Skötuselur rotaður í róðri Ebba AK frá Akranesi. Mynd / Vilmundur Hansen.
Skötuselur rotaður í róðri Ebba AK frá Akranesi. Mynd / Vilmundur Hansen.
Mynd / Vilmundur Hansen
Fréttaskýring 29. september 2020

Ris og hnig skötuselsins

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Skötuselur hefur nokkra sérstöðu í íslenskum sjávarútvegi. Lengst af veiddist hann í litlum mæli sem meðafli. Í byrjun aldarinnar rann hálfgert skötuselsæði á menn, aflinn stjórjókst en hefur síðan dregist verulega saman. Um tíma olli skötuselur stórdeilum um stjórn fiskveiða.

Skötuselur er skrítið nafn á fiski sem fljótt á litið á ekkert skylt við skötu og því síður sel. Og þó. Fiskurinn er flatvaxinn eins og skatan og eyruggar eru vel þroskaðir og minna á selshreifa. Hann getur jafnvel staulast um botninn á eyruggunum. Af þessu tvennu er nafnið komið.

Skötuselur er afar verðmætur fiskur og mjög eftirsóttur af sæl­kerum. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Bæði hér á landi og erlendis var skötusel hent fyrir borð á árum áður. Hann hafði ekki útlitið með sér.

Ársaflinn í kringum 500 tonn

Skötuselur veiddist hér við land lengst af á síðustu öld sem meðafli í humartroll og önnur botndregin veiðarfæri. Ársafli íslenskra skipa var mikið í kringum 500 tonnin á árabilinu 1965 til 1995, fór mest í um 950 tonn árið 1969 og minnst í um 286 tonn árið 1974. Erlend skip veiddu hér töluvert af skötusel framan af þessu tímabili. Heildarafli á Íslandsmiðum varð mestur 1.380 tonn árið 1968.

Beinar veiðar hefjast

Skötuselur veiddist aðallega suður og suðaustur af landinu. Árið 1999 hófust beinar veiðar á skötusel með svokölluðum fótreipistrollum. Ári seinna hófust beinar veiðar með stórriðnum netum og var fyrirmyndin sótt til Færeyja. Netabátarnir voru frá Vestmannaeyjum. Útbreiðslusvæði skötusels jókst jafnframt í vestur og norður með Vesturlandi samhliða stækkun stofnsins.

Fjöldi báta fór að stunda neta­veiðar á skötusel. Strax árið 2000 voru rúm 50% skötuselsaflans tekin í net. Netin voru ráðandi veiðarfæri fram til ársins 2016 að einu ári undanteknu.

Hámarki náð

Aflinn jókst jafnt og þétt og fór mest í 4.700 tonn árið 2009, þar af veiddust 2.462 tonn í netin, eða 61%. Meginhluti aflans veiddist nú í Faxaflóa og Breiðafirði. Nokkrum árum síðar bárust meira að segja fréttir af mokveiði á skötusel í Ísafjarðardjúpi.

Eftir metárið 2009 fóru veiðarnar stigminnkandi og enduðu í aðeins rétt rúmum 500 tonnum árið 2019. Það er ríflega níu sinnum minni afli en þegar mest var.

Aflaverðmæti skötusels árið 2019 var 218 milljónir króna og meðalverð 431 króna á kíló. Til samanburðar má nefna að aflaverðmæti skötusels var 1,9 milljarðar árið 2009 á verðlagi þess árs.

Með veiðistöng og hefur gleypt fugla

Skötuselur er afar út­breiddur fiskur í Evrópu. Hann finnst frá nyrstu ströndum Noregs og allt inn í Miðjarðarhaf og lengra suður. Hér við land getur hann náð um og yfir 150 sentímetrum að lengd. Algeng stærð er 70 til 80 sentímetrar.

Skötuselur er sérstæður fiskur fyrir margra hluta sakir. Þegar hefur verið nefnt að hann getur staulast um botninn á eyruggunum. Fremri bakuggi er með nokkrum aðskildum geislum. Fremsti geislinn hefur ummyndast í eins konar veiðistöng sem fiskurinn notar til að lokka að sér bráð.

Skötuselur er hausstór og kjaftvíður. Hann liggur á botninum og hremmir bráð sína. Hann étur nánast allt sem að kjafti kemur, hvers konar fiska sem hann ræður við og önnur sjávardýr. Hann syndir einnig upp í sjó í leit að æti. Svartfuglar hafa meira að segja greinst í maga hans.

Varðandi hrygningu hefur skötuselur einnig sérstöðu. Eggin leggur hann í 6 til 10 metra langan og 15 til 45 sentímetra breiðan borða, fjólubláan að lit. Flýtur borðinn í sjónum þar til eggin klekjast út.

Lýsing á skötusel og lífsháttum hans er sótt í bókina „Íslenskir fiskar“ eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson.

Stór hluti leigukvóti

Veiðar á skötusel voru í fyrstu frjálsar en hann var settur í kvóta fiskveiðiárið 2001/2002. Við úthlutun var að venju miðað við veiðireynslu nokkurra undangenginna ára. Kvótinn féll því aðallega þeim í skaut sem höfðu veiðireynslu vegna meðafla en í minna mæli til þeirra sem höfðu nýlega hafið netaveiðar. Nýir bátar sem helguðu sig skötuselsveiðum, einkum bátar frá Vesturlandi, þurftu því að leigja sér kvóta eða kaupa hann. Verulega stór hluti skötuselsaflans var veiddur af bátum sem leigðu til sín kvóta.

Vinsæll á fiskmörkuðum

Skötuselur hefur ratað inn á fiskmarkaði í miklum mæli, eins og títt er um fiska sem veiðast sem meðafli eða koma frá skipum sem ekki eru í beinum tengslum við fiskvinnslur.

Af þeim 505 tonnum af skötusel sem veiddust árið 2019 fóru 418 tonn á fiskmarkað, eða um 83% aflans. Skötuselur, sólkoli og lúða skiptast á um að vera í efsta sæti þegar litið er á kílóverð á fiskmörkuðum. Það sem af er þessu ári trónir skötuselur á toppnum með tæp 520 krónur á kíló.

Hefðbundnar íslenskar fisk­vinnslur hafa ekki sinnt vinnslu á skötusel í ríkum mæli. Athygli vakti þegar veiðin var sem mest að eitt íslenskt fyrirtæki var umsvifamikið í viðskiptum með skötusel. Á árinu 2009 keypti félagið rúm 40% alls skötuselsafla íslenskra skipa fyrir hönd fiskvinnslu í Skotlandi. Megnið af þessum fiski var unnið í verktöku hér og sent út.


Stórpólitískt deilumál

Á árinu 2010 varð mikil uppákoma í kringum skötuselinn. Þá beitti Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra sér fyrir lagasetningu um heimild fyrir sérstakri viðbótarúthlutun á skötusel. Viðbótin skyldi leigð út á hagstæðu verði en ekki renna til skipa sem höfðu aflahlutdeild. Þetta braut í bága við ríkjandi fyrirkomulag um stjórn fiskveiða.

Skötuselsfrumvarpið varð að stórpólitísku deilumáli. Of langt mál yrði að rekja þær deilur hér.

Best að rota hann!

Fiskveiðiárið 2009/2010 leigði ríkið út 452 tonn af skötusel til fiskveiðiskipa og 1.066 tonn fiskveiðiárið á eftir. Eftir það var heimild ráðherra til leigu skötusels felld niður.

Leigukvóti ríkisins var ýmist kallaður Jónskvóti eða Jónsselur meðal sjómanna. Nokkuð margir netabátar gerðu út á Jónssel, þeirra á meðal var Ebbi AK. Blaðamaður Fiskifrétta, Vilmundur Hansen, skellti sér í róður með Ebba í júlí 2011 og átti líflegt samtal við skipstjórann Eymar Einarsson um veiðarnar. Þar kom fram að skötuselurinn gæti verið skaðræðisskepna þegar verið væri að greiða hann úr netunum.

„Stundum kemur fyrir að selurinn stekkur upp á borðinu og það er ekkert grín ef hann nær að bíta sig fastan í mann. Mér þykir því best að rota hann strax með gúmmísleggju og taka ekki neina sénsa,“ sagði Eymar.

Léleg nýliðun  og slæmar horfur

Veiðar á skötusel eru dottnar niður í um 500 tonn á ári, eins og áður er getið. Í fyrstu var talið að hlýnun sjávar skýrði aukna útbreiðslu skötusels en ljóst er að fleiri umhverfisþættir koma við sögu sem ráðið hafa risi og hnignun stofnsins.

Hafrannsóknastofnun segir að nýliðun hafi mælst lítil í meira en áratug. Afli hafi minnkað og ekki sé að sjá að breytingar verði þar á næstu árin. Ráðgjöf Hafró fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 er 503 tonna hámarksafli.

Staðan er því þannig að veiðar á skötusel hafa færst í fyrra horf. Megnið af fiskinum er nú veitt sem meðafli í troll suður af landinu en sáralítið á öðrum svæðum.

Grunnhyggni, vanþekking og pólitísk þráhyggja einkennir enn sorpmál Íslendinga
Fréttaskýring 25. nóvember 2020

Grunnhyggni, vanþekking og pólitísk þráhyggja einkennir enn sorpmál Íslendinga

Enn bólar ekkert á framkvæmdum varðandi nýjar sorporkustöðvar á Íslandi og enn e...

Auðlind eða umhverfisslys
Fréttaskýring 20. nóvember 2020

Auðlind eða umhverfisslys

Kóngakrabbi er nýleg auðlind í Norður-Noregi ef auðlind skyldi kalla. Margir tel...

Hinn hræðilegi skaðvaldur riðuveikin
Fréttaskýring 11. nóvember 2020

Hinn hræðilegi skaðvaldur riðuveikin

Matvælastofnun staðfesti þann 27. október riðu á bæjunum Grænumýri og SyðriHofdö...

Makríllinn fjarlægist Ísland
Fréttaskýring 6. nóvember 2020

Makríllinn fjarlægist Ísland

Það er visst áhyggjuefni að makrílstofninn skuli hafa breytt göngumynstri sínu í...

Sala rafdrifinna léttra tví-, þrí-, fjórhjóla og jafnvel leikfangabíla er í uppnámi
Fréttaskýring 3. nóvember 2020

Sala rafdrifinna léttra tví-, þrí-, fjórhjóla og jafnvel leikfangabíla er í uppnámi

Um síðustu áramót tóku gildi nýjar reglur samkvæmt lögum um skráningu ökutækja. ...

Ufsinn er góður matfiskur sem Íslendingar fúlsa við
Fréttaskýring 29. október 2020

Ufsinn er góður matfiskur sem Íslendingar fúlsa við

Á síðasta ári skilaði ufsinn tæpum 14 milljörðum króna í útflutningsverðmæti. Ás...

Iðnaðarhampur talinn geta orðið lykilhráefni í ofurrafhlöðum framtíðarinnar
Fréttaskýring 26. október 2020

Iðnaðarhampur talinn geta orðið lykilhráefni í ofurrafhlöðum framtíðarinnar

Færa má rök fyrir því að hægt sé að rækta rafhlöður á túnum bænda ef marka má um...

Airbus áætlar að vetnisknúnar flugvélar geti verði komnar í loftið árið 2035
Fréttaskýring 19. október 2020

Airbus áætlar að vetnisknúnar flugvélar geti verði komnar í loftið árið 2035

Flugvélaframleiðandinn Airbus hefur kynnt hönnun þriggja vetnisknúinna flugvéla ...