsynlegt svo viðskipti með kolefniseiningar njóti trausts. Nú er búið að skilgreina hvaða forsendur þurfi að vera til staðar til að aðilar á markaðnum geti auglýst kolefnishlutleysi.

Hingað til hefur Votlendissjóður selt kolefniseiningar, en tekið sérstaklega fram að ekki sé verið að kaupa kolefnishlutleysi. Hann segir að þetta muni ekki breyta því hvernig votlendi er endurheimt, heldur ferlunum í kringum utanumhaldið og eftirlitið í kringum framleiðslu kolefniseininga.

Tækniforskriftin hefur ekki lagalegt gildi, en gefur möguleikann á að samræma tungutak og viðurkenndar leikreglur. Þetta gefur aðilum á markaði tækifæri til að skilja hvað felst í kolefniseiningum og kolefnisjöfnun og neytendur geta veitt aðhald ef þess þarf.

„Ég held að með alþjóðlegum vottunum, skýrum leikreglum, og að hægt sé að selja kolefniseiningar með miklu meiri kröfum en hefur verið gert, opnast tækifæri fyrir Votlendissjóð og aðra að gera úr þessu tekjulind fyrir landeigendur í mjög náinni framtíð,“ segir Einar.

Björgvin Stefán Pálsson fer fyrir Yggdrasil Carbon sem vinnur að þróun sjálfbærra loftslagsverkefna í náttúru Íslands. Mynd / Aðsend
Mun auka gagnsæi

Yggdrasil Carbon er fyrirtæki sem vinnur að þróun sjálfbærra loftslagsverkefna í náttúru Íslands sem gefa vottaðar kolefniseiningar – þá helst skógrækt. Þau vinna í samstarfi við landeigendur og leiða verkefnin frá upphafi til enda. Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri Yggdrasil Carbon, segir sitt fyrirtæki vinna eftir nýju tækniforskriftinni í sínum verkefnum.

Sérstakt kappsmál hjá Yggdrasil er að semja við núverandi eigendur jarða með það að markmiði að styðja við byggð og skapa atvinnu fyrir fólkið á svæðinu. Björgvin útilokar þó ekki að með tíð og tíma komi aðilar sem kaupa jarðir gagngert til að fara í skógræktarverkefni.

„Markaðurinn mun færa sig í að kaupa vottaðar kolefniseiningar,“ segir Björgvin, aðspurður um hverju nýja tækniforskriftin muni breyta. Nú muni verða aukið gagnsæi í viðskiptum með einingarnar. Einnig vonast hann til að breyting verði á því hvort fyrirtæki haldi fram kolefnishlutleysi eða kolefnisjöfnun og öll hugtökin á þessu sviði verði skýrari.

Mjög stutt í fyrstu söluna

Þegar Bændablaðið tók Björgvin tali þá var vinna í gangi hjá óháðri vottunarstofu að votta væntar kolefniseiningar fyrstu verkefna Yggdrasil. Hann segir að þeirri vinnu verði lokið í desember og í kjölfarið fari vottaðar einingar í bið í söluferli – sem verður ein af fyrstu sölunum á landinu, ef ekki sú fyrsta.

„Vottaðar kolefniseiningar eru eina leiðin áfram,“ segir Björgvin aðspurður um góð lokaorð.

Skylt efni: kolefnisjöfnun

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...