Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Úr stóðréttum. Tölur sýna að útflutningstekjur vegna sölu íslenskra reiðhrossa eru á pari við tekjur annarra útflutningsafurða hrossa, þ.e. þegar tekin eru saman verðmæti hins umdeilda PMSG og kjöts. Árið 2021 voru tekjur vegna útflutnings reiðhrossa um 2,25 milljarðar króna. Meðaltal á uppgefnu söluverði þeirra var um 690.000 krónur. Á meðan voru útflutningstekjur vegna afurða hrossa, sem ekki eru nýtt sem reiðhross, um 2 milljarðar króna.
Úr stóðréttum. Tölur sýna að útflutningstekjur vegna sölu íslenskra reiðhrossa eru á pari við tekjur annarra útflutningsafurða hrossa, þ.e. þegar tekin eru saman verðmæti hins umdeilda PMSG og kjöts. Árið 2021 voru tekjur vegna útflutnings reiðhrossa um 2,25 milljarðar króna. Meðaltal á uppgefnu söluverði þeirra var um 690.000 krónur. Á meðan voru útflutningstekjur vegna afurða hrossa, sem ekki eru nýtt sem reiðhross, um 2 milljarðar króna.
Mynd / ghp
Fréttaskýring 23. júní 2022

Hvert er umfangið?

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Efnahagslegt hlutverk íslenska hestsins hefur breyst töluvert á undanförnum tuttugu árum. Hesturinn er forsenda fjölbreyttrar starfsemi bæði hérlendis og erlendis. Heildræn yfirsýn á umfangi greinarinnar í heild er hins vegar ekki til staðar. Vægi atvinnugreinar byggir á upplýsingum um áhrif og arðsemi hennar og því er hagsmunaaðilum hestamennsku vandi búinn þegar vinna á að framgangi starfseminnar á einn eða annan hátt.

Í skýrslu starfshóps matvælaráðherra um blóðtöku úr fylfullum hryssum eru efnahagsleg sjónarmið greind sem eitt af meginsjónarmiðum þeirra hagaðila sem fengu að koma á framfæri sinni afstöðu í nefndinni. Meðal aðila voru ráð og félög sem vinna að framgangi reiðhestsins, s.s. fagráð í hrossarækt, Alþjóðasamband Íslandshestafélaga (FEIF), Félag tamningamanna og Landssamband hestamannafélaga. Skýr afstaða meðal þeirra var að banna ætti blóðmerahald á forsendum ímyndar greinarinnar, ræktunarsjónarmiða og efnahagslegra sjónarmiða.

Í umfjöllun nefndarinnar um efnahagsleg áhrif kemur fram að engin bein neikvæð efnahagsleg sjónarmið liggi fyrir. Erfitt sé að mæla eða sýna fram á þessi áhrif með beinum hætti og engin úttekt liggi fyrir á efnahagslegum áhrifum hestatengdrar starfsemi í heild. Niðurstaða hópsins er sú að ekki sé hægt að banna blóðmerabúskap á grundvelli óbeinna efnahagslegra hagsmuna, s.s. ímyndar og hugsanlegra áhrifa.

Óhjákvæmilegt væri að mæla og sýna fram á slík áhrif.

Fjölbreytt starfsemi

Atvinnugreinin hestamennska er marglaga. Hún felur m.a. í sér ræktun hrossa, útgerð stóðhesta, tamningu og þjálfun hrossa, hrossasölu innanlands sem utan, hestaferðamennsku og reiðkennslu. Þá er sá þáttur sem tengist minna reiðhestinum, eins og kjötframleiðsla og blóðframleiðsla, einnig þættir sem velta töluverðum fjárhæðum ár hvert. Einnig er þá ótalið afleidd starfsemi, s.s. framleiðsla reiðtygja og annars búnaðar, hestasýningar, íþróttamót og aðrir viðburðir, dýralæknaþjónusta, hestaflutningar og ótal margt fleira.

Í grein í Skrínu, riti um auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísindi, frá árinu

Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Hólum.
Mynd/ Árni Rúnar Hrólfsson

2015, skrifa Ingibjörg Sigurðar- dóttir og Runólfur Smári Steinþórsson um rannsókn sína á þróun hestatengdra klasa á Norðurlandi vestra. Klasafræðin snúast um að greina tengsl og virkni skilgreindra þátta. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um fjölbreytta starfsemi sem tengjast hestum í öllum þáttum virðiskeðjunnar, allt frá frumframleiðslu til sérhæfðrar þjónustu.

„Starfsemin hefur þróast á löngum tíma og fjöldi og fjölbreytileiki hestatengdra fyrirtækja á svæðinu gefur vísbendingu um aukið samspil sem skilar virðisauka og meiri styrk innan greinarinnar sem síðan laðar að sér frekari starfsemi á þessu sviði,“ segir í greininni.

Helstu annmarkar rannsóknarinnar fólust í takmörkuðum upplýsingum um ákveðna þætti hestatengdrar starfsemi og skorti á skilgreiningum. „Víða voru mörk milli áhugamáls og atvinnustarfsemi ekki skýr út á við þó að greinarmunur hafi vissulega verið gerður á þeim sem höfðu kennitölu og virðisaukaskattsnúmer á sinni starfsemi og þeim sem stunduðu hestamennsku fyrst og fremst sem áhugamál. Engin skráning var þó til á hestatengdum fyrirtækjum í heild enda er hestatengd starfsemi oft og tíðum hluti af annars konar landbúnaðarrekstri. Því var erfitt að skilgreina hversu stór hluti starfseminnar var hestatengdur eða hver væri fjöldi fyrirtækjanna og eðli þeirra. Sem dæmi um þennan skilgreiningarvanda má nefna að opinberlega hefur ekki verið skilgreint hvað hrossaræktandi er.

Velta má fyrir sér hvort undir þá skilgreiningu falli aðeins þeir sem hafa að hluta eða öllu leyti atvinnu af hrossarækt eða hvort og þá hvenær áhugamenn falla einnig undir þessa skilgreiningu. Hrossabóndi getur átt 30 hryssur í stóði sem fyrst og fremst eru nýttar til kjötframleiðslu á sama tíma og áhugamaður á 2–3 sýndar kynbótahryssur sem skila meiri erfðaframför inn í stofninn,“ segir einnig í greininni.

Mikið verk óunnið

Ingibjörg, sem nú starfar sem lektor við Háskólann á Hólum, hóf vegferð sína í rannsóknum á hestatengdri starfsemi fyrir um tveimur áratugum. Meðal annars hefur hún framkvæmt rannsókn á eðli og umfangi hestamennskunnar sem atvinnugreinar og afmarkaði rannsóknarsvæðið sitt við Norðurland vestra. Ingibjörg segir að þegar skortur á gögnum blasti við hefði hún þurft að taka nokkur skref til baka og breyta upphaflegu uppleggi rannsóknarinnar.

Þannig fékk hún ekki aðgengi að neinum tölum né haldbærum upplýsingum sem gátu veitt henni yfirsýn yfir umfang fjölbreyttrar hestatengdrar starfsemi á Norðurlandi vestra, þar sem 32% allra hesta landsins eru staðsettir. Hún fór því í kortlagningu á hvers konar starfsemi tengd hestum væri á svæðinu. Heimildaöflunin var handvirk og byggði á fyrirliggjandi en brotakenndum gögnum sem og tengslum hennar við svæðið. Rætt var við fjölda heimamanna og greinin kortlögð.

Í rannsókninni veltir hún fyrir sér hvort ástæður þess að heildræn stefnumótun hafi ekki verið unnin kunni að liggja í þeirri staðreynd að heildarsamtök fyrir hestamennsku á landinu séu ekki til staðar. Stefnur hafa aðeins verið markaðar fyrir afmarkaða þætti hestamennskunnar, svo sem fyrir kynbótastarf. Aðrir þættir hestamennsku hafi verið flokkaðir sem landbúnaður á meðan hestaíþróttin er viðurkennd íþróttagrein.

Myndin sýnir frumgerð af klasakorti hestatengdrar starfsemi á Norðurlandi vestra úr rannsókn Ingibjargar Sigurðardóttur og Runólfs Smára Steinþórssonar. Fyrir miðju er sú starfsemi sem þau flokka sem kjarnann í hinni hestatengdu starfsemi; ræktun lífhrossa og sláturhrossa. Út frá því skapast svo fjölbreytt hestatengd starfsemi, allt frá afurðavinnslu til sérhæfðrar þjónustu.

Alþjóðlegt vandamál

Veikleikinn er ekki einangraður við hestatengda starfsemi á Íslandi. Ingibjörg segir að í reynd sé þessi skortur á tölfræðiupplýsingum vandamál víða um heim og vísar til nokkurra erlendra rannsókna í þeim efnum.

Rannsóknarniðurstöður um samsetningu og eðli hestamennsku séu samhljóma varðandi ákveðin sérkenni greinarinnar. Fjölbreytileiki er áberandi og vísar Ingibjörg í breska rannsókn þar sem því er haldið fram að hestamennska sé fjölþættari en nokkur önnur grein þar í landi.

„Í Bandaríkjunum hefur verið bent á að hestamennska sé efnahagslega mikilvæg, bæði á landsvísu og fyrir tiltekin svæði, enda feli hún í sér fjölbreytta starfsemi á sviði landbúnaðar, viðskipta, íþrótta og afþreyingar,“ segir í rannsókn Ingibjargar frá 2011.

Einnig er bent á takmarkaðan áhuga á rekstrarþáttum kringum starfsemina. Fyrirtæki í hestamennsku hafi oftar orðið til vegna áhuga stofnenda á hestinum og hestamennsku og leggi því meiri áherslu á þætti sem snerta hestinn sjálfan en peninga og viðskipti.

Í íslenskri rannsókn, sem Ingibjörg vísar í, kemur fram að rekstraraðilar í hestaferðaþjónustu á Íslandi leggi litla áherslu á rekstrarlega þætti og virðast betur að sér hvað varðar ræktun, tamningar, þjálfun og reiðmennsku en fjárhags- og rekstrarleg málefni. Þetta sé þó breytilegt milli rekstraraðila.

Skilgreiningarvandinn

Einn stór þáttur vandamálsins liggur í loðnum skilgreiningum. Sumir eru ræktendur með enga atvinnustarfsemi, meðan aðrir eru rekstraraðilar. Hvenær ertu hrossaræktandi? Áhugamenn mega jú rækta folöld – en geta jafnvel, undir einhverjum kringumstæðum, sett sig í þá stöðu að vera í samkeppni við atvinnurekstur.

Staðreyndin er sú að innlend hrossasala á ekki í djúpstæðu sambandi við skattayfirvöld. Framan af var frekar undantekning en regla að gefa upp hrossakaup. Boðið var á borðið. Gerð voru hrossaskipti. Í dag er þó kominn faglegri bragur á alla starfsemi þó kúrekar finnist enn.

Af þessu leiðir að engar áreiðanlegar tölur er að finna um umfang innanlandssölu hrossa. Markaðurinn gæti verið stór, hann gæti verið lítill.

Viðmælendur Bændablaðsins voru á einu máli um að margt hafi áunnist á tuttugu árum. Ekki sé langt síðan rassvasabókhald hafi verið regla frekar en undantekning og ekkert til sem kalla mætti rekstur.

Í dag sé greiðslumórallinn allt annar, fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafi allt upp á borðum, styðjast við rafrænt bókhald og viðskiptavinum þyki flestum eðlilegt að borga fyrir bæði þjónustu og vöru. Virðisaukaskatturinn sé hins vegar sá þáttur sem enn stríðir gegn gegnsæi og heildaryfirsýn bókhaldsins.

Vaskurinn

Flestir þeir sem kaupa hross og þjónustu kringum þau stunda hestamennsku í frítíma. Þetta eru einstaklingar sem eru að borga fyrir sína frístund með sínum launum, bæði hérlendis og erlendis. Fæstir eru í rekstri.

Fyrir þetta fólk munar miklu á virðisaukaskatti, hvort um sé að ræða 1 milljón eða 1.250 þúsund krónur fyrir hest, 100.000 eða 125.000 krónur fyrir tamningu, folatoll eða aðra þjónustu, tíu eða tólf þúsund fyrir kennslu eða járningu og svo framvegis. Því þykir það ekki óeðlilegt að athuga hvort ekki sé hægt að greiða fyrir vöru eða þjónustu án þess að gefa hana upp til skatts. Þrýstingurinn, að sögn viðmælenda Bændablaðsins, liggur fyrst og fremst hjá kaupendum, ekki seljendum eða þjónustuaðilum.

Þannig grunar marga af viðmælendum Bændablaðsins að lægri virðisaukaprósenta gæti dregið úr hvatanum til að vanskrá viðskipti.

Frá verðlaunaafhendingu kynbótahryssa á Landsmóti 2016. Margt hefur áunnist í rekstri og rekstrarskilyrðum hestamennskunnar á tuttugu árum. Fagmenn og fyrirtæki styðjast allra jafna við rafrænt bókhald og greiðslumórall viðskiptavina hefur breyst töluvert. Virðisaukaskatturinn er hins vegar sá þáttur sem enn stríðir gegn gegnsæi og heildaryfirsýn bókhaldsins. Mynd / ghp

Hvaða tölur eru til?

Ef tilteknar eru tölur sem hægt er að sækja fyrir árið 2021 kemur eftirfarandi í ljós:

Ísteka flutti út fullunnið efni úr blóði mera fyrir um 1,9 milljarða króna í fyrra. Framleiðsla á hrossakjöti voru rúm 830.000 tonn og voru heildarverðmæti fyrir það rúm 206 milljónir, þar af 132 milljónir í útflutning. Það gera tveggja milljarða króna útflutningstekjur vegna afurða hrossa, sem ekki eru nýtt sem reiðhross.

Samkvæmt WorldFeng, uppruna­ættbók íslenska hestsins, skiptu 7.396 hross um eigendur árið 2021, þar sem fyrri eigandi er staðsettur á Íslandi.
Metár var í útflutningi hrossa árið 2021 en 3.341 hross fór utan samkvæmt tölum WorldFengs. Þar af voru 1.395 þeirra með undir 100 í kynbótamati (BLUP).

Eins og fram hefur komið eru engar haldbærar upplýsingar til um veltu vegna hrossasölu innanlands, en hægt er að gera ráð fyrir að fjöldi sala innanlands sé töluverð miðað við fjölda eigendaskipta.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru tekjur vegna útflutnings 3.256 hrossa rúm 2,25 milljarðar króna. Þegar tekjum er deilt niður á fjölda útfluttra hrossa blasir við að meðaltal á uppgefnu söluverði er um 690.000 krónur.

Vanstilltar útflutningstekjur

Eftir því sem Bændablaðið kemst næst þykir krónutalan 690.000, sem meðalverð á útfluttu hrossi, ansi langt frá rauntölum. Mörgum gæti þótt þetta óraunhæf tala. Það ber þó að nefna að margt getur skekkt þessa meðaltölu, m.a. að mörg hrossanna eru ekki að skipta um eigendur þótt þau séu á leið úr landi og því sé uppgefið verð við útflutning ekki verðmæti hrossins. Eins er fjöldi ótaminna tryppa einhver. Þá virðist hafa verið töluverður markaður með ódýrari hross ef marka má fjölda útflutningshrossa með lágt kynbótamat.

Engu að síður voru flestir viðmælendur Bændablaðsins á því að tölur Hagstofunnar stæðust ekki skoðun. Margir beinlínis staðhæfðu að vegna þrýstings frá kaupendum, viðtakendum hrossanna erlendis, væri venjan að gefa upp lægra verð á pappírnum en raunverulegt söluverð hafi verið. Það sé gert til að minnka umfang virðisaukaskatts og innflutningsgjalda þegar hrossið lendir á nýjum heimahögum.

Í Sviss er virðisaukaskattur í lægri kantinum. Þegar eingöngu er litið á meðalverð uppgefinna útfluttra hesta þangað hjá Hagstofunni kemur í ljós að meðalsöluverð er um 1.220 þúsund krónur.

Á meðan er meðalverð hrossa sem fara til Þýskalands, sem hækkuðu virðisaukaskatt sinn úr 6% í 19% fyrir fáeinum árum, 590.000 krónur. Í Svíþjóð er virðisaukinn svipaður og hér heima, þar er uppgefið meðalsöluverð 690.000 kr.

Áhrif undanskota eru þau að vægi atvinnugreinarinnar minnkar. Fyrrnefndar tölur sýna að útflutningstekjur vegna sölu íslenskra reiðhrossa eru á pari við útflutningstekjur annarra útflutningsafurða hrossa, þ.e. þegar tekin eru saman verðmæti hins umdeilda PMSG og kjöts.

Beinharðar röksemdir mikilvægar

Ingibjörg Sigurðardóttir segir skort á yfirsýn yfir hestatengda starfsemi hafa mikil og alvarleg áhrif á greinina í heild.

„Til þess að fá vægi þarf að gefa upp og sýna fram á umfang starfseminnar. Það er einn helsti Akkilesarhæll geirans að hlutirnir eru ekki gefnir upp. Allt sem viðkemur að sækja um einhvers konar fjármagn eða stuðning byggir á að hafa sannfærandi rök fyrir því. Það er mikilvægt að geta sýnt fram á t.d. tekjur, veltu og umfang, hvort sem menn eru að tala við stjórnvöld eða samstarfsaðila erlendis. Í hestatengdri starfsemi vantar þessa röksemd,“ segir hún.

Einnig skortir að hægt sé að aðgreina hestatengda starfsemi frá öðrum rekstri í tölulegum upplýsingum.

Þegar stórt er spurt

Viðmælendur voru spurðir um lausn á þessum rótgróna veikleika í atvinnugreinum tengdum íslenskri hestamennsku. Flestallir hömruðu á þætti virðisaukaskattsins. Ef hann yrði lækkaður myndu raunhæfari tölur sigla upp á yfirborðið atvinnugreininni í heild til bóta.

Mikið verk er enn óunnið við kortlagningu og rannsóknir á umfangi og eðli hestamennsku á landsvísu og Ingibjörg telur að ráðast þurfi í gagngera þverfaglega heildarkortlagningu á atvinnugreininni, til að finna út raunverulegt umfang og veltu allrar starfsemi sem tengist íslenska hestinum.

Skylt efni: hestamennska

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...