Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Te er ein stærsta útflutningsvara Sri Lanka, en teiðnaðurinn þar sér fyrir 23% af heimsmarkaði. Uppskeran á tei, sem og öðrum landbúnaðarvörum, hrundi vegna banns á notkun íðefna.
Te er ein stærsta útflutningsvara Sri Lanka, en teiðnaðurinn þar sér fyrir 23% af heimsmarkaði. Uppskeran á tei, sem og öðrum landbúnaðarvörum, hrundi vegna banns á notkun íðefna.
Mynd / VH
Fréttaskýring 10. apríl 2022

Lífræna byltingin sem er að éta börnin sín

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Um ár er síðan Gotabaya Raja­paksa, forseti eyríkisins Sri Lanka, bannaði innflutning á íðefnum í landbúnaði, tilbúnum áburði og varnarefnum. Hann gerði það í nafni umbyltingar í matvælaframleiðslu. Ræktun í Sri Lanka skyldi verða 100% lífræn. Afleiðingarnar eru geigvænlegar. Efnahagur landsins er í rúst og verðbólgan í sögulegum hæðum sem hefur leitt til matarskorts og vöntunar á nauðsynjavörum. Þjóðin er á barmi gjaldþrots og forystumenn flýja skyldur sínar í unnvörpum.

Sri Lanka er tæp 66 þúsund ferkílómetra eyríki suðaustur af Indlandi og þar búa rúm 22 milljónir manna. Efnahagur landsins byggir að stóru leyti á ferðaþjónustu og teiðnaði, en Sri Lanka sér fyrir 23% af heimsmarkaði á tei. Önnur landbúnaðarframleiðsla og fataiðnaður eru einnig meðal megintekjulinda landsins.

Gróskumikill landbúnaður

Vegna legu sinnar og umhverfis er Sri Lanka kjörin til ýmiss konar matvælaræktunar. Landbúnaðurinn, sem telur til 7,4% hlutfalls af vergri landsframleiðslu, byggir á um 1,8 milljón fjölskyldubúum en talið er að 30% íbúar landsins starfi við landbúnað. Hrísgrjón er meginafurð ræktarjarðarinnar ásamt útflutningsvörum á borð við tejurtir, kaffi, krydd og gúmmítré. Einnig er þar ræktað fjölbreytt grænmeti og ávextir, olíujurtir, kakó og kókoshnetur.

Fjölbreytileiki landbúnaðar-landsins er mikill en á eyjunni eru skilgreind 46 mismunandi vistfræðileg landbúnaðarsvæði, sjö stig af loftslagsaðstæðum (micro climate) og 200 mismunandi jarðgerðir. Af þeim sökum er vistkerfi eyjunnar svokallaður heitur reitur í samhengi líffræðilegs fjölbreytileika enda er þar að finna flestar blómstrandi plöntur á hverja flatarmálseiningu meðal Asíulanda.

Landbúnaðurinn, sem telur til 7,4% hlutfalls af vergri landsframleiðslu, byggir á um 1,8 milljón fjölskyldubúum en talið er að 30% íbúar landsins starfi við landbúnað. Hrísgrjón er meginafurð ræktarjarðarinnar. Mynd / Daniel Klein

Verandi þjóð með langa og ríka landbúnaðarsögu hafa bændur landsins lært að stunda og þróa landbúnaðartækni sem hentar hverju svæði og vistkerfi fyrir sig. Meðaltalsútreikningar gera ráð fyrir um 4,8 tonnum á hektara af hinum ýmsu afurðum undir eðlilegum kringumstæðum. En það hefur nú breyst.

Frændhygli og fallvaltur efnahagur

Efnahagsaga Sri Lanka er þyrnum stráð. Þrátt fyrir að vera talið eitt af þeim ríkjum Asíu sem þykja hafa staðið sig hvað best að draga úr fátækt, sérstaklega síðustu 20 ár, hefur landið þurft að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sextán sinnum frá sjálfstæði 1948 vegna alvarlegs efnahagsvanda. Lífskjör íbúa Sri Lanka bötnuðu talsvert á árunum 2005–2015 en síðan þá hefur grafið verulega undan af nokkrum ástæðum sem ekki verða raktar hér.

Það er hins vegar mikilvægt að gera grein fyrir Gotabaya Rajapaksa og hans fjölskyldu. Gotabaya hefur verið forseti landsins frá árinu 2019 en gegndi áður hlutverki yfirherforingja. Svo vill til að eldri bróðir hans, Mahinda, sat í forsetastól landsins í áratug, frá 2005–2015. Í dag gegnir hann þremur ráðherraembættum í ríkisstjórn litla bróður, þar á meðal hlutverki forsætisráðherra. Sjálfur stýrir forsetinn tveimur ráðuneytum landsins, þar á meðal varnarmálaráðuneytinu.

Ekki nóg með það. Þriðji bróðirinn, Basil, er fjármálaráðherra landsins og fjórði bróðirinn, Chamal, er ráðherra áveita.
Þetta þætti óeðlilegt að öllu leyti fyrir margra hluta sakir. En upptalningunni er ekki lokið.

Sonur Mahinda, Namal, hefur tvöfaldan ráðherratitil og sonur Chamals, Shasheendra, fær þann einkennilega titil að vera ráðherra fyrir fóður og korn, lífrænan mat, grænmeti, ávexti, chili, lauk og kartöflur, fræframleiðslu og hátæknilandbúnað. Meðlimir fjöl­skyldunnar skipa sér í fjölda forystuhlutverka á öðrum stjórn­sýslustigum sem of langt mál væri að þylja upp.

Rajapaksa fjölskyldan á í reynd valdasögu sem nær aftur fyrir sjálfstæði Sri Lanka. Grundvallast það ekki síst af vinsældum fjölskyldunnar fyrir þátt hennar í sigri yfir Tamil-tígrunum í borgarastyrjöldinni sem geisaði frá 1983–2009.

Gotabaya Rajapaksa forseti, fyrir miðju, ásamt fríðu föruneyti. Gotabaya stýrir einnig tveimur ráðuneytum. Bróðir hans er forsætisráðherra. Aðrir bræður og bræðrasynir stýra hinum ýmsu ráðuneytum í ríkisstjórn Sri Lanka.

En völdum fylgir ábyrgð og það er ekki ofsögum sagt að það sé megn spillingarlykt af Rajapaksa fjölskyldunni. Hún hefur verið fordæmd fyrir frændhygli og slæmt stjórnarfar. Þær ávítur hafa eingöngu orðið háværari að undanförnu og nú virðist valdatíðin bresta.

Áhrifavaldurinn Vanada Shiva

Í kosningabaráttu sinni til forseta Sri Lanka árið 2019 lofaði Gotabaya Rajapaksa að umbreyta landbúnaði eyjunnar á tíu árum. Ræktunin skyldi verða alfarið lífræn, laus við tilbúinn áburð en ofnotkun hans á ræktunarjörð eyjunnar tengdi hann við aukna tíðni langvinnra hjartasjúkdóma meðal almennings.

Það fer alls ekki tvennum sögum af því hvaðan afstaða Rajapaksa forseta kemur. Hún er tengd við hugsjónir manneskju sem kom til Íslands árið 2011, dr. Vanada Shiva, sem hefur m.a. talað í þágu lífræns landbúnaðar og gegn erfðabreytingum á nytjaplöntum.

Ákvörðunin umdeilda

Stefnumörkun er eitt en framkvæmd annað. Með yfirþyrmandi skulda­hala á bakinu, gjalddaga á næsta leiti og tekjuöflun í lágmarki vegna heimsfaraldurs, var ljóst að gjaldeyrisforði þjóðarinnar var á tæpasta vaði. Það síðasta sem Rajapaksa forseti og vandamenn vildu var að grafa undan sjálfstæði landsins, eða völdum fjölskyldunnar, með að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ríkisstjórnin tók þess í stað til ýmissa annarra ráða til að minnka útgjöld landsins.

Ein sú afdrifaríkasta var bann við innflutningi á íðefnum í landbúnað, áburð og varnarefni, sem tilkynnt var 26. apríl 2021.
„Áttatíu milljarðar rúpía er það sem landið eyðir í innfluttan áburð. Hver græðir á því? Erlendi fyrirtæki. Aðeins 4–5 innlend fyrirtæki græða á því. Með þessari ákvörðun viljum við gera þetta að innlendum iðnaði,“ sagði Gotabaya forseti meðal annars á þinginu.
Á alþjóðlegum vettvangi hélt Rajapaksa forseti hins vegar úti orðræðu sem byggir á mun markaðsdrifnari hugmyndafræði.

Frá markaði í Sri Lanka í byrjun áratugsins. Þrátt fyrir að vera gjöfult landbúnaðarland treysta íbúar Sri Lanka á innfluttar matvörur í stórum stíl og bíða nú í röðum eftir að fá nauðsynjum skammtað. Mynd / Vilmundur Hansen

Á fundi Matvæla- og land­búnaðar­stofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um fæðuöryggi heimsins í byrjun júnímánaðar kynnti forsetinn frumkvæði lands síns með stolti.
„Ef við ætlum að vernda plánetuna okkar og tryggja sjálfbærni, mega stjórnvöld um allan heim ekki hika við að taka upp djarfari stefnu.“
Þar segir hann einnig að ofnotkun á íðefnunum sé tengd við fjölgun ólæknandi veikinda og háa tíðni langvinnra hjartasjúkdóma í landsbyggð Sri Lanka. Hann kennir ágengum lobbíisma efnaframleiðenda og menntunarskorti hjá bændum um að nær 80% af þeim köfnunar­efnisáburði sem notaður er á landbúnaðarlandið sé sóað, rati í grunnvatn sem mengi út frá sér.

Rajapaksa forseti hélt áfram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP 26, í október sl.
„Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að nýta okkur vísindaaðferðir til að auka landbúnaðarframleiðslu án þess að valda umhverfisspjöllum. Við lýsum yfir nýrri landbúnaðarbyltingu sem byggir á sjálfbærni. Heimspekileg arfleifð Sri Lanka, auðguð af kenningum Búdda, hefur alltaf hvatt okkur til að halda jafnvægi milli vistfræðilegra og mannlegra þarfa. Menn verða að vera í takt við náttúruna frekar en að vinna gegn henni. Þessi nýja stefna ríkisstjórnar minnar leggur áherslu á sjálfbærni.“

Á þessum tímapunkti var þó þegar bersýnilegt að ákvörðunin var farin að hafa veruleg og slæm áhrif á fæðuöryggi, sjálfbærni og heilbrigði íbúa Sri Lanka.

Afleiðingarnar fyrirsjáanlegu

Fljótlega eftir bannið var ljóst að uppskera matvæla án aðfanganna yrði minni en vænta mætti.

Janaka Wasantha kartöflubóndi sýndi sjónvarpsstöðinni Al Jazeera stöðu akranna sinna í frétt sem birtist 26. júlí sl. Áhrif áburðarskortsins var að plöntur voru litlar og óþroskaðar. „Við erum venjulega að uppskera á þessum tíma, um 75 dögum eftir plöntun.“
Indika Dissanayake garðyrkju-bóndi gagnrýndi stjórnvöld í sömu frétt og sagði að ekkert samráð hafi átt sér stað við bændur fyrir bannið.
Uppskeran hrundi og tekjur bænda með. Talið er að allt að þriðjungur ræktunarsvæðis hafi ekki verið nýtt vegna þess að vistfræðilegar aðstæður kröfðust varnarefna.

Bændur og landbúnaðar-vísindamenn mótmæltu á götum úti. Þeir voru sammála um að minni notkun íðefna í landbúnaði væri góðra gjalda verð en það hefði verið fráleitt að gera kröfur um yfirfærslu á einni nóttu. Útfærslan væri skandall.
Matarskortur gerði fljótlega vart við sig og matvælaverð hækkaði. Bætti það gráu ofan á svart ástand vegna bágs gjaldeyrisforða. Vöntun á innfluttum vörum og eldsneyti varð til þess að bæði bensín og matvæli er á þessum tímapunkti skammtað og fólk hefur látist úr ofþurrkun í biðröðum eftir nauðsynjavörum.

Fýluferð Hippo Spirit

Þegar ömurlegar afleiðingar inn-flutningsbannsins voru bersýnilegar, sá Rajapaksa forseti að sér og sneri ákvörðuninni um miðjan nóvember. Takmarkanir voru afléttar að einhverju leyti því tiltekin varnarefni voru leyfð.

Ekki nóg með það, heldur verslaði hið opinbera 200.000 tonna skipsfarm af lífrænum búfjáráburði frá Kína, sem þegar var á leiðinni með flutningaskipinu Hippo Spirit er ríkisstjórnin tilkynnti gjörninginn.

Kraumaði þá aftur í talsmönnum landbúnaðar og upphófust mótmæli. Jarðvísindamenn vöruðu við innflutningnum og sögðu að dreifing áburðarins gæti haft óafturkræf áhrif á vistkerfi eyjunnar.
Við formlegt eftirlit NPQS (Eftirlitsstofnun Sri Lanka) á sýnum úr áburðinum reyndist hann nefnilega innihalda bakteríuna Elwinia sem getur valdið sjúkdómum í plöntum.

Dr. Janendra Decosta, prófessor í jarðrækt hjá Háskólanum í Peradeniya, sagði m.a. í viðtali:
„Ef örverur í áburðinum reynast skaðlegar þá getum við ekki snúið við, tekið til baka ferlið sem þá þegar verður farið í gang. Sem vísindamaður myndi ég mæla gegn því að taka við þessari sendingu af lífrænum áburði.“

Eftirlitsstofnunin veitti farminum því ekki innflutningsleyfi og Hippo Spirit fékk ekki að leggjast við bryggju til affermingar.
Hippo Spirit var því snúið við og sent aftur til Kína.

Afleidd þróun

Innflutningshöftin og bann við notkun viðurkenndra varnarefna hefur leitt til stóraukins ólöglegs innflutnings á alls kyns varnarefnum. Þar sem opinberu eftirliti sleppir aukast líkur á notkun á óæskilegum efnum sem leiðir til þess að landbúnaðarframleiðslan í Sri Lanka og sú ímynd sem hún hafði, lífræn eður ei, kann að skaðast því nú hafa eftirlitsstofnanir ekki eingöngu verri yfirsýn yfir notkun á íðefnum, heldur getur það einnig leitt til verri gæða á afurðum.

Bætur til bænda

Ríkisstjórnin hefur þurft að játa ýmis mistök vegna ákvörðunar um skyndilega yfirfærslu landbúnaðarframleiðslu eyjunnar til lífrænnar.
Í lok janúar boðaði hún skaðabætur til handa bændum sem urðu fyrir uppskerubresti vegna þessa. Að minnsta kosti milljón hrísgrjónabændur fengu 4.000 rúpíur sem kostaði ríkiskassann sem nemur 200 milljónum bandarískra dollara. Ekki nóg með það heldur lofaði Mahindananda Aluthgamage landbúnaðarráðherra fjármagni sem samsvaraði öðrum 150 milljón bandaríkjadollurum til stuðnings bændum sem sitja uppi með langvarandi skaða á framleiðslu sinni.

Þótt bændur geti aftur farið að rækta jörð sína á hefðbundinn hátt eru afleiðingar röskunarinnar enn að koma fram. Það mun taka tíma að koma aftur á jafnvægi í framleiðslu.

Sögunni er heldur ekki lokið. Daglega berast fregnir af afleiðingum efnahagshruns á Sri Lanka sem er á barmi gjaldþrots. Gjaldeyrisforðinn er uppurinn og eldsneyti af skornum skammti. Nauðsynlegum innflutningsvörum er úthlutað til fólks sem bíður klukkustundum saman í röðum.

Rafmagni er einnig skammtað sem hefur orðið til þess að fólk þarf að gera tilraun til að sækja vinnu sem krefst fjarskipta og tölvutengingar, á tilsettum rafmagnstíma – stundum um miðja nótt.

Á meðan er rafmagn óheft í þeim hverfum sem Rajapaksa fjölskyldan dvelur og einhverra hluta vegna virðast þeir geta rúntað að vild um láð og lendur eyju sinnar með farteski og föruneyti.

Þolinmæði íbúa Sri Lanka er þó þrotin og mótmælin ágerast. Föstudaginn 1. apríl stormuðu mótmælendur að heimili forsetans sem var svarað af hörku. Útgöngubann var sett á, sem mót- mælendur skelltu skollaeyrum við og héldu mótmælin áfram. Í byrjun vikunnar höfðu svo nokkrir forystumenn sagt af sér í ljósi aðstæðna, þar á meðal fyrrnefndur Namal og seðlabankastjóri landsins.

Mikil mómæli hafa átt sér stað í Sri Lanka undanfarnar vikur vegna efnahagsástandsins Þau náðu hámarki föstudaginn 1. apríl þegar ráðist var á heimili forsetans. Mynd / NewsFirstS

Landbúnaður er vísindi

Í viðtali við landbúnaðarhlaðvarpið BuissnessLine segir Buddhi Marambe, prófessor í jarðrækt hjá Peradeniya háskóla, þessa viðburði sýna glögglega slæm áhrif þess að horfa á landbúnað sem hugsjón eða rómantík.

„Landbúnaður er lífsviðurværi fólks. Lönd eins og okkar byggja á landbúnaðarnýtingu og búa yfir langri sögu þróunar landbúnaðaraðferða og tækni. Landbúnaður er vísindi svo ég bið ykkur að snúa honum ekki upp í rómantík. Notið fagkunnáttu og stundið landbúnað sem byggður er á sérfræðiþekkingu og takið ákvarðanir út frá þeim sönnunum sem eru til staðar. Þessar staðreyndir ættu að vera byggðar á vísindarannsóknum – það er það mikilvægasta.“

Marambe minnir þó á að lífrænn búskapur sé á engan hátt alslæmur, heldur sértækt mengi sem á sína sérstöku hillu bæði þegar kemur að umhverfis- og markaðsmálum. Halda ætti áfram lífrænni hreyfingu og þróun enda geti afurðir lífrænnar ræktunar fært Sri Lanka mjög
þarfar aukatekjur.

Enn um sinn er mannkynið hins vegar brauðfætt með hefðbundinni landbúnaðartækni. Aðeins 1,5% af landbúnaðarsvæði heimsins er lífrænt, sem þýðir að 98,5% af því er ræktað með hefðbundnum landbúnaðaraðferðum. Það eru þær sem tryggja fæðuöryggi.

Hvert er umfangið?
Fréttaskýring 23. júní 2022

Hvert er umfangið?

Efnahagslegt hlutverk íslenska hestsins hefur breyst töluvert á undan- förnu...

Framboð hráefna til fóðurframleiðslu á Íslandi ótryggt
Fréttaskýring 8. júní 2022

Framboð hráefna til fóðurframleiðslu á Íslandi ótryggt

Ógnarástand er á erlendum mörk­uðum með kornvörur og hráefni til fóðurger...

Fljótandi gjaldmiðlar með enga baktryggingu í raunverðmætum sagðir dæmdir til að hrynja
Fréttaskýring 1. júní 2022

Fljótandi gjaldmiðlar með enga baktryggingu í raunverðmætum sagðir dæmdir til að hrynja

Stríðsátökin í Úkraínu virðast vera að valda áhyggjum um að þau geti hrundið af ...

Leigukvóti fyrir milljarða
Fréttaskýring 30. maí 2022

Leigukvóti fyrir milljarða

Leiguviðskipti með þorskkvóta námu rúmlega sex milljörðum króna á árinu 2021. Al...

Um 50–75% Íslendinga eru með of lítið af D-vítamíni í blóði
Fréttaskýring 24. maí 2022

Um 50–75% Íslendinga eru með of lítið af D-vítamíni í blóði

Embætti landlæknis og Rann­sókna­stofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvi...

Orkukostnaður heimila snarhækkar í Evrópu
Fréttaskýring 19. maí 2022

Orkukostnaður heimila snarhækkar í Evrópu

Þróun sameiginlegs innri orku­markaðar Evrópu og innleiðing skortstöðu á raforku...

Veðurfarið hefur úrslitaáhrif
Fréttaskýring 16. maí 2022

Veðurfarið hefur úrslitaáhrif

Kartöflumygla náði talsverðri útbreiðslu á Suðurlandi síðastliðið sumar, ekki sí...

Fjölbreytt fiskeldi til hliðar við laxinn
Fréttaskýring 13. maí 2022

Fjölbreytt fiskeldi til hliðar við laxinn

Styrjuhrogn, lúsétandi hrognkelsi, græn sæeyru, sushi-lostætið gullinrafi og góm...