Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Álftir og gæsir hafa valdið gríðarlegu tjóni í ræktarlöndum bænda á undanförnum árum.
Álftir og gæsir hafa valdið gríðarlegu tjóni í ræktarlöndum bænda á undanförnum árum.
Mynd / smh
Fréttaskýring 20. maí 2016

Ráðherra verði heimilt að aflétta veiðibanni á álft

Höfundur: smh
Fyrir páska var frumvarp lagt fyrir Alþingi um að ráðherra geti með reglugerð aflétt veiðibanni á álftum um tiltekinn tíma á hverju ári, í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Álftin hefur verið friðuð á Íslandi frá 1913.
 
Tilefni frumvarpsins er ágangur álfta í ræktarlöndum bænda og tjón af þess völdum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að gera megi ráð fyrir að 84 hektarar af korni séu uppskerulausir af völdum fugla þegar stuðst er við meðaltal síðustu tveggja ára. „Reikna má með að meðaluppskera korns sé um 3,5 tonn á hektara og að hálmuppskeran sé um 1,8 tonn/ha. Af 84 hekturum má því áætla að það hafi tapast um 294 tonn af korni og 147 tonn af hálmi. Markaðsvirði byggs er um 47 kr./kg og hálmverð er um 20 kr./kg þurrefnis. Heildartapið er því áætlað um 16,8 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir að sama vægi tjóns gildi fyrir allar fuglategundir þar sem þeir eru skráðir valdir að tjóninu má gera ráð fyrir að álftin ein og sér hafi valdið kornrækt uppskerutjóni að verðmæti 6,4 millj. kr. ef tekið er mið af meðaltali áranna 2014 og 2015 og tilkynningum bænda þar um. Þá er rétt að nefna að bændur eyða umtalsverðum fjármunum og vinnu í að verjast tjóni af völdum álfta og gæsa sem erfitt er að kostnaðarmeta,“ segir í greinargerðinni.
 
Heildartjón af álft og gæs 70–90 milljónir 2014 og 2015
 
Enn fremur er þess getið í greinargerðinni að tjón af völdum álfta og gæsa sé mest á túnum og þar af leiðandi er fjárhagstjónið þar einnig mest. Ef sömu aðferðir eru notaðar við að meta uppskerutjón af túnum og grænfóðri, og gert er í dæminu með kornið, þá megi reikna með að heildartjón árin 2014 og 2015 nemi á milli 70 og 90 milljónir króna.
 
Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og segir hún að frumvarpið hafi nú tekið breytingum eftir að athugasemdir komu fram. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur haft efasemdir um að málið sé þingtækt vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur með aðild að svokölluðum Bernarsamningi, um friðaðar fuglategundir. Kristinn segir að samkvæmt núgildandi villidýralögum sé ráðherra þó heimilt að veita undanþágur frá lögunum, meðal annars til að veiða friðaðar tegundir til að draga úr tjóni – ef aðrar aðgerðir eru ekki taldar duga. „Slíkar undanþágur eru ávallt tímabundnar. Það kemur fram í 3. málsgrein 7. grein laganna. Slíku ákvæði mætti beita á álftir og hefur verið gert í einstaka tilvikum,“ segir Kristinn.
 
 
 
Undanþágur í Bernarsamningnum
 
Silja Dögg segir að í breyttu frumvarpi hafi verið bætt við vísun í grein Bernarsamningsins, þar sem undanþágur séu tilgreindar. Álit frá aðallögfræðingi Alþingis kveði upp úr um að málið sé þingtækt.
 
Í greinargerðinni með frumvarpinu kemur fram að í 1. málsgrein 9. greinar samningsins sé tilgreint að samningsaðilar geti veitt undanþágur frá friðun ef engin önnur viðunandi lausn finnst og ef undanþágan stefnir viðkomandi stofni ekki í útrýmingarhættu. „Samkvæmt ákvæðinu má veita undanþágur m.a. til að koma í veg fyrir alvarlegt tjón á uppskeru, búfénaði, skóglendi, fiski, vatni og öðrum eignum. Þá kemur fram í lið 8.3.2. í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra, dags. 3. apríl 2013, að áður en friðun tegundar sé aflétt til að verjast tjóni ætti alltaf að meta og skilgreina tjón af hennar völdum og þurfi að útlista sérstaklega með hvaða hætti það skuli gert.
 
Bændasamtök Íslands hafa með ítarlegum hætti metið og skilgreint tjón af völdum álfta,“ segir ennfremur í greinargerðinni.
 
Frumvarpið takmarkast við tímabil og ræktarlönd
 
Silja Dögg segir að í frumvarpinu sé kveðið á um að veiðitímabilið verði frá 20. ágúst til 1. desember. Veiðarnar verði einnig takmarkaðar við ræktarlönd og því miði frumvarpið eingöngu að því að vernda ræktarlönd bænda á þeim árstíma þegar hættan á tjóni er hvað mest.  
 
„Ég hef fylgst með umræðunni um ágang álfta og gæsa í langan tíma. Málið kemur reglulega upp á fundum mínum með fólki í Suðurkjördæmi, en þar er stunduð talsverð kornrækt og repjurækt.  Einnig hefur Bændablaðið reglulega verið með ítarlegar umfjallanir um málið. 
 
Eins og fram kemur í greinargerð þá verða bændur fyrir miklu tjóni þannig að málið snýst meðal annars um hagsmuni bænda. En það snýst ekki eingöngu um bændur heldur hag þjóðarbúsins og að við verðum sjálfbærari sem þjóð. Allt sem við getum ræktað sjálf, eigum við að rækta. En með þessu áframhaldi, það er ef stjórnvöld grípa ekki inn í með einhverjum hætti, þá er til dæmis kornrækt mögulega sjálfhætt og repjurækt sömuleiðis. Bæði hefur tíðin verið erfið og svo er ágangur álfta og gæsa stórkostlegt vandamál. Við verðum að bregðast við og þetta frumvarp er tilraun til þess,“ segir Silja Dögg.
 
Hún hefur ekki mikla trú á því að málið komist á dagskrá í vor, en bindur vonir við haustið og þá að málið fái góða umfjöllun og jákvæða afgreiðslu. 
 
Sömu annmarkar á endurskoðuðu frumvarpi
 
Kristinn Haukur segir að í núgildandi lögum sé þegar heimild til að veita undanþágu til að veiða friðaða fugla – samanber 7. grein villidýralaganna – og byggi sú heimild alfarið á Bernarsamningnum. „Svona víðtæk undaþága, það er að heimila veiðar á álftum í meira en þrjá mánuði ár hvert í ræktarlandi – sem er ekki bara tún og akrar, samanber skilgreiningu í nýju náttúruverndarlögunum – er í engu samræmi við þá tiltölulega þröngu heimild sem gert er ráð fyrir í lögunum og Bernarsamningum. 
 
Kristinn Haukur Skarphéðinsson.
Svo víðtæk undanþága getur á engan hátt talist staðbundin, hver undanþága ætti að miðast við tiltekna jörð og tiltekinn tíma og eftir atvikum tiltekinn fjölda drepinna fugla. Það er ekki hægt að lýsa öll ræktarlönd veiðisvæði fyrir álftir í meira en þrjá mánuði á ári. Í mínum huga eru því sömu annmarkar á endurskoðuðu frumvarpi og voru á upphaflegu frumvarpi,“ segir Kristinn Haukur.
 
Álftastofninn er meðal þeirra fuglastofna á Íslandi sem hafa vaxið verulega á síðustu áratugum. Samkvæmt upplýsingum frá Kristni Hauki var áætluð stofnstærð árið 2010 um 29 þúsund fuglar, en fuglar eru taldir bæði hér og á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Talið er á fimm ára fresti og hafa tölur frá því í fyrra ekki enn verið birtar. Hlutfall stofns sem hefur vetursetu á Íslandi er talinn vera fimm til tíu prósent, en það mun vera breytilegt eftir árferði. Árið 1991 var stofnstærðin 18 þúsund fuglar og síðan hefur stofninn verið í stöðugum vexti. 
 

Skylt efni: álftir og gæsir

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...